laugardagur, nóvember 24, 2007

Allar komu þær aftur...

Það voru ánægðar og þreyttar stelpur sem komu heim til landsins okkar fagra sl miðvikudagsmorgun. Frábær ferð var að baki og það er alltaf góð tilfinning þegar hjól flugvélarinnar snerta jörðina og það hvín í öllu þegar flugmaðurinn stígur á bremsuna (eða hvað svo sem hann gerir til að stöðva vélina, haha).

Fjörið byrjaði auðvitað strax í Keflavík þegar við vorum allar komnar í gegnum alla skoðun og eftirlit og sestar niður með kaffi og með því. Vélin fór í loftið á áætlun og flugið út gekk bara vel. Ég hitti Guðrúnu Finnbjarnar, bekkjarsystur mína úr Kvennó, í vélinni en hún var líka að fara til Boston með mömmu sinni og systur. Skemmtileg tilviljun því hún var líka samferða mér til Kaupmannahafnar sl vor.

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Komin til Boston, er að hringja í Erling, miss him already :o)


Ég og Barbro, vinkonur í 36 ár og herbergisfélagar í Boston

Í Boston fundum við okkur margt til skemmtunar. Við fórum í útsýnisturn, alla leið upp á
50. hæð og útsýnið var stórkostlegt. Við fórum í brunch á jazzklúbb í nágrenninu og það var mjög gaman. Við fengum borð alveg upp við sviðið og bandið sem spilaði var svo skemmtilegt og söngvarinn fór að spjalla við okkur í hléinu og við sögðum honum að Kiddý væri líka söngvari. Svo var það í einu laginu eftir hlé að hann beygði sig niður tók í hendina á Kiddý og bað hana að syngja með sér, sem hún og gerði og það var svo flott hjá henni.


Brunch, ummm mjög gott


Þau voru flott saman

Við skoðuðum Vísindakirkjuna, fórum í útsýnisferð um borgina í gamaldags rútu og með leiðsögumanni og bara virkilega nutum þess að vera til. Eitt kvöldið fórum við á hinn fræga Quinchi markað í Funehill hverfinu og þar var allt jólaskreytt. Maturinn þarna er mjög góður og við vorum vanar að byrja morgnana á að fara á Starbucks og fá okkur kaffi og eitthvað með því og svo enduðum við alltaf á að borða allar saman á kvöldin. Við vorum duglegar að splitta hópinn á daginn svo við værum ekki alltaf að biða eftir hver annarri í búðunum. Þó var það sjaldnast þannig að einhver væri ein nema hún vildi það sjálf.

Ég fór í “make up” í sjálfum Armani básnum í flottri snyrtivörubúð, ekkert smá gaman og andlitið varð bara miklu betra á eftir. Eyddi þar nokkum dollurum í flottar og góðar snyrtivörur.

"Fyrir" kom inn beint úr rigningunni eins og sjá má

"Eftir" aldeilis orðin fín

Já búðir, alveg rétt, við fórum “aðeins” í búðir eða allavega nóg til þess að það þurfti tvo tíu manna leigubíla til að koma okkur og farangrinum út á völl. Þjónarnir á hótelinu og leigubílstjórarnir brostu góðlátlega að okkur og voru svo sætir að tala bara um hvað við værum fallegar og mennirnir okkar heppnir að eiga okkur.



Duglegar stelpur....

Verðlag í búðunum þarna er alveg ótrúlegt, ég hefði hreinlega ekki trúað þessu að óreyndu. Ég vil nú ekki ganga svo langt að segja að það borgi sig að kaupa ferð og hótel til að kaupa jólagjafir en ef maður hefur áhuga á að fara í skemmtiferð svona að hausti til þá myndi ég mæla með því að hafa þá ferð aðeins lengri og kaupa jólagjafir og föt á fjölskylduna svona í leiðinni.

Þegar við vorum búnar að losa herbergin og skila þeim fórum við Ella og Kiddý í gönguferð um hið fræga Beacon hill hverfi. Sagt er að maður hafi ekki komið til Boston ef maður hefur ekki komið þangað. Mjög fallegar litlar götur og litlar kósi búðir alls staðar. Þar er bannað að hafa stór og mikil skilti enda eru öll skilti mjög gamaldags. Þar er m.a. hinn frægi Cheers bar og ekki amalegt að geta sagt “öllum” að ég hafi verið þar.......

Boston er frábær borg, bæði falleg og mjög rómantísk. Ég væri mjög til í að fara þangað einhvern tímann með Erling og bara njóta þess að vera til. Það væri góð hugmynd hjá mér að fara að leggja fyrir og bjóða svo Erling þangað einhvern góðan vordag, já eða haustdag......ekki segja Erling frá þessu, langar að koma honum á óvart.

Stelpur, takk fyrir frábæra og skemmtilega samveru.

5 ummæli:

Erling.... sagði...

Ég mun steinþegja......

Eygló sagði...

Hahaha.. Góður pabbi :) En skemmtilegur pistill og skemmtilegar myndir! Þið hafið greinilega skemmt ykkur mjöög vel þarna úti og gaman að þið fóruð ekki bara í búðirnar heldur skoðuðuð ykkur um :) Hlakka til að sjá þig næst sæta mín og hafðu það gott :) þín uppáhalds Eygló

Nafnlaus sagði...

Elsku Erla
takk fyrir ferðina hun var frábær
love Fjola

ArnaE sagði...

Já pabbi ekki kjafta frá... Hehehe:) Skemmtilegt blogg og myndir hjá þér mamma og gott hjá ykkur að fara og njóta þess að vera saman í útlöndum og styrkja vinkonuböndin. Þú ert hreinræktað gull mamma, takk fyrir að versla fyrir mig í Ameríkunni:) Love U, Arnan þín:)

Karlott sagði...

Cheers!


Kveðja frá
Háholtabúum