sunnudagur, júlí 24, 2011

Danía Rut afmælisskvísa

Í dag eru liðin níu ár frá því að ég fékk ömmutitilinn í fyrsta sinn. Við vorum að koma úr ferðalagi og komin til Akureyrar og vorum frekar spennt því samkvæmt dagatalinu átti barnið að vera fætt. Það var svo aðfaranótt 24. júlí sem skvísan kom í heiminn og við Erling þar með orðin afi og amma. Daníar Rut, sem í dag fagnar 9 ára afmælinu sínu, hefur alla tíð verið mikill gleðigjafi í lífi okkar og þrátt fyrir veikindi í byrjun þá er hún við hestaheilsu í dag, afar hress og skemmtileg stelpa. Danía Rut greindist einhverf þegar hún var 5 ára en þar sem hún er ekki með neina þroskaröskun Þá gengur hún í venjulega skóla og fær þar smá aðstoð. Hún er með það alveg á hreinu hvers vegna hún er einhverf eins og sést á þessu sem ég tók af síðunni hjá mömmu hennar: "Við sátum við morgunverðarborðið þegar Danía Rut segir allt í einu bara alveg upp úr þurru..stelpur vitiði hvað, þegar Jesú var að búa mig til þá setti hann vitlausan heila í mig og þess vegna er ég einhver. Stelpurnar voru ekki alveg að samþykkja þetta svo daman hélt áfram og sagði, sko Guð hann fór niður og sótti öðruvísi heila og setti í mig og þess vegna er ég einhverf. Þótt hlutirnir geti verið erfiðir að skilja þegar maður er einhverfur þá skilur daman þetta allavega mjög vel og er komin með sína eigin skýringu á einhverfunni sinni "
Danía Rut er dugleg stelpa, elskar lítil börn og dýr og þá sérstaklega kisur og hún á kisuna Prins Mjá sem amma hennar í sveitinni geymir fyrir hana því mamma hennar er með ofnæmi fyrir kisum. Hún elskar að dansa og hefur sýnt hæfileika á því sviði.


Elsku Danía Rut okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með afmælið þitt og við vitum að þú verður dekruð í dag sem aðra dag. Við elskum þig meira en hægt er að segja með orðum og hlökkum til að fara í ferðalag með ykkur á morgun.