fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Súrmjólk og fleira skemmtilegt.......

Við fórum fyrr heim í dag en oft áður því veðurspáin var svo slæm. Erling og Hrund sóttu mig í vinnuna um hálffimmleytið og svo keyrðum við Hrund heim til Örnu en þar gistir skvísan í nótt.

Það var svona þokkalegt veður á heiðinni en þó nokkuð hvasst samt. Í Hveragerði var stoppað til að gera innkaup í Bónus. Erling skildi mig eftir þar og skrapp út á bensínstöð á meðan. Ég tíndi í körfuna það sem ég taldi að vanhagaði um heima, svona sitt lítið af hverju, keypti meira að segja súrmjólk aldrei þessu vant, held að súrmjólk hafi ekki áður komið með mér heim í Húsið við ána. Jæja, hvað um það, ég hélt áfram för minni eftir göngum verslunarinnar og stundum skildi ég körfuna eftir til að snúa við og ná í eitthvað sem ég gleymdi þegar ég gekk framhjá.
Ég var búin að taka lokastefnu á kassana þegar ég mundi eftir rjómanum, ekki mátti nú gleyma honum, hafragrautur með rjóma er algert lostæti og fyrir ykkur sem hugsið núna að það sé ekki skrýtið að Erling eigi svona mikið af mér þá er það hann sem notar rjómann hversdags en ég svona spari, haha. Karfan var yfirgefin og rjóminn sóttur en þegar ég kom tilbaka mætti ég Erling með körfuna okkar. Ég var nú hissa og spurði hann hvernig hann vissi að þetta væri karfan okkar. Hann leit á mig og sagði, ég þekkti innihaldið, veit hvernig þú verslar krúttið mitt. Og það þótt það væri súrmjólk í körfunni. Hann var þá búinn að ganga framhjá fleiri körfum sem voru einmana á göngunum en það var nóg fyrir hann að líta ofaní þær til að vita að þarna var ég ekki á ferð. Mér fannst þetta skondið en um leið lýsa því vel hversu samofin hjón geta verið.

Nú sit ég inni í stofu, úti er hrikalega vont veður, Erling var úti að setja í skjól hluti sem geta fokið en sem betur fer voru sumarhúsgögnin á pallinum tekin í hús síðustu helgi. Veðrið á bara að versna svo við ætlum bara að hafa það notalegt hér eins og vanalega, setja jólalög undir geislann og kveikja á kertum. Vinnukonurnar mala við verkin sín frammi, þær eru frábærar.

Framundan er skemmtilegur tími, nokkrir dagar eftir af vinnutörninni og svo bregðum við landi undir flugvél til að eiga saman nokkra góða daga í uppáhaldsborginni okkar, Köben. Og svo koma jólin............ Þangað til næst vinir mínir........

laugardagur, nóvember 24, 2007

Allar komu þær aftur...

Það voru ánægðar og þreyttar stelpur sem komu heim til landsins okkar fagra sl miðvikudagsmorgun. Frábær ferð var að baki og það er alltaf góð tilfinning þegar hjól flugvélarinnar snerta jörðina og það hvín í öllu þegar flugmaðurinn stígur á bremsuna (eða hvað svo sem hann gerir til að stöðva vélina, haha).

Fjörið byrjaði auðvitað strax í Keflavík þegar við vorum allar komnar í gegnum alla skoðun og eftirlit og sestar niður með kaffi og með því. Vélin fór í loftið á áætlun og flugið út gekk bara vel. Ég hitti Guðrúnu Finnbjarnar, bekkjarsystur mína úr Kvennó, í vélinni en hún var líka að fara til Boston með mömmu sinni og systur. Skemmtileg tilviljun því hún var líka samferða mér til Kaupmannahafnar sl vor.

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Komin til Boston, er að hringja í Erling, miss him already :o)


Ég og Barbro, vinkonur í 36 ár og herbergisfélagar í Boston

Í Boston fundum við okkur margt til skemmtunar. Við fórum í útsýnisturn, alla leið upp á
50. hæð og útsýnið var stórkostlegt. Við fórum í brunch á jazzklúbb í nágrenninu og það var mjög gaman. Við fengum borð alveg upp við sviðið og bandið sem spilaði var svo skemmtilegt og söngvarinn fór að spjalla við okkur í hléinu og við sögðum honum að Kiddý væri líka söngvari. Svo var það í einu laginu eftir hlé að hann beygði sig niður tók í hendina á Kiddý og bað hana að syngja með sér, sem hún og gerði og það var svo flott hjá henni.


Brunch, ummm mjög gott


Þau voru flott saman

Við skoðuðum Vísindakirkjuna, fórum í útsýnisferð um borgina í gamaldags rútu og með leiðsögumanni og bara virkilega nutum þess að vera til. Eitt kvöldið fórum við á hinn fræga Quinchi markað í Funehill hverfinu og þar var allt jólaskreytt. Maturinn þarna er mjög góður og við vorum vanar að byrja morgnana á að fara á Starbucks og fá okkur kaffi og eitthvað með því og svo enduðum við alltaf á að borða allar saman á kvöldin. Við vorum duglegar að splitta hópinn á daginn svo við værum ekki alltaf að biða eftir hver annarri í búðunum. Þó var það sjaldnast þannig að einhver væri ein nema hún vildi það sjálf.

Ég fór í “make up” í sjálfum Armani básnum í flottri snyrtivörubúð, ekkert smá gaman og andlitið varð bara miklu betra á eftir. Eyddi þar nokkum dollurum í flottar og góðar snyrtivörur.

"Fyrir" kom inn beint úr rigningunni eins og sjá má

"Eftir" aldeilis orðin fín

Já búðir, alveg rétt, við fórum “aðeins” í búðir eða allavega nóg til þess að það þurfti tvo tíu manna leigubíla til að koma okkur og farangrinum út á völl. Þjónarnir á hótelinu og leigubílstjórarnir brostu góðlátlega að okkur og voru svo sætir að tala bara um hvað við værum fallegar og mennirnir okkar heppnir að eiga okkur.



Duglegar stelpur....

Verðlag í búðunum þarna er alveg ótrúlegt, ég hefði hreinlega ekki trúað þessu að óreyndu. Ég vil nú ekki ganga svo langt að segja að það borgi sig að kaupa ferð og hótel til að kaupa jólagjafir en ef maður hefur áhuga á að fara í skemmtiferð svona að hausti til þá myndi ég mæla með því að hafa þá ferð aðeins lengri og kaupa jólagjafir og föt á fjölskylduna svona í leiðinni.

Þegar við vorum búnar að losa herbergin og skila þeim fórum við Ella og Kiddý í gönguferð um hið fræga Beacon hill hverfi. Sagt er að maður hafi ekki komið til Boston ef maður hefur ekki komið þangað. Mjög fallegar litlar götur og litlar kósi búðir alls staðar. Þar er bannað að hafa stór og mikil skilti enda eru öll skilti mjög gamaldags. Þar er m.a. hinn frægi Cheers bar og ekki amalegt að geta sagt “öllum” að ég hafi verið þar.......

Boston er frábær borg, bæði falleg og mjög rómantísk. Ég væri mjög til í að fara þangað einhvern tímann með Erling og bara njóta þess að vera til. Það væri góð hugmynd hjá mér að fara að leggja fyrir og bjóða svo Erling þangað einhvern góðan vordag, já eða haustdag......ekki segja Erling frá þessu, langar að koma honum á óvart.

Stelpur, takk fyrir frábæra og skemmtilega samveru.

mánudagur, nóvember 12, 2007

"Flugfreyjuklúbburinn" fer til Boston


Árið 1999 fórum við nokkrar vinkonur saman til Minneapolis í nokkra daga. Þessi ferð var einstaklega skemmtileg og vel heppnuð og höfum við í ófá skipti rifjað hana upp við mikinn hlátur. Í saumaklúbbnum mínum höfum við nokkrum sinnum talað um að gaman væri að endurtaka þetta og fyrir ca þremur árum vorum við nokkrar sem byrjuðum að leggja fyrir mánaðarlega ef einhvern tímann skyldi koma að því að við myndum fara í aðra ferð. Við byrjuðum á að leggja 3.000 kr á mánuði inn á bók sem ein úr hópnum, hún Kolla okkar, tók að sér að sjá um. Seinna hækkuðum við það í 5.000 kr og við höfum ekki fundið mikið fyrir því. Mæli með þessari aðferð þegar fólk langar að gera sér dagamun, leggja fyrir því og ferðin verður miklu skemmtilegri.

Svo var það í janúar sl. að við hittumst í okkar árlega jólaklúbbi og þá var loksins tekin ákvörðun um að fara saman á þessu ári. Sjóðurinn hefur komið sér vel, ég er t.d. búin að borga hótelið og flugið og mun eiga helling af dollurum eftir til að kaupa eitthvað fallegt. Það er notaleg tilhugsun að vita til þess að visareikningurinn mun ekki hrella mig þegar heim verður komið.

Við erum sem sagt að fara 10 saman til Boston á fimmudaginn og verðum í 5 daga. (Við förum allar í klúbbnum nema Kata mágkona sem var búin að skipuleggja ferð til Orlando á sama tíma með systrum sínum og frænkum). Ekki er nú áætlunin sú að vera bara í búðum þessa fimm daga heldur skoða sig um í þessari amerísku borg sem er sögð vera mjög evrópsk. Við ætlum að reyna að fara í leikhús, skoða fallegar byggingar, fara á gospelsamkomu, sitja á kaffihúsi og skoða mannlífið og bara njóta þess að vera til og njóta félagsskapar við vinkonur sínar.

Sennilega verða töskurnar fleiri og þyngri þegar við komum heim aftur enda erum við að hugsa um að semja bara við eitthvað rútufyrirtæki um að sækja okkur á völlinn og biðja þá um að koma á nógu stórri rútu fyrir allan farangurinn. Jólin eru framundan og um að gera að reyna að versla jólagjafir á hagstæðu verði.

Svo tek ég undir með dætrum mínum að ég hlakka svooooo til jólanna, finnst þau alveg sérlega notaleg. Þangað til næst vinir mínir.............

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Gospelkór Reykjavíkur, róleg helgi og frábær bók

Ég held ég verði bara að segja það að Gospelkór Reykjavíkur er allra besti kór sem ég veit um. Ég fór á tónleika með þeim í gærkvöldi og þau voru alveg hreint mögnuð.
Hljómsveitin sem spilaði með þeim var líka alveg einstök. Þau þyrftu bara að hafa tónleika oftar, þau eru bara snillingar. Ekki spillir fyrir að Íris dóttir mín er ein af meðlimum kórsins og það er svo gaman að sjá hana syngja. Einn vinnufélagi minn hafði orð á því eftir að hafa séð hana einu sinni syngja með kórnum að það væri svo gaman að sjá hana því hún syngi af svo mikilli innlifun. Get tekið heils hugar tekið undir það.

Annars er helgin bara búin að vera róleg. Ég var ein heima föstudagskvöld og á laugardeginum því Erling fór austur í Kofann og var að veiða um helgina og kom svo heim með þrjá fína laxa, duglegur strákur, alltaf að draga björg í bú. Þessir laxar ásamt fleirum enda svo í reykhúsi og verða á boðstólum um jólin. Það er reyndar mjög gaman að bjóða upp á lax sem húsbóndinn hefur veitt og svo grefur hann sjálfur laxa sem verða líka á boðstólum. Eins og fólkið mitt veit þá höfum við meira af svona sælkeramat um hátíðirnar heldur en sætindum. Okkur líkar það betur hjónunum og svo hafa stelpurnar smitast af því líka og eru farnar að kaupa inn brauð og lax frekar en sælgæti.

Ég fór í Bónus á föstudaginn og það er nú ekki í frásögur færandi svo venjulegt sem það er, nema ég sá í einni hillunni bók sem vakti áhuga minn. Sérstaklega þar sem neðst framan á bókinni stóð; Aðeins fyrir karlmenn. Aha, er það ekki þannig með okkur mannfólkið að oft er svo spennandi það sem er ekki okkur ætlað og ég tók eintak af bókinni, sneri henni á hvolf í körfunni og hlakkaði til að lesa hana þegar heim kæmi. Bókin er einfaldlega um það hvernig á að gera konuna sína hamingjusama.
Þar sem mínum manni hefur nú aldeilis tekist það bærilega þá langaði mig samt að lesa hvernig aðrir menn fara að því að gera sínar konur hamingjusamar. Ég er ekki alveg búin með bókina en vitið þið það að einhverra hluta vegna þá er alveg eins og þeir hafi skrifað bókina í sameiningu Erling og hann Þorgrímur (enda er konan hans frænka mín). Það er ótal margt sem Þorgrímur er að ráðleggja sem er alveg eins og Erling kemur fram við mig. Karlar og konur eru svo ólík en saman geta þau myndað þessa heild sem væru þau einn maður. Kynin nefnilega bæta hvort annað upp ef þau leyfa hvort öðru að njóta sín. Mér finnst alveg frábært að fá að vera veikara kerið, finna þessa umhyggju og finna það þegar mér er einfaldlega pakkað inní bómull og þarf ekki að vera að vasast í öllu mögulegu. Finna þegar byrðunum er létt af mínum öxlum yfir á sterku axlirnar hans og hann finnur alltaf lausn á öllum hlutum. Finna kærleikann þegar Erling bara tekur utan um mig og segir mér hvað honum finnst ég frábær. Finna umhyggjuna á ísköldum vetrarmorgnum þegar hann fer út og setur minn bíl í gang og skefur rúðurnar svo mér verði ekki of kalt þegar ég fer út. Setjast inn í stofu og vera fært kaffi og á sunnudögum er oftast súkkulaðimoli með. (Það má á nammidögum sem eru alltaf á laugar- og sunnudögum). Erling er ekki góðkunningi blómasalans og hann er ekki duglegur að koma mér á óvart en í öllu þessu daglega og hversdagslega þá finn ég hversu heitt ég er elskuð og metin. En vegna þess að hann kemur mér ekki oft á óvart með einhverju þess betur kann ég sennilega að meta það þegar það gerist og það er nú stundum. Mjög iðulega fer hann í búðina þegar við erum bara tvö og kaupir gott í matinn og eldar og ég þarf ekkert að gera nema njóta.
Hann kemur stundum heim með eitthvað sem við höfum verið að tala um að fá okkur og hann hefur hringt í mig og beðið mig að panta ferð fyrir okkur til Köben því hann veit að ég elska svoleiðis ferðalög.

Stelpurnar okkar eru algerar pabbastelpur enda dekrar hann þær algerlega uppúr skónum og litlu afagullin hafa hann algerlega í vasanum. Besti maður í heimi? Já fyrir mig er hann það svo sannarlega og ég þakka Guði fyrir hann.

Núna er komið sunnudagskvöld. Það er hljótt hér í Húsinu við ána. Hrund er í Reykjavík að hitta nokkrar bekkjarsystur sínar. Við erum því bara tvö heima hjónin og Erling var að elda þessa líka fínu steik og hún bragðaðist frábærlega. Þetta var folaldafillet sem hann setti kálfalifrarpaté inní. Umm þvílíkt góð.

Núna ætla ég að fara inn í stofu, stelast til að setja jólalög undir geislann, það eru nú alveg að koma jól, eða er það ekki, það finnst mér allavega.
Þangað til næst vinir mínir.........