fimmtudagur, janúar 22, 2009

Erlan var döpur í dag....

Við vorum snemma heima í dag hjónin, Erling sótti mig í vinnuna klukkan þrjú og við drifum okkur heim yfir fjöllin tvö. Hrund var lengur í bænum og er í þessum skrifuðu orðum á heimleið með Theunni sinni. Við komum við í Bónus eins og svo oft á fimmtudögum, okkur finnst nefnilega Bónus í Hveragerði miklu betri heldur en Bónusbúðin hér á Selfossi.

Ég setti matinn í ofninn og ákvað svo á fara á hlaupabrettið fyrir matinn fyrst tími gafst til. Ég kveikti á sjónvarpinu til að stytta mér tímann og fréttir Stöðvar 2 voru að byrja. Ég hef nú ekki fylgst mikið með þessum mótmælum í bænum en auðvitað hef ég vitað af þeim. Það sem ég sá í fréttunum gerði mig bæði hrygga og dapra. Ég get heils hugar tekið undir með Geir Jóni lögreglu að það er ótrúlegt að þetta séu Íslendingar sem eru að láta svona. Hvert erum við eiginlega komin sem þjóð þegar við líðum svona skrílslæti? Að sjá fólk með hamar vera að brjóta rúður í Stjórnarráðinu, velta við bekkjum og kveikja í þeim, kasta þvagi og saur ásamt því að grýta lögregluna og ég sá mjög fullorðna konu ganga á milli lögreglumannanna og berja skildina þeirra með grjóti !! Lögreglan hefur ekkert gert okkur illt og mér varð hugsað til þess hvort þetta sama fólk hringi ekki í 112 og biðji þessa sömu menn að koma og hjálpa sér ef það lendir í vandræðum? Lögreglan er alltaf til staðar fyrir okkur og á ekki skilið svona framkomu. Þetta eru menn eins og ég og þú sem eru að vinna vinnuna sína. Það var eina úrræðið sem þeir gátu beitt að nota táragas því það var að skapast hættuástand í miðbænum. Þegar fólk er farið að kveikja í eldsneyti í anddyri Alþingishússins þá er voðinn vís. Hins vegar sá ég líka að það eru ekki allir sem haga sér svona og ég gladdist yfir þeim sem tóku sér stöðu fyrir framan lögreglumennina til að hlífa þeim við þessum árásum :o)

Það var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu og hún sagði að það væri líkt með þetta og höfuðmeinið sem er að hrjá hana. „Hún sagði að það þýddi lítið fyrir sig að öskra og æpa og reyta hár sitt út af meininu heldur yrði hún að hlusta á sérfræðingana sem væru að annast hana og fara eftir ráðum þeirra og það sama yrðum við að gera varðandi þennan vanda. Öskur og skrílslæti leysa engan vanda heldur verðum við að gefa þeim sérfræðingum vinnufrið sem nú þegar eru á fullu að leita leiða fyrir okkur“.

Nei, svona getur aldrei verið til góðs fyrir okkur og ég vona svo sannarlega að það verði ekki framhald á svona mótmælum og að lögreglumennirnir og fjölskyldur þeirra geti verið róleg heima hjá sér og þurfi ekki að óttast að einhver óþjóðalýður geri aðsúg að heimilum þeirra. Nóg er samt.
Sem Íslendingar þá höfum við sem betur fer rétt á að mótmæla og við megum segja okkur skoðun en það sem hefur verið að gerast er ekkert annað en skrílslæti sem við getum ekki liðið. Leyfum sérfræðingum að vinna vinnuna sína, munum að það er svo auðvelt fyrir okkur að leysa þetta allt saman heima í stofu því við erum ekki í skotlínunni eða undir smásjá þeirra sem leita logandi ljósi að mistökum annarra.

Þangað til næst vinir mínir.....

sunnudagur, janúar 18, 2009

Lífsins lystisemdir í góðu meðalhófi....

Eins og ykkur lesendum mínum er kunnugt þá hef ég alltaf gaman af því að eiga afmæli, þetta er jú eini dagurinn á árinu sem er MINN og ég nýt þess og miðvikudagurinn sl var engin undantekning.

Vekjaraklukkan hringdi jafn ógurlega snemma og hún gerir á virkum dögum, ég teygði mig til að slökkva á henni og var að fara framúr þegar hendi var lögð yfir mig og hvíslað í eyrað mitt: „Til hamingju með daginn krúttlan mín, þú þarft ekki að fara framúr, mátt sofa lengur“. Ég á nú að mæta í vinnuna og Hrund í skólann sagði ég. „Ég er búin að fá frí í dag fyrir þig og Hrund keyrir bara sjálf í skólann“ sagði þessi flotti maður minn. Hrikalega var ég ánægð. Ég fór samt og vakti Hrund og spjallaði aðeins við hana og fór svo inn í myrkvað herbergið mitt aftur og lagðist á, að ég hélt koddann minn, en nei nei...það var eitthvað á koddanum sem ég var næstum búin að kremja með höfðinu. AFMÆLISGJÖFIN. Í fallegum kassa var uppáhalds ilmvatnið mitt og peningur. Gaman....

Ég sofnaði strax aftur og klukkan var orðin hálf ellefu þegar afmælisbarn dagsins kom niður. Algerlega mér að óvörum beið mín þetta líka flotta morgunverðarhlaðborð, bæði með hollustu og óhollustu, kertaljós og alles. Við hjónin áttum svo frábæran dag heima, Teddi bróðir kíkti á okkur í hádeginu en upp úr kl fjögur fórum við til borgarinnar því ég var búin að ákveða að hitta stelpurnar mínar og þeirra fólk heima hjá Írisi og við borðuðum öll saman og ég fékk flottar afmælisgjafir frá þeim og samfélagið var svo skemmtilegt. Ég elska þegar við erum öll saman.
Um kvöldið komu svo mamma og pabbi úr borginni til okkar og það gladdi mig ekkert smá að þau skyldu leggja þetta ferðalag á sig til að gleðja mig. Sirrý og Guðjón komu líka og það var mjög gaman. Afmælisdagurinn minn einkenndist af notalegheitum og ég naut hans í botn. Fór ekki að sofa fyrr en ég var búin að sjá klukkuna komna fram yfir miðnætti :o)

Í dag höfum við haft það rólegt hér í Húsinu við ána. Erling er að lesa enda byrjaður í skólanum á ný og það þýðir ekkert að slá slöku við lesturinn til að ná árangri. Við fórum samt í göngutúr áðan og það var meira að segja ég sem átti frumkvæðið að því og dró hann út frá tölvunni. „Gott fyrir sellurnar“ sagði ég, „þær virka betur eftir að hafa fengið heilnæmt Selfossloftið í sig“. Við klæddum okkur vel og gengum út í frostið, upp með ánni, hún hefur einhver seiðandi áhrif á okkur þessi flotta vinkona okkar, Ölfusáin. Þarna í þessari gönguferð tók ég ákvörðun um hvað ég ætla að gera við afmælispeninginn frá Erling. Ég var búin að hugsa mér að kaupa leðurstígvél en er sem sagt búin að breyta. Gönguskór skulu það vera. Við höfum bæði mikinn áhuga á að fara að ganga meira og eftir að hafa skoðað myndir á fésinu hjá henni Maríu frænku minni sem er mikil göngukona þá varð áhuginn enn meiri.

Á gamlárskvöld, rétt fyrir miðnætti, þegar fólkið mitt var úti að horfa á flugeldana fór ég inn og sat við eldhúsgluggann minn og horfði út. Margar hugsanir fóru um huga minn en ein hugsun var hinum miklu sterkari og á nýársdag sagði ég fólkinu mínu að ég ætlaði ekki að strengja nein áramótaheit en árið 2009 yrði tileinkað heilsu minni. Ekki svo að það sé eitthvað að, ég er við hestaheilsu en ég geri mér samt grein fyrir því að ég er að komast á „viðgerðaraldurinn“ og ég veit að ofþyngd orsakar mjög marga sjúkdóma og m.a er áunnin sykursýki algeng í minni ætt. Ég ætla því að gera það sem ég get til að lifa sem lengst og þar með eignast aukin lífsgæði og setja heilsuna í forgang þetta árið. Ekki neinar ákvarðanir um að missa svo og svo mörg kíló heldur vera meðvituð um heilbrigða lífshætti og þess vegna ætla ég að eyða afmælispeningunum mínum í gönguskó. Ef ég missi einhver kíló í kjölfarið þá er það bara bónus. Ég ætla að njóta lífsins lystisemda í góðu meðalhófi....

sunnudagur, janúar 11, 2009

Ég er bara svo fyndin með þessar stelpur mínar, hehehe

Eftir afmælisveisluna sína í gær þá ákvað Hrund að skreppa til borgarinnar með Dúnu vinkonu sinni og gista hjá henni í nótt. Dúna býr á Ísafirði en foreldrar hennar eiga íbúð í Reykjavík og þær stöllur voru þar ásamt Addó pabba Dúnu. Það var mjög gaman að Dúna skyldi einmitt vera í borginni þessa helgi sem afmælið var haldið.

Það var svo áðan, eða um klukkan níu, að ég sagði við Erling: „Viltu ekki hringja í Hrund og athuga hvar hún er og hvenær hún ætlar að koma heim“ Erling leit á mig, sposkur á svip og sagði við mig: „Við vorum nú að halda uppá tvítugs afmælið hennar, finnst þér ekki óþarfi að gá að henni núna strax, hún er jú 20 ÁRA.“ Ég var nú að jánka því að þetta væri rétt hjá honum, en hvenær ætli ég hætti að hugsa svona??? Sennilega ekki fyrr en hún er flutt að heiman...en vonandi þá en ég lofa engu.

Dagurinn í dag hefur verið alger afslöppunardagur og það er bara notalegt. Kaffi í límsófunum, aðeins kíkt á fésbókina, matur, meira kaffi, lestur blaða og svo jólabóka, prjóna, hlusta á gamla tónlist sem minnir á fellihýsaferðalögin, aftur matur, meira kaffi og smá súkkulaði meðþví....gott að eiga svona daga inná milli.

Á morgun fæ ég svo nýjan titil, ég verð lögfræðings- smiðs- og mastersnemafrú... :o)
Njótið lífsins vinir, þangað til næst.....

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Tvítug....


Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar daman fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur.
Allar götur síðan hefur hún verið sannkallaður gleðigjafi þessi dama, yngsta stelpan okkar Erlings sem í dag fagnar 20 ára afmælinu sínu. Þetta er auðvitað mjög merkilegur afmælisdagur, fyrsta stórafmælið, sjálfráða og þarf ekki að spyrja neinn um það sem hún vill. Ég er nú samt alveg viss að hún mun halda áfram að leita ráða enda skynsöm stúlkan sú.
Hrund hefur margoft sýnt og sannað hvað í henni býr. Hún er yndisleg og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft komið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.
Hún er á síðustu önninni í Kvennó og útskrifast sem stúdent í vor. Þar tekur hún þátt í verkefni sem heitir Mentor og felst í því að vera vinur grunnskólabarns. Einu sinni í viku hittir hún lítinn 7 ára nýbúadreng í 3 tíma í senn og eru þau mestu mátar. Ekki er alveg ákveðið hvað tekur við eftir útskrift en hugurinn stefnir á sjálfboðaliðastarf í eitt ár helst á vegum ABC og koma svo heim og fara í háskólann en það er heldur ekki alveg ákveðið hvaða leið hún ætlar að fara þar. Ég yrði ekki hissa þótt hún myndi í framtíðinni vinna með fólk og læra annað hvort sálfræði eða félagsráðgjöf.
Elsku Hrundin mín, innilega til hamingju með þennan merkisdag í lífi þínu. Láttu okkur nú dekra við þig á allan hátt. Hlakka til að eyða kvöldinu með þér. Elska þig meira en orð fá lýst.

sunnudagur, janúar 04, 2009

Gleðilegt ár

Fallegu augasteinarnir mínir

Þegar ég lít útum eldhúsgluggann minn þá er varla hægt að trúa því að það sé 4. janúar. Veðrið er alveg ótrúlega gott miðað við árstíma, frekar eins og það sé að vora en ekki að framundan séu leiðinlegustu mánuðir ársins. Skil reyndar ekkert í mér að tala um janúar sem einn leiðinlegasta mánuðinn og bæði ég og Hrund eigum okkar afmælisdaga í þessum líka fína mánuði.

Það er við hæfi á svona tímamótum að staldra aðeins við, gera upp árið sem nú er horfið og kemur aldrei tilbaka og horfa svo fram á nýtt ár sem okkur er fært, óskrifað og gera okkur grein fyrir því að þegar öllu er á botninn hvolft þá höfum við svo mikið um það að segja hvernig þetta ár verður. Það er undir okkur komið hvort dagarnir verða góðir eða leiðinlegir, það er undir okkur komið hvort við stöldrum við og njótum augnablikanna, hvort við tínum upp þá hversdagslegu gimsteina sem liggja víða við götukantinn og geta svo auðveldlega glatt okkur á einfaldan hátt. Við ráðum því sjálf hvort við þjótum áfram í daglega lífinu og erum svo upptekin við að gera áætlanir að lífið fer framhjá okkur á meðan.

Ég var svo lánsöm að hafa allt fólkið mitt, nema Örnu dætur, hjá mér þegar gamla árið kvaddi og við buðum nýtt ár velkomið. Þau gistu svo öll hér og eftir hádegi á nýársdag settumst við öll inn í stofu meðan litlu krílin sváfu úti í vagni. Ég náði í blað og penna og skrifaði niður samræður okkar því við vorum að segja frá væntinum okkar fyrir þetta nýja ár og svo verður gaman að ári að draga fram blaðið og sjá hvað hefur ræst. Auðvitað höfum við mjög misjafnar væntingar til þessa árs en allt var þetta þó spennandi og skemmtilegt. Ég held að það sé mjög gott að setja sér markmið og vinna svo að þeim.

"Eðlilegar????"

Tvö ár í röð höfum við haft jólaboð fyrir alla þá afkomendur Hrefnu og Magga sem hafa áhuga á að vera með og umgangast fólkið sitt. Þetta hefur mælst vel fyrir og mæting hefur verið góð. Auðvitað vitum við að það komast ekki allir þrátt fyrir áhuga og það er bara þannig, þeir koma þá bara næst. Mér finnst alveg ótækt að stelpurnar mínar séu hálf feimnar við frænsystkini sín bara af því að þau sjást svo sjaldan. Í gær voru hér því 65 manns og mikið fjör.


Heitt súkkulaði fyrir 60 manns

Ég horfi með björtum augum fram á árið 2009, trúi að það verði okkur gott og lærdómsríkt og er þess fullviss að þegar gruggið í vandamálum landsins sest til þá munum við búa í betra landi með meiri lífsgæðum, þar sem meira skiptir hvað einstaklingurinn stendur fyrir heldur en hvað bankainnistæðan hans er mikil. Það er margt spennandi á dagskrá hjá okkur sem verður sagt frá hér jafn óðum en fyrst er það að Erling byrjar í mastersnámi í lögfræði eftir viku og svo eru það auðvitað áður nefnd afmæli mæðgnanna hér á bæ, hvað skyldi flotti maðurinn minn gera í tilefni þeirra? Læt ykkur vita..... Þangað til næst....