sunnudagur, mars 18, 2007

Vorið kíkti aðeins.....

.......á okkur hér á Selfossi um daginn, bara svona rétt til að minna okkur á hversu stutt er þangað til það kemur alkomið með allri sinni fegurð. Síðan fór það aftur heim til sín og Vetur konungur sýnir okkur mátt sinn og megin þessa dagana. Kannski hann hafi farið í fýlu útí vorið fyrir að koma svona fyrirvaralaust í heimsókn á þessum tíma.

Það er sunnudagsmorgunn, ég sit ein hér niðri í fallegu stofunni minni og úti geisar bylur, allt er hvítt úti og Kári hamast sem mest hann má. Erling fór til Reykjavíkur að sækja Hrundina okkar. Hún var á bíl í bænum, var að gæta litlu gullanna hennar Örnu í gærkvöldi meðan Arna fór á árshátið. Hins vegar vildum við ekki að Hrund keyrði ein yfir heiðina í þessu veðri og því fór pabbinn að sækja yngsta gullið okkar sem vildi ólm komast heim á herragarðinn okkar, enda var hún nýbúin að breyta herberginu sínu svo nýi tveggja manna sófinn hennar kæmist inn í herbergið og því auðvitað um að gera að vera heima og njóta þess.

Við Erling vorum að hamast hér í allan gærdag að fegra heimilið, tæmdum skrifstofuna og svo málaði Erling það herbergi. Þetta er allt að koma og hugsandi um það hversu mikið við erum búin að gera þessa níu mánuði sem við höfum búið hér þá uni ég mjög glöð við mitt þótt ýmislegt sé eftir að gera. Ég veit líka að Erling heldur áfram þangað til við erum búin með það sem við ætlum að gera að þessu sinni.

Í gærkvöldi ókum við svo til höfðuborgarinnar, tilefnið var leikhúsferð í Borgarleikhúsið. Við fórum með nokkrum sysktinum mínum og þeirra mökum og sáum verkið “Viltu finna milljón”. Þetta var skemmtileg komidía og mér finnst það alltaf mjög skemmtileg tilbreyting í lífinu sjálfu að bregða mér í leikhús. Sjaldan höfum við ekið leiðina til borgarinnar í eins mikilli hálku og þá og þó var hálkan enn verri á heimleiðinni. Mér leist hreinlega ekki á blikuna en Erling er mjög öruggur bílstjóri. Það var líka blindbylur á heiðinni í ofanaálag. Þriðji bíll á undan okkur var nýleg jeppabifreið og bílstjórinn var ung stúlka. Á hringtorginu við bílasöluna á Selfossi missti stúlkan stjórn á bílnum og hafnaði á ljósastaur sem gekk vel inn í mitt grillið að framan og stórskemmdi bílinn en sem betur fer slasaðist enginn.

Það er notalegt að vera inni í hlýju húsinu þegar maður á ekkert erindi út og ég verð fegin þegar þau feðgin koma heim aftur. Eldri dætur okkar ætluðu jafnvel að kíkja í heimsókn í dag ásamt sínu fólki og eins og það er gaman þegar þau koma þá held ég að við ráðleggjum þeim að leggja ekki í ferðalög yfir holt og hæðir í dag.

Vona að þið lesendur mínir eigið góðan og skemmtilegan dag og munið að það er stuttu í vorið með allri sinni fegurð. Lífið er skemmtilegt með öllum sínum blæbrigðum.

Ég er farin fram í eldhús að búa til heitt súkkulaði handa feðginunum mínum. Það er gaman að gleðja þau, þau eru bæði svo frábær.
Þangað til næst........................

miðvikudagur, mars 14, 2007

Hún átti afmælisdag, hún mamma mín


Ég og mamma mín erum vinkonur og það er mér mjög dýrmætt. Það er gott að eiga mömmu sem maður getur komið til hvenær sem er, bankað á dyrnar og ætt inn áður en nokkur kemur til dyra. Svo var það fyrir tveimur dögum að hún fyllti enn eitt árið þessi elska og þótt það trúi því ekki nokkur maður þá er hún orðin 67 ára gömul. Það er samt þannig með hana mömmu að hún yngist upp með hverju árinu og hún er bara alger skvísa og yndisleg. Í einu lagi sem ég heyri oft um jólin er söngvarinn að syngja um mömmu sína og sú mamma kann allt og getur allt og ég vil taka undir með honum og segja það sama um mömmu mína. Ég held að það sé ekkert sem hún getur ekki gert ef hún ætlar sér það og það á jafnt við um hvort það þarf að sauma föt, mála veggi, baka brúðartertu, prjóna hrikalega flottar dúkkur og þannig mætti lengi telja.

Elsku mamma mín, ég vil bara nota tækifærið og senda þér síðbúna afmæliskveðju.
Ég elska þig og er stolt af að vera dóttir þín.

sunnudagur, mars 04, 2007

"Amma ég ætla að gleðja þig"

Ég slökkti á tölvunni í vinnunni kl þrjú á föstudaginn, fór í Smáralind til að ná í afmælisgjafir handa miðdætrum mínum og síðan var ekið til Hafnarfjarðar, beina leið á leikskólann sem Petra Rut og Katrín Tara eru á. Þegar ég kom inn á deildina hennar Petru Rutar þá stökk hún til mín og sagði öllum að núna væri hún að fara heim með ömmu og fengi að sofa hjá henni. Það hafði staðið til alla vikuna að hún og Katrín Tara fengju að koma heim með okkur Erling þennan föstudag og gista eina nótt. Þegar við svo gengum yfir á deildina hennar Katrínar Töru, framhjá fullt af börnum þá sönglaði Petra Rut, viljið þið sjá, þetta er hún amma mín og svo var það endurtekið þangað til við komum til KT. Amman hafði nú lúmskt gaman af þessu:o)

Við komum aðeins við hjá afmælisbörnum dagsins og hittum þar Erling, Hrund og Theu og áttum smá stund saman áður en við Erling keyrðum af stað austur. Katrín Tara var fljót að sofna en Petra Rut söng og spjallaði alla leiðina.

Þegar ég var búin að hátta þær og Petra Rut var komin undir sæng í gestaherberginu og ég var inni hjá Katrínu Töru sem svaf í barnarúmi í okkar herbergi, þá kallar PR á mig og segir, amma ég ætla að gleðja þig. Ég fór til hennar og þá sagði hún; amma, ég elska þig rosalega mikið, alveg svona......(fitjaði upp á nefið).....29 hringi. Svona til útskýringar á hringjunum þá er það hennar mælikvarði að það að elska mikið sé “allan hringinn”, þið skiljið þegar maður réttir út hendurnar eins langt og þær ná til að útskýra hversu mikið maður elskar þá er meira ef það maður myndi ná allan hringinn kringum mann. Þannig að fyrst hún elskaði mig 29 hringi þá var það ekkert smá mikið. Ekkert smá sætt og eins og hún sagði þá gladdi þetta mig mikið.

Karlott kom svo um hádegið í gær og sótti þær svo þær gætu farið með upp á flugvöll að sækja Írisi sem var búin að vera í námsferð í Brussel með lagadeildinni í HR.
Teddi og Kata kíktu svo við eftir hádegið og seinni partinn komu Gylfi og Christina og við áttum skemmtilegt spjall með báðum þessum vinahjónum okkar.

Við elduðum síðbúinn kvöldmat fyrir okkur þrjú sem búum hér í “Húsinu við ána” og áttum svo skemmtileg kvöld saman þar sem við spjölluðum um allt mögulegt. Mér finnst svo dýrmætt þetta samfélag við stelpurnar mínar og það að Hrund skyldi hafa gaman af að eyða laugardagskvöldi heima með foreldrum sínum gladdi okkur foreldranaå mikið.
Kl 23:20 (fengum tímasetningu á mbl) fórum við út í garð og sáum tunglmyrkvann í algeru hámarki því það var akkúrat heiðskýrt smá gat í kringum hann á þeim tíma. Ekkert smá flott að sjá tunglið svona rauðbrúnt á litinn. Þetta er sjaldgæf sjón, gerðist síðast held ég árið 1973.

Í dag ökum við svo til borgarinnar, ætlum að hittast heima hjá Eygló og Bjössa, við og stelpurnar í tilefni afmælanna þeirra Eyglóar og Örnu á föstudaginn. Hlakka mikið til því fjölskyldan manns og sannir vinir er það dýrmætasta sem við eigum ásamt góðri heilsu.
Förum vel með okkur og ræktum samfélagið við þá sem eru manni kærastir.

Vona að þið lesendur mínir eigið frábæra daga, þangað til næst.........

föstudagur, mars 02, 2007

Þær eiga afmæli í dag......

Í dag eru 26 ár síðan dætur mínar, Eygló og Arna, litu dagsins ljós. Þær fæddust með fjögurra mínútna millibili og voru nákvæmlega jafn stórar og hafa síðan alltaf verið mjög samrýmdar og góðar vinkonur.

Eygló og Arna hafa alltaf verið miklir gleðigjafar, yfirleitt alltaf í góðu skapi og geta hlegið saman að atburðum og ýmsu sem engum öðrum finnst fyndið. Þær hafa staðið sig vel í lífsins ólgusjó, staðið af sér storma og siglt inn á lygnan sjó eftir þá.

Ég er afskaplega stolt af þessum stelpum mínum og er ánægð með að fá að vera vinkona þeirra. Ég bið Guð að vaka yfir hverju ykkar spori og veita ykkur það sem hjarta ykkar þráir. Innilega til hamingju með daginn gullin mín, vona að dagurinn verði frábærlega skemmtilegur og við sjáumst sem allra fyrst. Elska ykkur meira en orð fá lýst.......