föstudagur, september 30, 2005

TAKK FYRIR....

Ég sem hélt að ég slyppi en nei, nei, bara búið að klukka mig og ekki bara einu sinni eða tvisvar, nei þrisvar. Hér koma 20 gagnslausar og algerlega tilgangslausar staðreyndir um mig, geri 20 svona til vonar og vara ef einhverjum skyldi detta í hug að klukka mig einu sinni enn.

1. Ég er dekurrófa, það er allt látið eftir mér heima hjá mér og ég kann alveg svakalega vel við það.
2. Ég fer ekki í rússíbana. Fór einu sinni í einn alveg hræðilegan, það var í minni fyrstu utanlandsferð og ég kallaði ýmist á mömmu eða Guð allan tímann og hét því að ef ég slyppi lifandi úr þessu þá færi ég ekki aftur. Hef staðið við það núna í 23 ár.
3. Mér finnst pallaleikfimi hræðilega leiðinleg. Að hoppa upp á palla og niður aftur, eiga svo í ofanálag að gera flókin spor í leiðinni, nei það er ekki fyrir mig, ég ruglast svo mikið.
4. Ég HATA geitunga. Ég hef oft skemmt samferðafólki mínu með tilþrifum þegar þessi viðbjóðslegu kvikindi gerast svo djörf að bjóða sér inn þar sem ég er viðstödd. Ég vil þeim allt illt.
5. Það er kisa á heimilinu sem hún Hrund á og ég er mjög ánægð með það. Ég hefði reyndar ekki trúað því að mér ætti eftir að líka vel að hafa kött hér heima en svo er hún Skvísa bara alveg meiriháttar og ég myndi sakna hennar ef hún færi.
6. Mér finnst gaman að dansa og er að hugsa um að drífa mig í að læra dans og hef reyndar fengið samþykki frá Erling að við förum saman að læra dans þegar hann er búinn með skólann en fyrr er víst ekki tími hjá laganemanum nema til að lesa þessar leiðinda skruddur.
7. Ef ég ætti að velja á milli þess að fá aldrei framar ís eða sælgæti myndi ég hiklaust fórna namminu. Ís er svoooooo góður.
8. Ég get helst ekki verið með húfu því ég þoli ekki að eitthvað sé yfir eyrunum á mér.
9. Ég safna gömlum antikbollum, vil helst hafa þá litla og með sætri mynd á.
10. Ég er með alveg hrikalega mikla innilokunarkennd, gæti örugglega aldrei farið í svona rannsókn þar sem manni er rennt inn í hólk og svo á maður að vera grafkyrr MJÖG LENGI eða í svona hálftíma. Svo væri ég líka hrædd um að ég myndi festast þar inni :o)
11. Ég elska að sofa út um helgar, dætur mínar vita til dæmis að það þýðir ekki að hringja í mig fyrir hádegi þá daga. Þær skilja þetta reyndar ekki en hvað get ég gert að því?
12. Bleikur er uppáhaldsliturinn minn enda klæðir hann mig bara nokkuð vel.
13. Skemmtilegustu búðir sem ég fer í eru gjafavörubúðir og svo klikkar ekki að skoða (og kaupa) amerískt jóladót.
14. Ég veit hvað rómantík er. Þegar við Erling vorum á Mallorka árið 2000 þá var það eitt kvöldið eftir ánægjulegan kvöldverð á veitingahúsi að við röltum upp á hótel en komum við á ströndinni. Við löbbuðum niður í fjöru, ég fór úr skónum, lyfti pilsinu aðeins upp og óð í grunnri fjörunni. Það var tunglskin og þá spurði Erling mig að því hvað rómantík væri. Alveg ósjálfrátt þá rann svarið út úr munni mínum og Erling var bara ánægður með svarið.......
15. Ég er alveg rosalega ópólitísk og reyndar leiðist mér alveg svakalega að hlusta á pólitískar umræður.
16. Ég er dugleg að rækta garðinn minn og fjölskylduna mína.
17. Skemmtilegasta vinna sem ég veit er að vinna með tölur, skýrslur og að koma skipulagi á hluti sem eru í óreiðu.
18. Ég er mikið jólabarn og þegar aðventan byrjar þá skipti ég um hluti á heimilinu, pakka niður skrautmunum og tek upp allt fallega jóladótið mitt. Ég elska það að gera jólalegt. Ég eyði aðventunni ekki í brjáluð þrif heldur nýt ég þess að vera heima með skemmtilegu fjölskyldunni minni, kveikja á kertum og bera fram rjúkandi heitt súkkulaði með þeyttum rjóma. Svo setur maður flottan jóladisk undir geislann.
19. Eftir því sem ég hugsa meira um setningar eins og; Hamingjan er ekki hlutir, hún er heimagerð og: Hamingjan er ekki að fá það sem maður vill heldur að vilja það sem maður hefur, því betur líður mér því þá geri ég mér betur grein fyrir því hvað maður hefur mikið um það að segja sjálfur hvernig manni líður.
20. Þessi staðreynd er reyndar hvorki gagnslaus eða tilgangslaus en það er bara einfaldlega staðreynd að ég á besta mann í heimi, mér finnst hann Erling alveg frábær og flottastur og hann hefur lag á að láta mér líða eins og drottningu og hann getur alltaf komið mér í skilning um hvernig hlutirnir eru þegar ég sé þá í vitlausu ljósi. Framkoma hans er þannig að ég veit alltaf að ég er elskuð. Ég einfaldlega elska þennan mann minn alveg svakalega mikið.

Þá læt ég þessu lokið í bili og hér með klukka ég Heiðar mág minn og Birgir Stein frænda minn.

laugardagur, september 24, 2005

"Þú ert fullkomin að utan…….

……..en þú þarft að styrkja þig að innan".
Það verður aldrei um mig sagt að ég sé fullkomin að utan og ekki einu sinni að ég sé nokkuð þokkalega útlítandi að utan enda var þessi setning ekki sögð um mig heldur sagði lýtalæknirinn þessi orð við ofurfyrirsætuna sem leitaði til hans og vildi gjarnan leggjast undir hnífinn hjá honum til að reyna að auka sjálfstraustið. Merkilegt. Maður skyldi nú halda að ofurfyrirsætur sem hafa atvinnu af því að láta taka af sér myndir, því þær líta svo vel út, skuli bæði hugsa og framkvæma það að fara til lýtalæknis út af útlitinu. Þær eru þá eftir allt á sama stað og við þessar venjulegu konur sem eru sjaldan eða aldrei ánægðar með sig? Þegar konur hittast þá er nánast undantekningarlaust farið að tala um aukakíló, hrukkur, hárið ýmist of slétt eða of liðað og svo mætti lengi telja. Ég held að við konur séum oft ekki nógu duglegar að rækta okkar innri mann, huga að andlegri heilsu okkar eða sinna því sem okkur finnst skemmtilegt og við getum ekki alltaf kennt tímaleysi um. Ef ég tek sjálfa mig sem dæmi þá hef ég allan heimsins tíma til að gera það sem mig langar til. Heimilið er létt, við Erling erum bara tvö með yngstu dekurdolluna okkar. Eftir vinnu á daginn þá vil ég helst flýta mér heim til að fara að gera eitthvað þar, tel mér trú um að ég hafi ekki tíma til að fara í ræktina, hef ekki tíma til að kíkja til vinkvenna minna eða rölta aðeins í búðir. Þetta er auðvitað mesta bull því þegar ég kem heim þá er ég ekki ofvirk við að laga til og Erling eldar alltaf kvöldmatinn þannig að ekki þarf ég að hugsa um það heldur. Ég fór og hitti heimilislækninn minn í vikunni og talið barst meðal annars að breytingarskeiðinu margfræga. Hún sagði mér að flestar konur finna ekki neitt fyrir þessu tímabili líkamlega séð en hinsvegar verði margar konur daprar og hætta að finna tilgang með lífinu en það sé ekki síst vegna ytri aðstæðna sem breytast hjá konum. Börnin fara að fara að heiman, hjón hafa ekki sömu áhugamál þótt nú sé meiri tími til að sinna þeim en áður og konunni fer að finnast hún jafnvel óþörf á heimilinu. Við konur verðum að vera duglegar að rækta okkar innri mann og þar þarf hver og ein að finna þá leið sem henni hentar en ég held að í framhaldinu þá smátt og smátt styrkist sjálfsmynd okkar og það hefur áhrif á útlit okkar. Okkur fer að líða betur, við verðum glaðari, berum okkur betur, erum duglegri að hafa okkur til og pælum meira í hvernig fatnaði við erum og svo mætti lengi telja.
Lífið tekur oft skrýtnar beygjur sem við gerum ekki alltaf ráð fyrir og það á jafnt við um mig og aðra og án nokkurs fyrirvara var ég var sett í slíka beygju fyrir fimm vikum. Beygjan hefur valdið mér andvökunóttum, ég upplifði höfnun og hef staðið mig að undarlegri depurð af hennar völdum. Það er mjög ólíkt mér að vera döpur og ég ræddi það aðeins við lækninn minn og ráðið hennar var; drífðu þig aftur í líkamsræktina. Hún sagði mér að góðar þolæfingar úti eða inni á hlaupabretti gefi sömu eða jafnvel betri raun en þunglyndislyf, það gera efnin sem líkaminn leysir sjálfur út við áreynslu.
Já við erum þá fullkomin sköpun eftir allt saman.
Mig langar að reyna að vera duglegri að gefa mér tíma fyrir sjálfa mig, rækta vinkonur mínar sem ég veit að ég hef vanrækt, gott spjall við bestu vinkonuna er á við marga tíma hjá sálfræðingi þó svo að ég viti að stundum þurfum við á þeirra faghjálp að halda. Hvað beygjuna varðar þá er það nú þannig að þegar einar dyr lokast þá er pottþétt að Guð opnar aðrar dyr og þannig verður það líka hjá mér því ég er undir náð hans, hún er ný á hverjum degi og nægir mér.

föstudagur, september 23, 2005

Diddú er frábær

Það er vægt til orða tekið að segja að hún Diddú hafi heillað tónleikagesti uppúr skónum í kvöld. Fólkið margstóð upp til að hylla hana í lok tónleikanna og hún var einnig margklöppuð upp. Það er reyndar engin furða því hún er alveg einstök. Hún tók hverja aríuna eftir aðra og það var magnað að sjá hana leika upptrekkta dúkku um leið og hún söng og tvisvar þá lék hún það að það var að hægjast á "dúkkunni" þangað til það hætti að heyrast í henni og hún beygði sig niður. Þá stökk fyrst einn fiðluleikarinn til hennar og "trekkti" hana upp þangað til það réttist úr henni og hún hélt áfram að syngja "upptrekkt" og fín. Svo gerðist það aftur að hún var ekki lengur upptrekkt og þá var það hljómsveitarstjórinn sem "trekkti" hana upp. Þetta var frábært.
Í einu atriðinu með sinfóníuhljómsveitinni þá lokaði ég bara augunum og naut þess í botn að hlusta á þetta framúrskarandi tónlistarfólk leika listir sínar með hljóðfærin. Diddú á engan sinn líkan að mínu mati og það er öruggt að við mæðgurnar áttum mjög skemmtilega kvöldstund saman í Háskólabíói og ég verð að segja að það gladdi mig að vera þarna með 16 ára gamalli dóttur minni og fylgjast með henni njóta tónlistarveislunnar og sjá "idolið" sitt fagna 30 ára söngafmæli sínu. Hrundin mín, takk fyrir samveruna, þetta var mjög gaman.
Þegar við svo komum heim var Eygló hálf sofandi í sófanum enda á hún að mæta í vinnuna kl 8 í fyrramálið en við Hrund getum sofið til kl tíu. Við mæðgurnar þrjár kíktum á upptöku af leitinni að piparsveininum sem fram fer á Skjá einum. Sitt sýnist hverjum um þessa þætti en ég er allavega nógu forvitin að kíkja og sjá hvort ég þekki nú ekki einhvern. Ég er nú svo gömul að ég þekki bara afa einnar stelpunnar sem er að reyna að fá að taka þátt, pælið í því, þekki hana ekki, ekki foreldra hennar heldur afa hennar!!!!! Svo sá ég að einn að þeim sem vilja verða "Piparsveinninn" er í bekk með Erling í HR.........Nú er ég að fara að hitta koddann minn, minni ykkur lesendur mínir á að njóta lífsins, það er svo skemmtilegt............

föstudagur, september 16, 2005

Dýraskólinn

Eitt sinn fyrir langa löngu ákváðu nokkur dýr að taka sig saman
og drýgja einhverja hetjudáð til þess að mæta áskorun nútímans.
Þau voru sammála um að farsælasta leiðin væri að stofna skóla.
Dýrin tóku upp virka námskrá
sem samanstóð af hlaupum, flugi, sundi og klifri.
Námskráin tók yfir allar athafnir dýranna og
margskonar líkamlega færni þeirra.
Til þess að auðvelda umsjón með námskránni og gæta fylsta réttlætis,
þurftu öll dýrin að leggja stund á allar námsgreinarnar og tóku
ávallt samræmt próf í greinunum.

Öndin var frábær í sundi, meira að segja betri en sjálfur kennarinn,
en hún náði naumlega fullnægjandi einkunn í flugi
og var afar lélegur hlaupari.
Þar sem hún hljóp of hægt var hún látin sleppa sundi
og æfa hlaup í staðinn í sérstökum hlaupsérkennslutímum.
Þessu var haldið til streitu þar til sundfitjaðir fætur hennar
voru orðnir svo sárir að hún átti erfitt með að synda
og varð því aðeins meðalnemandi í sundi í lok annar.
En meðaltal var viðunandi í skólanum svo enginn kippti sér upp við það.
Nema öndin.

Kanínan var í byrjun skólagöngunnar best í hlaupum,
en fékk fljótlega taugaáfall sökum mikils álags við að bæta sig í sundi.
Kanínur og sund eiga illa saman.

Íkorninn var frábær í klifri þar til hann smám saman missti sjálfstraustið
vegna flugtímanna. Kennarinn vildi nefnilega að hann hæfi sig á loft
frá jörðu í stað þess að stökkva af trjákrónunum og niður til jarðar.
Hann fékk líka vöðvakrampa af of mikilli áreynslu.
Í einkunn fékk hann síðan C í klifri og D í hlaupum.

Örninn var vandræðafugl. Reynt var aga hann, en með engum árangri.
Í klifurtímum var hann fyrstur allra að komast efst upp í tréð,
en þrjóskaðist við að nota sína eigin aðferð til að komast þangað.
Hann neitaði algjörlega að nota þá aðferð sem ætlast var til af skólanum
og lenti útí kuldanum.


Í lok skólaársins var það svo kamelljón sem synti allvel
og gat líka hlaupið, klifrað og flogið dálítið
sem fékk hæstu meðaleinkunn og dúxaði þar með í skólanum.
(Höfundur óþekktur)
Hvað lærdóm drögum við af þessari sögu? Það væri gaman að fá umræður hér um það svo látið nú sjást frá ykkur skrif og skoðanir.......

þriðjudagur, september 13, 2005

"Ég hef lært"

Þegar ég var yngri, vóg ég nokkrum kílóum minna.
Ég þurfti aldrei að halda maganum inni þegar ég fór í þröngan kjól.
En nú, þegar ég er orðin eldri, hefur líkami minn brotist til frelsis.
Og um þann hluta hans sem einu sinni var mitti,
eru þægileg teygjanleg efni.
Ítölsku skórnir þurfa að vera tveim númerum stærri en áður,
ef ég kem þá fótunum yfirleitt í þá,
og skrefbótin á sokkabuxunum sígur allt of oft niður undir hné.

En ég hef einnig lært að það skiptir engu máli hvað gerist,
eða hversu dimmt virðist yfir öllu í dag.
Lífið heldur áfram og á morgun kemur betri dagur.

Ég hef lært, að það segir mikið til um manneskjuna
hvernig hún bregst við þessum þremur hlutum
1. Rigningardegi 2. Týndum farangri 3. Flæktu jólatrésskrauti

Ég hef lært, að óháð því hvernig samband okkar er við foreldra okkar,
komum við til með að sakna þeirra, þegar þau eru horfin á braut.

Ég hef lært, að það að verða sér úti um peninga og hluti,
er ekki það sama og að skapa sér líf.

Ég hef lært, að af og til býður lífið okkur upp á annað tækifæri.

Ég hef lært, að maður getur ekki farið í gegnum lífið
með hornabolta-hanska á báðum höndum.
Öðru hvoru verður maður líka að gefa boltann til baka.

Ég hef lært, að þegar ég ákveð eitthvað beint út frá hjartanu,
þá hef ég yfirleitt hitt á hina einu réttu ákvörðun.

Ég hef lært, að þó að ég sé sár, þurfi ég ekki að særa aðra.

Ég hef lært, að á hverjum degi eigi maður að rétta öðrum höndina.
Allir þurfa hlýjar hugsanir og vinalegt klapp á axlirnar.

Ég hef lært, að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Ég hef lært, að það sem þú segir og gerir vill gleymast,
en fólk gleymir ekki hvernig þú lætur því líða.


"Stolið" af netinu

sunnudagur, september 11, 2005

Enn er afmæli...

....Karlott tengdasonur minn, annar af tveimur, á afmæli í dag. Hann er kominn á fertugsaldurinn og mér finnst það reyndar alveg ótrúlegt að jafn ung kona og ég eigi svona rosalega gamlan tengdason :o) Karlott kom inn í líf okkar árið 2000 og þá kynntist ég í fyrsta skipti karlmanni sem getur talað meira en sumar konur :o) Ég kunni strax vel við hann og nánari kynni hafa leitt í ljós að hann er frábær og ljúfur strákur. Hann er eins og tengdapabbi sinn með ólæknandi veiðidellu og ég held reyndar að hvorugur þeirra vilji læknast af því. Við vorum í mikilli veislu heima hjá þeim í gærkvöldi og þar rifjuðu foreldrar hans og bróðir upp sögur af honum þegar hann var strákpatti vestur á Ísafirði og höfðum við öll gaman af þeim sögum. Þeir hafa greinilega verið prakkarar bræðurnir en verið svo heppnir að eiga góða foreldra sem bæði leyfðu þeim að njóta sín og kenndu þeim á lífið. Karlott minn, til hamingju með daginn og ég bið Guð að blessa þig ríkulega og gangi þér vel við veiðarnar og í vetur þegar þú sérð Írisi ekki vegna anna við námsbækurnar þá geturðu alltaf sest niður og hnýtt flugur.

föstudagur, september 09, 2005

"Spam"

Það hefur aðeins borið á spam - kommentum á síðum blogspot. Þeir hafa smíðað gildru sem heitir "word verification". Það virkar þannig að ef þú ætlar að kommenta hjá mér þarftu bara að herma eftir nokkrum stöfum sem birtast neðst á síðunni þegar þú gefur komment. Svo endilega haldið áfram að segja mér skoðanir ykkar á því sem ég skrifa hverju sinni. Það er svo gaman.
Eigið frábæran dag og bráðum koma ný skrif frá mér. Þangað til, lifið lífinu lifandi........

mánudagur, september 05, 2005

"Fólk eldra en 30 ára ætti að vera dáið"

Ég var að spjalla um daginn við vin minn um ,,þá gömlu góðu daga”
og við komumst eiginlega að því að fólk
sem er eldra en 30 ára ætti í rauninni að vera dáið.
Já, samkvæmt löggjöfum og skriffinnum nútímans ættu þau okkar
sem voru börn á 5. 6. 7. og fyrrihluta 8. áratugar
síðustu aldar ekki að hafa lifað af.
Barnarúmin okkar voru máluð með blýmálningu.
Það var engin barnalæsing á lyfjaglösum, hurðum eða skápum
og þegar við hjóluðum notaði ekkert okkar hjálm.
Sem börn sátum við í bílum án öryggisbelta eða –púða.
Að fá far á vörubílspalli var sérlega gaman.
Við borðuðum brauð með smjöri, drukkum gos með sykri,
en fæst okkar lentu í offituvandamálum, því við vorum alltaf úti að leika.
Við deildum gjarnan gosflösku með öðrum
og allir drukku úr sömu flösku án þess að nokkur létist.
Við vörðum löngum stundum í að byggja kassabíl úr dóti og drasli
og þutum á honum niður brekkuna,
bara til að uppgötva að við höfðum gleymt bremsunum.
Eftir nokkrar veltur lærðum við að leysa vandamálið.
Við fórum að heiman snemma á morgnana til að leika okkur
allan daginn og komum aftur heim í kvöldmat.
Enginn hafði möguleika á að ná í okkur allan daginn.
Engir farsímar. Ha, engir farsímar? Óhugsandi!
Við áttum ekki Playstation, Nintendo 64, X-Box,
enga tölvuleiki ekki fjölmargar rásir í sjónvarpinu, ekki vídeó,
ekki gervihnattasjónvarp, ekki heimbíó, farsíma,
heimilistölvu eða spjallrásir á Internetinu.
Við eignuðumst vini! Við fórum bara út og fundum þá!
Við duttum í skurði, skárum okkur, fótbrotnuðum,
brutum tennur, en enginn var kærður fyrir þessi óhöpp.
Þetta voru jú óhöpp. Það var ekki hægt að kenna neinum um –
nema okkur sjálfum. Manstu eftir óhappi?
Við slógumst, urðum blá og marin og lærðum að komast yfir það.
Við lékum okkur í nýbyggingum,
fundum upp leiki með naglaspýtum og drasli og átum maðka.
Þrátt fyrir aðvaranir voru það ekki mörg augu sem duttu út
og ekki lifðu maðkarnir inni í okkur til eilífðar.
Við hjóluðum eða gengum hvert til annars, bönkuðum á dyrnar,
gengum inn og létum eins og heima hjá okkur.
Við lékum okkur úti eftir kvöldmat, fórum í fallin spýta,
eina krónu, eltingaleik eða feluleik, svo ekki sé minnst á löggu og bófa.
Það þurfti engar félagsmiðstöðvar eða neina til að stjórna okkur.
Við stjórnuðum okkur sjálf.
Sumir nemendur voru ekki eins glúrnir og aðrir, þeir lentu í tossabekk.
Hræðilegt. En þeir lifðu af.
Það var farið í þrjúbíó á sunnudögum og Andrés Önd var á dönsku,
sem hefur hjálpað mörgum námsmanninum
að fóta sig í norðurlandamálunum seinna meir.
Það var jú ýmislegt annað sagt en Gisp! og Hva? í þeim.
Þessi kynslóð hefur alið af sér fólk sem er tilbúið að taka áhættu,
góð að leysa vandamál og bestu fjárfestar nokkru sinni.
Síðustu 50 ár hafa verið sprengja nýsköpunar og nýrra hugmynda.
Við áttum frelsi, sigra, ósigra og ábyrgð
og við lærðum að takast á við það allt saman.
Við sem ólumst upp áður en löggjafi og stjórnvöld
settu lög og reglur um líf okkar -
sem er okkur sjálfum fyrir bestu.
Við áttum gott líf!

Gunnar Kr. Sigurjónsson,
"stolið" úr Kópavogspóstinum