miðvikudagur, október 26, 2011

Hann á afmæli í dag




Kalda vetrarnótt fyrir 52 árum fæddist hann á eftir hæðinni í húsi foreldra sinna. Hann var númer sjö í röðinni, fyrir voru 2 systur og 4 bræður og fjórum árum seinna fæddist svo yngsti bróðirinn. Þótt ekki sé lengra síðan þá tíðkaðist að konur fæddu börnin heima og sinntu jafnt út- sem innistörfum í hvaða veðri sem var, alla vega í sveitinni.

Hann var bara 16 ára þegar við kynntumst með mikið krullað sitt og strítt hár. Hann átti líka skellinöðru, svaka töffari og ég minnist þess þegar við Barbro vinkona fórum í helgarheimsóknir austur í Kot og fengur að vera aftan á til skiptis. Ég var orðin skotin í honum og ég held að hann hafi þá líka verið skotinn í mér. Pabbi og mamma samþykktu hann og daginn sem ég varð sautján trúlofuðum við okkur og okkur fannst við fullorðin. Lífið var alveg stórskemmtilegt og öll tækifæri notuð til að gera það enn skemmtilegra. Í dag, 33 árum seinna finnst okkur lífið enn skemmtilegra en þá. Við erum enn betri vinir og eyðum miklum tíma saman.

Afkomendahópurinn stækkar stöðugt, dæturnar eru fjórar, tengdasynirnir þrír, barnabörnin eru níu og eitt á leiðinni.

Já hann Erling minn fagnar í dag afmælinu sínu í 52. sinn. Síða krullaða hárið hefur að vísu löngu sagt skilið við hann og vangarnir eru orðnir eilítið silfraðir, barnabörnin okkar halda því reyndar fram að afi þeirra sé ekki með hár :) en þessi sjarmör nær ennþá að heilla ömmu þeira algerlega upp úr skónum. Ég er ákaflega stolt af honum, elska hann meira en hægt er að lýsa í fáum orðum og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman svo við getum gengið saman inn í sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.




mánudagur, október 17, 2011

Þórey Erla afmælisskvísa



Þar sem ég er níu barna amma þá er ekki skrýtið að það séu oft afmælisskrif á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er aðsegja í fáum orðum.

Í dag fagnar hún Þórey Erla sex ára afmælinu sínu og hún er sko búin að bíða eftir því. Hún er byrjuð í skóla og orðin fluglæs og skemmtir sér vel í skólanu, Svo er hún líka orðin nógu gömul til að geta farið í flugvél með systrum sínum að heimsækja ömmu og afa á Akureyri og það er sko spennandi skal ég segja ykkur. Þórey Erla er mjög geðgóð en veit samt alveg hvað húnvill og svo hefur hún ekkert fyrir því að vegja okkur afa sínum um fingur sér. Brosið hennar og stóru augun þegar hún kemur og smellir á mann kossi er algerlega ómótstæðilegt. Við erum góðar vinkonur og það er gaman þegar hún hringir og spyr hvort þau megi koma í heimsókn hingað á Selfoss. Hún er reyndar meiri afastelpa en ömmustelpa og ef hún hittir mig eina þá spyr hún alltaf um afa sinn áður en hún heilsar þetta litla yndigull. Hún er alger Guðs gjöf inn í líf okkar.


Elsku Þórey Erla okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að þú verður dekruð í dag svo njóttu þess. Við elskum þig marga marga hringi, allan hringinn...

þriðjudagur, október 04, 2011

Erla Rakel afmælisstelpa...

Það eru þrjú ár síðan hún fæddist þessi litla ömmustelpa sem á afmæli í dag. Við sátum í límsófanum þann sunnudagsmorgun og biðum frétta því Eygló og Bjössi voru búin að vera alla nóttina á fæðingardeildinni og svo loksins komu fréttirnar að hún væri fædd. Já hún Erla Rakel á sko afmæli í dag. Um daginn sagði mamma hennar við hana að hún væri yndigull en hún var fljót að leiðrétta það og sagði mömmu sinni að hún væri stelpa, ekki yndigull. Erla Rakel er dugleg stelpa sem veit alveg hvað hún vill. Hún elskar litla bróður sinn og er afar góð við hann. Hún syngur heilmikið og spjallar við mann EF hún vill það sjálf, annars ekki :) Hún er líka mikil afastelpa og ef hún sér bara mig þá spyr hún eftir honum. Hún unir sér vel á leikskólanum sínum er dugleg þar.


Elsku Erla Rakel, við afi þinn óskum þér til hamingju með daginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig allan hringinn, marga hringi. Láttu nú dekra við þig í allan dag og við hlökkum til að koma í veisluna þína