miðvikudagur, mars 29, 2006

Viktólína.....

Það hlaut að koma að því að tölurnar á henni Viktólínu færu að lækka eftir að hafa verið sama leiðinda talan í yfir þrjár vikur. Ég segi nú bara mikið var…… ég ætla bara að halda mínu striki og vonandi heldur Viktólína áfram að sýna mér lægri tölur smátt og smátt. Erling er búinn að léttast um 9 kíló á sama tíma og ég er búin með þessi 6 kíló en reyndar segir sagan að karlar léttist fyrr en konur.

Annars er það helst að frétta að við vorum að fá niðurstöðu úr greiðslumatinu og það gekk auðvitað upp eins og Erling var búinn að segja og svo erum við búin að setja íbúðina okkar á sölu og þið getið skoðað hana bæði á mbl.is og habil.is.
Nú er bara að vona að hún seljist fljótt og vel.

Ég er bara mjög spennt fyrir þessu öllu og hlakka til að flytja á Selfoss. Ég er alveg viss um að þótt við flytjum úr borginni þá eigum við eftir að eiga meiri samskipti við fólkið okkar heldur en meðan við búum í borginni. Ef ég miða t.d. við Barbro og Sigga vini okkar af Skaganum þá hittum við þau miklu oftar en vini okkar sem búa í borginni því þau eru svo dugleg að koma við í bæjarferðum sínum.

Takk allir sem hafið sent okkur fjölskyldunni hamingjuóskir með húsið okkar og jafnvel gert sér ferð til að skoða það, mér finnst það frábært.

Hafið það gott vinir mínir og farið að hlakka til páskanna, ég ætla allavega að hafa það gott þá eins og alla aðra daga, ég hef svo margt til að vera Guði þakklát fyrir.........

miðvikudagur, mars 22, 2006

Húsið við ána



Okkur Erling höfum lengi langað til að eiga fallegt hús, einbýlishús með passlega stórum, litlum garði helst á frekar rólegum stað og með fallegu útsýni. Eflaust dreymir marga um þannig hús og sumir fá þá ósk sína uppfyllta en aðrir því miður ekki. Ég hef reyndar alltaf verið alveg viss um að fá þennan draum uppfylltan en spurningin var bara alltaf hvenær. Hér í Reykjavík hefur ekki verið hægt að fá úthlutaðri lóð til að byggja á þrátt fyrir að við eigum yfirdrifin nóg af landi en stjórnvöld hafa ekki haft sama skilning á notkun þess og margir aðrir.

“Hvað með Selfoss” sagði Erling við mig fyrir ca 10 dögum. Nei, sagði ég, ekki Selfoss, frekar vildi ég fara á Akranes ef ég ætlaði að yfirgefa borgina “mína”, ég, sjálft Reykjavíkurbarnið. “Ég er búinn að finna mjög skemmtilegt hús á Selfossi, á fallegum og rólegum stað” sagði hann við mig. Húsið er staðsett “utan ár” eins og innfæddir kalla þennan byggðarkjarna, tilvonandi millahverfi Selfyssinga :o)

Ég féllst á að skoða húsið enda orðin svolítið spennt eftir að hafa skoðað myndir af því á netinu. Það virkaði frekar “þreytt” að innan og greinilegt að þar þarf að taka til hendinni.
Við ókum sem leið lá til Selfoss sl. laugardagskvöld (vorum bara 30 mínútur á leiðinni) og þegar við ókum inn friðsæla götuna sá ég mjög reisulegt og fallegt hús blasa við endann á götunni og það var húsið.

Þegar við stoppuðum bílinn fyrir utan og ég sá útsýnið hugsaði ég með mér að það er alveg sama hversu mikið þarf að gera fyrir þetta hús, mig langar í það. Það bara gerðist eitthvað innra með mér. Húsið er mjög vel skipulagt að innan og við getum gert það stórglæsilegt með tímanum og alveg eins og við viljum hafa það.

Útum eldhúsgluggana horfi ég yfir Ölfusána, meiriháttar. Erling getur bara kallað heim til mín að koma með háfinn til sín þegar laxinn er kominn á. Fyrir neðan húsið, rétt við ána er fallegur trébekkur og ég sé okkur í anda labba þangað að kvöldi til, með kaffi í stálbollunum okkar og horfa á ána renna framhjá.

Húsið við ána, er við Miðtún 22 á Selfossi og í dag var skrifað undir kauptilboð sem við gerðum í húsið og við flytjum þangað í sumar.

mánudagur, mars 20, 2006

Áskorun, skemmtilegur leikur í bloggheimum

Gerða mágkona mín skoraði á mig á blogginu sínu að svara þessu og ég geri það hér með og neðst í þessari færslu er síðan áskorun á nokkra aðila, endilega lesið þessar algerlega gagnlausu upplýsingar um mig.


4 staðir sem ég hef unnið á:

Fiskbúð í Árbænum, þar hófst starfsferill minn 15 ára gömul

Sorphreinsun Reykjavíkurborgar, sumarvinna tvö sumur og eitt jólafrí

Skrifstofa Hvítasunnukirkjunnar

Bókhaldsþjónusta Arnar Ing, núverandi vinnustaður, vinn þar sem bókari og líkar vel

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:

Green mile, besta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð

When a man loves a woman, yndisleg mynd sem fær tárakirtlana til að vinna

Leagally blond, Reese Whiterspoon er meiri háttar sem ljóshærði lögfræðingurinn

The story of us; vekur mann til umhugsunar um það sem skiptir máli í lífinu


4 staðir sem ég hef búið á:

Sunnuhlíð, bernskuheimilið þar sem ég ólst upp með systkinum mínum

Stillholt 15, Akranesi, fyrsta íbúðin sem við Erling keyptum
Akranes er frábær staður og mjög gott að búa þar. Fluttum þaðan vegna atvinnuleysis.

Vesturberg 74, góð íbúð og okkur leið vel þar.

Hamraberg 18, draumahús og fallegt sem var ”fórnað” fyrir skólagöngu Erlings, gaman samt að Kiddi og Ásta keyptu það þannig að við förum stundum þangað.

Vesturberg 72, núverandi heimili mitt, en við erum farin að kíkja í kringum okkur að öðru húsnæði og þá jafnvel utan höfuðborgarinnar......

4 sjónvarpsþættir sem ég má ekki missa af...

Idol – frábær skemmtun, krakkarnir eru ótrúlega góð, var samt svekkt þegar Alexander datt út

Prision break, alveg ótrúlega spennandi

Lost, skemmtilegir þættir

Stelpurnar, mörg skemmtileg ”skets”

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum

Ísland, fallegasta land í heimi, hef verið svo heppin að geta ferðast víða um landið mitt og ég held að Vestfirðir standi uppúr hvað varðar fegurð og tignarlegt umhverfi

Mallorka, algerlega meiriháttar staður, enginn staður af öllum sólarlöndum sem ég hef komið til skyggir á eyjuna "mína" fögru í Miðjarðarhafinu

Krít, frábær, maturinn meiriháttar

Kaupmannahöfn, uppáhalds borgin mín, mjög sjarmerandi og fátt rómantískara í mínum huga en að rölta um þar

4 síður sem ég skoða daglega

http://www.erlingm.blogspot.com/

http://www.mbl.is/

http://www.habil.is/ þessa dagana :o)

og svo auðvitað síður allra stelpnanna minna og stórfjölskyldunnar minnar, sjá tengla hér til hægri á síðunni minni


4 matartegundir sem ég held upp á

jólamaturinn með öllu tilheyrandi, svínahamborgarahryggur með brúnuðum kartöflum, salati, rjómasósunni hans Erlings, og svo grjónagrauturinn með heimabúnu karamellusósunni hans Erlings, klikkar ekki........

allt kjöt sem Erling setur á grillið

kjúklingur, gæti borðað hann í öll mál

silungur úr Þórisvatni, grillaður með miklum hvítlauk og rjómasósu, ummmmmmm


4 bækur sem ég hef lesið nýlega:

Húsmóðir í hjáverkum

Draumaveröld kaupalkans

Réttarkrufning

Les svo mest blöð en lítið bækur

4 strákar sem ég skora á að gera þetta:

Teddi bróðir

Kiddi bróðir

Heiðar mágur minn

Veit ekki um fleiri karlkynsbloggara sem lesa bloggið mitt því það er búið að skora á Erling

4 stelpur sem ég skora á að gera þetta:

Íris

Eygló

Arna

Hrund

Ella systir

miðvikudagur, mars 15, 2006

Umhyggja og notalegheit

Það var fyrir nokkrum dögum síðan. Við Erling vorum tvö heima og klukkan var alveg að verða tíu og aldrei þessu vant höfðum við hjónin ekki borðað mjög mikið þennan dag (munið að við höfum tekið upp ”borðaðu þig grannan” mataræðið) og grænmetisskammturinn mikli hafði ekki ratað á diskana okkar. Við vorum svöng og okkur langaði í eitthvað gott, eitthvað bragðlaukakitl. Mér fannst svolítið fyndið að uppgötva það að mig langaði alls ekki í sælgæti bara góðan mat.

Erling leit á klukkuna og spurði mig hvort hann ætti að fara og kaupa kjúkling á KFC. Ég sá að það gekk ekki upp því þeir loka kl 22. ”En hvað með Nings” sagði hann og leit á mig. Við kíktum á alheimsgluggann og sáum að þeir loka einnig kl 22. Nú voru góð ráð dýr en samt ekki. ”Ég fer útí búð og athuga hvað ég sé” sagði minn maður og nú vissi ég að hann langaði verulega mikið í eitthvað gott.

Þremur korterum seinna var mér síðan boðið til stofu, þar sem hann var búinn að leggja á borð, búinn að grilla þessi líka frábærlega góðu reyktu svínarif og sveppi með. Ekki gleymdi hann að gera hvítlaukssmjör með þessu (eins gott að maður Á að borða fitu á þessum danska kúr). Þessi máltíð var alveg meiri háttar góð bæði mikið bragðlaukakitl en ekki síst þetta hugarfar að nenna að gera þetta fyrir okkur tvö, til að skapa kósí andrúmsloft og búa til frábæra minningu. Við kveiktum á kertum, nutum matarins og samfélagsins við hvort annað......Hrund kom heim um miðnætti og þá voru enn diskar á borðinu og hún leit á okkur spurnaraugum enda ekki vön að sjá matardiska á borðum á þessum tíma.

Langaði bara að deila þessu með ykkur lesendur góðir......veit að ég hef sagt ykkur það áður en segi það einu sinni enn að ég er vel gift.......

þriðjudagur, mars 14, 2006

Törn framundan

Jæja þá er hún hafin enn ein prófa- og lestrartörnin hjá Erling, í dag eru 9 vikur þangað til hann verður búinn í lokaprófum og skiladagur BA ritgerðarinnar er. Þetta eru búin að vera nokkuð strembin 3 ár enda mikill lestur sem fylgir laganáminu og eins gott fyrir hann að taka þessu með alvöru fyrst hann fór í þetta á annað borð. Erling er búinn að standa sig frábærlega vel í náminu, er yfir meðallagi í einkunnum og er alveg á réttu róli með námið, þ.e. hann er ekki með neitt fall á bakinu sem hann á eftir að taka upp.

Það verður samt gott þegar þetta verður búið en þann 10. júní útskrifast hann sem lögfræðingur og síðan á hann eftir tveggja ára framhaldsnám sem hann var búinn að ætla sér að taka alveg í beinu framhaldi en við erum búin að taka ákvörðun um að hann taki þetta aðeins hægar. Hann þarf 60 einingar í meistarann og 30 af þeim má hann taka í öðrum deildum en lagadeild. Hann ætlar því að taka bara eitt fag næsta vetur og þá jafnvel í verkfræði og hann ætlar að vinna lögfræðistörf og sjá til hvað mun henta honum best en það er samt líklegt að hann haldi sig við að sérhæfa sig i því sem viðkemur byggingum, verktaka- og vinnurétti enda með byggingameistarann til 25 ára að baki og alla þá reynslu sem því fylgir.

Ég er mjög stolt af honum en núna verð ég svo sannarlega að setja í þolinmæðisgírinn næstu 9 vikurnar meðan þessi törn stendur yfir. Ég þarf að gefa honum næði og ekki trufla hann eins oft og mig langar en sem betur fer á ég svo góða vini og fjölskyldu að mér þarf ekki að leiðast neitt. Þegar búið verður að skila ritgerðinni stefnum við á að skreppa aðeins út fyrir landssteinana, bara tvö, njóta þess að vera til, slaka á, borða góðan mat og kannski fara á einhverja sýningu í borginni sem verður fyrir valinu.

Hafið þið skoðun á því til hvaða borgar væri gaman að fara á þessum árstíma?????
Við erum nefnilega ekki búin að ákveða okkur. Endilega kommentið og segið hvað ykkur finnst og hvaða kosti “ykkar” borg hefur.........Það þarf samt að vera til Evrópu því vinningurinn okkar gildir bara þangað.

sunnudagur, mars 12, 2006

Mamma mín


Mér finnst afmælisdagar alltaf merkilegir og tilefni til að halda uppá þá eins og þeir vita sem þekkja mig. Eitt ár enn hefur bæst í lífssögu viðkomandi og því ber að fagna.

Í dag á mamma mín afmæli, fyllir 66 ár. Það er reyndar alveg ótrúlegt að þessi unglega skvísa sé orðin 66 ára. Mamma er sannkölluð ættmóðir. Hún á mörg frábær börn, tengdabörn, barnabörn og svo á hún 7 litlar langömmustelpur þótt fáir séu þeir sem trúa því að hún sé orðin langamma.

Sagt er að allt sé fertugum fært og hún sannaði það aldeilis. Þá nefnilega datt henni í hug að verða bara hjúkrunarfræðingur og lét það engin áhrif hafa á sig þótt hún væri bara með prófið úr 12 ára bekk, þá bara tæki aðeins lengri tíma að ná settu marki. Hún dreif sig í námsflokkana og með dugnaði og þrautsegju kom þetta koll af kolli. Það var svo fagran sumardag fyrir að mig minnir 20 árum að hún útskrifaðist fullnuma hjúkrunarfræðingur og hefur starfað við það síðan.

Hún sinnir heimahjúkrun og ég segi að skjólstæðingar hennar séu mjög heppnir því þolinmóðari og mjúkhentari einstakling er varla að finna og svo hefur hún einhvern veginn skynbragð til að finna strax hvernig fólki líður og mætir öllum þar sem þeir eru staddir. Það er gott því öllum finnst gott að finna umhyggju og það á jafnt við um heilbrigða og sjúka.

Mamma hefur alltaf tíma fyrir mann og nennir öllu. Þótt ég sjálf sé bæði mamma og amma þá er svo gott að finna alltaf að ég er stelpan hennar og ekkert erindi mitt er of stórt eða of lítið fyrir hana. Stelpurnar mínar leita til hennar og það er oft eins og þær séu jafnöldrur.

Þennan pistil setti á á síðuna mína fyrir ári síðan en tíminn líður svo ótrúlega hratt að mér finnst örstutt síðan ég skrifaði hann. Ég ætlaði að skrifa eitthvað til heiðurs henni mömmu minni en sá svo að þessi er alveg jafn mikið í gildi núna og fyrir ári síðan.

Elsku mamma, til hamingju með daginn og takk fyrir að vera til og vera alltaf þú sjálf.
Ég elska þig grilljón og þúsund sinnum meira en það......... Sjáumst á eftir í partýinu.....

þriðjudagur, mars 07, 2006

"Óskarinn"......

Alveg er það merkilegt hvað maður getur sokkið niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með fræga og “fína” fólkinu. Í gærkvöldi sátum við Hrund og fylgdumst með samantekt frá Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fór í Borg englanna sl sunnudagskvöld.

Þarna voru auðvitað samankomnar allar helstu stjörnur hvíta tjaldsins, allar konurnar í síðkjólum eftir misfræga hönnuði enda eins gott að vera vel tilfara þegar farið er á þessa uppskeruhátíð þeirra. Dómurinn birtist síðan í dagblöðum morgundagsins. Glamúrinn er yfirgengilegur og þetta er mikill gerviheimur að mínu mati en gaman samt að fylgjast með.
Enda eru bíómyndir yfirleitt gerðar sem afþreying svo við venjulega fólkið getum gleymt amstri dagsins.

Verðlaunahafar fá eina mínútu til að þakka fyrir sig og það var auðvitað æði misjafnt hvað þeir höfðu að segja en orð einnar af uppáhalds leikkonunnar minnar eru uppspretta hugleiðinga minna í dag. Reese Witherspoon fékk Óskarinn sem besta leikkonan í aðalhlutverki og eflaust er hún vel að þeim heiðri komin (hef ekki séð myndina sem hún fékk verðlaun fyrir) en í þakkarræðu sinni minntist hún á ömmu sína.

Hún sagði að amman hefði kennt sér að hafa það að leiðarljósi í lífinu að skipta máli.
Mér fannst þetta merkilegt. Að skipta máli. Er það endilega að vera frægur og þykjast eitthvað merkilegri en annað fólk…..???? Ekki allavega í mínum huga enda er fræga fólkið ekkert öðruvísi en við hin þau vinna bara aðra vinnu en við.

Ég tek heils hugar undir orð ömmunnar . Ég vil skipta máli. Ég vil skipta máli í lífi fjölskyldu minnar, ég vil að það muni um mig, að verkin mín tali góðu máli, ég vil lifa lífi mínu til gagns um leið og ég nýt þess að vera til því lífið er svo skemmtilegt.

Það segir einhvers staðar að þegar maðurinn fæðist þá gleðjist allir í kringum hann en litla mannveran hágrætur. Ég vil lifa mínu lífi þannig að þegar ég dey þá gráti mig allir en ég sjálf geng inn til fagnaðar herra míns. Ég vil að það hafi munað um mig.

Já ég vil skipta máli....... Ekki flókið.......

fimmtudagur, mars 02, 2006

Eygló og Arna eru 25 ára í dag....


Það var í lok október árið 1980, ljósmóðirin skoðaði mig varlega eins og endranær en eitthvað fannst henni þetta ekki eins og vanalega. Ég vil senda þig suður í sónar sagði hún en á þessum tíma, þótt ekki sé lengra liðið, þá fóru konur ekki í sónar á meðgöngu nema sérstök ástæða þætti til þess.

Við Íris fórum því einn morgunn suður með Akraborginni og mamma tók á móti okkur á bryggjunni og keyrði mig upp á Landspítala.

“Þau eru tvö” sagði læknirinn við mig kornunga móðurina. “Ertu viss um að það sé allt í lagi með þig” sagði hann svo áður en hann hleypti mér út úr stofunni. Jú það var allt í lagi með mig en frétirnar voru vægast sagt óvæntar.

Mamma og Íris biðu eftir mér niðri og þegar mamma sá mig koma niður stigann, gráhvíta í framan spurði hún, eru þetta tvíburar elskan mín? Hún var ekki eins hissa og ég. Erling hringdi í mig í hádeginu og spurði frétta. Barbro vinkona kom að símaklefanum (já þið lásuð rétt, þetta var fyrir alla farsímana og við vorum ekki einu sinni með heimasíma) sem hann hringdi úr rétt á eftir og sagði mér seinna að hún hefði aldrei séð Erling svona skrítinn á svipinn áður. Allavega þá held ég að það hafi liðið mínúta áður en hann svaraði mér. Þetta var svo óvænt en um leið spennandi fréttir. Tvíburar……….

Það var síðan á Sjúkrahúsi Akraness, 2. mars 1981 að þær fæddust með fjögurra mínútna millibili, Eygló fyrst og síðan Arna. Þær voru yndislegar og það sem mest var um vert að þær voru báðar lifandi og heilbrigðar 13 marka og 51 cm.

Þær döfnuðu vel og voru rólegar svo lengi sem engir ókunnugir nálguðust þær, ef það gerðist þá heyrðist í þeim langar leiðir. Það mátti enginn t.d. hjálpa mér með þær ef ég var ein á ferð í heimsókn í höfuðborginni. Þær systur voru ekki gamlar þegar farið var að leggja ofurkapp á að vera ekki eins klæddar. Þær eru einstaklega hlátumildar og skemmtilegar og gaman að vera nálægt þeim og þær hafa svo sannarlega veitt okkur foreldrum sínum mikla gleði og fyrstu áhyggjurnar sem komu hjá lækninum forðum voru svo sannarlega óþarfar. Þær eru um margt ólíkar en samt svo mikið líkar. Þær eru mjög samrýmdar og reyndar held ég að það geti enginn skilið þetta sérstaka samband sem er á milli eineggja tvíbura.

Arna er í dag gift honum Davíð og saman eiga þau þrjár yndislegar litlar stelpur og í bili sinnir Arna húsmóðurhlutverkinu því sú yngsta er aðeins rúmlega fjögurra mánaða.

Eygló er nýbúin að skipta um vinnu og er orðin vaktstjóri hjá Nóatúni og er mjög ánægð þar. Hún stefnir síðan á að fara erlendis í haust og víkka sjóndeildarhringinn og læra nýtt tungumál.

Ég held að þetta verði fyrsti afmælisdagurinn sem þær eyða ekki saman því afi hans Davíðs er nýdáinn og í dag keyra þau norður fjölskyldan til að vera við útförina.

Elsku krúttin mín, innilega til hamingju með daginn ykkar, ég er stolt af ykkur og elska ykkur meira en orð fá lýst. Eigið frábæran afmælisdag og ég hlakka til veislunnar……..