mánudagur, febrúar 15, 2010

Sara Ísold afmælisprinsessa


Í dag eru sex ár síðan þriðja barnabarn okkar Erling leit dagsins ljós norður á Akureyri. Við höfðum fylgst með framgangi fæðingarinnar alla nóttina í gegnum símtöl frá Örnu og svo var það snemma á sunnudagsmorgni sem við fengum símtalið um að dóttir væri fædd og allt í lagi með þær mæðgur.
Já hún Sara Ísold, lítil, stór vinkona mín er sex ára í dag og er búin að bíða lengi eftir þessum degi því þá byrjar hún í skóla:o) Sara Ísold er mjög dugleg stelpa og ákveðin, löngu búin að læra stafina og getur lesið mjög margt. Hún er kát og skemmtileg en ef henni mislíkar eitthvað þá hikar hún ekki við að láta okkur vita af því. Brosið hennar heillar mann algerlega og blikið í augunum er oft ómótstæðilegt.
Afmælisveislan hennar var haldin hér í Húsinu við ána í gær og skemmti hún sér konunglega og virkilega naut athyglinnar. Hún var með búningaþema og fannst gaman þegar við amman og afinn klæddum okkur upp í egypsku búningana sem við eigum. Hennar helsta áhugamál eru hestar og svo er barbie að komast nokkuð nálægt því að vera líka í uppáhaldi.
Elsku Sara Ísold mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inní líf okkar og ég elska þig meira en orð fá lýst. Ég er viss um að þú verður dekruð í dag í tilefni dagsins og njóttu þess í botn.