laugardagur, apríl 28, 2007

Hvunndagurinn

Aldrei hefði mér dottið í hug að það væri gaman að hengja upp þvott, hvað þá að þessi hversdagslega athöfn gæti veitt mér einhverja sælutilfinningu. Það var samt í dag þegar ég stóð úti í garðinum okkar og hengdi upp handklæðin að ég fann fyrir þessari notalegu tilfinningu fara um mig. Hárið á mér flaksaði í takt við rokið, ég fann hitann frá sólinni umlykja mig og útundan mér sá ég vinkonu mína og nágranna, Ölfusána, renna framhjá, óvenjuvatnsmikla og gárótta. Farfuglarnir eru komnir og leika sér á ánni, hreiðurgerð í vændum hjá þeim. Ég hef oft sagt það áður og endurtek það enn að það eru forréttindi að búa á svona stað.

Ég tók daginn mjög snemma svona miðað við að það er laugardagur og ég er vön að fara frekar seint á fætur um helgar. Ég vissi að Erling ætlaði að fara snemma á fætur enda var hann að fara að vinna þessi elska og mig langaði mjög að eiga smá tíma með honum þennan fallega morgunn. Ég var búin að biðja hann að vekja mig áður en hann færi en þegar ég vaknaði kl hálf átta var hann farinn framúr og ég heyrði í honum fá sér kaffi á neðri hæð hússins. Ég fór niður og spurði hann afhverju hann hafði ekki vakið mig. Þá hafði hann komið upp til þess en tímdi svo ekki að vekja mig því ég svaf svo vært sagði hann, ekkert smá krúttlegt að heyra. Við fengum okkur svo hafragraut saman og lásum blöðin í rólegheitunum og svo var það kaffibollinn ómissandi. Rúmlega átta þá kvaddi hann og fór uppá Laugarvatn þar sem hann var að fara að vinna en ég lauk við að lesa blöðin. Um níuleytið gerði ég svo það sem ég geri næstum aldrei, fór aftur uppí og sofnaði eins og skot og svaf til ellefu enda er það miklu nær mínum venjulega fótaferðatíma um helgar.

Ég er núna búin að þrífa húsið vel og vandlega og ætla að fara að elda kvöldmat handa okkur enda á ég von á að Erling komi heim um sjöleytið. Hrund er að fara til Reykjavíkur með Elvu vinkonu sinni og gistir í bænum hjá einhverri systur sinni.
Hrund verður ánægðari og ánægðari hér á Selfossi og stundum kemur Elva austur og gistir þá hjá henni og þá er sko vakað fram undir morgun, þ.e. þær vinkonurnar.

Í kvöld fáum við svo góða gesti og á morgun koma allar stelpurnar okkar með sitt fólk og pabbi og mamma koma líka og við ætlum að grilla saman í hádeginu, það verður gaman.

Já lífið er svo sannarlega skemmtilegt og frábært. Eftir tæplega 3 vikur leggjum við land undir flugvél og förum ásamt Hrund og Örnu til Danmerkur og þar ætlum við að gera mjög margt skemmtilegt, fara til Óla og Anette, Tívolí, Strikið, Ráðhústorgið og mfl.
Sumarfríið er orðið nokkuð ákveðið og ég segi ykkur betur frá því seinna hvað stendur til en það er svo sannarlega spennandi.

Hafið það gott vinir og njótið daganna, þangað til næst..........

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar

Flottir molar

Það kom í ljós á páskadag að dætur mínar höfðu skilið vísbendingar mínar varðandi konfektið og mér var færður fallegur kassi með mjög flottum konfektmolum í.
Þær höfðu farið í Konfektbúðina og sagt konunni hvað væri mitt uppáhald og saman settu þær girnilega mola í kassa og fallegur borði settur utan um þetta allt. Mér fannst svo mikið varið í þetta, þær eru alger yndigull þessar fjórar stóru stelpur sem ég á.
Páskadagurinn var mjög skemmtilegur eins og við var að búast nema kannski helst að Erling fann enn mikið til í “holunni” en Petra frænka kom aftur og sótti hann og fór með hann útá stofu og setti deyfiefni í og honum leið miklu betur eftir það.

Ég var búin að taka frí á þriðjudegi eftir páska og ætlaði svo sannarlega að njóta þess að lengja þessa fríhelgi aðeins. Hins vegar gerðist það á páskadag að ég var að beygja mig niður og bara festist í bakinu, fékk í fyrsta sinn það sem kallast þursabit. Mér finnst samt miklu flottara nafnið sem hún Kata mágkona mín fann þegar hún var að vorkenna mér við Tedda að hafa fengið svo slæmt hrossabit í bakið, hahahahaha.

“Frídeginum” eyddi ég sem sagt í góðum félagsskap vinkvenna minna í Desperate housewife og það kom sér vel að vera með sjónvarp í herberginu því ég fór varla fram úr rúmi fyrstu dagana.



Pabbi minn átti afmæli á annan í páskum, varð 68 ára gamall og af skiljanlegum ástæðum gat ég ekki sett neitt inn á síðuna mína þann dag um hann. Pabbi er einstakur og mér þykir mjög vænt um hann. Hann hefur reynst mér og mínu fólki afskaplega vel enda er hann með eindæmum greiðvikinn maður og ber mikla umhyggju fyrir sínu fólki. Eftir að við fluttum á Selfoss hefur hann ósjaldan hringt og athugað með hvort við höfum ekki örugglega komist heil á höldnu á milli staða og hann fylgdist líka vel með okkur þegar Ölfusá flæddi yfir bakka sína í miklu flóði í desember sl. Ég vil nota þetta tækifæri og óska honum til hamingju með daginn um daginn. Pabbi minn, ég elska þig mikið.

Í dag er svo sumardagurinn fyrsti og sumarið heilsaði okkur með frosti en það á víst að boða gott ef vetur og sumar frýs saman. Við Erling ásamt Hrund og Örnu fórum aðeins á Föðurlandið á Fitinni í dag, kominn timi til að sýna stelpunum notalega kofann okkar enda höfðu þær ekki komið þangað síðan um verslunarmannahelgi. Við erum sem sagt búin að hafa það virkilega notalegt í dag.

Á morgun ætla ég að taka mér frídag enda er ég ekki enn búin að ljúka við að horfa á alla þættina sem ég á um vinkonur mínar við Bláregnsslóð. Þær eru skemmtilegar.
Við Erling eigum svo von á góðum gestum annað kvöld og helgin verður viðburðarrík að venju.

Gleðilegt sumar......þangað til næst

laugardagur, apríl 07, 2007

Notalegir dagar

Það var miðvikudagur, mikil törn var að baki í vinnunni en ég var loksins búin að færa bókhaldið og gera virðisaukaskýrslur fyrir þau 43 fyrirtæki sem eru mínir viðskiptavinir í vinnunni og ég var búin að reikna öll þau laun sem reikna áttti fyrir páska. Ég slökkti á tölvunni, kvaddi vinnufélagana og fór út í bíl til Erlings sem var kominn að sækja mig. Framundan var 6 daga frí og mikið hlakkaði ég til.

Auðvitað svaf ég til hádegis á skírdag og naut þess svo sannarlega enda enginn sem rak mig á fætur og þar sem ég er vön að vakna kl 5:45 þá var svo notalegt að sofa eins lengi og ég vildi. Niðri var Erling að lesa blöðin, hann var löngu kominn á fætur, því miður fyrir hann þá getur hann ekki sofið svona lengi. Eftir hádegi þá fór hann að skipta um gólfefni í forstofunni og á gestasalerninu og ég fór í Bónus að gera páskainnkaupin. Það var gott fyrir geðheilsu okkar hjónanna að ég fór bara ein, þvílík var örtröðin.

Seinni partinn, þegar gólfin voru orðin svaka fín og ísskápurinn fullur af vörum úr Bónus, fórum við í sveitina okkar. Þar beið kofinn okkar eftir okkur svo notalegur og fínn.
Það er svo notalegt að eiga svona afhvarf frá öllum skarkalanum. Harpa vinkona Hrundar var í heimsókn hér heima og ætlaði að gista og það var mjög gaman hjá þeim. Föstudeginum langa eyddum við Erling svo í góðum félagsskap á Fitinni en keyrðum svo heim á herragarðinn um kvöldmatarleytið.

Erling lætur fara vel um sig í kofanum okkar


Það voru dregnir 3 endajaxlar úr Erling fyrir rúmri viku og það hefur ekki gróið vel á einum stað og því höfum við bara tekið það rólega í dag hér í Húsinu við ána. Erling hefur þurft að taka verkjatöflur á þriggja tíma fresti síðan á miðvikudag og það segir mér bara að hann finnur mikið til því hann tekur ekki töflur nema þurfa þess virkilega. Petra frænka mín er tannlæknir hér á Selfossi og frétti af líðan Erlings og hún hringdi í okkur í dag og bauð honum að fara með hann út á stofu og setja deyfiefni í holuna sem hún og gerði þessi elska. Hún kom bara hingað og sótti kappann, býr reyndar í næstu götu við okkur, og svo gaf hún honum sterkar verkjatöflur þannig að þetta ætti að fara að láta undan.

Á morgun verður svo fjölmennt hér hjá okkur. Hrund og Arna koma í kvöld og á morgun koma Eygló og Bjössi og Íris og Karlott ásamt litlu yndigullunum sínum. Við hlökkum til að eyða páskadegi með stelpunum okkar og þeirra fólki enda eru þau það dýrmætasta sem við eigum. Ég afþakkaði páskaegg þar sem ég er ekkert yfir mig hrifin af þeim en svo kom ég því svona pent til skila að mér þætti miklu betra að fá nokkra alvöru konfektmola til að eiga með kaffinu og þá er ég ekki að tala um Nóa konfekt. Það kemur svo bara í ljós á morgun hvort einhver hafi skilið vísbendinguna mína.

Guð gefi ykkur yndislega páskahátið og munum að án krossfestingarinnar og upprisunnar þá væri kristindómurinn einskis virði. Þangað til næst.....