miðvikudagur, október 29, 2008

Til umhugsunar...

Gerða mágkona mín sendi mér þetta í dag;


Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því að hann fengi áframhaldandi styrk.
En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru málsins á sama hátt og við hér heima.
En ef reynt væri að útskýra hið Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið á eftirfarandi nótum.

*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!
Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?
*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.
Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þið þá ekki þak yfir höfuðið lengur!
*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir á Íslandi.
En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og heilbrigðiskerfið lamað?
*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.
Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki konur.
*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður og konur ekki síður en karlar.
Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við nágrannaþjóðir ykkar.
*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að fara í stríð.
Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.
*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.
Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf yfirfullir. Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?
*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á nýlegum bílum.
Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.
*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.
Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?
*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.
Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.

Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?

Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta ímyndaða samtal,ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma. Fé hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.

sunnudagur, október 26, 2008

Til hamingju með daginn elskan mín

Þegar ég gifti mig fyrir 30 árum síðan var ég ákaflega hamingjusöm ung stúlka. Ég hafði kynnst frábærum strák sem að sögn foreldra minna bauð af sér góðan þokka og það var jafn mikilvægt þá og núna, skil það samt enn betur þegar ég sjálf hef verið í sporum foreldra minna og verið kynnt fyrir tilvonandi tengdasonum mínum.

Erling hefur svo sannarlega staðið undir væntingum mínum og langt umfram það, ég er í dag enn hamingjusamari en ég var á brúðkaupsdaginn okkar, við erum svo lánsöm að vera bestu vinir, getum setið endalaust í límsófunum okkar og spjallað um allt milli himins og jarðar. Við erum meira en bara vinir hann er nefnilega sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig og dekra á allan mögulega hátt.

Afkomendahópurinn stækkar sífellt og eins og áður sagði hafa tengdasynir bæst í hópinn. Dæturnar eru 4 og barnabörnin 7, elsta er 6 ára og sú yngsta aðeins 3ja vikna. Við elskum að ferðast og í vor héldum við uppá 30 ára brúðkaupsafmælið okkar og fórum í frábæra ferð til Egyptalands og mun sú ferð aldrei gleymast. Þess utan á Erling tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars.....ekki síst á þessum kreppudögum og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.

Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í einni bloggfærslu og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

Til hamingju með daginn flotti maðurinn minn.....

þriðjudagur, október 21, 2008

Hver er sá heppni....

...sem fær að kaupa hornsvefnsófann okkar Erlings? Við erum sem sagt að selja mjög flottan, lítið notaðan og vel með farinn hornsvefnsófa. Alveg tilvalinn í gestaherbergið eða sumarhúsið...
Fyrstur kemur, fyrstur fær.....kostar nýr 150.000 en þessi kostar bara 55.000 en svo má auðvitað gera tilboð.....

sunnudagur, október 19, 2008

Rólegheit og góðir dagar...

Eina hljóðið sem heyrist núna í Húsinu við ána er í þvottavélinni en hún er að vinna verkin sín. Ég hef verið ein heima alla helgina fyrir utan að Hrund kom heim í nótt úr Reykjavík en er farin aftur til borgarinnar. Erling og Hlynur eru á Fitinni í sinni árlegu bræðraferð. Þótt ég elski fólkið mitt meira en orð fá lýst þá finnst mér líka gott að eiga tíma bara með sjálfri mér. Smá tími í gær fór í tiltekt á húsinu og svo skrapp ég aðeins í kaffi til Tedda og Kötu, alltaf gaman að kíkja við hjá þeim og þegar ég var nýkomin þaðan var bankað og úti voru Christina og Auja, vinkonur mínar úr Fljótshlíðinni. Við áttum saman skemmtilegt samfélag áður en þær héldu svo heim á leið. Aldrei þessu vant kveikti ég á sjónvarpinu og horfði á Skjá einn fram á nótt. Sá m.a. einn leiðinlegasta þátt sem ég hef séð, Singing bee, úff skil ekki hvernig ég nennti að horfa á hann allan...

Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Auðvitað fylgist ég með umræðunni í þjóðfélaginu en læt ekki bölmóð og svartsýni hafa áhrif á mig. Það eru mörg tækifæri í þessu skrýtna ástandi á landinu okkar fagra og um að gera að nota þau. Ég er stolt af þjóðerni mínu þótt ég sé ekki ánægð með framgöngu þessara ríku auðmanna sem hafa komið okkur í þessar aðstæður. Landið mitt er alltaf fallegasta land í heimi og enginn tekur frá mér náttúruna sem blasir við út um gluggann minn, yndislegu sólarupprásina á morgnana eða tunglskinið sem speglast svo fallega í ánni seint á kvöldin. Það tekur heldur enginn frá mér ástina eða fjölskylduna mína og það er það sem mestu máli skiptir í þessari orrahríð. Það kostar ekkert að brosa til samferðamanna minna, vera hughreystandi og uppörvandi eins og kostur er. Ég veit að bakvið skýin er sólin og að öll él birtir upp um síðir. Á veturnar verður stundum ófært vegna snjókomu og óveðurs og þá er bara að vera rólegur heima við og bíða af sér veðrið og svo koma snjóruðningstækin og moka frá og leiðin verður örugg og greið. Það sama gildir núna, sumar leiðir eru ófærar og við getum ekki farið allt sem við viljum eða gert allt sem við viljum en við skulum bara vera róleg þangað til leiðir opnast og við getum haldið ferðinni áfram.

Að allt öðru, um síðustu helgi fluttum við Erling dótið okkar yfir í stærri kofann á Föðurlandi og það var bara gaman. Auðvitað er ekki allt orðið eins og við viljum en samt vel íveruhæft. Erling er búinn að tengja kamínuna og mikið var notalegt að sitja í sófanum og horfa á eldinn leika sér innan við glerið. Hansi, Auja, Gylfi og Christina kíktu á okkur og laugardagskvöldið var svo skemmtilegt í góðra vina hópi. Við fórum svo heim í hádeginu á sunnudegi því við vorum búin að bjóða litlu fjölskyldunum okkar í heimsókn, það var svo langt síðan við höfðum verið öll saman en við Erling leggjum mikið upp úr samfélagi við krakkana okkar. Lítil stúlka, Erla Rakel, aðeins 7 daga gömul var þá að fara í sitt fyrst ferðalag austur yfir fjöllin tvö, gaman að þvi.

Framundan er svo skemmtilegt síðdegi hjá mér, ég á von á Erling heim á eftir með allan veiðiaflann og svo er heil vinnuvika framundan með öllum sínum tækifærum og upplifunum. Njótið daganna lesendur mínir og munið að allt það besta í lífinu er ókeypis.......Þangað til næst

föstudagur, október 17, 2008

Þórey Erla afmælisbarn

Gat ekki valið mynd og set því bara báðar :o)
Þar sem ég er orðin sjö barna amma þá er ekki skrýtið að það séu oft afmælisblogg á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er að segja.

Hún Þórey Erla, næst yngsta prinsessan mín á afmæli í dag, hún er orðin þriggja ára daman. Það er alveg merkilegt hvað svona lítil mannvera á auðvelt með að snúa stórum mannverum eins og mér um fingur sér og hefur ekkert fyrir því. Brosið hennar, stóru augun hennar og þegar hún kemur til manns og smellir kossi á mann með stórum smelli, allt þetta er algerlega ómótstæðilegt. Þórey Erla er mjög geðgóð og veit alveg hvað hún vill og að eigin mati þá getur hún allt. Algert yndi.

Elsku Þórey Erla mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra og ég bið Guð að gæta þín hvar sem þú ferð

sunnudagur, október 05, 2008

Erla Rakel Björnsdóttir

Stoltir foreldrar

Yndisleg en ber enn merki eftir tangirnar

Nöfnurnar
Við Erling búum við mikið barnalán og í morgun bættist enn í ört vaxandi hópinn okkar. Rúmlega 11 í morgun hringdi síminn og þreytt rödd dóttur minnar sagði: „Ég er orðin mamma, það var stúlka og hún er fullkomin og fallegust“. Hún fékk strax nafnið Erla Rakel, rúmar 16 merkur og 52 cm með mikið dökkt hár. Fæðingin gekk ekki alveg nógu vel og eftir mjög erfiða nótt hjá mömmunni og auðvitað pabbanum líka því það er ekki auðvelt að horfa á sársaukann hjá maka sínum og geta ekkert gert, þá var litla daman sótt með töngum. Þeim mæðgum heilsast samt vel en þurfa að hvíla sig vel og jafna sig á þessum átökum. Erla Rakel er Guðs gjöf og það má með sanni segja að Eygló og Bjössi séu búin að bíða þó nokkuð lengi eftir henni. Já það ríkir mikil gleði hér í Húsinu við ána og við fórum í bæinn áðan og kíktum á litlu hamingjusömu fjölskylduna okkar. Ég er bæði hrærð og glöð fyrir þann heiður sem foreldrar hennar veita mér með því að velja henni nafnið mitt en þetta er í þriðja sinn sem ég er þess heiðurs aðnjótandi.
Njótið lífsins vinir...þangað til næst....