laugardagur, apríl 26, 2008

Heima

Það er alveg eins og venjulega eftir skemmtilegt frí að erfitt er að koma sér í vinnugírinn. Það hefur nú samt tekist alveg ágætlega, allavega mæti ég í vinnuna og segi frá ferðinni. Mig hefur dreymt Egyptaland allar nætur síðan ég kom heim, ég get best líst ferðinni með því að segja ykkur að mér fannst ég á hverjum degi vera að upplifa ævintýri í Þúsund og einni nótt og ég var drottningin. Fyrir utan Erling sem alltaf lætur mér líða eins og ég sé drottning, þá komu allir þannig fram við mig. Bara gaman að því allavega í smá stund. Það var gaman að klæða sig upp í egypskan búning á skemmtikvöldi sem haldið var í skipinu. Egypski fararstjórinn málaði þær okkar sem vildu að egypskum sið og þar sem ég vil nú ekki missa af neinu þá auðvitað þáði ég það. Hér að ofan sjáið þið svo árangurinn.

Eins og ég sagði þá er lífið að færast í sitt hefðbundna skemmtilega lag, ég nýt svo sannarlega þess að vera til. Hins vegar hefur ferðin okkar breytt mér að einhverju leyti.
Ég skil betur hvað við höfum það gott hér á landinu okkar fagra, hversu mikil forréttindi það eru að hafa fæðst hér og fá að alast upp í landi sem flæðir í mjólk og hunangi. Bara það að hafa nóg landrými til að byggja húsin okkar á hefur öðlast nýjan skilning þegar maður sá að alls staðar þar sem hægt var að koma því við voru byggðar blokkir. Ég var að horfa útum eldhúsgluggann minn áðan, á Heklu, sá tréð sem er fyrir utan gluggann minn, sá fallegustu á í heimi, Ölfusá, og þá mundi ég eftir öllum blokkunum sem ég sá í Kairo, byggðar svo þétt upp að hver annarri að útsýnið út um gluggann var bara inn um gluggann í næsu blokk….Já við erum lánsamir Íslendingar. Skrýtnasta blokk sem ég hef séð

Vorið er komið hér í Húsinu við ána. Á sumardaginn fyrsta hófu vinir okkar, álftaparið Nína og Geiri, hreiðurgerð hér í úti í hólmanum og það var svoooo gaman að sjá þau aftur. Við vorum búin að sjá þau á ánni en að sjá þau í hólmanum, á sínum stað var alveg hreint sérstök tilfinning. Þau eru komin heim og eins gott að enginn geri þeim neitt mein. Helgin hefur verið róleg, en við erum samt núna á leið til höfuðborgarinnar, tilefnið er matarboð á vegum Mózaik, nýstofnaðrar hvítasunnukirkju. Á morgun förum við svo aftur til Reykjavíkur og þá til að vera við skírn afastráksins hans Hjalla mágs míns. Fjölskyldan er jú það dýrmætasta sem við eigum og gaman að fá að gleðjast með henni á hátíðarstundu sem þessari.

Ætla að fara og reyna að ná Erling inn í fataskipti en hann er úti að bóna mótorhjólið og gera það klárt fyrir sumarið. Það verður gaman að fara að þeysast um á því á ný eftir langan og frekar strangan vetur. Þangað til næst.......

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Komin heim

Meiriháttar upplifun þarna við pýramídana

Það verður að segjast að Egyptalandsferðin okkar fór langt fram úr okkar vonum og væntingum. Við vorum heppin með ferðafélaga, fararstjórinn var frábær og einnig nemandinn hennar sem mun taka við að stýra þessum ferðum. Það að sjá staðinn þar sem álitið var að Móses hafi fundist í sefinu í Níl, bogra eftir þröngum göngum niður í pýramída, ganga langt inn í fjall inn í grafhvelfingar, fara á úlfaldabak og vera næstum dottin af baki, Erling bjargaði mér algerlega, veit ekki hvernig hefði farið ef hann hefði ekki náð að grípa mig og vera nógu sterkur til að halda mér, horfa á sólarupprásina yfir Níl úr loftbelg, heimsókn í þorp innfæddra, sitja á kaffihúsi og horfa á sólina setjast yfir eyðimörkinni, sigla upp Níl og horfa á mannlífið á árbakkanum þangað til pálmatrén virtust svört því sólin var að setjast bak þau.
Takið eftir fuglunum
Sitja uppi á þilfari um miðnætti, bara við tvö ein og horfa á borgarljósin eða innfædda á leik þegar það var nógu svalt að þeirra mati.

Þvílík upplifun, algerlega magnað, ómótstæðilegt, ótrúlegt.
Svona gæti ég lengi talið upp en við erum að setja dagbókina okkar á tölvutækt form og munum birta hana að einhverju eða öllu leyti hér í bloggheimum. Mér fannst ég vera í nýju ævintýri á hverjum degi, magnað að upplifa söguna drjúpa af hverju strái, sjá öll þessi ævafornu listaverk út um allt, skemmta sér á kvöldin í leikjum á skipinu, finnast maður vera drottning enda komið fram við mann sem slíka. Allt skipulag var til fyrirmyndar og ég mæli með Bændaferðum ef fólk vill upplifa öðruvísi ferðir.

Þessi var lifandi en ég kyssti hann nú ekki í alvörunni :o)

Það er frábært að hafa tækifæri til að ferðast en best af öllu er að koma heim og hitta fólkið sitt sem er það dýrmætasta sem maður á. Að sjá litlu dömurnar okkar fagna okkur þegar við vorum komin heim, knúsið frá þeim er mér algerlega ómetanlegt. Erling Elí tók okkur með meira jafnaðargeði enda bara 10 mánaða.

Við tókum um 2.500 myndir í ferðinni þannig að ef þið hafið löngun og tíma, endilega kíkið við hér í Húsinu við ána....alltaf kaffi á könnunni.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Pabbinn minn......

Ég er svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og fyrir það er ég Guði þakklát. Því fylgir auðvitað að afmælisdagar eru margir og mér finnst alltaf mikil ástæða til að fagna hverjum og einum þeirra því lífið sjálft er gjöf sem okkur er gefin.
Ég á frábæra foreldra og í dag á hann pabbi minn afmæli, fagnar þeim degi núna í 69. skipti. Hann er alveg einstaklega greiðvikinn og umhyggjusamur og hann fylgist vel með okkur öllum afkomendum sínum. Um daginn vorum við eitthvað að tala um hann heima hjá mér og þá segir Íris, “hann afi er svo frábær og æðislegur”. Það eru svo sannarlega orð að sönnu. Það er alveg sama hvort um er að ræða að komast eitthvað eða fá lánaðan bílinn hans, það er aldrei neitt mál, annað hvort keyrir hann okkur eða lánar okkur bíl. Litlu langafabörnin hans kalla hann Langa að hans eigin ósk og að mér læðist sá grunur að hann sé bara nokkuð stoltur af okkur öllum. Hann er ættarhöfðingi í stórri ætt og er duglegur að hafa samband við okkur öll.

Elsku pabbi minn, frá Egyptalandi sendum við Erling þér innilegar hamingjuóskir með daginn og við vonum að hann verði þér góður og skemmtilegur. Við biðjum að heilsa heim á landið okkar fagra og hlökkum til að koma heim og hitta ykkur öll og segja ykkur frá ævintýrum okkar hér á Afríkuslóðum. Ég elska þig meira en orð fá lýst og er þakklát fyrir að eiga þig.

Erlan þín