laugardagur, apríl 28, 2007

Hvunndagurinn

Aldrei hefði mér dottið í hug að það væri gaman að hengja upp þvott, hvað þá að þessi hversdagslega athöfn gæti veitt mér einhverja sælutilfinningu. Það var samt í dag þegar ég stóð úti í garðinum okkar og hengdi upp handklæðin að ég fann fyrir þessari notalegu tilfinningu fara um mig. Hárið á mér flaksaði í takt við rokið, ég fann hitann frá sólinni umlykja mig og útundan mér sá ég vinkonu mína og nágranna, Ölfusána, renna framhjá, óvenjuvatnsmikla og gárótta. Farfuglarnir eru komnir og leika sér á ánni, hreiðurgerð í vændum hjá þeim. Ég hef oft sagt það áður og endurtek það enn að það eru forréttindi að búa á svona stað.

Ég tók daginn mjög snemma svona miðað við að það er laugardagur og ég er vön að fara frekar seint á fætur um helgar. Ég vissi að Erling ætlaði að fara snemma á fætur enda var hann að fara að vinna þessi elska og mig langaði mjög að eiga smá tíma með honum þennan fallega morgunn. Ég var búin að biðja hann að vekja mig áður en hann færi en þegar ég vaknaði kl hálf átta var hann farinn framúr og ég heyrði í honum fá sér kaffi á neðri hæð hússins. Ég fór niður og spurði hann afhverju hann hafði ekki vakið mig. Þá hafði hann komið upp til þess en tímdi svo ekki að vekja mig því ég svaf svo vært sagði hann, ekkert smá krúttlegt að heyra. Við fengum okkur svo hafragraut saman og lásum blöðin í rólegheitunum og svo var það kaffibollinn ómissandi. Rúmlega átta þá kvaddi hann og fór uppá Laugarvatn þar sem hann var að fara að vinna en ég lauk við að lesa blöðin. Um níuleytið gerði ég svo það sem ég geri næstum aldrei, fór aftur uppí og sofnaði eins og skot og svaf til ellefu enda er það miklu nær mínum venjulega fótaferðatíma um helgar.

Ég er núna búin að þrífa húsið vel og vandlega og ætla að fara að elda kvöldmat handa okkur enda á ég von á að Erling komi heim um sjöleytið. Hrund er að fara til Reykjavíkur með Elvu vinkonu sinni og gistir í bænum hjá einhverri systur sinni.
Hrund verður ánægðari og ánægðari hér á Selfossi og stundum kemur Elva austur og gistir þá hjá henni og þá er sko vakað fram undir morgun, þ.e. þær vinkonurnar.

Í kvöld fáum við svo góða gesti og á morgun koma allar stelpurnar okkar með sitt fólk og pabbi og mamma koma líka og við ætlum að grilla saman í hádeginu, það verður gaman.

Já lífið er svo sannarlega skemmtilegt og frábært. Eftir tæplega 3 vikur leggjum við land undir flugvél og förum ásamt Hrund og Örnu til Danmerkur og þar ætlum við að gera mjög margt skemmtilegt, fara til Óla og Anette, Tívolí, Strikið, Ráðhústorgið og mfl.
Sumarfríið er orðið nokkuð ákveðið og ég segi ykkur betur frá því seinna hvað stendur til en það er svo sannarlega spennandi.

Hafið það gott vinir og njótið daganna, þangað til næst..........

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En gaman að lesa svona hamingjusamt blogg. Það er gott hvað ykkur pabba líður vel þarna á Selfossi. Takk fyrir mig og mínar dætur í gær, þetta var mjöööög gaman. Sjáumst svo á eftir...

Íris sagði...

Takk æðislega fyrir okkur í gær. Alltaf gaman að kíkja austur fyrir fjall til ykkar!
Sjáumst svo hressar í kvöld!!!
Þín Íris

Eygló sagði...

Mikið var nú gaman að koma til ykkar í mat á sunnudaginn :) Takk kærlega fyrir okkur! Gott hvað þið njótið lífsins í Húsinu við ána :) Það er alltaf svo notalegt að koma við í heimsókn.. Hafðu það gott, þín Eygló