föstudagur, desember 29, 2006

Svona liðu jólin.....

Aðfangadagur rann upp ljúfur og góður líkt og áður. Ég svaf svona næstum til hádegis enda var Sveinka á ferð þegar langt var liðið nætur eftir erilsaman en skemmtilegan Þorláksmessudag.

Við hjónin, ásamt yngri dætrum okkar, snæddum saman okkar mjög svo hefðbundna hádegisverð þessa dags, reyktur og grafinn lax, nýbökuð smábrauð, egg, síld og mandarínur. Í pottinum kraumaði reykt nautatunga sem Erling keypti og þetta var allt svo notalegt og ljúft, alveg samkvæmt vananum.

Dagurinn leið svo yfir eldamennsku og undirbúning áður en hátíðin sjálf gekk í garð. Kvöldið var skemmtilegt og við nutum þess öll í botn. Eygló og Bjössi komu til okkar og eyddu kvöldinu með okkur. Allir fengu flottar gjafir og það var þreytt en ánægt fólk sem gekk til hvílu að kvöldi aðfangadags, reyndar var komið fram á jólanótt.

Á jóladag fórum við til messu í Selfosskirkju og síðan komu þau öll til okkar, Íris og Karlott með litlu gullin sín og einnig Eygló og Bjössi. Arna var hjá okkur yfir jólin en litlu krúttin hennar eyddu jólunum með pabba sínum og foreldrum hans í sveitinni fyrir norðan.

Á annan í jólum var svo afmælisboð heima hjá Tedda og það hefur alltaf verið eins og jólaboð, Kata mágkona mín töfrar alltaf fram frábærar veitingar og það var ljúft að spjalla við vini sína og vandamenn. Kvöldinu eyddum við svo hér í góðu yfirlæti í “Húsinu við ána”.

Við Erling erum búin að vera í fríi milli jóla og nýárs en Arna og Hrund fóru í bæinn því þær eru að vinna en svo koma þær heim á laugardagskvöld og þá verða með í för litlu stelpurnar hennar Örnu og við ætlum að hafa smá litlu jólin á gamlárskvöld fyrir þær mæðgur og þá fær Arna allavega að fylgjast með þeim taka upp nokkra pakka. Mikið hlakka ég til þess.

Í fyrrakvöld kláruðum við jólakveðjuna frá okkur þetta árið og svo vöktum við fram á nótt meðan við vorum að prenta hana út og kveðjan fór í póst í gær. Okkur fannst mjög gaman að þessu enda hefur árið verið okkur svo viðburðarríkt og gott að full ástæða var til að sleppa hefðbundnum jólakortum og segja ykkur svolítið meira frá árinu en rúmast fyrir á litlu korti.

Í gær fórum við austur í Fljótshlíð, kíktum á fjallakofann okkar á Föðurlandi og þar var allt í stakasta lagi, alltaf jafn notalegt að koma þangað, setjast í sófann umvafinn teppi meðan gasofninn hitar upp fyrir okkur og fylgjast með kertalogunum leika listir sínar á veggjunum. Frábært athvarf. Við heimsóttum síðan vini okkar sem þar búa, gott að eiga góða vini. Á heimleiðinni, klukkan að ganga ellefu, segi ég við Erling að mig langi nú bara í steik en því miður var búið að loka búðum. Við komum hingað á herragarðinn rétt fyrir ellefu og Erling fer eitthvað að vesenast. Og viti menn, þremur korterum seinna er mér boðið til málsverðar, tveggja manna miðnæturpartí. Grillaður humar, lambalundir ásamt meðlæti. Hann Erling minn er alveg meiriháttar og svona stundir sem við eigum saman hjónin skreyta lífið miklu meira en hægt er að segja frá í nokkrum orðum.

Hafið það um áramótin og farið varlega með flugeldana,
þangað til næst.....

sunnudagur, desember 24, 2006

Aðfangadagur jóla er einmitt í dag.......

Það er allt að verða hljótt hér í Húsinu við ána. Klukkan er farin að ganga tvö eftir miðnætti, Þorláksmessa að baki og framundan er aðfangadagur jóla.

Ég breytti útaf vananum og fór úr húsi í dag en það hef ég ekki gert á Þorláksmessu í mörg ár. Hef verið í fríi þennan dag eins lengi og ég man eftir og verið búin að kaupa allt inn og bara notið þess að vera heima og undirbúa heimilið undir hátíðina.

Við Erling fórum sem sagt í bæjarferð í dag, hann fór að hitta Hlyn bróður sinn yfir kæstri skötu og ég fór og keypti síðustu jólagjöfina. Við hjónakornin hittumst svo þegar þessu var lokið og buðum okkur í kaffi til mömmu og pabba áður en við keyrðum yfir heiðina á leið heim á herragarðinn okkar. Alltaf jafngott að koma við hjá þeim og þau voru hress eins og vanalega.

Vinir okkar Gylfi og Christina komu svo við áðan og við áttum notalegt samfélag með þeim yfir rjúkandi súkkulaði með þeyttum rjóma ásamt ýmsu öðru meðlæti sem tilheyrir þessum árstíma.
Við Christina ákváðum að gera þetta að hefð.

Um tíuleytið komu síðan Hrund og Arna heim, örþreyttar eftir daginn en við skreyttum samt jólatréð áðan og borðstofuborðið en mér finnst það algerlega nauðsynlegt að það sé tilbúið þegar ég kem niður að morgni aðfangadags og þótt heimilisfólkið hér væri þreytt þá var það samt látið eftir mér.

Erling er búinn að skreyta stóra jólatréð hér fyrir utan og setti í það um 700 perur svo það er mjög flott.

Við erum sem sagt tilbúin í jólin, á morgun verður bara notalegur dagur, mikil afslöppun og eina sem þarf að huga að er matseldin og Erling sér um það og ég held honum bara félagsskap á meðan og færi honum kaffi annað slagið. Eygló og Bjössi koma svo seinnipartinn og halda jólin með okkur og ég er mjög ánægð með það. Helst vildi ég hafa allar stelpurnar mínar og þeirra fólk en ég skil líka vel þegar þær vilja fara að halda sín eigin jól og skapa sínar hefðir fyrir sig og börnin sín. Mér finnst reyndar mjög gaman að sjá hversu mikið af okkar hefðum halda áfram hjá þeim og nefni ég þar t.d. hinn sérstaka hrísgrjónagraut sem hún tengdamóðir mín gerði alltaf og við höfum hann alltaf og nú er Íris farin að gera hann líka og þannig helst þetta kynslóð eftir kynslóð. Bara gaman.

Jæja, hér á þessum bæ er Sveinki enn á kreiki á nóttunni fyrir jólin, þótt hér búi bara fullorðin börn, það væri samt kannski réttara að tala um Sveinku í okkar tilfelli og ég held að það sé best að fara að athuga með hana.

Jólakveðjan okkar fer í póst milli jóla og nýárs en ég vil óska lesendum mínum gleðilegra jóla og bið þess að friður Guðs og gleði umvefji ykkur ríkulega þessa jólahátið.

sunnudagur, desember 17, 2006

Hvað langar þig að fá í jólagjöf?

Ég kom við í foreldrahúsum einn daginn í liðinni viku. Það er alltaf jafn notalegt að kíkja við hjá mömmu og pabba eftir vinnu, fá sér kaffisopa í góðum félagsskap og heyra fréttir af fjölskyldunni og segja frá því sem á daga manns hefur drifið síðan síðast.
Auðvitað voru jólin rædd og allt tilstandið í kringum þau og misjafnt hversu langt hver og einn var kominn við undirbúning þessarar hátíðar okkar, hátíð ljóss og friðar.

“Hvað viltu svo fá í jólagjöf” spurði ég mömmu og hafa eflaust mjög margir fengið þessa spurningu sl vikur. “Mig skortir ekkert, á allt sem mig langar í og þarfnast” sagði þessi flotta mamma mín. “En mig langar í geit í jólagjöf” sagði hún svo. Einhverra hluta vegna þurfti þessi ósk hennar nánari útskýringar við. Jú það er nefnilega þannig að það er hægt að kaupa geitur og gefa fjölskyldum sem búa í svokölluðum þróunarlöndum og sú gjöf getur algerlega skipt sköpum fyrir viðkomandi fjölskyldu. Geitin framfleytir fjölskyldunni. Svo er líka hægt að kaupa vatnsbrunna og eins og þeir segja hjá Hjálparstofnun kirkjunnar þá gefur vatnið von.

Við Íslendingar, sem búum við allsnægtir, eigum erfitt með að setja okkur í þær kringumstæður þar sem geit og vatn getur skipt fólk ÖLLU máli. Við fáum vatnið, hreint og tært, beint úr krananum og kaupum mjólk, kjöt og aðrar nýlenduvörur bara í Bónus.
Einfalt, ekki satt, hvernig getur geit skipt svo miklu máli eða vatnsbrunnur?

Ég hef hugsað um þessi orð móður minnar, ég er líka í þeirra aðstöðu að eiga allt sem mig langar í, skortir ekki neitt og það sama gildir um flesta sem ég þekki og samt erum við að reyna að finna upp eitthvað sniðugt til að gefa hvert öðru í jólagjöf, já ég sagði, við reynum að finna eitthvað....

Hvað langar þig lesandi góður að fá í jólagjöf þetta árið?

mánudagur, desember 11, 2006

Strákur eða stelpa?????

Hvað það verður veit nú enginn en ólíkt því sem er í jólalaginu fræga þá er ekki mikill vandi að spá fyrir um þetta þar sem hingað til hafa einungis komið litlar prinsessur í heiminn í fjölskyldunni okkar Erlings og bara gaman að þeim litlu yndigullum.
Petra Rut og Katrín Tara eru að verða stóru systur og það verður rétt eftir miðjan maí sem það kemur í ljós hvort tíundi afkomandi okkar verður karlkyns eða kvenkyns. Elsku Íris og Karlott, innilega til hamingju og ég bið Guð að allt gangi vel á meðgöngunni.

Annars er allt gott af okkur að frétta, jólin eru alveg að koma og ég hlakka ekkert smá til, það verður gaman að halda jólin í fyrsta sinn í “Húsinu við ána”. Erling er að leggja lokahönd á það sem verður klárað af eldhúsinnréttingunni fyrir jólin og þá get ég farið að hengja upp jólagardínur og setja jólaljós út í glugga. Það verður síðan verkefni nýs árs að ljúka við það sem ekki hafðist að klára fyrir jólin. Mér finnst það ekkert mál og mun halda frábær og gleðileg jól þótt ekki sé allt tilbúið.

Við komum heim frá Köben í gærkvöldi eftir frábæra ferð. Eins og ykkur lesendum mínum er kunnugt þá var þetta vinnustaðaferð með vinnunni minni og svo bauð Örn, eigandi stofunnar, okkur á Reef and Beef veitingastaðinn sem ég sagði ykkur frá um daginn og maturinn var algerlega ómótstæðilegur. Ég fékk mér strútakjöt og það var mjög sérstakt og mjög gott. Erling fékk nautakjöt sem var framleitt í Ástralíu eftir sömu aðferð og japanska nautakjötið sem hefur verið talað um og fær svo sérstaka meðferð, t.d nudd einu sinni á dag svo kjötið verði mýkra. Það eru aðeins fjórir búgarðar í allri Ástralíu sem hafa fengið leyfi til að nota þessa aðferð og þetta kjöt kom frá einum þeirra. Það er ekki nokkur leið að lýsa bragðinu með orðum en kannski orð eins og meiriháttar, besta sem ég hef smakkað eða eitthvað í þá áttina segi kannski smá. Vinnufélagar mínir fengu sér ýmist krókódíl, kengúru, strút eða nautakjöt en þau voru í skýjunum yfir matnum eins og við.

Við fórum í búðir, settumst á bekk á Ráðhústorginu og skoðuðum mannlífið, fórum tvisvar á Baresso kaffihúsið sem er komið í uppáhald hjá okkur, sváfum út, borðuðum mikið af góðum mat, fórum í jólatívolíð og skemmtum okkur frábærlega vel. Í gær enduðum svo ferðina á að fara í gönguferð um slóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn undir öruggri leiðsögn Guðlaugs Arasonar, mæli með gönguferðunum hans ef þið eruð í kóngsins Köben á þeim tíma sem hann er með þær.

Jæja vinir, nú ætla ég inn í stofu og fá mér kaffi og konfekt með Erling. Hér með tek ég undir með konunni sem skrifaði í nýjustu Vikuna, “Til hvers að stressa sig við það á aðventunni að komast í kjólinn fyrir jólin. Þeir sem umgangast mann á jólunum hafa hvort sem er séð mann eins og maður er núna og elska mann hvort sem aukakílóin eru eða ekki.” Höfum það kósí með kertaljós, rauðvín og osta, eða kaffi og konfekt og njótum þess að vera til. Og eins og Ella systir segir í blogginu sínu “Borðum jólasmákökurnar núna því við höfum hvort sem er ekki lyst á þeim yfir sjálf jólin” Það má svo bara snúa sér að grænmetinu á nýja árinu.

Þangað til næst............

sunnudagur, desember 03, 2006

Katrín Tara afmælisbarn


Hún er mjög fjörug og skemmtileg, uppátektarsöm með afbrigðum og lætur hafa fyrir sér, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína, algerlega ómótstæðileg lítil dama sem á afmæli í dag.

Já það eru tvö ár síðan hún leit dagsins ljós, snemma morgun 3.desember fengum við Erling símhringingu sem við vorum búin að bíða eftir, Íris var í símanum og sagði okkur að þau Karlott væru búin að eignast dóttur og hún héti Katrín Tara. Petra Rut hafði gist hjá okkur um nóttina og þegar hún fékk fréttirnar þá sagði hún bara, nú á ég líka litla systur eins og Danía Rut.

Á föstudaginn var þá fékk ég að sækja þær systur á leikskólann og taka þátt í foreldrakaffi þar sem Íris og Karlott voru upptekin í vinnu og prófi. Fyrst fór ég til Petru Rutar og drakk með henni og hún sýndi mér myndir og fleira. Svo fórum við saman á deildina hennar Katrínar Töru og það var svo gaman þegar hún sá mig. Hún hentist niður af stólnum, hljóp í fangið á mér en vildi svo fara strax aftur. Þá rauk hún að hjólaborði sem á var kakó og fullt af bollum, tók eitt óhreint glas, enda hvað skiptir það máli, rétti mér og benti á kakókönnuna. Ég átti sem sagt að drekka með henni, ég reyndar skipti um glas svo lítið bar á og við Petra Rut fengum okkur aftur kakó.
Þetta var svo gaman..........mikil forréttindi að eiga þessar litlu skottur.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systir þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og hlakka til að koma í afmælisveisluna þína.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Ja hérna hér.......

.......ég held að það hafi ekki áður liðið svona langt á milli bloggfærslna hjá mér. Allt hefur þó sínar skýringar og mín er sú að það ótrúlega ástand hefur verið hér á heimilinu að tvær af þremur tölvum eru ekki að virka og þessi eina sem er Hrundar tölva er frekar ásetin af lærdómsþyrstum menntskælingum sem hér búa.

Nú erum við hins vegar bara tvö heima hjónakornin, þær frænkur voru að leggja af stað til Reykjavíkur að hitta vini sína og því um að gera að nota tækifærið og pikka aðeins enda hef ég, eins og stjórnmálamennirnir, fengið fjölda áskorana um að láta nú í mér heyra :o)

Dagurinn er búinn að vera skemmtilegur eins og laugardagar eru yfirleitt. Húsið er undirlagt af pappakössum sem innihalda nýju eldhúsinnréttinguna okkar og Erling er byrjaður að setja hana saman. Undanfarna daga hefur hann verið að rifa niður loftklæðninguna í eldhúsinu og setja ný ljós í loftið ásamt því að taka niður þessa gömlu, litlu innréttingu sem var hér þegar við keyptum húsið. Þetta er allt mjög spennandi og ég hlakka mikið til þegar eldhúsið okkar verður tilbúið.

Við erum búin að hafa skemmtilega gesti i heimsókn seinni partinn, Karlott kom með litlu skvísunar sínar og eins komu Teddi, Kata og börnin. Það er alltaf gaman að hittast, gott að tilheyra fjölskyldu sem droppar inn og tekur sig ekki of hátíðlega. Það var mikið hlegið hér að alls konar bröndurum og sönnum frásögum af ýmsum uppákomum. Við drukkum líka mikið kaffi enda sérlega gott með kaffifroðu og súkkulaðispæni.

Aðventan er byrjuð hjá mér enda ekki seinna vænnna, tíminn líður svo hratt og jólin verða komin áður en við vitum af. Erling er búinn að fara og sækja nýju kaffivélina okkar og það er ekkert smá frábært að setjast inn í stofu og drekka nýlagað kaffi og fá sér heimabúið jólakonfekt með. Okkur finnst miklu betra að njóta þess núna að fá okkur mola því á jólunum höfum við hjónin ekki mikinn áhuga á súkkulaði, viljum frekar brauð og lax eða bara kjöt. Erling fór með hluta af veiðifeng sumarsins í reyk og við munum njóta þess um jólin.

Ég nú búin að keyra á milli Reykjavíkur og Selfoss daglega í marga mánuði og finnst það ekkert mál. Mér finnst verst ef það er mikil hálka en þá er um að gera að fara bara nógu rólega yfir, sérstaklega niður Kambana. Við á þessum bæ höfum eina setningu í hávegum þegar kemur að ferðalögum hér á milli, “Það er betra að halda lífi en áætlun”.

Það er útlit fyrir skemmtilegu kvöldi sem við Erling ætlum að eiga saman, njótið lífsins vinir og ekki láta neitt stress ná tökum á ykkur, það er ekkert þess virði..........

þriðjudagur, október 31, 2006

Kaupmannahöfn........


Það er eitthvað við þá borg sem heillar okkur hjónin algerlega. Tilhugsunin um eina helgi þar framkallar mikla tilhlökkun og eins og vanalega þá stóð borgin alveg undir væntingum okkar um skemmtilega daga.

Við lentum þar rétt eftir hádegi á föstudegi eftir frekar klaufalegt aðflug hjá blessuðum flugstjóranum en það var samt mjög gaman að við flugum meðfram stóru brúnni yfir til Svíþjóðar og það er nú meira mannvirkið. Kaupmannahöfn tók á móti okkur með góðu veðri og eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu okkar þá fórum við aðeins út í göngutúr, röltum í matarbúðina og keyptum okkur að borða og fórum svo aftur heim og spjölluðum um heima og geima eins og okkur einum er lagið.

Við eyddum síðan helginni í góðu yfirlæti, fórum út að borða, á kaffihús, löbbuðum mikið, skoðuðum sívala turninn og fylgdumst með mannlífinu á Strikinu og við Nýhöfnina.

Ég verð samt að segja ykkur frá því að við fórum á ástralskan veitingastað á laugardagskvöldinu og Erling pantaði sér krókódílakjöt og ég pantaði mér kengúrukjöt. Þvílík upplifun, þvílíkt lostæti. Ég hef sjaldan fengið jafn góðan mat og þarna enda er þetta vinsæll staður og þarna þarf að panta borð. Ef þið lesendur mínir eigið leið til Köben og þorið að prófa nýja hluti þá hvet ég ykkur til að fara þangað, staðurinn heitir Reef and beef og er rétt hjá Ráðhústorginu
http://www.reefnbeef.dk/

Við flugum síðan heim til Íslands á sunnudagskvöldinu og vorum sammála um að þetta var ekki of stutt ferð bara mjög skemmtileg. Það var samt skrýtið að vita að við förum þangað aftur eftir bara 5 vikur með vinnunni minni. Eins og ég hef áður sagt þá skilja svona ferðir skemmtilegar minningar eftir í minningabankanum og lífið er svo stutt og um að gera að njóta þess meðan við eigum það.

Það eru samt ekki bara utanlandsferðir sem skapa skemmtilegar minningar, það er mjög gaman í góðu veðri að labba um miðbæ Reykjavíkur, labba sér inn á veitingastað, fá sér að borða, virða fyrir sér mannlífið þar og sjá að flóran er svo margbreytileg hvort sem við erum á Selfossi, Reykjavík eða í kóngsins Köben.

Jólin eru skammt undan......mikið hlakka ég til aðventunnar........ég ætla rétt bráðum að fara að setja jólalög undir geislann........þangað til næst

sunnudagur, október 22, 2006

Lífið og tilveran.....

Það var seinni part dags fyrir um það bil 10 dögum síðan að síminn minn hringdi á skrifstofunni. Erling var á línunni og var bara hress eins og vanalega. ”Erla”, sagði hann, ”er ekki eitthvað af ferðapunktunum okkar að renna út um áramótin?” Ég svaraði því játandi og svona rétt í leiðinni :o) nefndi ég við hann að það hefði verið auglýst puntkatilboð til nokkurra borga og þar á meðal var uppáhalds erlenda borgin okkar, Kaupmannahöfn. Jú hann vissi það og spurði mig hvernig mér litist á að halda uppá afmælið hans þar um næstu helgi. Það þurfti nú ekki að dekstra mig til þess enda er ég forfallinn áhugamaður um ferðalög. ”Heyrðu elskan” sagði þessi flotti maður minn við mig, ”nennirðu ekki að sjá um að panta þetta fyrir okkur?”
Auðvitað var ég til í það og við förum eldsnemma næsta föstudagsmorgun og komum aftur heim á sunnudagskvöld. Það eru m.a. svona hlutir sem skreyta lífið svo fagurlega og svona ferðir skapa svo skemmtilegar minningar. Ráðhústorgið, Strikið, Nýhöfn, mannlífið, mikið hlakka ég til það verð ég að segja.

Helgin er búin að vera góð og notaleg. Ég og Erling vorum svo dugleg að taka gestaherbergið í gegn og koma því í notalegt horf ásamt því að flytja skrifstofuna á sinn stað í húsinu. Við erum að láta teikna eldhúsinnréttinguna fyrir okkur og vorum að velja okkur tæki í nýja eldhúsið sem verður sett upp núna á næstu vikum hér í Húsinu við ána.
Erling lætur allt eftir mér sem ég bið hann um og ég fæ meira að segja amerískan ísskáp með klakavél og öllu tilheyrandi og svo pöntuðum við líka þessa fínu kaffivél sem malar baunirnar jafnóðum og ég veit að tengdasynir mínir eru mjög ánægðir með það.

Erling og Hlynur fóru í sína árlegu veiðiferð saman núna fyrir helgina og á fimmtudagskvöldið buðu dætur mínar mér í partí heima hjá Írisi og við áttum saman mjög skemmtilegt kvöld. Við Hrund vissum að við yrðum þar fram á nótt og fengum því að gista heima hjá Eygló og Bjössa sem eru enn í brúðkaupsferðinni sinni, enda enginn Erling heima hvort sem var. Ég er svo þakklát að eiga vináttu dætra minna, það er minn fjársjóður og forréttindi. Þær eru allar alveg meiriháttar, ólíkar hver á sinn hátt en einstaklega vel gerðar hver og ein.

Jæja vinir, læt ég nú staðar numið að sinni, ætla fram í stofu og fá mér kaffisopa með Erling áður en við förum að sofa. Vona að vikan framundan verði okkur öllum góð. Þangað til næst.........

þriðjudagur, október 17, 2006

Hún á afmæli í dag.....


Þótt ótrúlegt sé þá er ár eitt ár liðið síðan hún fæddist og hugur minn fer á flug aftur í tímann.

Það var frekar svefnlaus nótt, aðfararnótt 17. október. Nokkrum sinnum um nóttina vaknaði lítil stúlka og umlaði, vantaði snuðið sitt. Hún sofnaði um leið og það var komið á sinn stað. Þess á milli vaknaði ég við sms frá Örnunni minni sem var á fæðingardeildinni að eiga sitt þriðja barn. Það var ástæða þess að ég svaf ekki heima hjá mér heldur var ég hjá tveimur af ömmustelpunum mínum og það var Sara Ísold sem vaknaði af og til en Danía Rut er orðin svo stór að hún steinsvaf alla nóttina. Það var svo um hálf sex leytið að langþráða símtalið kom, lítil prinsessa hafði litið dagsins ljós rúmlega fimm um morguninn. Hún var algert grjón 12 merkur og 48 cm með mikið og dökkt hár eins og systur hennar voru. Þessi litla prinsessa er níunda stúlkan okkar Erlings í röð, við eigum 4 dætur og 5 dótturdætur og geri aðrir betur.

Já, hún Þórey Erla er orðin eins árs og í fyrradag héldum við upp á afmælið hennar hér í Húsinu við ána. Hér var margt um manninn og mikið fjör eins og vera ber í barnaafmæli og bara gaman að rifja upp gamlar endurminningar með því að hafa aftur barnaafmæli í húsinu.

Þórey Erla er hvers manns hugljúfi, einstaklega broshýr og geðgóð. Eldri systur hennar elska hana og eru mjög góðar við hana. Hún bræðir mann algerlega með brosinu sínu og svo skríkir hún og hlær þegar leikið er við hana. Hún er sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra.

Elsku litla yndigull, ég óska þér til hamingju með daginn og bið Guð að vaka yfir lífi þínu og blessa þig um ókomin ár.

Ps. ef ykkur langar að vita eitthvað meira um brúðkaup Eyglóar og Bjössa og leyndarmálið varðandi kjólinn, kíkið þá á síðuna hans Erlings, hann er með pistil um það http://www.erlingm.blogspot.com/

laugardagur, október 07, 2006

Stóri dagurinn

Þá er stóri dagurinn þeirra Eyglóar og Bjössa runninn upp bjartur og fagur. Veðrið er gott enda er mamma búin að biðja fyrir góðu veðri þennan dag í marga mánuði.

Undirbúningsvinnnan er búin og allt hefur gengið samkvæmt áætlun. Ég fór í gær og kíkti á veislusalinn þar sem verið var að leggja á borð en síðan mun hún Christina vinkona mín sjá um skreytingar og hún hefur harðbannað mér að stelast til að kíkja í dag og sjá afraksturinn, þetta á að koma okkur á óvart. Ég hins vegar treysti henni alveg enda er hún líka búin að setjast niður með brúðhjónunum tilvonandi og skrifa niður þeirra óskir og langanir.

Það er frábært að tilheyra samheldinni fjölskyldu þar sem allir eru boðnir og búnir að aðstoða okkur. Mamma mín er búin að standa í ströngu við að baka brúðartertuna og Hildur mágkona bakaði kransakökurnar, Sirrý systir gerði helling af fallegum leirskálum sem á að nota undir konfekt, Ella Gitta gerði.......leyndarmál.... fram yfir brúðkaupið en hún er alger snillingur í því sem hún gerði. Systur brúðarinnar hafa lagt sitt af mörkum og það er líka leyndarmál fram yfir brúðkaupið en það má samt segja frá því að Íris bjó til flott blað um þau og það verður í veislunni.

Í þessum skrifuðu orðum eru mamma, Dúdda og Sissa frænkur mínar að skreyta brúðartertuna og Christina er að skreyta salinn og kirkjuna. Ástarþakkir til ykkar allra fyrir alla hjálpina og ekki síst fyrir að vera vinkonur mínar. Ég met mikils að þið gefið af tíma ykkar fyrir mig.

Brúðurin tilvonandi gisti í föðurhúsum í nótt og í gærkvöldi eftir æfingu í kirkjunni kom fjölskyldan hans Bjössa hingað til okkar í kaffi og það var mjög notalegt og gaman að kynnast þeim. Seinna um kvöldið þá vorum við Erling hér með dæturnar fjórar og litlu brúðarmeyjarnar, Petru Rut og Daníu Rut. Það var hlegið og spjallað og rifjaðir upp gamlir tímar á þessum tímamótum Eyglóar.

Rétt bráðum mun fallega stofan okkar Erlings breytast í snyrti- og hárgreiðslustofu því Rakel, systurdóttir Erlings, og Ólafía, vinkona Írisar, eru væntanlegar til að dekra við brúðina og okkur hinar skvísurnar og gera okkur fínar. Erling er búinn að fara í bakaríið og kaupa brauð og sætindi handa okkur öllum og ég veit að þetta verður skemmtilegur og frábær dagur og ég ætla að njóta hans í botn enda nýt ég þeirra forréttinda að vera móðir brúðarinnar.

Og já kjóllinn.......hann er glæsilegur.......en hann er samt ennþá leyndarmál.

Þangað til næst kæru vinir, ég ætla að fara og kíkja á hana dóttur mína sem eftir nokkar klukkutíma fær titilinn ”Frú Eygló”

þriðjudagur, september 26, 2006

Daglegt líf




Ég get hreinlega gleymt mér við útsýnið sem blasir við úr eldhúsgluggunum í Húsinu við ána þegar ég kem niður á morgnana. Sólarupprásin er svo stórkostleg og Hekla, hinum megin við Ölfusána, böðuð rauðum bjarma sólarinnar, er svo tignarleg og falleg.

Lífið er komið í fastar skorður eftir sumarfrí og búið er að finna út hvenær þarf að leggja af stað til Reykjavíkur svo Hrund nái strætó úr Mjóddinni í tæka tíð svo hún komi á réttum tíma í skólann. Við mæðgur ökum sem sagt samferða til höfuðborgarinnar á morgnana og svo heim aftur seinni partinn. Við notum tímann til að spjalla saman um allt mögulegt en stundum á morgnana sefur daman við hliðina á mér og ég hlusta bara á góða tónlist.

Það er ekki hægt að segja að nein lognmolla einkenni líf mitt þessa dagana, hvorki í vinnunni eða heima fyrir. Skattskil lögaðila ásamt uppgjöri virðisaukaskatts gerir það að verkum að mikið er að gera í vinnunni en við fengum reyndar fyrirheit frá eigenda stofunnar um Danmerkurferð í desember ef við myndum ljúka við ákveðin verkefni fyrir ákveðinn tíma og það tókst. Við förum, vinnufélagar og makar, að morgni 7. desember og komum heim að kvöldi 10. desember. Mikið hlakka ég nú til, Kaupmannahöfn í jólabúningi klikkar ekki.

Síðan er það auðvitað í fyrsta sæti brúðkaup Eyglóar og Bjössa sem er framundan. Þau ætla að gifta sig í Selfosskirkju 7. október. Undirbúningur hefur gengið vel og verið er að leggja lokahönd á það sem þarf að gera. Það er auðvitað í mörg horn að líta en þetta hefur verið skemmtilegur tími og ég efa ekki að þau hjónaleysin verða stórglæsileg á þessum merkisdegi. Kjóllinn er meiriháttar, hann er........leyndarmál................en hún verður falleg brúður hún dóttir mín..........

Við Erling höfum, síðustu tvær helgar, verið í húsinu okkar á Föðurlandi og það er svo notalegt að eiga svona athvarf þarna í sveitinni sem okkur þykir svo vænt um.
Húsið er tilbúið fyrir utan að það vantar rafmagn sem við erum nánast ákveðin í að taka inn fyrir veturinn. Þá verður hægt að vera meira þar.

Liltu og stóru ömmugullin mín dafna vel og það er alltaf jafn gaman að hitta þær. Íris og Arna komu með þær hingað áðan og það var aldeilis líf og fjör. Þær eru svo ólíkar en heilla mig algerlega hver með sínu nefi eins og sagt er.

Ég er byrjuð að læra línudans, sá auglýst námskeið fyrir byrjendur hér á Selfossi og skráði mig bara og dreif mig ein. Ég er búin að fara tvisvar og þetta lofar góðu, búið að vera mjög skemmtilegt. Mig hefur lengi langað að læra línudans og svo þarf maður einhvern veginn að kynnast fólkinu sem hér býr. Síðan erum við Erling búin að skrá okkur á námskeið í samkvæmisdönsum en það verður eftir áramót. Bara gaman.

Jæja vinir, það veitir ekki af að fara að koma sér í svefninn, þar sem klukkan verður stillt á að hringja kl 6 í fyrramálið eins og aðra daga þá er gott að fara stundum snemma að sofa. Njótið lífsins, það er svo skemmtilegt...... þangað til næst

mánudagur, september 11, 2006

Til hamingju með daginn.....


Það er stutt á milli afmæla hjá þeim hjónakornum Írisi og Karlott því hann fyllir árið í dag rúmri viku á eftir henni og er því orðinn 31 árs. Karlott kom inn í líf okkar árið 2001 og ég kunni strax vel við hann og nánari kynni hafa leitt í ljós að hann er frábær og ljúfur strákur. Hann er haldinn ólæknandi veiðidellu og notar hvert tækifæri sem gefst til að drekkja ormum eða láta fiskana gabbast af flugum sem hann egnir fyrir þær. Karlott er þessi nútíma mjúki maður og er mjög duglegur heima fyrir og styður Írisi algerlega í því námi sem hún er í auk þess að vera sérstaklega vel liðinn í vinnu sinni hjá Landsbankanum. Petra Rut og Katrín Tara, dætur hans, eru mjög hrifnar af pabba sínum og sérstaklega er Petra Rut iðin við að segja okkur að pabbi hennar geti þetta og hitt :o)

Karlott minn, til hamingju með daginn og ég bið Guð að blessa þig ríkulega í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Íris afmælisbarn, 28 ára í dag


Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati þá örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?
Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið.

Hún er hörku dugleg, gift og tveggja dætra móðir og stundar nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Íris mín, til hamingju með afmælið þitt, ég bið Guð að blessa þig og fjölskyldu þína ríkulega í leik og starfi. Ég elska þig og er mjög stolt af þér

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Við erum komin heim.....


Þá erum við hjónin komin heim frá heitu löndunum, brún og sæt. Við vorum mjög heppin með veður í fríinu okkar þarna suðurfrá, sólin skein glatt og stundum var heitara en við hefðu kosið. Það er gaman að vera í sumarfríi, ferðast og skoða sig um og frábært að vera á ströndinni, stinga tánum í heitan sandinn og láta sólina baka sig og smá saman fær húðin þennan fallega gullna lit. Samt er alltaf best að koma heim aftur. Að sjá landið fagra fyrir neðan vænginn á flugvélinni er stórkostlegt. Það jafnast ekkert á við Ísland. Við lentum í Keflavík rétt eftir hádegi og því var bjart og landið sást vel. Um mig fer alltaf einhver sérstök tilfinning þegar ég sé landið mitt birtast. Þjóðernisstolt kallast það sennilega.

Auðvitað mætti vera aðeins heitara loftslag hér og það mætti alveg rigna aðeins minna en samt vildi ég ekki skipta á þessu og þurru og heitu loftslaginu í suðurhöfum þar sem þarf að kaupa allt vatn sem maður vill drekka og moskító stingur mann og sýgur úr manni blóðið. Það jafnast fátt á við að keyra um íslenska fjallavegi, sjá læk, ná sér í ílát til að drekka vatnið úr eða einfaldlega leggjast á hnén og fylla lófann af vatni og drekka. Ummmmm. Hvergi annars staðar vildi ég búa en ég er alltaf til í að ferðast til annarra landa.

Við fórum á Föðurlandið okkar á Fitinni síðustu helgi og gistum í krúttlega og notalega kofanum okkar sem við höfum byggt okkur þar. Meiriháttar og ég er alsæl með þetta athvarf sem er orðið þarna. Gaman að geta skroppið þangað úr ys og þys hins daglega lífs og notið lífsins í kyrrðinni þar. Við höfum ákveðið að hafa ekki sjónvarp þar bara góðar græjur til að geta notið þess að hlusta á góða tónlist.

Ég er að lesa mjög athyglisverða bók þessa dagana, ”Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn”. Sannsöguleg bók sem fjallar um virtan lögfræðing sem fær hjartaáfall og í kjölfarið ákveður að breyta algerlega um lífsstíl og leitar til vitringanna í Sivena sem búa hátt í Himalaya fjöllunum í Indlandi. Þeir kenna honum hvernig á að njóta lífsins á heilbrigðan hátt og aðferðin þeirra er meira en fimm þúsund ára gömul. Þetta eru sjö venjur sem þarf að tileinka sér og þegar ég er búin með bókina skal ég segja ykkur nánar frá þeim. Ég ætla allavega að lesa þetta og tileinka mér það sem er gott.

Það eru frábærar fréttir af Daníu Rut, ég tek mér það bessaleyfi að grípa niður í skrifin frá síðunni hennar Örnu

”En ég er með góðar fréttir í sambandi við Daníu Rut elsta gullið mitt. Við Davíð fórum um daginn og hittum Stefán Hreiðarsson, forstöðumann greiningar og ráðgjafastöð ríkisins. Og hann hafði góðar fréttir að færa. Það sem er að hjá henni Daníu Rut er að stundum gerist það að genin raða sér þannig upp að einn þroskaþáttur er seinni en hitt. Og það hefur gerst hjá Daníu Rut. Málþroskinn kemur en hann kemur bara hægar og seinna en hjá öðrum krökkum. Yndislegar fréttir, Guð er góður. ”

Njótið lífsins vinir, þangað til næst........

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Hún á afmæli í dag...


Það leið ekki nema mánuður frá því ég fékk ömmutitilinn í fyrsta skipti þangað til ég fékk aðra ömmustelpu. Hún Petra Rut á nefnilega afmæli í dag, er orðin fjögurra ára. Ég spurði hana um daginn hvað hún væri gömul og hún sagðist vera þriggja ára og sýndi mér þrjá fingur en bætti strax við að hún væri alveg að verða fjögurra ára, sýndi mér fjóra fingur og sagðist svo bráðum verða fimm og þá komu auðvitað fimm fingur á loft og svo sagðist hún verða svona gömul og sýndi sex fingur og þá færi hún í skóla. Hún var sko alveg með þetta á hreinu litla daman.

Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa, skýr og veit alveg hvað hún vill. Hún er löngu búin að segja mér hvað henni langar að fá í afmælisgjöf frá okkur afa sínum en það er rauður íþróttagalli með hvítum stórum stöfum. Ef að líkum lætur þá fær hún þá ósk sína uppfyllta.

Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með fjórða afmælisdaginn þinn, ég elska þig stóra yndigullið mitt og ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu skrefi og blessa framtíð þína.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Náttúran skartaði sínu fegursta....


........þegar við Erling héldum heim á leið í gærkvöldi. Himininn glitraði bókstaflega þegar síðustu sólargeislar dagsins dönsuðu um himinhvolfið á leið sinni niður fyrir sjóndeildarhringinn.

Við vorum að koma frá Fitinni eftir að hafa eytt deginum með því dýrmætasta sem við eigum, stelpunum okkar, stelpunum þeirra og mönnunum þeirra. Við vorum í kofanum okkar sem hann Erling er búinn að vera að keppast við að gera tilbúinn fyrir þessa verslunarmannahelgi. Arna gisti þar með litlu dömurnar sínar og þegar ég hringdi í hana fyrsta kvöldið og spurðu hvernig færi um þær þá hafði hún .þetta um kofann að segja; mamma, þetta er ólýsanlegt æði. Ég tek alveg undir með henni og við erum búin að eiga skemmtilegar stundir saman á Föðurlandinu okkar.

Þetta er búin að vera svolítið öðruvísi verslunarmannahelgi en áður, því við Erling höfum verið í tjaldútilegu um verslunarmannahelgi eins lengi og ég man.
Núna höfum keyrt heim á kvöldin í Húsið við ána enda er þetta svo stutt og fljótfarin leið. Það er svo notalegt að sofa þar og vakna svo undir hádegi við árniðinn og heyra í Erling á neðri hæðinni, vitandi að hann er búinn að hella uppá kaffi og bíður eftir mér. Fara svo aftur austur eftir hádegi í sveitasæluna þar.

Annars er ég komin í sumarfrí og finnst það auðvitað alveg frábært. Tilhugsunin að eiga næstu þrjár vikur í fríi og hafa Erling minn alveg útaf fyrir mig er meiri háttar. Við ætlum að skella okkur á suðrænar slóðir, labba berfætt á ströndinni í tunglskini, sitja úti á svölum á kvöldin með kertaljós og fylgjast með mannlífinu. Ferðast um og skoða land og þjóð. Með okkur í för verða vinir okkar Heiðar og Sigrún og við gistum í höllinni sem þau eiga þarna suðurfrá. Svo eru bræður Erlings, Hansi og Hlynur þarna með sínar fjölskyldur en það vissum við reyndar ekki þegar við pöntuðum okkar ferð, en bara gaman að því.

Ég hlakka svo til og er Guði svo þakklát fyrir einmitt lífið sjálft……..

sunnudagur, júlí 30, 2006

Góðar minningar eru dýrmætar

Það eru rúm 30 ár síðan ég sá þá bræður í Kirkjulækjarkoti í fyrsta sinn. Ég var komin á mitt fyrsta Kotmót og í fyrstu fannst mér þeir allir eins, um tíma vissi ég aldrei hver var hver en þó voru þeir mjög ólíkir. Það var auðséð að fólk bar virðingu fyrir þeim enda vorum við öll gestir á þeirra heimaslóðum. Ekki datt mér nú í hug þarna hversu mikið ég átti eftir að tengjast fólkinu í Kotinu, hvað þá að einn bræðranna yrði tengdafaðir minn. Maggi, Ninni og Grétar voru allir elskulegir menn og vildu allt fyrir alla gera og eins og er með syni þeirra þá held ég að þeir hafi getað gert allt sama hvert viðfangsefnið var.

Ég var að hugsa um þetta á föstudaginn var þegar við fylgdum Ninna til grafar, sá síðasti af þeim bræðrum sem kvaddi þetta líf. Maggi tengdafaðir minn fór fyrstur, síðan Grétar einu og hálfu ári seinna og nú Ninni. Eftir útförina þá kíktum við í Kotið í kaffi til vina okkar Gylfa og Christinu. Þegar við komum á hlaðið við sjoppuna hans Ninna þá voru þar Davíð og Már frændur Erlings og við fórum að spjalla við þá. Smátt og smátt fjölgaði ættingjum á planinu og mikið skrafað og rætt eins og venjulega þegar fólk sem hittist sjaldan hittist svo.

Hugur minn fór á reik, ég man svo vel eftir því þegar ég var 15 ára og var á Kotmóti og fékk þann heiður að fá að vinna í sjoppunni um verslunarmannahelgina. Það var sko gaman, alltaf straumur í sjoppuna og mest seldist af Spur, síríuslengju og lakkrísrúllu.

Synir bræðranna voru sko flottir gæjar og ekki spillti fyrir þegar þeir komu í sjoppuna til að kaupa nammi að þeir stoppuðu og spjölluðu við okkur Barbro en hún var oft með mér að afgreiða. Það verður þó að segjast að einn þeirra vakti meiri athygli mína en hinir og þegar hann kom inn í sjoppuna þá kom svo undarleg tilfinning alltaf yfir mig, hjartað hamaðist og fæturnir urðu undarlega linir. Hann var við það að stela hjarta mínu og eitt kvöldið fórum við ásamt fleirum í göngutúr. Göngutúrinn var afdrifaríkur og eins og þið flest vitið þá höfum við gengið saman veginn í 30 ár, 4 dætrum og 5 dótturdætrum ríkari. Já hann Erling minn var svo sannarlega flottur gæi, með liðað hár niður á axlir, átti jakka með loðkraga (sem reyndar hvarf á dularfullan hátt fljótlega eftir að við fórum að búa) og svo átti hann skellinöðru og það voru ófáar ferðirnar sem við Barbro fengum að vera aftan á.

Hinir gæarnir í Kotinu og konurnar þeirra eru miklir vinir okkar Erlings og ég er svo þakklát fyrir þessa vináttu og bræðraböndin sem binda þessa stráka svo þétt saman enn í dag enda eru þeir aldir upp hlið við hlið og hafa ófá prakkarastrik framið saman. Gylfi og Christina, Rúnar og Júlíana, Heiðar og Sigrún, Hlynur og Gerður, Erling og Erla, þetta eru litlu og stóru strákarnir úr Kotinu og þeirra frábæru konur.

Það er gott að eiga svona minningar og við fráfall Ninna þá drýp ég höfði í virðingu við minningu þessara bræðra frá Kirkjulækarkoti sem mér þótt svo mikið vænt um. Ég veit að þeir eru allir heima hjá Drottni og ég fæ að sjá þá aftur. Mættum við öll taka breytni þeirra til fyrirmyndar því þeir voru allir stólpar í Guðs ríkinu og eitthvað svo sannir í trú sinni. Þeir sýndu trú sína meira í verki en orði og ég veit að vegna þeirra hafa margir eignast lifandi trú á Jesú Krist. Guð blessi minningu þeirra allra.

mánudagur, júlí 24, 2006

Hún á afmæli í dag


Í dag eru fjögur ár síðan ég fékk ömmutitilinn í fyrsta skipti, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Danía Rut fyllir fjórða árið í dag, þetta litla, stóra yndigull.
Danía Rut er mjög lífglöð og kát stelpa og bræðir alla í kringum sig bara með einu brosi.
Hún er dugleg að nota “Tákn með tali” og hennir fer stöðugt fram og er alltaf að bæta við sig nýjum orðum og nú síðast lærði hún að segja nafnið sitt og það er frábært. Elsku Danía Rut, til hamingju með fjórða afmælisdaginn þinn, þú ert sannkölluð Guðs gjöf til okkar allra. Guð blessi þig nú og um ókomin ár og vaki yfir hverju þínu skrefi.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Mér líður svo vel

Í dag eru sex vikur síðan við fluttum í Húsið við ána og óhætt að segja að margt hafi breyst hér innan dyra síðan 11. júní sl. Erling er búinn að hvítta allan panelinn og mála margt og laga og við höfum í sameiningu gert þetta að heimili með öllum þessum litlu og stóru hlutum sem tilheyra heimili. Við höfum keypt okkur ný húsgögn þar sem þeirra var þörf og þau, í bland við þessi sem fyrir voru, skapa fallega umgjörð í hreiðrinu okkar.
Ég vona að þeir sem hingað koma finni að við fluttum hjörtu okkar með því eins og ég las einhvers staðar nýlega þá er heimilið þar sem hjartað er.

Ég er mjög þakklát fyrir þau forréttindi sem við njótum að fá að búa á svona stað, áin heillar, virðuleg og þung streymir hún stöðugt framhjá gluggunum hjá okkur og ég get staðið nánast endalaust og horft á hana og fylgst með fuglunum fljúga tignarlega yfir henni eða synda makindalega á henni. Sjónarspil náttúrunnar er mjög stórbrotið og sköpunarverk Guðs er svo augljóst hér fyrir utan, ég tala ekki um seint á kvöldin þegar fjöllin litast af rauðum bjarma himinsins þegar sólin er við það að ganga niður. Stórkostleg sjón.

Eitt kvöldið fyrir stuttu síðan sátum við Erling við eldhúsborðið þegar hann Gunnar nágranni okkar gekk upp götuna með þennan líka stóra lax sem hann var að draga uppúr ánni. Erling stökk auðvitað út og spjallaði við hann enda veiðiáhuginn sameiginlegur með þeim.

Ég held næstum að við séum búin að fá fleiri gesti þessar sex vikur hér í Húsinu við ána heldur en tvö árin sem við bjuggum í Vesturberginu og okkur finnst það alveg meiriháttar. Gestir eru miklir auðfúsugestir hér á óðalssetrinu okkar Erlings og Hrundar.

Veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga eins og aðra landsmenn og helgin er búin að vera alveg stórskemmtileg. Í gær fór ég og hitti hluta af stórfjölskyldunni minni en þau voru í útilegu við Apavatn. Þarna voru allar dætur mínar með sitt fólk, mamma, pabbi og flest systkini mín með sitt fólk. Við eyddum deginum saman og krakkarnir nutu sín í botn enda er þetta meiriháttar góð aðstaða þarna og greinilega tekið mið af börnum við skipulagningu svæðisins. Erling kom síðan um kvöldmatarleytið og grillaði með okkur en hann var á Fitinni að reisa litla sumarhúsið sem við erum að koma okkur upp þar. Í gær kom í ljós að Húsasmiðjan hafði afgreitt okkur með vitlaust hús en við vorum svo heppin að Hlynur mágur minn, starfsmaður Húsasmiðjunnar, var staddur þarna í sínu húsi og hann var snar í snúningum, ræsti út mannskap og hætti ekki fyrr en hann var búinn að láta senda bíl af stað með annað hús fyrir okkur og svo tók hann á móti því fyrir okkur í gærkvöldi svo Erling gæti komið til okkar í útileguna.
Þegar ég fór svo á fætur “snemma” í morgun var Erling farinn austur og er væntanlega byrjaður að reisa húsið núna en hann ætlar að vera búinn að því fyrir verslunarmannahelgi.

Ég ætla að njóta sólarinnar á pallinum í dag og vona svo að fólkið mitt komi við á heimleið frá Apavatni seinna í dag. Njótið lífins vinir mínir því það er svo skemmtilegt og munið að ef við erum heima þá er alltaf heitt kaffi á boðstólum í Húsinu við ána og þið eruð velkomin. Þangað til næst………

sunnudagur, júní 25, 2006

Ert þú lögfræðingurinn sem er......

......nýfluttur í hverfið, spurði maður nokkur sem Erling hitti á árbakkanum í gærkvöldi.
Hvaða á, jú auðvitað Ölfusá, en í gær var opnunardagur árinnar og jafnframt afmælisfagnaður Stangveiðifélags Selfoss. Það er greinilegt að við erum flutt í lítið samfélag í ört vaxandi bæjarfélagi og fólkið hefur verið að spjalla saman um “nýja” fólkið í götunni. Sá sem spurði er hann Gunnar í Skarði og hann býr beint á móti okkur.

Já, við erum flutt til Selfoss, erum reyndar búin að vera hér í hálfan mánuð og það er gaman að segja frá því að okkur er vel tekið hér. Við höfum líka heyrt það á nokkrum stöðum að fólkið sem býr í hverfinu okkar, þ.e utan ár, sé sérlega samheldið og standi saman. Ég var að bera inn dót úr bílnum fyrir nokkrum kvöldum þegar ég heyri að maður nokkur rekur all hastarlega á eftir hundi og segir honum að hypja sig heim. Fyrir hornið á húsinu mínu geysist síðan lítill smáhundur og á eftir honum kemur maðurinn sem er að reka hann. Hundurinn hverfur inn á lóðina rétt hjá mér en maðurinn stoppar hjá mér og spyr mig hvort ég sé nýi nábúinn hans. Ég svara eins og er að ég viti það ekki en ef hann búi hér við hliðina þá sé það rétt hjá honum. Það kom í ljós að þetta var hann Valdimar sem býr í húsinu við hliðina. Hann bauð mig hjartanlega velkomna í hverfið og sagði mér aðeins frá umhverfinu og hann kvaddi með orðunum, sjáumst vinkona.

Það kom svo í ljós daginn eftir þegar hann hitti Erling að hann er forfallinn veiðimaður sem þekkir Ölfusá eins og fingurnar á sér og hann er búinn að rölta með Erling og sýna honum alla bestu veiðistaðina í ánni. Erling er auðvitað búinn að ganga í veiðifélagið og það var einmitt í gær sem hann Valdimar kom og sagðist vera búinn að fá leyfi til að kenna nýja manninum á ána og mér fannst það skondið að horfa á eftir Erling labba með stöngina niður að ánni og ég gat fylgst með honum í veiðiferðinni útum gluggana hjá okkur.

Það er mjög notalegt að keyra inn kyrrláta götuna “mína” eftir langan vinnudag, leggja beint fyrir utan húsið og finna hvað húsið býður mig velkomna heim. Þetta er eitthvað sem erfitt er að lýsa en alveg einstök tilfinning.

Erling er búinn að vera að mála og sparsla, hvítta panel ásamt svo mörgu öðru til að fegra heimilið okkar, það er bara verst hvað vinnan okkar er alltaf að slíta sundur daginn fyrir manni. Það er samt gaman að sjá hvernig húsið er smátt og smátt að verða eins og við viljum hafa það. Rétt bráðum ætla ég að fara og kíkja á stofuna mína og sjá hvað Erling er búinn með mikið en þegar hún er búin sækjum við nýju Chesterfield sófana okkar sem við vorum að versla okkur, sérhannaðir í danskri verksmiðju fyrir Valhúsgögn.

Það eru aukin lífsgæði fyrir okkur að hafa keypt þetta hús á þessum frábæra stað og ég á eiginlega ekki orð til að lýsa því hvernig mér líður með þetta. Ég fyllist lotningu gagnvart náttúrunni í kvöldgönguferðunum okkar Erlings, Guðs blessun er það sem ég þakka fyrir á hverjum degi og fullvissan um að Guð er með okkur og náð hans vakir yfir okkur er nóg fyrir mig. Já lífið er dásamlegt.........þangað til næst.

sunnudagur, júní 11, 2006

Lögfræðingurinn

Ég vaknaði í morgun með mikinn spenning í maganum. Dagurinn sem hefur verið stefnt að í þrjú ár var loksins runninn upp.
Það er vægt til orða tekið að það hafi verið stoltar mæðgur sem mættu í Háskólabíó um hálf eitt leytið til að tryggja sér nógu góð sæti við athöfnina sem átti að hefjast kl eitt. Útskrift frá Háskólanum í Reykjavík var í vændum og Erling var einn af útskriftarnemendunum.

Þetta var skemmtileg athöfn og Guðfinna Bjarnadóttir rektor fór á kostum í ræðu sinni og lagði mikið upp úr því að hafa fjölskyldugildin í heiðri og hvatti útskriftarnemendur til að vera glöð og heiðarleg bæði í mótbyr og meðbyr og ekki síst í mótbyr því hann herðir þann sem í honum lendir. Greinilega afar skörp kona á ferð það.
Þórður Gunnarsson deildarforseti lagadeildar talaði um hvað laganámið sé þungt og strembið nám og að þeir sem útskrifist geti verið mjög stoltir af árangri sínum.

Ég get engan veginn lýst þeim tilfinningum sem fóru í huga minn þegar ég sá Erling í röð samnemenda sinna, ganga fram og taka við prófskírteini sínu úr hendi deildarforsetans og síðan rektor taka í hendina á honum. Ég var við það að rifna úr stolti og ekki var Hrund minna montin af pabba sínum.

Ég og dætur okkar ásamt mörgum sem lögðu hönd á plóginn, héldum honum síðan smá óvænta veislu í tilefni dagsins en hann sjálfur ætlaði ekki að hafa neina veislu fyrr en hann er búinn að sérhæfa sig enn frekar og taka mastersnámið sem er 4 annir. Mér hins vegar finnst þetta svo stór áfangi að það sé fullt tilefni til að halda uppá það. Íris og Karlott opnuðu heimili sitt í dag fyrir veislu og ég bauð systkinum okkar og allra nánustu vinum þangað og það var óborganlegt að sjá svipinn á honum þegar við komum þangað því hann var bara að fara þangað til að hitta krakkana okkar og litlu afastelpurnar.

Það er á engan hallað þegar ég segi að Íris og mamma báru hitann og þungann af þessu því ég gat ekki gert neitt, bæði vegna flutninga í Húsið við ána á morgun og eins vegna þess að Erling mátti ekki vita neitt af þessu. Eins var pabbi alveg frábær og fór margar ferðir á milli Breiðholts og Hafnarfjarðar með dót sem þurti að komast á milli staða. Ég vil samt nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem hjálpuðu mér og stelpunum mínum að gera þennan dag ógleymanlegan fyrir lögfræðinginn okkar allra.

Í kvöld fórum við Erling svo í fyrsta sinn út að borða á Hótel Holt og það var bara snilldin ein, maturinn var frábær og öll þjónusta til mikillar fyrirmyndar.

Viðburðarríkur dagur er að kveldi kominn og það er bara þakklæti í huga mínum.
Ég er svo þakklát Guði fyrir lífið sjálft og fyrir að tilheyra fjölskyldu sem er þátttakandi í lífi mínu bæði í mótbyr og meðbyr.

Á morgun byrjar svo nýr kafli. Við flytjum í nýtt hús í nýrri borg, Erling er kominn með nýtt starfsheiti og enn á ný veit ég að fólkið okkar kemur og nú til að hjálpa okkur á sama hátt og þau tóku frá tíma til að samgleðjast okkur í dag. Enn á ný, þúsund þakkir.
Já lífið yndislegt.

laugardagur, júní 03, 2006

Brons

Já það var hvorki meira né minna en brons sem hann Erling náði sér í í dag og ég er svo montin af honum að ég má til að deila því með ykkur lesendur mínir.
Í dag kom sem sagt síðasta einkunnin sem við höfum beðið eftir til að fá fullvissu um að hann sé kominn með fullt hús og ekkert hindri útskrift eftir viku.

Það var einkunn fyrir BA ritgerðina sem kom í dag, 8.0 og Erling var þriðji hæsti af þeim sem skrifuðu BA ritgerð í lagadeild þetta árið. Svo sannarlega flott hjá honum og nú getum við farið og keypt flott jakkaföt fyrir útskriftina.

Það stendur einhvers staðar að menn uppskera eins og þeir sá og nú uppsker hann erfiði síðustu þriggja ára, orðinn lögfræðingur með BA gráðu. Já ég er stolt kona.......
Meira seinna, góða nótt

Ps. við erum byrjuð að taka til hendinni í Húsinu við ána, endilega kíkið við ef þið eruð á ferðinni um helgina eða fáið ykkur bíltúr, alltaf heitt á könnunni......

miðvikudagur, maí 31, 2006

Frekar tvö en eitt

Við hjónin fórum í dag og keyptum okkur lítið sumarhús til að setja niður á lóðinni okkar í Fljótshlíð sem er víst, að sögn þeirra sem til þekkja, fallegasta sveit landsins.
Húsið er mjög fallegt þótt það sé lítið og mun væntanlega í framtíðinni gegna hlutverki gestahúss, þ.e. ef við byggjum einhvern tímann sumarbústað þarna.
Húsið er ósamsett og Erling og Hlynur ætla að setja það saman núna fljótlega og mér finnst þetta ekkert smá spennandi. Við ætlum að taka inn rafmagn í húsið og setja annað hvort arin eða kamínu og ég hlakka til að eyða tíma þarna. Svo getur maður látið sig dreyma um heitan pott……ummmmm……

Annars erum við búin að vera að gera heilmiklar breytingar hjá okkur með svo margt.
Við erum að skipta um bíla, ætlum að selja græna Mussoinn, hvíta Lancerinn og tjaldvagninn (hann er reyndar þegar seldur) og við erum búin að kaupa nýrri og betri fólksbíl og svo keyptum við aftur hvíta Pajero jeppann sem við seldum Írisi og Karlott fyrir einu og hálfu ári síðan. Niðurstaðan er sú að fyrir sama verð og margir eru að kaupa nýjan flottan bíl, eða um 2 milljónir, fáum við litla sumarhúsið, mjög fallegan lítið ekinn fólksbíl og jeppa sem er í toppstandi. Allt bara með því að hrókera aðeins til eigum okkar. Fólksbíllinn flotti kemur okkur á milli borga, sparneytinn og fínn og jeppinn kemur okkur í allar þær fjallaferðir sem hugurinn stefnir á, Fljótshlíðarhringurinn.........ekkert smá falleg leið.....
Þetta er frábært….

Um daginn kom svo Eygló dóttir okkar heim með ungan, myndarlegan mann og kynnti hann fyrir okkur sem kærastann sinn. Hann heitir Björn Ingi og er 32 ára gamall vélstjóri. Okkur Erling líst vel á hann og óskum þeim til hamingju með hvort annað.

Á morgun rennur svo upp stóri dagurinn þegar við fáum afhenta lykla að Húsinu okkar við ána. Erling ætlar að mála allt húsið og við stefnum á að flytja þangað sunnudaginn 11. júní eða strax daginn eftir að Erling öðlast nýja titilinn sinn, lögfræðingur með BA gráðu. Ekki amalegt.

Já lífið er svo sannarlega skemmtilegt. Þangað til næst.....njótið lífsins

laugardagur, maí 20, 2006

Nýstúdent


Það er alltaf merkilegt þegar einhver nær langþráðu takmarki sínu og þá sérstaklega þegar mikið hefur verið fyrir því haft.

Í dag setti Davíð tengdasonur minn upp hvíta húfu ásamt skólasystkinum sínum í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hann er búinn að taka nokkur ár í það að ljúka stúdentsnámi sínu og hefur unnið fulla vinnu með því og tekið námið í fjarnámi bæði frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og líka frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hann og Arna eiga líka þrjár litlar stúlkur sem þarf að hugsa um og því hafði hann meira fyrir hvítu húfunni sinni en margir aðrir og ég er því afar stolt af honum.

Hann stefnir á að fara í Háskóla Íslands í haust og nema sagnfræði og ég efast ekki um að honum muni ganga vel því hann hefur gaman af því.

Davíð og litlu ömmustelpurnar mínar þrjár eru núna í sveitinni hjá foreldrum hans og ég efast ekki um að Doris dekrar þau á tá og fingri og litlu stelpurnar sem við eigum saman elska hana og njóta þess að vera hjá henni. Arna gat ekki verið með þeim í dag en fer norður eftir nokkra daga til þeirra.

Innilega til hamingju með þennan áfanga í lífinu Davíð minn og ég bið Guð að blessa þig og fjölskylduna þína ríkulega.

mánudagur, maí 15, 2006

Endurfundir


Mikið fékk ég skemmtilegan tölvupóst um daginn. Sendandi var bekkjarsystir mín úr Kvennaskólanum, Helga Benediktsdóttir. Það var komið að því að bekkurinn ætlaði að hittast því á þessu ári eru 30 ár síðan við lukum landsprófi úr Kvennó en í þá daga var Kvennó gagnfræðaskóli en ekki menntaskóli eins og í dag.

Sl laugardagskvöld vorum við svo mættar í Veitingahúsið Tjarnarbakkann í Iðnó, milli 25 og 30 hressar og flottar konur sem eyddu þessum skemmtilegu gagnfræðaskólaárum saman í leik og námi með dr. Guðrúnu P. Helgadóttur sem skólameistara.

Hópurinn spannar sennilega flestar starfsgreinar þjóðfélagsins og það er gaman að segja frá því að í þessum hópi er engin fráskilin og það útaf fyrir sig er stórmerkilegt í þjóðfélagi þar sem hjónaskilnaðir eru svona algengir.

Kvöldið heppnaðist mjög vel og ég skemmti mér frábærlega. Sumar stelpurnar hafði ég ekki séð í 30 ár en þekkti þær samt allar strax enda lítum við allar svo vel út eins og ég sagði hér að framan. Glæsilegar Kvennaskóladömur.

Það er líka gaman að segja frá því hér að ég tengist þessum stelpum líka í gegnum dætur mínar. Þórey bekkjarsystir mín kennir Hrund ensku í Kvennó og Sigga vinkona Þóreyjar, er með Írisi í bekk í laganáminu í Háskólanum í Reykjavík og þær eru meira að segja saman í vinnuhóp. Bara gaman að því.

Njótið lífsins kæru lesendur, það geri ég allavega........því sumarið er komið

sunnudagur, maí 07, 2006

Stórafmæli

Stór hluti af afkomendahópnum ásamt mökum



Erling, Hlynur, Benni, Danni, Gerða, Hildur og Hjalli ásamt Hrefnu, það vantar bara Hansa


Flott afmæliskaka sem bakarinn á Víflistöðum bakaði handa Hrefnu í tilefni dagsins

Þann 7. maí 1921 leit hún dagsins ljós á bæ einum í Ketildölum vestur á fjörðum og í dag, 85 árum seinna, var slegið upp veislu á Vífilstöðum þar sem hún býr núna.

Já hún Hrefna tengdamamma mín á afmæli í dag og við slógum upp veislu og vorum þar saman komin öll börnin hennar nema Hansi, tengdabörn og mörg barnabörnin hennar með sín börn. Ekki hef nú tölu á afkomendafjölda hennar en þeir eru margir svo mikið er víst.

Hrefna var hress og leit mjög vel út, nýbúin að fara í klippingu og lagningu. Hún var búin að hlakka mikið til og hafði sofið lítið nóttina áður vegna spennings.
Dagurinn var skemmtilegur og heppnaðist vel í alla staði. Hrefna sagði við okkur Erling um daginn að henni finndist lífið alltof stutt og að heyra það af hennar vörum jók enn á þá fullvissu mína að við eigum að njóta hverrar stundar sem okkur er gefin.

Mig langar að óska henni til hamingju með daginn þótt hún lesi þetta ekki því hún er nánast blind og situr i hjólastól en hún er bara svo mikil hversdagshetja að ég mátti til að segja ykkur frá deginum hennar. Hún kvartar aldrei, hefur það alltaf svo gott að eigin sögn. Það gætu margir margt af henni lært.

laugardagur, apríl 29, 2006

Ábyrgð eða ábyrgðarleysi - okkar er valið

Heilsan og heilsufar hefur verið ofarlega í huga mér síðustu daga. Góð heilsa er ekki sjálfsögð og sá sem missir hana missir mikið. Ég sá í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum viðtal við heiðursborgara Ísafjarðarkaupstaðar, frú Ruth Tryggvason, 85 ára gamla konu og var hún við afgreiðslu í Gamla bakaríinu en þar vinnur hún frá 9 á morgnana til 6 á kvöldin. Hún var hress og kát og naut þess virkilega sem hún var að gera. Mér fannst þetta ótrúlegt, ég sem hef verið að segja við Erling að mér finnist of mikið að vinna frá 9 til 5!!!!

Frú Ruth gæti hins vegar ekki unnið svona eða verið svona hress nema vegna þess að hún er svo lánsöm að vera heil heilsu meðan, því miður, alltof margir jafnaldrar hennar og þaðan af yngra fólk er löngu dæmt úr leik vegna heilsuleysis.

Heilsan fæst ekki keypt, jafnvel þótt maður ætti öll heimsins auðævi, en við getum haft heilmikið um það að segja hvort við höldum henni. Auðvitað eru margir sjúkdómar sem enginn getur ráðið við hvort hann fær eða ekki, en það eru líka margir sjúkdómar sem við getum komið í veg fyrir með því einu að lifa heilsusamlegu lífi.

Ef ég tala aðeins út frá sjálfri mér þá hef ég í gegnum tíðina sýnt alltof mikið ábyrgðarleysi gagnvart eigin heilsu þrátt fyrir að mitt heilsufar sé alls ekki mitt einkamál heldur skiptir hún fjölskyldu mína líka heilmiklu máli. Það að leyfa sér að vera alltof þungur svo árum skiptir er ekkert annað en ábyrgðarleysi því með því bjóðum við heim hættunni á alls kyns sjúkdómum s.s. hækkuðum blóðþrýsingi, áunninni sykursýki, ýmsum hjartasjúkdómum svo fátt sé nefnt. Ég las líka fyrir nokkrum dögum að of feitar konur séu í meiri hættu að fá brjóstakrabbamein en aðrar konur.

Ég er nú svo lánsöm að vera heilsuhraust ennþá fyrir utan að vera komin með hækkaðan blóðþrýsing sem má örugglega rekja til þess að ég er alltof þung. Ég hef hins vegar ákveðið að taka nú í taumana á mun róttækari hátt en áður og fara að sýna ábyrgðarfulla hegðun á lífi mínu, bæði mín vegna og fjölskyldunnar minnar vegna.

Það að fara eftir aðferðarfræði þess sem setti saman danska kúrinn, er mín meðferð og mitt “læknisráð” til að verða heilbrigð. Ég er nokkuð viss um að þeir sem þjást af alvarlegum sjúkdómum þætti danski kúrinn auðveld meðferð, ef það nægði þeim til að sigrast á sjúkdómi sínum. Allar þær konur sem koma fram á síðum “stelpublaðanna” og segja frá frábærum árangri við að ná tökum á ofþyngdinni eiga a.m.k eitt sameiginlegt. ÞÆR GÁFUST EKKI UPP. Þær hafa án nokkurs efa upplifað það að nenna þessu ekki, hella sér bara aftur út í sukkið og hætta, en verið nógu ábyrgðarfullar til að leyfa sér ekki slíka hegðun.

Ég og þú berum ábyrgð á lífi okkar og heilsu og það er ekki okkar einkamál, því flest eigum við fjölskyldu og okkur ber að hafa hana í huga. Væri ekki sorglegt ef við myndum deyja frá þeim og þau gætu litið tilbaka og komist að því að dauðdaginn hefði kannski verið á okkar ábyrgð að einhverju leyti. Kannski hefðum við verið búin að hunsa allar viðvaranir sem líkaminn og jafnvel læknirinn var búinn að gefa okkur....?
Spáum aðeins í þessu.........!

föstudagur, apríl 28, 2006

Húrra fyrir mér.....

Jæja, þá er Viktólína loksins farin að mjakast af stað aftur, eitt kíló farið síðan ég fór að fara alveg nákvæmlega eftir danska kúrnum. Svo er ég byrjuð í smá keppni með nokkrum frábærum stelpum og hún gengur út á það hver verði fyrst til að missa 10 kíló frá síðustu viku og þetta er sem sagt fyrsta kílóið sem fer af mér eftir að sú keppni hófst.

Við ætlum svo saman út að borða þegar fyrsta er búin með 10 kíló og hún fær að borða á kostnað hinna. Ég ætla ekki að segja nöfnin hér en þær skrifa þá bara í komment hjá mér ef þær vilja upplýsa um þátttöku sína og reyndar hvet ég þær til þess því það er heilmikið aðhald ef vinir og vandamenn vita að maður er að reyna að ná árangri. Mikið hlakka ég til að fara út að borða á annarra kostnað :o) ;o) :o)

Annars er bara allt gott að frétta af mér, njótið daganna lesendur góðir,
þangað til næst........

föstudagur, apríl 21, 2006

Gleðilegt sumar

Tekið á annan í páskum, við Hrund á bekknum "okkar" rétt fyrir neðan "Húsið við ána"

“Það er greinilega komið sumar” sagði Hrund við mig í gær, rigningin er mætt. Jú sumardagurinn fyrsti var í gær eins og þið vitið auðvitað og sumarið heilsaði okkur fallega með fullt af skemmtilegum og góðum fyrirheitum.

Ég hlakka svo til sumarsins, þetta er svo skemmtilegur tími og ég ætla að njóta hans í botn. Við munum ekki ferðast eins mikið um landið okkar fagra þetta árið eins og svo oft áður því við pöntuðum okkur ferð til Spánar í febrúar sl sem verður farin í ágúst og síðan ætluðum við líka að ferðast um landið með tjaldvagninn okkar góða en húsakaup hafa aðeins breytt þeim áætlunum og það er ekkert nema frábært. Við ætlum samt að eyða nokkrum helgum á Fitinni, sumarbústaðalandinu okkar og vera með vagninn þar.

Við fáum "Húsið við ána" afhent 1. júní og ég hlakka svo til að flytja þangað og þegar við hjónin förum að breyta því smátt og smátt eftir okkar smekk. Við stefnum á að flytja um þjóðhátíðarhelgina því Erling ætlar að mála það allt áður. Þannig að 17. júní kaffið verður í Miðtúni 22 á Selfossi fyrir þá vini og vandamenn sem koma og hjálpa okkur að flytja :o)

Svo er Erling að reyna að fá mig til að koma með sér í veiðitúr, hann vill kenna mér að njóta þess að vera við árbakkann og veiða fisk. Ekki er ég nú viss um að ég hafi þolinmæði til þess en kannski ég gefi því tækifæri, hvað finnst ykkur að ég ætti að gera?
Ég er mikið náttúrubarn og finnst Ísland fallegast land í heimi og kannski er þetta gaman.

Á annan í páskum sagði ég ykkur að ég ætlaði að brjóta loforð mitt gagnvart Erling og reyna að draga hann með mér í bíltúr austur. Hrund var ekki búin að sjá "Húsið við ána" og tími til kominn að sýna henni nýja tilvonandi heimilið okkar. Mér tókst að draga Erling með mér og ég held að hann hafi bara haft gott af því að komast aðeins út og fá ferskt loft í lungun. Hrund leist vel á húsið sem betur fer :o) Bíltúrinn var skemmtilegur og við keyptum okkur ís í Olís stöðinni eins og við erum vön að gera þegar við keyrum þar framhjá. Ég er hrædd um að danski kúrinn fari fyrir lítið ef við hættum ekki þeirri venju fljótlega.

Talandi um danska kúrinn þá viðurkennist það hér með að ég hef verið að fylgja honum eftir “með hálf hangandi hendi” en þar sem byrjunin er alltaf að viðurkenna mistök sín og misgjörðir þá geri ég það hér með og er byrjuð að fara eftir honum nákvæmlega þannig að endilega fylgist með henni Viktólínu hér að ofan og ég vona og trúi að hún fari nú að þokast hraðar til hægri.

Erling er búinn að heita mér mjög veglegum verðlaunum þegar 20 kílóa múrinn fellur og ég hlakka mjög til og það er mjög hvetjandi. Ég segi ykkur kannski seinna hvað það er.

Njótið góða veðursins og lífsins......þangað til næst

mánudagur, apríl 17, 2006

Páskar


Þessar myndir eru teknar hjá Hrefnu á Vífilstöðum á páskadag




“Þú verður að vera leiðinleg þessa dagana og ekki reyna að draga mig neitt með þér” sagði húsbóndinn á heimilinu við mig þegar páskafríið var að skella á. Ég sagði honum eins og var að ég gæti ekki verið leiðinleg því ég er alltaf svo skemmtileg :o) og hann yrði bara sjálfur að bera ábyrgð á því að loka sig inni á skrifstofu og skrifa BA ritgerð og lesa undir lokaprófin. Ég lofaði því bara að reyna ekki að draga hann neitt með mér þessa frídaga og vera dugleg að laga kaffi og bjóða honum að koma fram í frímínútur. Þetta var auðvitað sagt í léttum tón en það hefur hins vegar reynst erfitt að standa við það að draga hann ekki út í góða veðrið sem hefur að mestu glatt okkur þessa dagana.

Á skírdag var okkur boðið í fermingarveislu hjá Hlyn bróðir Erlings og Gerði konunni hans. Það var Ragnheiður, önnur heimasætan á bænum sem var að fermast og hún var mjög sæt og fín í hvítum fermingarkjól. Veislan var auðvitað glæsileg eins og við var að búast enda er hún Gerður snillingur í að gera góðar kökur og brauðrétti. Það var gaman að hitta fólkið hans Erlings og gaman að heyra hvað þau samglöddust okkur með "Húsið við ána" og ég er viss um að við eigum eftir að eiga fleira samverustundir með þeim þar heldur en hér í höfuðborginni. En aftur að veislunni. Það sem mér fannst sérstaklega gaman þar var að veislan var brotin upp með því að bróðir Gerðar, konan hans og dóttir tróðu upp með tvo gítara og eina fiðlu og þau sungu og spiluðu þekkt íslensk lög og fengu svo gesti til að taka undir með sér í síðasta laginu. Þau voru svo ófeimin og skemmtileg, mér finnst alltaf svo gaman þegar fólk þorir að vera bara það sjálft.

Páskarnir hafa verið góðir og í gær tók eiginmaðurinn sér frí frá öllu skólastússi. Ég hafði afþakkað páskaegg og langaði frekar að fá nokkra “flotta og fína” konfektmola frá Konfektbúðinni og þeir runnu ljúflega niður með kaffinu í gærmorgun. Eygló gisti hjá okkur og Erling faldi eggið hennar og Hrundar og gerði síðan erfiðar vísbendingar fyrir þær og það fór drjúgur tími í það hjá þeim systrum að leita og þurftu m.a. að fara niður í geymslugang og á fleiri skrýtna staði áður en þær gátu farið að njóta súkkulaðibragðsins.

Eftir hádegi fórum við síðan og heimsóttum Hrefnu tengdamömmu á Vífilstaði og hún var bara hress og lét vel af sér og reytti af sér brandarana. Hún er með Alzheimer sjúkdóminn en líður samt bara mjög vel.

Seinna um daginn komu svo Íris og Arna með fjölskyldurnar sínar í heimsókn og við elduðum lamb og áttum skemmtilega stund saman. Það er svo frábært að vera amma og hafa þessar litlu stelpur allt í kringum sig. Þær bræða mann algerlega með framkomu sinni, segjandi manni að þær elski mann og vefja svo litlu handleggjunum sínum um hálsinn á manni og segja að þær eigi þessa ömmu, hver haldið þið að standist svoleiðis enda fá þær allt sem þær vilja eða því sem næst.

Núna er ég hins vegar að hugsa um að brjóta loforðið mitt og reyna að draga Erling aðeins út í góða veðrið. Ég hef ekki séð "Húsið við ána" í 8 daga og finnst tími til kominn að kíkja aðeins á það. Finnst ykkur ekki allt í lagi að freista þess að draga hann frá lærdómnum sem hann er búinn að sinna síðan klukkan átta í morgun?

Bara í svona 2 tíma eða svo...........................

sunnudagur, apríl 09, 2006

Pabbi á afmæli í dag.....hann lengi lifi


Í stórri fjölskyldu eins og ég er svo heppin að tilheyra eru mjög oft haldnar afmælisveislur og það er alveg meiri háttar gaman. Við erum þannig systkinin að við sleppum ekki svona tækifærum til að hittast og í dag var einn svona dagur.
Það var ættfaðirinn hann pabbi minn sem í dag fyllir enn eitt árið og í þetta sinn í 67. skiptið.

Við vorum þvi samankomin í húsi foreldra okkar í dag systkinin og með okkur voru auðvitað makar og börn ásamt öllu þeirra föruneyti. Erling var að vísu ekki með mér í þetta skiptið þar sem stíf prófa- og verkefnaskilatörn er tekin við og verður næstu fimm vikurnar. Þetta var samt mjög skemmtilegur dagur, mikið hlegið og gert góðlátlegt grín að hvert öðru eins og vera ber. Það er skemmtilegt þegar það meiðir engan.

Pabbi var óþreytandi að bjóða okkur meira af veitingunum, sækja meira gos og spyrja hvort okkur vantaði ekki eitthvað. Eins og sjá má á okkur þá erum við dugleg að gæta þess að fá nóg að bíta og brenna og þvi voru þessar áhyggju föður okkar alveg óþarfar.

En hann er svona hann pabbi minn, alltaf að hugsa um við höfum nóg af öllu, og ber mikla umhyggju fyrir okkur. Ef við erum á ferðalagi á milli staða þá fylgist hann með að við séum komin á áfangastað og það sama gildir um þegar barnabörnin hans eru að ferðast með sínar fjölskyldur. Hann er ekki rólegur fyrr en hann veit af okkur komin á leiðarenda. Þegar farið er til útlanda þá kemur hann og ekur uppá flugvöll og ef brottför er snemma dags þá þarf ekki að hafa áhyggjur af að sofa yfir sig því hann hringir og vekur okkur líka. Mér þykir mjög vænt um þetta og gott að vita að það er einhver sem fylgist með ferðum okkar.
Ef einhver fjölskyldufaðirinn á einhverju heimilanna er fjarverandi þá hringir hann til að athuga hvort það sé ekki örugglega allt í lagi með konuna og börnin og þá skiptir engu hvort konan er dóttir hans eða tengdadóttir og þannig á það að vera því við erum öll ein stórfjölskylda.

Elsku pabbi minn, ég vil óska þér innilega til hamingju með daginn og bið þér Guðs blessunar um ókomin ár og gangi þér vel í veiðitúrunum sem framundan eru. Það eru bara 5 vikur til 15. maí og þá verður fyrsta ferðin farin, er það ekki annnars...... :o)

Takk fyrir samveruna í dag elskurnar mínar, samvera við ykkur er mér mjög dýrmæt og meira virði en margt annað...sjáumst hress í næsta afmæli sem er bara eftir 3 daga, gaman að því..

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Selfoss heillar........

Einn af mörgum bekkjum meðfram ánni


Aðeins upp með ánni í átt að skógræktinni

Bekkurinn rétt fyrir neðan húsið okkar

Glæsilegt ekki hægt að segja annað

Þetta útsýni blasti við okkur og heillaði mig


Við fórum austur á Selfoss á sunnudaginn enda hafði ég ekki séð “Húsið mitt við ána” í alltof langan tíma. Það er enn jafn flott og mig minnti og ég er orðin mjög spennt að flytja þangað í sveitasæluna. Við tókum nokkrar myndir og þið sjáið þær hér fyrir ofan textann. Þið skiljið líklega hvað ég átti við þegar við komum þangað fyrst og stoppuðum fyrir utan húsið og áin blasti við í öllu sínu veldi. Þvílík fegurð. Petra frænka mín og Hallur maðurinn hennar ásamt börnum búa í næstu götu og ég hlakka til að kynnast þeim betur.

Við brenndum síðan austur í Kot og heimsóttum Hansa og Auju og áttum góða stund með þeim en höfðum síðan ekki tíma til að kíkja á vini okkar Gylfa og Christinu þannig að við förum bara bráðum aftur austur að kíkja á eigur okkar og vini.

Það er búið að vera mjög mikið að gera í vinnunni hjá mér enda skiladagur á virðisaukaskatti í dag og því þurfti að vera búið að skrá bókhald fyrir öll fyrirtækin okkar svo upphæðirnar myndu ligga fyrir í dag. Það tókst auðvitað.....

Erling er á kafi í ritgerðarsmíð og síðan er prófalesturinn líka að spilla fyrir honum deginum en það er samt alveg ótrúlegt að þessi þrjú ár séu að verða búin. Ég er svo ánægð hvað allt hefur gengið vel hjá honum og hvað honum finnst þetta skemmtilegt.

Jæja, ég ætla að hætta núna við Erling ætlum að skreppa og kveðja vini okkar Heiðar og Sigrúnu en þau eru að fara til Spánar til að njóta lífsins þar um páskahátiðina. Gott hjá þeim en ég er samt hrædd um að þeim leiðist fyrst þau njóta ekki nærveru okkar Erlings á meðan.........Heyrumst seinna.....

miðvikudagur, mars 29, 2006

Viktólína.....

Það hlaut að koma að því að tölurnar á henni Viktólínu færu að lækka eftir að hafa verið sama leiðinda talan í yfir þrjár vikur. Ég segi nú bara mikið var…… ég ætla bara að halda mínu striki og vonandi heldur Viktólína áfram að sýna mér lægri tölur smátt og smátt. Erling er búinn að léttast um 9 kíló á sama tíma og ég er búin með þessi 6 kíló en reyndar segir sagan að karlar léttist fyrr en konur.

Annars er það helst að frétta að við vorum að fá niðurstöðu úr greiðslumatinu og það gekk auðvitað upp eins og Erling var búinn að segja og svo erum við búin að setja íbúðina okkar á sölu og þið getið skoðað hana bæði á mbl.is og habil.is.
Nú er bara að vona að hún seljist fljótt og vel.

Ég er bara mjög spennt fyrir þessu öllu og hlakka til að flytja á Selfoss. Ég er alveg viss um að þótt við flytjum úr borginni þá eigum við eftir að eiga meiri samskipti við fólkið okkar heldur en meðan við búum í borginni. Ef ég miða t.d. við Barbro og Sigga vini okkar af Skaganum þá hittum við þau miklu oftar en vini okkar sem búa í borginni því þau eru svo dugleg að koma við í bæjarferðum sínum.

Takk allir sem hafið sent okkur fjölskyldunni hamingjuóskir með húsið okkar og jafnvel gert sér ferð til að skoða það, mér finnst það frábært.

Hafið það gott vinir mínir og farið að hlakka til páskanna, ég ætla allavega að hafa það gott þá eins og alla aðra daga, ég hef svo margt til að vera Guði þakklát fyrir.........

miðvikudagur, mars 22, 2006

Húsið við ána



Okkur Erling höfum lengi langað til að eiga fallegt hús, einbýlishús með passlega stórum, litlum garði helst á frekar rólegum stað og með fallegu útsýni. Eflaust dreymir marga um þannig hús og sumir fá þá ósk sína uppfyllta en aðrir því miður ekki. Ég hef reyndar alltaf verið alveg viss um að fá þennan draum uppfylltan en spurningin var bara alltaf hvenær. Hér í Reykjavík hefur ekki verið hægt að fá úthlutaðri lóð til að byggja á þrátt fyrir að við eigum yfirdrifin nóg af landi en stjórnvöld hafa ekki haft sama skilning á notkun þess og margir aðrir.

“Hvað með Selfoss” sagði Erling við mig fyrir ca 10 dögum. Nei, sagði ég, ekki Selfoss, frekar vildi ég fara á Akranes ef ég ætlaði að yfirgefa borgina “mína”, ég, sjálft Reykjavíkurbarnið. “Ég er búinn að finna mjög skemmtilegt hús á Selfossi, á fallegum og rólegum stað” sagði hann við mig. Húsið er staðsett “utan ár” eins og innfæddir kalla þennan byggðarkjarna, tilvonandi millahverfi Selfyssinga :o)

Ég féllst á að skoða húsið enda orðin svolítið spennt eftir að hafa skoðað myndir af því á netinu. Það virkaði frekar “þreytt” að innan og greinilegt að þar þarf að taka til hendinni.
Við ókum sem leið lá til Selfoss sl. laugardagskvöld (vorum bara 30 mínútur á leiðinni) og þegar við ókum inn friðsæla götuna sá ég mjög reisulegt og fallegt hús blasa við endann á götunni og það var húsið.

Þegar við stoppuðum bílinn fyrir utan og ég sá útsýnið hugsaði ég með mér að það er alveg sama hversu mikið þarf að gera fyrir þetta hús, mig langar í það. Það bara gerðist eitthvað innra með mér. Húsið er mjög vel skipulagt að innan og við getum gert það stórglæsilegt með tímanum og alveg eins og við viljum hafa það.

Útum eldhúsgluggana horfi ég yfir Ölfusána, meiriháttar. Erling getur bara kallað heim til mín að koma með háfinn til sín þegar laxinn er kominn á. Fyrir neðan húsið, rétt við ána er fallegur trébekkur og ég sé okkur í anda labba þangað að kvöldi til, með kaffi í stálbollunum okkar og horfa á ána renna framhjá.

Húsið við ána, er við Miðtún 22 á Selfossi og í dag var skrifað undir kauptilboð sem við gerðum í húsið og við flytjum þangað í sumar.

mánudagur, mars 20, 2006

Áskorun, skemmtilegur leikur í bloggheimum

Gerða mágkona mín skoraði á mig á blogginu sínu að svara þessu og ég geri það hér með og neðst í þessari færslu er síðan áskorun á nokkra aðila, endilega lesið þessar algerlega gagnlausu upplýsingar um mig.


4 staðir sem ég hef unnið á:

Fiskbúð í Árbænum, þar hófst starfsferill minn 15 ára gömul

Sorphreinsun Reykjavíkurborgar, sumarvinna tvö sumur og eitt jólafrí

Skrifstofa Hvítasunnukirkjunnar

Bókhaldsþjónusta Arnar Ing, núverandi vinnustaður, vinn þar sem bókari og líkar vel

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:

Green mile, besta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð

When a man loves a woman, yndisleg mynd sem fær tárakirtlana til að vinna

Leagally blond, Reese Whiterspoon er meiri háttar sem ljóshærði lögfræðingurinn

The story of us; vekur mann til umhugsunar um það sem skiptir máli í lífinu


4 staðir sem ég hef búið á:

Sunnuhlíð, bernskuheimilið þar sem ég ólst upp með systkinum mínum

Stillholt 15, Akranesi, fyrsta íbúðin sem við Erling keyptum
Akranes er frábær staður og mjög gott að búa þar. Fluttum þaðan vegna atvinnuleysis.

Vesturberg 74, góð íbúð og okkur leið vel þar.

Hamraberg 18, draumahús og fallegt sem var ”fórnað” fyrir skólagöngu Erlings, gaman samt að Kiddi og Ásta keyptu það þannig að við förum stundum þangað.

Vesturberg 72, núverandi heimili mitt, en við erum farin að kíkja í kringum okkur að öðru húsnæði og þá jafnvel utan höfuðborgarinnar......

4 sjónvarpsþættir sem ég má ekki missa af...

Idol – frábær skemmtun, krakkarnir eru ótrúlega góð, var samt svekkt þegar Alexander datt út

Prision break, alveg ótrúlega spennandi

Lost, skemmtilegir þættir

Stelpurnar, mörg skemmtileg ”skets”

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum

Ísland, fallegasta land í heimi, hef verið svo heppin að geta ferðast víða um landið mitt og ég held að Vestfirðir standi uppúr hvað varðar fegurð og tignarlegt umhverfi

Mallorka, algerlega meiriháttar staður, enginn staður af öllum sólarlöndum sem ég hef komið til skyggir á eyjuna "mína" fögru í Miðjarðarhafinu

Krít, frábær, maturinn meiriháttar

Kaupmannahöfn, uppáhalds borgin mín, mjög sjarmerandi og fátt rómantískara í mínum huga en að rölta um þar

4 síður sem ég skoða daglega

http://www.erlingm.blogspot.com/

http://www.mbl.is/

http://www.habil.is/ þessa dagana :o)

og svo auðvitað síður allra stelpnanna minna og stórfjölskyldunnar minnar, sjá tengla hér til hægri á síðunni minni


4 matartegundir sem ég held upp á

jólamaturinn með öllu tilheyrandi, svínahamborgarahryggur með brúnuðum kartöflum, salati, rjómasósunni hans Erlings, og svo grjónagrauturinn með heimabúnu karamellusósunni hans Erlings, klikkar ekki........

allt kjöt sem Erling setur á grillið

kjúklingur, gæti borðað hann í öll mál

silungur úr Þórisvatni, grillaður með miklum hvítlauk og rjómasósu, ummmmmmm


4 bækur sem ég hef lesið nýlega:

Húsmóðir í hjáverkum

Draumaveröld kaupalkans

Réttarkrufning

Les svo mest blöð en lítið bækur

4 strákar sem ég skora á að gera þetta:

Teddi bróðir

Kiddi bróðir

Heiðar mágur minn

Veit ekki um fleiri karlkynsbloggara sem lesa bloggið mitt því það er búið að skora á Erling

4 stelpur sem ég skora á að gera þetta:

Íris

Eygló

Arna

Hrund

Ella systir

miðvikudagur, mars 15, 2006

Umhyggja og notalegheit

Það var fyrir nokkrum dögum síðan. Við Erling vorum tvö heima og klukkan var alveg að verða tíu og aldrei þessu vant höfðum við hjónin ekki borðað mjög mikið þennan dag (munið að við höfum tekið upp ”borðaðu þig grannan” mataræðið) og grænmetisskammturinn mikli hafði ekki ratað á diskana okkar. Við vorum svöng og okkur langaði í eitthvað gott, eitthvað bragðlaukakitl. Mér fannst svolítið fyndið að uppgötva það að mig langaði alls ekki í sælgæti bara góðan mat.

Erling leit á klukkuna og spurði mig hvort hann ætti að fara og kaupa kjúkling á KFC. Ég sá að það gekk ekki upp því þeir loka kl 22. ”En hvað með Nings” sagði hann og leit á mig. Við kíktum á alheimsgluggann og sáum að þeir loka einnig kl 22. Nú voru góð ráð dýr en samt ekki. ”Ég fer útí búð og athuga hvað ég sé” sagði minn maður og nú vissi ég að hann langaði verulega mikið í eitthvað gott.

Þremur korterum seinna var mér síðan boðið til stofu, þar sem hann var búinn að leggja á borð, búinn að grilla þessi líka frábærlega góðu reyktu svínarif og sveppi með. Ekki gleymdi hann að gera hvítlaukssmjör með þessu (eins gott að maður Á að borða fitu á þessum danska kúr). Þessi máltíð var alveg meiri háttar góð bæði mikið bragðlaukakitl en ekki síst þetta hugarfar að nenna að gera þetta fyrir okkur tvö, til að skapa kósí andrúmsloft og búa til frábæra minningu. Við kveiktum á kertum, nutum matarins og samfélagsins við hvort annað......Hrund kom heim um miðnætti og þá voru enn diskar á borðinu og hún leit á okkur spurnaraugum enda ekki vön að sjá matardiska á borðum á þessum tíma.

Langaði bara að deila þessu með ykkur lesendur góðir......veit að ég hef sagt ykkur það áður en segi það einu sinni enn að ég er vel gift.......

þriðjudagur, mars 14, 2006

Törn framundan

Jæja þá er hún hafin enn ein prófa- og lestrartörnin hjá Erling, í dag eru 9 vikur þangað til hann verður búinn í lokaprófum og skiladagur BA ritgerðarinnar er. Þetta eru búin að vera nokkuð strembin 3 ár enda mikill lestur sem fylgir laganáminu og eins gott fyrir hann að taka þessu með alvöru fyrst hann fór í þetta á annað borð. Erling er búinn að standa sig frábærlega vel í náminu, er yfir meðallagi í einkunnum og er alveg á réttu róli með námið, þ.e. hann er ekki með neitt fall á bakinu sem hann á eftir að taka upp.

Það verður samt gott þegar þetta verður búið en þann 10. júní útskrifast hann sem lögfræðingur og síðan á hann eftir tveggja ára framhaldsnám sem hann var búinn að ætla sér að taka alveg í beinu framhaldi en við erum búin að taka ákvörðun um að hann taki þetta aðeins hægar. Hann þarf 60 einingar í meistarann og 30 af þeim má hann taka í öðrum deildum en lagadeild. Hann ætlar því að taka bara eitt fag næsta vetur og þá jafnvel í verkfræði og hann ætlar að vinna lögfræðistörf og sjá til hvað mun henta honum best en það er samt líklegt að hann haldi sig við að sérhæfa sig i því sem viðkemur byggingum, verktaka- og vinnurétti enda með byggingameistarann til 25 ára að baki og alla þá reynslu sem því fylgir.

Ég er mjög stolt af honum en núna verð ég svo sannarlega að setja í þolinmæðisgírinn næstu 9 vikurnar meðan þessi törn stendur yfir. Ég þarf að gefa honum næði og ekki trufla hann eins oft og mig langar en sem betur fer á ég svo góða vini og fjölskyldu að mér þarf ekki að leiðast neitt. Þegar búið verður að skila ritgerðinni stefnum við á að skreppa aðeins út fyrir landssteinana, bara tvö, njóta þess að vera til, slaka á, borða góðan mat og kannski fara á einhverja sýningu í borginni sem verður fyrir valinu.

Hafið þið skoðun á því til hvaða borgar væri gaman að fara á þessum árstíma?????
Við erum nefnilega ekki búin að ákveða okkur. Endilega kommentið og segið hvað ykkur finnst og hvaða kosti “ykkar” borg hefur.........Það þarf samt að vera til Evrópu því vinningurinn okkar gildir bara þangað.

sunnudagur, mars 12, 2006

Mamma mín


Mér finnst afmælisdagar alltaf merkilegir og tilefni til að halda uppá þá eins og þeir vita sem þekkja mig. Eitt ár enn hefur bæst í lífssögu viðkomandi og því ber að fagna.

Í dag á mamma mín afmæli, fyllir 66 ár. Það er reyndar alveg ótrúlegt að þessi unglega skvísa sé orðin 66 ára. Mamma er sannkölluð ættmóðir. Hún á mörg frábær börn, tengdabörn, barnabörn og svo á hún 7 litlar langömmustelpur þótt fáir séu þeir sem trúa því að hún sé orðin langamma.

Sagt er að allt sé fertugum fært og hún sannaði það aldeilis. Þá nefnilega datt henni í hug að verða bara hjúkrunarfræðingur og lét það engin áhrif hafa á sig þótt hún væri bara með prófið úr 12 ára bekk, þá bara tæki aðeins lengri tíma að ná settu marki. Hún dreif sig í námsflokkana og með dugnaði og þrautsegju kom þetta koll af kolli. Það var svo fagran sumardag fyrir að mig minnir 20 árum að hún útskrifaðist fullnuma hjúkrunarfræðingur og hefur starfað við það síðan.

Hún sinnir heimahjúkrun og ég segi að skjólstæðingar hennar séu mjög heppnir því þolinmóðari og mjúkhentari einstakling er varla að finna og svo hefur hún einhvern veginn skynbragð til að finna strax hvernig fólki líður og mætir öllum þar sem þeir eru staddir. Það er gott því öllum finnst gott að finna umhyggju og það á jafnt við um heilbrigða og sjúka.

Mamma hefur alltaf tíma fyrir mann og nennir öllu. Þótt ég sjálf sé bæði mamma og amma þá er svo gott að finna alltaf að ég er stelpan hennar og ekkert erindi mitt er of stórt eða of lítið fyrir hana. Stelpurnar mínar leita til hennar og það er oft eins og þær séu jafnöldrur.

Þennan pistil setti á á síðuna mína fyrir ári síðan en tíminn líður svo ótrúlega hratt að mér finnst örstutt síðan ég skrifaði hann. Ég ætlaði að skrifa eitthvað til heiðurs henni mömmu minni en sá svo að þessi er alveg jafn mikið í gildi núna og fyrir ári síðan.

Elsku mamma, til hamingju með daginn og takk fyrir að vera til og vera alltaf þú sjálf.
Ég elska þig grilljón og þúsund sinnum meira en það......... Sjáumst á eftir í partýinu.....

þriðjudagur, mars 07, 2006

"Óskarinn"......

Alveg er það merkilegt hvað maður getur sokkið niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með fræga og “fína” fólkinu. Í gærkvöldi sátum við Hrund og fylgdumst með samantekt frá Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fór í Borg englanna sl sunnudagskvöld.

Þarna voru auðvitað samankomnar allar helstu stjörnur hvíta tjaldsins, allar konurnar í síðkjólum eftir misfræga hönnuði enda eins gott að vera vel tilfara þegar farið er á þessa uppskeruhátíð þeirra. Dómurinn birtist síðan í dagblöðum morgundagsins. Glamúrinn er yfirgengilegur og þetta er mikill gerviheimur að mínu mati en gaman samt að fylgjast með.
Enda eru bíómyndir yfirleitt gerðar sem afþreying svo við venjulega fólkið getum gleymt amstri dagsins.

Verðlaunahafar fá eina mínútu til að þakka fyrir sig og það var auðvitað æði misjafnt hvað þeir höfðu að segja en orð einnar af uppáhalds leikkonunnar minnar eru uppspretta hugleiðinga minna í dag. Reese Witherspoon fékk Óskarinn sem besta leikkonan í aðalhlutverki og eflaust er hún vel að þeim heiðri komin (hef ekki séð myndina sem hún fékk verðlaun fyrir) en í þakkarræðu sinni minntist hún á ömmu sína.

Hún sagði að amman hefði kennt sér að hafa það að leiðarljósi í lífinu að skipta máli.
Mér fannst þetta merkilegt. Að skipta máli. Er það endilega að vera frægur og þykjast eitthvað merkilegri en annað fólk…..???? Ekki allavega í mínum huga enda er fræga fólkið ekkert öðruvísi en við hin þau vinna bara aðra vinnu en við.

Ég tek heils hugar undir orð ömmunnar . Ég vil skipta máli. Ég vil skipta máli í lífi fjölskyldu minnar, ég vil að það muni um mig, að verkin mín tali góðu máli, ég vil lifa lífi mínu til gagns um leið og ég nýt þess að vera til því lífið er svo skemmtilegt.

Það segir einhvers staðar að þegar maðurinn fæðist þá gleðjist allir í kringum hann en litla mannveran hágrætur. Ég vil lifa mínu lífi þannig að þegar ég dey þá gráti mig allir en ég sjálf geng inn til fagnaðar herra míns. Ég vil að það hafi munað um mig.

Já ég vil skipta máli....... Ekki flókið.......

fimmtudagur, mars 02, 2006

Eygló og Arna eru 25 ára í dag....


Það var í lok október árið 1980, ljósmóðirin skoðaði mig varlega eins og endranær en eitthvað fannst henni þetta ekki eins og vanalega. Ég vil senda þig suður í sónar sagði hún en á þessum tíma, þótt ekki sé lengra liðið, þá fóru konur ekki í sónar á meðgöngu nema sérstök ástæða þætti til þess.

Við Íris fórum því einn morgunn suður með Akraborginni og mamma tók á móti okkur á bryggjunni og keyrði mig upp á Landspítala.

“Þau eru tvö” sagði læknirinn við mig kornunga móðurina. “Ertu viss um að það sé allt í lagi með þig” sagði hann svo áður en hann hleypti mér út úr stofunni. Jú það var allt í lagi með mig en frétirnar voru vægast sagt óvæntar.

Mamma og Íris biðu eftir mér niðri og þegar mamma sá mig koma niður stigann, gráhvíta í framan spurði hún, eru þetta tvíburar elskan mín? Hún var ekki eins hissa og ég. Erling hringdi í mig í hádeginu og spurði frétta. Barbro vinkona kom að símaklefanum (já þið lásuð rétt, þetta var fyrir alla farsímana og við vorum ekki einu sinni með heimasíma) sem hann hringdi úr rétt á eftir og sagði mér seinna að hún hefði aldrei séð Erling svona skrítinn á svipinn áður. Allavega þá held ég að það hafi liðið mínúta áður en hann svaraði mér. Þetta var svo óvænt en um leið spennandi fréttir. Tvíburar……….

Það var síðan á Sjúkrahúsi Akraness, 2. mars 1981 að þær fæddust með fjögurra mínútna millibili, Eygló fyrst og síðan Arna. Þær voru yndislegar og það sem mest var um vert að þær voru báðar lifandi og heilbrigðar 13 marka og 51 cm.

Þær döfnuðu vel og voru rólegar svo lengi sem engir ókunnugir nálguðust þær, ef það gerðist þá heyrðist í þeim langar leiðir. Það mátti enginn t.d. hjálpa mér með þær ef ég var ein á ferð í heimsókn í höfuðborginni. Þær systur voru ekki gamlar þegar farið var að leggja ofurkapp á að vera ekki eins klæddar. Þær eru einstaklega hlátumildar og skemmtilegar og gaman að vera nálægt þeim og þær hafa svo sannarlega veitt okkur foreldrum sínum mikla gleði og fyrstu áhyggjurnar sem komu hjá lækninum forðum voru svo sannarlega óþarfar. Þær eru um margt ólíkar en samt svo mikið líkar. Þær eru mjög samrýmdar og reyndar held ég að það geti enginn skilið þetta sérstaka samband sem er á milli eineggja tvíbura.

Arna er í dag gift honum Davíð og saman eiga þau þrjár yndislegar litlar stelpur og í bili sinnir Arna húsmóðurhlutverkinu því sú yngsta er aðeins rúmlega fjögurra mánaða.

Eygló er nýbúin að skipta um vinnu og er orðin vaktstjóri hjá Nóatúni og er mjög ánægð þar. Hún stefnir síðan á að fara erlendis í haust og víkka sjóndeildarhringinn og læra nýtt tungumál.

Ég held að þetta verði fyrsti afmælisdagurinn sem þær eyða ekki saman því afi hans Davíðs er nýdáinn og í dag keyra þau norður fjölskyldan til að vera við útförina.

Elsku krúttin mín, innilega til hamingju með daginn ykkar, ég er stolt af ykkur og elska ykkur meira en orð fá lýst. Eigið frábæran afmælisdag og ég hlakka til veislunnar……..

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Thea er komin heim

Mikið varð ég glöð og hissa sl þriðjudagskvöld heima hjá Tedda og Kötu. Við vorum þar systkinin ásamt flestu af fólkinu okkar því ætlunin var að borða saman snarl og bara eiga skemmtilegt kvöld saman. Við vorum öll sest inn í stofu og Teddi var búinn að bjóða okkur að gjöra svo vel nema hvað.......birtist ekki Thea mín bara öllum að óvörum í stofunni og með henni var paragvæski kærastinn hennar og við sem héldum að hún væri enn í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá okkur.

Þau höfðu komið til Íslands laust eftir miðnætti kvöldið áður og það var búið að vera mikið leynimakk á fjölskyldunni í Fellsmúlanum vegna komu þeirra. Þeim tókst að koma öllum að óvörum en voru svo hugulsöm að vera búin að koma því þannig fyrir að Hrund var heima hjá þeim “að passa” þegar þau komu heim frá Keflavík og ég hef það eftir Tedda að það hafi verið óborganlegt að verða vitni að óvæntum endurfundum þeirra frænkna.

Það er gott að Thea er komin heim aftur og við eigum eftir að kynnast kærastanum sem heitir Juan Carlos (held að þetta sé rétt skrifað). Hann virðist alveg ágætur en talar því miður bara spænsku.

Ég vil nota þetta tækifæri og bjóða hana velkomna heim og hann velkominn til Íslands og vona að honum eigi eftir að líða vel hér þótt hann sé fjarri fólkinu sínu.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hjá mér. Mér gengur bara vel í vinnunni og er að komast inn í þetta allt saman. Ég er fljót að læra númerin á bókhaldslyklunum og mér finnst gaman að vinna með alla þessa pappíra. Svo eru stelpurnar sem ég vinn með ósköp indælar og gott að spyrja þær um allt sem ég þarf að vita. Eigandinn fór til Kanaríeyja fljótlega eftir að ég byrjaði þannig að ég hef ekki kynnst honum mikið en þær bera honum afar góða sögu.

Danski kúrinn gengur vel hjá okkur Erling og það er frábært. Við erum búin að panta okkur ferð til Spánar í ágúst og okkur langar til að vera búin að minnka vel áður. Það eru reyndar allar líkur á að Erling verði búinn með sitt takmark þá því nú þegar er hann búinn að losa sig við 7 af þeim 15 kílóum sem hann ætlar að losna við. Eins og þið sjáið hér að ofan þá eru farin 5 af 20 aukakílóum hjá mér en ef þetta heldur svona áfram þá ætti ég að verða búin líka í ágúst. Allavega komin mjög langt áleiðis.

Nú er helgin framundan og ég hlakka til hennar. Veit að hún verður góð því ég ætla að hafa hana skemmtilega. Svo eigum við Erling bráðum brúðkaupsafmæli, 28 ár, og það verður spennandi að sjá hvað við gerum til hátíðabrigða. Þið munið hvað ég sagði ykkur um daginn, Erling segir að það sé enginn jafn duglegur og ég að finna tilefni til að halda uppá eitthvað en ef þetta er ekki alvöru tilefni þá veit ég ekki hvað.

Fylgist svo með bláu vigtinni minni, hvort hún færist ekki jafnt og þétt til hægri......verið dugleg að kommenta á mig og hvetja mig áfram

Þangað til næst...........

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Sara Ísold, 2ja ára afmælisprinsessa

Það var óborganlegur svipur sem kom á hana Örnu dóttur okkar þegar við Erling gengum inn á stofu 4 á FSA, fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, á þessum degi fyrir nákvæmlega tveimur árum. Hún gjörsamlega gapti af undrun enda átti hún alls ekki von á að sjá okkur þarna. Davíð var ekki eins hissa, það var allavega ekki að sjá á honum. Þetta var sunnudagur og við hjónin, nýbökuð afi og amma í þriðja sinn stóðumst ekki mátið að brenna norður og sjá dömuna sem hafði bæst í hópinn okkar.

Veðrið var eins og best verður á kosið um miðjan vetur og okkur því ekkert að vanbúnaði. Við sögðum engum frá því vegna þess að okkur langaði að koma á óvart og okkur tókst það svo sannarlega. Þeir sem best þekkja okkur hjónin vissu þegar þeir reyndu að ná í okkur að okkur hlyti að hafa dottið í hug að “skreppa aðeins” og sjá fólkið okkar norðan heiða.

Fyrr þennan sama dag, reyndar mjög snemma morguns, reyndar næstum um nóttina hafði Arna sem sagt hringt í okkur og tilkynnt okkur fæðingu annarrar dóttur sinnar. Við vorum búin að fylgjast með fæðingunni úr fjarlægðinni í Reykjavík og vorum auðvitað mjög spennt. Rúmlega hálf fjögur um nóttina leit hún dagsins ljós, Sara Ísold, litla daman sem á afmæli í dag.

Hún er mjög heillandi barn og mjög dugleg. Hún talar heilmikið og er algjör gullmoli.
Sara Ísold er mjög hrifin af afa sínum og hann á að hjálpa henni með alla hluti þegar hún er hjá okkur. Þá réttir hún út litlu hendurnar sínar og segir “Afi hjappa mer”. Ég skil nú vel að hann standist það ekki.

Elsku Sara Ísold mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn þinn og vona að þú verðir mjög fljótt frísk svo það verði hægt að halda uppá afmælisdaginn þinn bráðum. Þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra. Ég elska þig gullið mitt.