laugardagur, desember 26, 2009

Og svo komu jólin....


„Jólin hér, jólin þar, jólin þau eru alls staðar“ stendur í einhverju jólalagi og svo sannarlega hafa jólin verið hér í jólahúsinu mínu við ána. Jólin, þessi yndislegi tími þar sem friður og hátíðleiki svífur yfir, jólin þegar allt skartar sínu fegursta og besta. Áin rennur tignarlega framhjá glugganum mínum og fuglarnir allt um kring, nýta sér þessa matarkistu sem áin svo sannarlega er.

Ég hef svo sannarlega notið aðventunnar eins og endranær enda löngu hætt að stressa mig yfir þessum tíma heldur lærði fyrir mörgum árum að slaka á og veit sem er að jólin koma alltaf hvort sem „allt sem gera þarf fyrir jólin“ er búið eða ekki og það er miklu skemmtilegra að vera afslappaður heldur en uppstressaður. Ég hef rölt um Kringluna með frábærri vinkonu, við Erling höfum heimsótt góða vini og átt skemmtileg samfélag við þau, ég hef farið í árlegt stelpuboð með litlujóla ívafi (pakkar) og bara virkilega notið þess að vera til.

Innst inni verð ég þó að viðurkenna að ég kveið svolítið fyrir einu og það var að Hrund yrði ekki með okkur, ég kveið fyrir að vita af henni í Þýskalandi yfir hátíðina sérstaklega þegar ég vissi að fólkið sem hún dvelur hjá er trúlaust fólk sem heldur ekki uppá jólin, það hefði verið allt annað ef ég hefði vitað að hún myndi prufa nýja hluti, kynnast þýskum jólum.

Svo gerðist undrið mikla, jólin voru alltí einu komin á skrifstofuna mína. Vinkona Hrundar sem er einnig aupair í Þýskalandi var búin að plana að koma heim um jólin og ætlaði að koma með pakka frá Hrund til mín og í samráði við mig ætlaði hún að koma í hádeginu sl þriðjudag, síðasta vinnudaginn minn fyrir jól. Ég var að ljúka við að færa nokkrar tölur á sinn stað í bókhaldi eins af fyrirtækjunum mínum þegar ég „heyrði“ í þögninni frammi. Þegar ég lít upp horfi ég beint í myndavél og bakvið hana stendur HRUND. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum, HRUND var komin en hún átti að vera í Þýskalandi, við vorum búin að senda pakkann hennar út með flugmanni sem vinkona hennar þekkir en þarna stóð hún, sagði ekki neitt en horfði bara á mig. Ég get ekki lýst því hvernig mér leið en vá samt, nú voru jólin algerlega að koma. Henni tókst það sem hún ætlaði sér að koma okkur algerlega á óvart og vinkonur hennar voru með í plottinu og við sóttum svo pakkann aftur til vinkonunnar sem sendi hann aldrei af stað...

Jóladagarnir hafa verið yndislega notalegir, við vorum bara þrjú að þessu sinni á aðfangadagskvöld en það var bara gaman enda er Hrund sérlega skemmtilegur félagsskapur. Í gær komu svo Íris og Eygló með sínar fjölskyldur en dagurinn í dag hefur liðið með tilheyrandi letigangi, lestri góðra bóka, og narti í osta, mandarínur og snakk....að ógleymdum afgangi af jólagrautnum með karamellusósunni.

Það eru mín forréttindi í lífinu að hafa Erling, stelpurnar mínar og allt þeirra fólk hjá mér og um leið og ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki sjálfgefið þá er ég svo óendanlega þakklát fyrir það. Það gleður mig meira en orð fá lýst að stelpurnar sækja að koma hingað, litlu ömmugullin mín hringja stundum og spyrja hvort þau megi koma. Algerlega yndis.....Framundan eru fleiri svona letidagar, á von á skemmtilegum gestum á morgun og ég hlakka mikið til.....elsku vinir, það er alltaf heitt á könnunni í jólahúsinu við ána, ekki hika við að kíkja við ef þið eruð á ferðinni......

fimmtudagur, desember 03, 2009

Katrín Tara 5 ára afmælisprinsessa


Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína, bara yndisleg......

Hún Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín, algerlega ómótstæðileg lítil (stór) dama er fimm ára í dag og svo verður hún að eigin sögn bráðum sex ára og byrjar þá í skóla. Hún er svo dugleg stelpa og gengur mjög vel í leikskólanum sínum. Hún æfir fimleika og vill alltaf sýna okkur afa sínum hvað hún getur og það er sko ekki lítið. Katrín Tara er mjög góð í að teikna og lita og er alltaf að gleðja okkur með fallegum teikningum.

Ég og hún eigum okkar spes kveðju. Þegar hún var yngri þá vildi hún aldrei kyssa bless og þar sem ég er algerlega á móti því að þvinga börn til að kyssa fullorðna þá fundum við upp okkar eigin kveðju og höfum haldið því við. Þegar þau fjölskyldan eru að fara frá okkur eða við frá þeim þá labbar hún í burtu, snýr sér svo við og ég sendi henni fingurkoss sem hún svo grípur og skellir á kinnina á sér og svo fæ ég einn tilbaka. Þvílíka krúttið.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systkini þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og það eru mín forréttindi að fá að vera amma þín

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Annáll.....

Þið þolinmóðu örfáu vinir sem enn ratið hér inn fáið hjartans þakkir fyrir trúfesti ykkar.
Ég hef ekki verið sú duglegasta við bloggið síðan fésbókin kom til sögunnar en vegna "fjölda áskorana" ætla ég að slá nokkur slög á lyklaborðið.

Lífið gengur auðvitað sinn vanagang hér í Húsinu við ána og við Erling elskum að vera hér heima og njóta allra gæða sem þetta hús og umhverfi þess bíður uppá. Margumtöluð kreppa hefur auðvitað hitt okkur líkt og flest alla heimsbúa en við tökum lífinu með ró og í raun og veru finnst mér við og litlu fjölskyldurnar okkar Erlings vera líkt og 5 skip sem eru í öruggu vari í fallegri vík meðan stórsjóir og mikill öldugangur gengur yfir fyrir utan brimgarðinn. Það fer vel um okkur öll, "skipin" þ.e heimilin okkar eru notaleg skjól og þar inni er birta og friður og þótt ekki verði kannski siglt mikið meðan stormurinn gengur yfir þá er lífið "um borð" bara ljúft og enginn skortur á neinum gæðum. Við erum líka svo heppin að finnast við bara skemmtileg og kunnum mjög vel við félagsskapinn af okkur og svo eru auðvitað fleiri "skip" þarna og vinir sem er gaman að hafa samfélag við.

Sumarið var skemmtilegt og margt gert sér til skemmtunar. Við hjónin tókum upp á því að byrja að klífa fjöll og ég verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart hvað mér finnst þetta ferlega skemmtilegt. Við náðum að fara á 4 tinda og stefnum ótrauð á að halda þessu áfram næsta sumar og gera þá meira af því. Svo var farið í ferðalög upp á hálendið, bæði bara við tvö og svo með stórum hóp fólks og hvort tveggja var mjög gaman. Margar helgarnar vorum við á Föðurlandi og það er bara einstaklega ljúft. Tókum nokkra sumarfrísdaga þar í ágúst og veðurblíðan var slík að það líktist mjög þeirri eyju sem er í mestu uppáhaldi hjá mér á eftir sjálfu Íslandinu, það er Mallorka. Við heimsóttum Óla og Anette og þeirra fjölskyldu í sumar og eins og alltaf var vel tekið á móti okkur og við áttum skemmtilegan tíma með þeim í Danaveldi.

Erling er nú í mastersnámi í lögfræði við HR og líkar það afar vel en þau eru í tveimur fögum saman hann og Íris og oft eru þau að vinna verkefni saman.

Arnan okkar kynntist ljúfum og góðum manni í sumar og eru þau saman öllum stundum sem hægt er en hann reyndar býr ekki á höfðuborgarsvæðinu þannig að þau hittast um helgar. Okkur Erling líst vel á hann og það gleður okkur mjög hvað hann er góður og umhyggjusamur við þær mæðgur og tekur litlu dömunum af mikill skynsemi og uppsker það að þær eru yfir sig hrifnar af honum og hamingjan skín nú af Örnunni okkar, kominn tími til.....

Það gengur allt sinn vanagang hjá Írisi og Eygló og þeirra fólki enda eru þau í tveimur af ofangreindum "skipum" sem eru í vari frá stórsjó kreppunnar.

Hrundin venti sínu kvæði í kross og gerðist aupair hjá frábærri fjölskyldu í Þýskalandi og hún unir svo sannarlega hag sínum vel þar. Krakkarnir sem hún gætir eru alveg yndisleg og náðu að bræða hana eins og skot. Það þýðir sem sagt að við Erling erum bara tvö í kotinu í fyrsta sinn á ævinni en þannig er nú lífið bara og eins gott að við kunnum svona vel við okkur.

Framundan er svo að fagna því að Erling varð fimmtugur um daginn og ég verð fimmtug í janúar. Ég er svo þakklát fyrir lífið sjálft og allt það góða sem í veg okkar er lagt.

Kannski verð ég duglegri við bloggið í framhaldinu, við sjáum til. Mér finnst reyndar að fésbókin geti ekki alveg komið í staðinn fyrir það..... Þangað til næst vinir....njótið daganna, þeir eru góðir

mánudagur, október 26, 2009

Erling fimmtugur, hann lengi lifi


Þegar ég gifti mig fyrir rúmum 30 árum síðan var ég ákaflega hamingjusöm ung stúlka. Ég hafði kynnst frábærum strák sem að sögn foreldra minna bauð af sér góðan þokka og það var jafn mikilvægt þá og núna, skil það samt enn betur þegar ég sjálf hef verið í sporum foreldra minna og verið kynnt fyrir tilvonandi tengdasonum mínum.
Erling hefur svo sannarlega staðið undir væntingum mínum og langt umfram það, ég er í dag enn hamingjusamari en ég var á brúðkaupsdaginn okkar, við erum svo lánsöm að vera bestu vinir, getum setið endalaust í límsófunum okkar og spjallað um allt milli himins og jarðar. Við erum meira en bara vinir hann er nefnilega sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig og dekra á allan mögulega hátt.
Afkomendahópurinn stækkar sífellt og eins og áður sagði hafa tengdasynir bæst í hópinn. Dæturnar eru 4 og barnabörnin 7, elsta er 7 ára og sú yngsta aðeins eins árs. Við elskum að ferðast bæði innan lands og utan og notum hvert tækifæri til þess ásamt ótöldum dögum sem við eyðum saman í Kofanum okkar á Föðurlandi. Þess utan á Erling tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars.....ekki síst á þessum kreppudögum og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.
Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í stuttum pistli og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

laugardagur, október 17, 2009

Þórey Erla afmælisskvísa


Þar sem ég er orðin sjö barna amma er ekki skrýtið að það séu oft afmælisblogg á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er að segja.

Hún Þórey Erla, næst yngsta prinsessan mín á afmæli í dag, er orðin fjögurra ára daman. Það er alveg merkilegt hvað svona lítil mannvera á auðvelt að vefja svona stórri manneskju eins og mér um fingur sér og hafa ekkert fyrir því. Brosið hennar og stóru augun og þegar hún kemur til manns og smellir kossi á mann með stórum smelli er algerlega ómótstæðilegt. Þórey Erla er mjög geðgóð en veit alveg hvað hún vill og að eigin mati þá getur hún allt. Við erum góðar vinkonur og það er mjög gaman þegar hún hringir og spyr hvort hún og systurnar megi koma í heimsókn á Selfoss til afa og ömmu. Hún er reyndar meiri afa en ömmustelpa og þegar ég kem til þeirra ein þá spyr hún um afa sinn áður en hún heilsar þetta litla yndigull.

Elsku Þórey Erla, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar og ég bið Guð að gæta þín hvar sem þú ferð.

Vertu svo dugleg að láta þér batna svo hægt verði að hafa veisluna þína fljótt.

mánudagur, október 05, 2009

Erla Rakel 1 árs afmælisprinsessa


Það var fallegur sunnudagsmorgunn, við Erling vorum búin að fylgjast með Eygló og Bjössa alla nóttina því loksins var komið að því að fyrsta barnið þeirra myndi láta sjá sig. Fæðingin gekk frekar illa og snemma morguns var ákveðið að sækja barnið með töngum. Það gekk svo allt upp og loksins kom hringingin sem við höfðum beðið eftir, lítil dama var mætt á svæðið og var auðvitað fallegust og fullkomin að sögn yfir sig hamingjusamra foreldra.

Það er alveg hreint ótrúlegt að í dag sé komið eitt ár síðan þetta var og yngsta prinsessan okkar Erling er að fagna fyrsta afmælisdeginum sínum. Erla Rakel er yndislegur lítill gullmoli sem heillar alla sem koma nálægt henni, dökkhærð með brún augu sem bræða mann algerlega. Hún dafnar mjög vel og er bara algert yndis barn. Hún er mikil pabbastelpa þótt það komi nú ekki í veg fyrir að mamma hennar megi alveg sinna henni og svo finnst henni svo gaman þegar hún hittir stóru frændsystkinin sín enda nenna þau alveg ennþá að leika við litla barnið.

Elsku Erla Rakel mín, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig mjög mikið og hlökkum til að fylgjast með þér vaxa og dafna. Það var mjög gaman að koma í flottu afmælisveisluna þína og mikið var strumpakakan flott sem mamma þín gerði. Hlakka svo til næst þegar ég hitti þig.

föstudagur, september 11, 2009

Hann á afmæli í dag...


Það er alveg ótrúlegt að það sé bráðum áratugur síðan ég kynntist honum fyrst. Við Erling vorum nýkomin heim frá Spáni þegar Íris sagði okkur að hún hefði farið út að borða með vini sínum. Við vorum auðvitað forvitin foreldrarnir og stuttu seinna vorum við kynnt fyrir honum Karlott og þau munu halda uppá 8 ára brúðkaupsafmælið sitt bráðum.

Sem ættmóðir margra þá er eðlilegt að það sé oft verið að halda uppá afmæli hjá einhverjum og í dag er það áður nefndur tengdasonur minn hann Karlott sem fagnar einu árinu enn og í þetta sinn í 34. skipti. Karlott er einstaklega ljúfur og góður drengur og segja má að hann sé hvers manns hugljúfi. Hann er með mikla veiðidellu og vill heldur ekki læknast af henni og ég gæti best trúað að eftir ferðalagið okkar stórfjölskyldunnar um síðustu helgi hafi hann smitast illilega af jeppadellu og hálendisferðagleði, allavega veit ég að hann skoðar bílasölur vel þessa dagana og grun hef ég um að það séu jeppar sem heilli mest.

Íris og Karlott eiga 3 yndisleg börn saman og eru einstaklega samhent um allt er viðkemur heimilishaldi og barnauppeldi. Hann starfar við heimaþjónustuna í Hafnarfirði og einnig við liðveislu og þá fer hann með fatlaða einstaklinga út á lífið og ég veit að skjólstæðingar hans eru mjög ánægðir með hann. Við Erling erum mjög ánægð með hann og stolt af honum.

Elsku Karlott minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að Íris og börnin munu dekra þig. Sjáumst svo sem fyrst.....

mánudagur, ágúst 31, 2009

Íris afmælisstelpa


Ég man það eins og það hefði gerst í gær, stoltið, þakklætið og gleðin sem fyllti huga minn þennan fallega morgun í ágúst tók öllu öðru fram sem ég hafði nokkurn tímann upplifað. Jú, við Erling vorum orðnir foreldrar í fyrsta sinn. Ég gat ekki beðið eftir að foreldrar mínir kæmu til að sjá þetta undurfallega barn sem ég hafði fætt og ekkert fegurra var til undir sólinni að okkar mati.
Í dag eru 31 ár liðið frá þessum yndis degi þegar hún Íris mín fæddist og það er ótrúlegt að ég, rétt rúmlega fertug, skuli eiga barn á fertugsaldri en svona er lífið frábært. Hún hefur alla tíð verið okkur mikill gleðigjafi og við erum afar stolt af henni. Hún er sjálfstæð og öguð og hún lýkur því sem hún tekur sér fyri r hendur. Hún og Karlott maðurinn hennar eiga 3 yndisleg börn og þau eru einstaklega samhent um allt heimilishald og barnauppeldi. Íris er lögfræðingur að mennt en fyrst og fremst er hún mikil mamma og eiginkona og auðvelt að sjá að fjölskyldan er í algeru fyrirrúmi hjá henni.

Elsku Íris mín, ég vil óska þér til hamingju með daginn þinn og vona að hann verði þér góður og að ég veit að fólkið þitt mun dekra þig á allan hátt.

mánudagur, ágúst 24, 2009

Afmælisskvísa


Í mínum huga eru afmælisdagar alltaf miklir merkisdagar og ég er svo lánsöm að eiga mörg yndisleg ömmubörn og því eru oft afmælisfærslur á blogginu mínu.
Í dag á ein prinsessan mín afmæli og það er hún Petra Rut sem er 7 ára í dag og er að fara í annan bekk og það er sko ekkert smá stórt skal ég segja ykkur. Hún lauk fyrsta bekk í vor með frábærum vitnisburði. Hún er alveg yndisleg stelpa með ákveðnar skoðanir og veit sko hvað hún vill. Um daginn spurði hún mig hvort ég væri bara mamma. Ég sagði henni að ég væri bæði mamma og svo væri ég líka amma en í vinnunni væri ég bókari. Eftir smá umhugsun sagði hún mér að hún ætlaði ekki að vera bókari þegar hún yrði stór heldur ætlaði hún að vera mamma og lögfræðingur eins og mamma sín. Algert yndisbarn og einlæg.
Aðspurð vildi hún helst fá gsm síma í afmælisgjöf en þar sem foreldrar hennar sáu ekki sömu ástæðu og hún fyrir gsm síma þá vildi hún bara fá Bratz dúkku. Við Petra Rut eru miklar vinkonur og það er svo notalegt þegar hún kemur og vefur handleggjunum um hálsinn og mér og gefur mér knús.

Elsku Petra Rut mín, ég vil óska þér til hamingju með daginn þinn, vona að þú verðir dekruð í allan dag. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og ég elska þig marga hringi..

föstudagur, júlí 24, 2009

Danía Rut á afmæli í dag, hún lengi lifi.....


Í dag er merkisdagur í lífi okkar stórfjölskyldunnar, Danía Rut, elsta barnabarnið okkar Erlings fagnar 7 ára afmælisdeginum sínum.

Við vorum búin að bíða eftir henni í 9 daga þennan júlímánuð fyrir 7 árum síðan og svo lét hún loksins verða af því að kíkja á okkur. Hún hefur alla tíð verið mikill gleðigjafi í lífi okkar og þrátt fyrir veikindi í byrjun þá er hún við hestaheilsu í dag og lauk fyrsta skólaárinu sínu í vor með frábæran vitnisburð. Danía Rut greindist einhverf þegar hún var 5 ára en þar sem hún er ekki með neina þroskaröskun gengur hún í venjulegan skóla en fær aðstoð á skólatíma.

Hún er mjög dugleg stelpa, elskar dýr og sérstaklega kisur og svo getur hún unað sér tímunum saman með bók. Hún er mjög blíð og það er yndislegt þegar hún vefur handleggjunum sínum um hálsinn á mér og segir mér að hún elski mig.

Elsku Danía Rut mín, innilega til hamingju með daginn þinn, láttu nú alla dekra við þig og ég hlakka til að sjá þig í dag. Ég elska þig meira en hægt er að lýsa með nokkrum orðum og er stolt af þér og dugnaði þínum.

mánudagur, júní 22, 2009

Hann á afmæli í dag...hann lengi lifi....


Eins og lesendur mínir vita þá er ég svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og í minni eigin nánustu fjölskyldu þá er ég ættmóðir margra og því eru oft afmælisskrif á síðunni minni og það er einmitt í dag.

Annar tengdasonur minn, hann Bjössi hennar Eyglóar á afmæli í dag er orðinn 35 ára kappinn. Bjössi er mjög duglegur strákur og í síðustu viku útskrifaðist hann sem vélfræðingur en hafði áður lokið vélstjóraprófi. Hann er nýbúinn að skipta um vinnu og starfar nú á nýju verkstæði Strætó bs og líkar það bara vel. Hann hefur gaman af veiðiskap og okkur Erling til mikillar ánægju þá eru þeir tengdasynir okkar, hann og Karlott hennar Írisar, góðir félagar og fara oft saman á kvöldin og baða maðka. Eygló og Bjössi eru mjög samhent og auðséð að hann gerir Eygló hamingjusama og það er gaman að fylgjast með þeim og litlu prinsessunni þeirra henni Erlu Rakel.

Elsku Bjössi, við Erling sendum þér innilegar hamingjuóskir héðan frá Stövring og við biðjum Guð að blessa þig ríkulega í leik og starfi.

mánudagur, júní 15, 2009

Sumarfrí

Það var ekki leiðinlegt að slökkva á tölvunni í vinnunni núna fyrir helgi, búin að vinna allan vsk pakkann og ganga frá öllum launum og öðru smálegu sem gera þurfti. Ég kvaddi samstarfsfólkið með orðunum, sjáumst eftir tvær vikur, njótið lífsins og saknið mín mikið.
Létt í lund settist ég undir stýri og ók heim á leið yfir fjöllin tvö eins og hún Petra Rut mín segir stundum.
Það er eitthvað svo sérlega notalegt að vera í fríi og ég fann það sérstaklega í dag. Það er mánudagur en samt gat ég sofið út, kom niður og þar var Erling að lesa blöðin og var eitthvað svo sérstaklega notalegur að sjá. Við fengum okkur morgunmat saman, síðan litaði hann á mér hárið og við tók svo ýmislegt stúss sem tilheyrir því að fara í sumarfrí. Dagurinn hefur því verið góður og áðan kvöddum við Örnu og litlu stóru gullin hennar en þær kíktu á okkur því þegar við komum heim aftur verða dömurnar farnar burtu með pabba sínum í þrjár vikur.
Eftir hádegi á morgun munum við hjónin sitja á Ráðhústorginu og fylgjast með mannlífinu og svo rölta niður að Nýhöfn og bara njóta þess að vera til.
Á 17. júní fljúgum við svo norður á bóginn til Óla bróður og hans fjölskyldu og ætlum að eyða með þeim nokkrum dögum og ég hlakka mikið til. Köben hefur alveg sérstakan sjarma í okkar augum, eitthvað svo heimilisleg borg.
Njótið lífins vinir mínir, ég skelli inn myndum þegar við komum heim aftur...þangað til næst...

miðvikudagur, júní 03, 2009

Erling Elí afmælisprins...


Fyrir tveimur árum þegar Íris hringdi í mig og bað mig að sækja stelpurnar og gæta þeirra var líka svona fallegt veður úti. Ég brenndi í bæinn því allt benti til þess að prinsinn ætlaði að mæta á svæðið.
Það var svo rétt fyrir kvöldmat að símtalið kom sem við vorum búin að bíða eftir allan daginn, ljóshærður glókollur var kominn í heiminn og fékk nafn Erlings afa síns ásamt öðru fallegu nafni.
Í dag er Ering Elí orðinn tveggja ára gamall. Hann er flottur og duglegur strákur sem bræðir alla sem eru kringum hann og það er svo gaman að því að hann er mjög hændur Erling afa sínum, notar hvert tækifæri til að smeygja sér í fangið á honum eða stinga litlu hendinni sinni í lófann hans.
Erling Elí nýtur þess að hafa allar þessar stelpur í kringum sig því hann er enn sem komið er eini stákurinn í barnaskaranum okkar Erlings. Stóru systur hans er u þolinmóðar við hann og leyfa honum oftast að vera með sér. Hann er alger prakkari og grallaraspói.
Elsku Erling Elí minn, ég óska þér til hamingju með daginn þinn, þú ert alger Guðs blessun í líf okkar og ég er Guði þakklát fyrir þig. Hlakka til að koma í veisluna þína í dag og láttu nú alla dekra við þig sem aldrei fyrr. Ég elska þig milljón hringi og aðeins fleiri líka litla gullið mitt.

fimmtudagur, apríl 23, 2009

Kvennó endurfundir ofl.

Það var mikið hlegið skrafað og skemmt sér í gömlu stofunni uppi á þriðju hæð í Iðnó seinni partinn í gær. Þar vorum við samankomnar stelpurnar í 3-Z sem útskrifuðumst úr Kvennó 1976 en þá var Kvennaskólinn virðulegur gagnfræðaskóli sem seinna breyttist í menntaskóla.

Í þessum hópi föngulegra kvenna eru fulltrúar mjög margra og fjölbreyttra starfsgreina og gaman að fá að heyra hvað hver og ein hefur fyrir stafni og svo er auðvitað bráðnauðsynlegt að vita ALLT um fjölskylduhagi okkar. Þær ráku upp stór augu yfir ríkidæmi mínu varðandi börn og barnabörn, sumar virtust jafnvel eiga erfitt með að trúa því að ég eigi 7 barnabörn enda er það örugglega ótrúlegt miðað við hvað ég er nú ungleg, múhahahaha. Þetta var allavega mjög gaman og við ákváðum að hittast aftur eftir 2 ár og byrja þá á því að fara skoðunarferð um gamla skólann okkar en svo vel vill til að ein okkar er kennari þar og því hæg heimatökin fyrir hana að sýna okkur skólann.

Í fyrradag komu svo vinir okkar og nágrannar til landsins og við fögnuðum komu þeirra mjög hér í eldhúsinu okkar enda vorum við Erling hrædd um að annað þeirra hefði ekki lifað af veturinn, heldur verið skotinn þar sem hann var fastur á ísilagðri Ölfusánni í vetur. Álftaparið Nína og Geiri eru sem sagt komin og við fylgjumst með þeim laga til hreiðrið sitt úti í hólmanum en þetta er þriðja árið sem við njótum þeirra forréttinda að horfa á þau koma sér fyrir og á endanum sjá þegar ungirnir komast á legg hjá þeim.

Í tilefni afmælisins hans pabba höfum við notið þess að hafa Óla bróðir hér á landinu. Um leið og ég vissi hvaða daga hann yrði hér "pantaði" ég hann og hina bræður mína í heimsókn. Ég tók mér frí í vinnunni og við Erling áttum frábært og skemmtilegt samfélag við þá góðan dagpart. Óli er mikill vinur okkar Erlings og það er alltaf gaman að hitta hann. Hann fer svo heim til Danmerkur í dag og ég veit að fólkið hans er spennt að fá hann heim og við munum hitta hann aftur á hans heimaslóðum í júní, ég er þegar orðin spennt að hitta þau.

Ég fagna komu sumarsins hér á landinu okkar fagra og hlakka til alls þess góða sem það hefur í för með sér. Að vísu er ekki sérlega sumarlegt að litast út um gluggann og það var snjór á heiðinni þegar Hrundin mín fór til borgarinnar í morgun. En það er samt komið sumar allavega samkvæmt dagatalinu, þar stendur skýrum rauðum stöfum, Sumardagurinn fyrsti. Dagurinn verður notaður til að gera bara það sem mig langar til og ekkert annað. Seinni partinn fer ég svo yfir til Tedda bróður og hans fjölskyldu að fagna 12 ára afmæli yngstu dótturinnar þar á bæ.

Ætla að spilla aðeins prófalestri hjá Erling og fá hann í kaffipásu með mér...þangað til næst vinir mínir. Gleðilegt sumar öll sömul.....

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Ég er í sjokki.....

Við Erling settumst áðan fyrir framan sjónvarpið og horfðum á þátt sem heitir Börn til sölu. Þátturinn fjallar um mansal, barnarán og kynlífsþrælkun í Kambódíu í kjölfar mikillar þjóðarmorða sem voru framin þar á áttunda áratugnum.

Fjöldi fólks, börn og fullorðnir, vinna á öskuhaugunum og mér fannst alveg hrikalegt að sjá myndirnar sem sýndu fólkið hópast að þegar öskubílinn kom í von um að finna fyrstur eitthvað til að nýta sér og safna því saman í poka. Ef vel gengur ná þau að skrapa saman "verðmætum" fyrir 1-2 dollara á dag og því er það of mikil freisting fyrir fátæka og skulduga foreldra þegar þeim er boðið allt að 1000 dollarar fyrir dæturnar en svona "mikið" fæst fyrir þær ef þær eru fallegar. Svo er líka mjög algengt að börnum og þá sérstaklega stúlkubörnum sé rænt og þær sjást yfirleitt aldrei aftur.

Í þættinum var viðtal við unga stúlku (barn) sem amma hennar hafði selt í kynlífsþrælkun en hafði tekist að flýja og var í endurhæfingarbúðum sem hjálparsamtök hafa komið á laggirnar. Hún lýsti reynslu sinni og svo sagði hún að draumur hennar væri að eignast húsaskjól, hún þyrfti ekki önnur föt en þau sem hún var í. Annar sagðist ekki hafa fengið vatnssopa þann daginn þrátt fyrir að vera þyrstur, sá var að vinna á öskuhaugunum. Fleiri ömurlegar sögur voru sagðar sem ég endurtek ekki hér.

Á Íslandi eiga flestir húsaskjól, nóg af fötum og hreint rennandi vatn í krönunum, er ekki mál að hætta að kvarta um kreppu og njóta alls þess góða sem okkur er úthlutað af náttúrunnar hendi. Við erum lukkunnar pamfílar, Íslendingar......

föstudagur, apríl 17, 2009

Lífið er ljúft.....

Um kaffileytið hringdi síminn minn kunnuglegri hringingu, hringingu sem aðeins heyrist þegar flotti maðurinn minn hringir. "Hvenær heldurðu að þú verðir heima ljúfust", spurði hann. Þar sem ég var á fullu ásamt mömmu og systkinum mínum að skreyta salinn fyrir afmælið hans pabba gat ég ekki alveg svarað honum. "Viltu láta mig vita svona ca klukkutíma áður" sagði hann þá. Það var auðvitað lítið mál og þegar ég renndi frá bílastæðinu við salinn, hringdi ég í hann og þar sem ég þurfti í Bónus myndi vera um það bil klukkutími í heimkomu. Það var fallegt að aka yfir fjöllin tvö heim á leið og ég naut tímans ein í bílnum með Mama Mia diskinn á fullu og stillt mjög miklu hærra heldur en þegar einhver er með mér. Hrund varð eftir í bænum, þær systur voru að fara í þrítugsafmæli frænku sinnar þar sem þemað var 80´stíll og fjör eftir því.

Í Bónus troðfyllti ég kerruna af gosi, meðlæti og öðru sem vantaði fyrir morgundaginn og rétt um klukkan sex renndi ég inn götuna mína og allt í mér fylltist stakri ró og vellíðan. Það er ekki ofsögum sagt að það sé lífsbætandi að búa svona aðeins utan við skarkala höfuðborgarinnar en njóta samt nálægðarinnar við hana því hún er vissulega líka sjarmerandi.

Erling kom út með svuntuna á sér og bar inn vörur og þegar inn var komið mætti mér gamalkunn en sjaldgæf lykt í dyrunum. Þar var komin í ljós ástæðan fyrir því af hverju hann vildi fá að vita nokkuð nákvæman tíma á heimkomu minni. Lyktin reyndist vera af gæs sem hann hafði skotið í haust og var nú í ofninum, elduð á gamla" mátann. Hún ásamt sósu og meðlæti var alveg hreint algert lostæti, ummmmmm frábært og gaman að fá svona móttökur.
Reyndar hefur það verið þannig eftir að hann byrjaði aftur í skólanum og er stundum heima á daginn að læra að hann er búinn að elda þegar við Hrund komum heim og það er svo notalegt.

Framundan er svo fríhelgi með fullt af skemmtilegum uppákomum. Hæst ber að nefna veisluna sem verður annað kvöld í tilefni þess að pabbi fyllti 70 árin um páskana og svo auðvitað er gaman að Óli bróðir er að koma til landsins og ég hlakka mikið til samveru við hann.

Jæja kæru vinir, nú ætla ég að fara inn í stofu til Erlings, setjast í límsófann og njóta þess að vera til og vera í nærveru hans sem er jú allra besti vinurinn minn, njótið helgarinnar...þangað til næst...

mánudagur, apríl 13, 2009

Páskar

Með vindinn í fangið þeystum við af stað í dag á mótorfáknum okkar og stefnan var tekin á höfuðborgina. Það er allt öðruvísi ferðamáti að vera á mótorhjóli heldur en í bíl. Allt umhverfið færist nær, alls konar lykt, misgóð eða misvond, fyllir vitin og skynjunin er önnur. Þar sem þetta var fyrsta ferðin á þessu vori þá var smá beygur í mér varðandi Kambana, það er þessi tilfinning að finnast við vera að fara á hliðina í beygjunum en svo var öryggið komið mjög fljótt. Erling veit að ég er alltaf svona þegar við byrjum á vorin og þessi elska fór sérlega varlega í þessu. Ég treysti honum algerlega fyrir mér og þetta er mjög gaman. Við kíktum á pabba og mömmu og svo á vini okkar Sigrúnu og Heiðar og áttum bara mjög skemmtilegan dag í borginni. Það var ekki mikill lofthiti, aðeins 3 gráður en þar sem Erling var búinn að kaupa handa mér norsk ullarföt til að vera í innan undir leðurgallanum fann ég ekki fyrir neinum kulda, alger munur að vera svona heitt.

Páskahelgin hefur verið mjög notaleg, við vorum á Föðurlandi yfir bænadagana og eins og ég hef áður sagt ykkur þá er einstaklega notalegt að eyða tíma þar, yndisleg kvöld yfir spjalli með góðum vinum og hlusta á timbrið snarka og loga í kamínunni er eitthvað svo róandi og notalegt. Það er allavega alveg öruggt að við komum heim algerlega afslöppuð og með fullhlaðin batteríin.

Dæturnar voru svo hér allar í gær með sitt fólk og fjörið í börnunum jókst í réttu hlutfalli við minnkandi páskaeggin, þau eru alveg hreint yndisleg þessi kríli. Yngsta daman er bara sex mánaða og fékk ekkert páskaegg en fylgdist áhugasöm með frændsystkinum sínum.

Á morgun byrjar svo ný vinnuvika hjá mér en prófalestur er að byrja hjá Erling, stíf törn framundan og þar sem ég vissi að ég myndi missa hann inná skrifstofu næsta mánuðinn eftir páskana þá nýtti ég hverja stund af þessu páskafríi til samveru við hann.
Nú eru Arna og Hrund komnar heim í sveitina og þær, ásamt Theu sitja inni í stofu og ég ætla að fara inn og setjast í límsófann og spjalla við þær, vonandi næ ég að draga Erling inn með mér....Þangað til næst vinir mínir.....

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Heill þér sjötugum, ég elska þig pabbinn minn


Ég er svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og fyrir það er ég Guði þakklát. Því fylgir auðvitað að afmælisdagar eru margir og mér finnst alltaf mikil ástæða til að fagna hverjum og einum þeirra því lífið sjálft er gjöf sem okkur er gefin.Í dag er merkisdagur í lífi Sunnuhlíðarfjölskyldunnar því ættfaðirinn hann pabbi minn fagnar 70 ára afmælisdegi sínum.
Hann pabbi er alveg frábær, greiðvikinn og sérlega umhyggjusamur um okkur öll, vill alltaf vita þegar við erum á ferðinni og ósjaldan hefur hann hringt og athugað með mig og mitt fólk, hvort við séum örugglega komin heim í hús þegar veður eru válynd á heiðum eða þegar slys hafa gerst á þeirri leið sem við ökum til og frá vinnu þá hringir hann og athugar hvar við erum stödd. Mér þykir afskaplega vænt um þetta og svona hefur hann alltaf verið.
Pabbi var lengst af bílstjóri á Hreyfli, var formaður félagsins í langan tíma og eins og segir í korti sem honum barst ásamt höfðinglegri gjöf frá félaginu þá vann hann af miklum heilindum fyrir félagið og var t.d sá sem lagði mikla áherslu á að tölvuvæða bílana og kom þeirri hugmynd í framkvæmd. Hann spilar alltaf brige með félögum sínum og það eru ófá verðlaunin sem hann hefur komið með heim eftir spilakvöld, hins vegar veit ég varla muninn á spaða og ás.
Afkomendur hans og tengdabörn eru eitthvað í kringum 50 og því er bæði þröngt á þingi en endalaust gaman þegar við komum öll saman í litla ömmuhúsinu hans og mömmu. Litlu langafabörnin hans kalla hann Langa að eigin ósk og að mér læðist sá grunur að hann sé bara nokkuð stoltur af okkur öllum.
Elsku pabbinn minn, innilega til hamingju með daginn þinn, vona að hann verði þér frábær og ég hlakka mikið til veislunnar þinnar sem verður haldin eftir rúma viku, þegar Óli bróðir er kominn heim í tilefni dagsins. Allt það hrós sem þú fékkst í afmæliskortum vina þinna í gær áttu algerlega inni fyrir.
Elska þig endalaust
Erlan þín

laugardagur, apríl 04, 2009

Vorið er komið að kveða burt snjóinn

Það er óvenju hljótt núna hér í húsinu við ána og sennilegasta skýringin er sú að ég er ein heima og er svo róleg og stillt. Erling er í málflutningi mastersnema í Héraðsdómi Reykjavíkur og svo skemmtilega vildi til að hann og Íris voru dregin saman að vinna þetta verkefni ásamt einni skólasystur í víðbót. Ég er búin að laga það til hér sem ég nenni að gera og hef verið að undirbúa kvöldið. Já við hjónin ætlum að fara í Kofann okkar og slaka þar á þangað til á morgun. Eftir svona törn eins og Erling er búinn að vera í finnst honum sérlega notalegt að fara austur austur eins og við segjum stundum og vinda þar ofan af spennunni. Þegar hann kemur heim á eftir verð ég sem sagt búin að útbúa okkur með nesti og nýja skó (nei annars ekki nýja), sem minnir mig á að það er alltof langt síðan ég hef keypt nýja skó :o) Einn viðskiptavinur minn kom færandi hendi á skrifstofuna um daginn og gaf mér bringur af bæði önd og gæs og þær fara á grillið við Kofann í kvöld og með því verður gott hrásalat, rjómasósa, kartöflur og gott rauðvín, ummmm

Annars gengur lífið sinn vanagang, við öll þrjú sem hér búum höfum verið svo heppin að losna alveg við allar þær pestir sem hafa verið að hrjá fólk og við erum farin að halda að það sé miklu hvítlauksáti að þakka, ja hver veit allavega. Hrund er alveg á síðustu skóladögunum sínum í Kvennó og er bæði spennt og kvíðin að útskrifast, gaman að ljúka þessum áfanga en söknuður að kveðja frábæran skóla, kennara og starfsfólk sem er orðið eins og vinir hennar. Hún er komin með vilyrði fyrir sumarvinnu á sambýli hér á Selfossi og það finnst henni mjög gaman. Svo í haust mun hún halda á vit nýrra ævintýra en hún ætlar að flytja með Írisi og Karlott til Danmerkur og vera þar einn vetur áður en háskólanám tekur við. Eins mikið og ég samgleðst henni að fara og láta draum sinn rætast þá veit ég að við Erling munum sakna hennar alveg ferlega mikið, það er svo skemmtilegur félagsskapur af henni og svo er hún bara öll svo yndisleg og foreldrum sínum mikil uppspretta ánægju og gleði eins og þær reyndar allar eru dætur okkar. Tilhugsunin um að Íris og Karlott flytji af landi brott er skrýtin og ég veit að það verður erfitt að hafa þau í öðru landi en ég samgleðst þeim líka innilega. Nú er bara að koma sér vel við flugfélögin og fá Danmerkurferðir á góðu verði, það bara hlýtur að vera hægt.

Enn á ný njótum við þeirra forréttinda að hafa Örnu og dætur hennar um páskahátíðina og ég hlakka mikið til. Eygló ætlar líka að vera hjá okkur með litlu Erlu Rakel þar sem Bjössi fékk afleysingavinnu á sjónum og verður ekki heima um páskana. Íris og Karlott og litlu stóru yndigullin þeirra koma svo á páskadag og verða með okkur þannig að þið sjáið að ég hef mikið að hlakka til. Ég elska það þegar við erum öll samankomin hér í Húsinu okkar fallega við ána.

Nú vöknum við á morgnana við alls konar fuglahljóð sem berast inn um glugganan og það er svo vorlegt og notalegt. Ég bíð spennt eftir að vita hvort nágrannar okkar Nína og Geiri hafi lifað veturinn af og komi og geri sér hreiður hér úti í hólma en það hafa þau gert undanfarið ár. Við Erling þurfum endilega að fara að fjárfesta í góðum kíki til að geta betur fylgst með þessum vinum okkar.

Jæja vinir, best að sinna aðeins þvottinum og kíkja svo aðeins á vinkonur mínar á Bláregnsslóð, þær eru algerlega óborganlega skemmtilegar. Njótið daganna, hlakkið til hátíðarinnar sem er framundan. Ég er byrjuð að bíða eftir Erling, hlakka til að heyra hvernig þeim gekk með málið og svo er bara svo gaman að eyða tímanum með honum. Ég er svo sannarlega lánsöm kona...þangað til næst....

fimmtudagur, mars 19, 2009

Ritgerðin.....og fleira skemmtilegt

Það er mikið um að vera í eldhúsinu núna þótt klukkan sé alveg að slá í miðnætti. Hrund á að skila stúdentsritgerðinni sinni á morgun og það er verið að leggja lokahönd á hana. Erling er að fara yfir hana og kemur fram með eina blaðsíðu í einu, rauða og leiðrétta og Hrund fer yfir þetta jafnóðum. Það er mikið lagt í vinnu við þessa ritgerð og vonandi fær hún einkunn í samræmi við að maður uppsker eins og maður sáir. Viðfangsefnið er kannski ekki það einfaldasta en það fjallar um áhrif sjálfsvíga á aðstandendur. Barbro vinkona var svo elskuleg að leyfa Hrund að taka viðtal við sig en eins og flestir lesendur mínir vita þá framdi elsti sonur hennar sjálfsvíg þegar hann var rúmlega tvítugur.

Á morgun er svo komin helgi eina ferðina enn og það er sko bara gaman. Við í Flugfreyju-klúbbnum erum að fara saman í sumarbústað og handavinnan verður sko tekin með. Ég fór í dag og keypti nokkar dokkur af ullargarni því hún Kolla ætlar að kenna mér og Sigrúnu að hekla svona dúlluteppi og mitt mun prýða rúmið okkar Erlings í kofanum svona í náinni framtíð.

Erling er alveg á bólakafi í verkefnavinnu svona eins og hann hefur verið frá því skólinn byrjaði en honum gengur mjög vel, er búinn að fá mjög góðar einkunnir það sem komið er og ég er svo stolt af honum, hann er að standa sig svo vel og svo þegar hann verður búinn með þetta nám þá verður kreppan búinn og fullt af tækifærum framundan.

Íris er búin að fá jákvætt svar við skiptinemanámi við háskólann í Árósum og mun hún því taka seinna mastersnámið í lögfræðinni þar úti ef húsnæðismál og allt það gengur upp. Þá flytja þau væntanlega í byrjun júní, sakni sakn.. það vill til hvað það er stutt að fljúga þangað og okkur foreldrum hennar hefur aldrei leiðst að ferðast.

Jæja, þá fer að koma að mér að lesa lokayfirferð yfir ritgerðina.....Njótið daganna lesendur góðir, það ætla ég að gera og sérstaklega ætla ég að njóta þess að eiga góðan tíma með dýrmætum vinkonum mínum um helgina.....þangað til næst....

sunnudagur, mars 15, 2009

Sunnudagur til sælu

Klukkan er langt gengin í ellefu og alveg að koma háttatími. Ég sit hér í eldhúsinu og á móti mér er Hrund að skrifa stúdentsritgerðina sína og Erling situr við verkefnavinnu inni á skrifstofu. Dagurinn hefur verið sérlega notalegur, þau feðgin eru búin að læra í allan dag, ég hins vegar sinnti húsmóðurshlutverkinu og þreif húsið, þvoði þvott og straujaði ásamt því að lesa og prjóna. Úti hefur ýmist gengið á með éljagangi og hryðjum eða sól og blíðu eins og á sumardegi, svo sannarlega íslenskt veður. Ég segi það aldrei of oft að ég algerlega elska svona daga, allir heima að sinna sínum verkum og svo annað slagið hafa námsmennirnir mínir tekið sér frímínútur og við öll sest inn í stofu og spjallað saman smá stund. Við elduðum lambalæri í kvöldmatinn og það var svona "gamaldags" matur, með brúnni sósu og rauðkáli, ummmm hrikalega gott. Áðan átti ég langt og skemmtilegt spjall við Óla bróðir sem býr í Danaveldi og ég hlakka mikið til í sumar þegar við Erling förum í heimsókn til þeirra hjónanna. Við höfum reynt að hitta þau einu sinni á ári og þá er alltaf glatt á hjalla hjá okkur.

Í gær fórum við til borgarinnar í tilefni afmælisins hennar mömmu og að vanda var skemmtilegt í litla ömmuhúsinu hennar og það sannaðist einu sinni enn að þröngt mega sáttir sitja. Það er alltaf gaman að hitta fólkið sitt og eiga samfélag við það. Kvöldið endaði svo með leikhúsferð okkar Erlings í Þjóðleikhúsið að sjá Hart í bak. Flott sýning, frábærir leikarar, mæli með þessu verki.

Á morgun tekur svo við ný vinnuvika og ný tækifæri. Ég er þakklát fyrir öll þau gæði sem ég bý við og veit að það er ekki sjálfsagt að hafa það svona gott. Þangað til næst vinir mínir....

fimmtudagur, mars 12, 2009

Til hamingju með daginn elsku mamma mín

Elsku besta og yndislega mamman mín á afmæli í dag.

Hún er svo sannarlega einstök kona og þótt hún sé nú langt frá því að vera fyrirferðamikil þá hefur hún breitt bak og það eru ófáir sem koma til hennar með ólíklegustu vandamál sín og hún hefur alltaf tíma fyrir alla. Í dag á hún afmæli, er 69 ára gömul þótt það sé erfitt að trúa því vegna þess að hún er svo ungleg og mikil skvísa. Um daginn hitti ég vinkonu mína sem hafði verið með mömmu í afmæli og hafði ekki séð hana í þó nokkurn tíma, hún sagði mér að hún hefði varla þekkt hana hún væri svo ungleg að henni hefði ekki dottið mamma í hug.

Við erum miklar vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og mitt fólk ásamt okkur öllum stórfjölskyldunni. Þegar mamma var rúmlega fertug, sex barna móðir með sitt barnaskólapróf, þá ákvað hún að láta drauminn rætast og fara í nám. Hún byrjaði í Námsflokkunum og hélt svo ótrauð áfram og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 46 ára gömul. Það voru stoltir krakkar sem mættu við úskriftina hennar og hún er þeim hvatning sem langar að læra en halda að þeir séu of gamlir til þess.

Elsku mamma mín, um leið og ég óska þér innilega til hamingju með daginn þá vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa valið þig til að vera mamma mín, ég er svo stolt af þér og elska þig milljón grilljón. Vona að afmælisdagurinn verði þér góður og frábær og vonandi sjáumst við aðeins í dag en allavega á laugardaginn.

mánudagur, mars 02, 2009

Afmælisskvísur


Í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur mínar, 28 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura, þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar og ég er alveg sammála þeim en stundum leyfum við þeim að heyra að þær séu líffræðilega nákvæmlega eins og það var Íris systir þeirra sem einu sinni fann þetta fína orð og það er óspart notað til að stríða þeim. Auðvitað eru þær ekki alveg eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður á milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs.

Það var skrýtin tilfinning að vita að það væru tvö börn á leiðinni en mjög spennandi og þær hafa alla tíð verið yndi mín og stolt ásamt hinum systrum sínum. Þær hafa það alveg beint frá mér að elska að eiga afmæli og löngu áður en dagurinn rennur upp er búið að skipuleggja hann og skrifa niður afmælisgjafaóskalista. Ég vona að þær haldi þessu áfram alltaf, leyfi afmælisbarninu í sér alltaf að njóta sín í botn.

Eygló er núna í fæðingarorlofi en hún eignaðist sitt fyrsta barn 5 október sl. Arna vinnur á leikskóla og á þrjár yndislegar stelpur og er mjög dugleg með þær. Þær eru miklar vinkonur og talast við á hverjum degi og reyna að hittast líka daglega.

Elsku stelpurnar mínar, ég óska ykkur innilega til hamingju með afmælisdaginn ykkar. Vona að hann verði ykkur góður og ánægjulegur. Elska ykkur meira en orð fá lýst og er stolt af ykkur.

sunnudagur, mars 01, 2009

Rústað......

Við Erling fórum í gærkvöldi í leikhús en það er eitt af því sem okkur finnst gaman að gera. Að þessu sinni var leikhúsferðin svolítil áskorun því við höfðum heyrt að þetta verk væri nokkuð sérstakt og svakalegt á köflum. Þegar það var fyrst sett á fjalirnar árið 1995 olli verkið straumhvörfum því það þótti fara langt fram úr möguleikum kvikmyndarinnar að ná til fólks. Sumir hafa gengið út og algerlega ofboðið, aðrir segja að verkið hafi haft langtímaáhrif á sig og svona mætti áfram telja.

Ingvar E. Sigurðsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Björn Thors eru einu leikendur Rústað og þau sýna öll alveg hreint ótrúlega magnaðan leik í svo erfiðum hlutverkum sem þau eru í. Sérstaklega finnst mér þó Ingvar ótrúlega góður miðað við hversu nærgöngult og djarft hlutverk hann leikur. Rústað er grimmt leikrit sem dregur áhorfandann niður á lægsta plan mannlegrar veru og tilfinninga, það er áleitið og nærgöngult. Við fengum að skyggnast inní hugsun og tilfinningar þess sem er grimmur og skiljum örlíitð afhverju hann er eins og hann er. Það er full ástæða til að vara viðkvæma við þessu verki og eins að hafa það bannað innan 16 ára en fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegu eðli og því sem viðkemur mannsins huga þá er verkið áhugavert.

Stundum heyrðist kliður eins og „nei ekki og þetta er ekki hægt“ í salnum og tvisvar sinnum varð ég að líta undan, gat ekki horft. Ég get tekið undir með þeim sem segja að svona verk hafi aldrei verið sett upp áður, ég hef aldrei séð neitt þessu líkt á sviði og förum við Erling þó nokkuð oft í leikhús en ég sé alls ekki eftir að hafa farið að sjá svona verk sem talað er um sem tímamótaverk og enn og aftur er ég minnt á það hversu heppin og lánsöm ég er að vera fædd á þessu yndislega landi sem þrátt fyrir kreppu býður okkur mannsæmandi líf.

Njótið daganna vinir....þangað til næst...

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Tíminn líður hratt...

Það er engum ofsögum sagt að tíminn líði hratt. Vikan hefur verið skemmtileg og viðburðarík og ég nýt þess að vera til. Ennþá er nóg að gera í vinnunni enda er þetta tími ársuppgjöra. Það er þó hætt við að vinnan minnki svo því mörg fyrirtæki sjá bara fram á gjaldþrot í kjölfar kreppunnar og er það auðvitað miður.

Á föstudagskvöldið hittumst við systkinin ásamt pabba og mömmu og kvöddum þorrann með tilheyrandi matarhlaðborði. Að vísu var fátt um súran mat á boðstólum enda var hann hvort tveggja uppseldur í búðunum og svo borðum við hann hvort sem er ekki mikið. Félagsskapurinn var góður og við öll svo skemmtileg þannig að úr varð hið besta kvöld. Þetta er siður sem við höfum viðhaft í mörg ár og við skiptumst á að hýsa boðið.

Í gær var svo rólegheitadagur hér í Húsinu við ána. Tveir skólafélagar Erlings komu hingað og voru þeir að vinna verkefni saman og ég var uppi á meðan að prjóna. Það er svo notalegt að sitja uppi með tónlist og prjóna. Ég var að spá í að kíkja á Sirrý systir en þá komu Hrund og Arna heim og svo fóru skólafélagarnir stuttu seinna og heimsóknum var frestað. Ég er að prjóna lopakjóla á litlu dömurnar mínar og það er mjög gaman. Í gærkvöldi fórum við svo öll fjögur til borgarinnar og var tilefnið sálmasamkoma í Samhjálp sem vinkona okkar Guðrún Einars stóð fyrir. Þetta var svo skemmtilegt og „alveg eins og í gamla daga“. Sammi Ingimars, Hafliði og Jói leiddu sönginn, Geiri og Helena Leifs voru með gítara, Guðni Einars spilaði á bassa, Kristján var á trommum og Þórir lék á píanóið. Tær snilld og hrikalega gaman, held við höfum sungið rúmlega 20 sálma og ég tek það fram að dætur okkar Erlings og litla Erla Rakel lögðu heldur betur sitt af mörkum til að lækka meðalaldur þeirra sem voru þarna.

Erling er alveg á bólakafi í verkefnavinnu og hefur það staðið yfir mjög lengi finnst mér en þótt ótrúlegt sé þá er önnin samt hálfnuð. Áðan hringdi síminn og lítil stúlka (Katrín Tara) talaði við afa sinn og var að bjóða okkur í bollukaffi. Þótt við höfum því miður þurft að afþakka það þá var svo gaman að fá svona hringingu. Reyndar var það ekki alveg afþakkað heldur var tekin ákvörðun að fresta því þangað til annað kvöld eftir skóla og ég hlakka til að fara og hitta þau.

Jæja vinir, njótið dagsins því hann er góður, ég ætla að fara og halda áfram með kjólana og hlusta á góða tónlist, var að kaupa safnið 100 íslenskar ballöður og það sem ég er búin að hlusta á lofar góðu með framhaldið. Þangað til næst....

sunnudagur, febrúar 15, 2009

Sara Ísold á afmæli í dag, húrra fyrir henni....


Í dag eru fimm ár síðan þriðja barnabarn okkar Erling leit dagsins ljós norður á Akureyri. Við höfðum fylgst með framgangi fæðingarinnar alla nóttina í gegnum símtöl frá Örnu og svo var það snemma á sunnudagsmorgni sem við fengum símtalið um að dóttir væri fædd og allt í lagi með þær mæðgur.
Já hún Sara Ísold, lítil vinkona mín er fimm ára í dag og er búin að bíða lengi eftir þessum degi því svo er stutt þangað til hún verður sex ára og byrjar í skóla, eða það finnst henni allavega. Sara Ísold er mjög dugleg stelpa og ákveðin, aðeins byrjuð að stauta sig fram úr stöfum og um daginn spurði hún pabba sinn hvað þýddi R Ó L A en hún sá þessa stafi einhvers staðar en náði ekki alveg samhenginu. Hún er kát og skemmtileg en ef henni mislíkar eitthvað þá hikar hún ekki við að láta okkur vita af því. Brosið hennar heillar mann algerlega og blikið í augunum er oft ómótstæðilegt.

Afmælisveislan hennar var haldin hér í Húsinu við ána í gær og skemmti hún sér konunglega og virkilega naut athyglinnar. Það var samt skondið þegar við fundum hana steinsofandi í leikkróknum undir stiganum, hafði komið sér fyrir á öðrum grjónapúðanum og svaf. Skýringin gæti verið sú að hún ásamt Írisar börnum gistu hér nóttina áður og kl hálf sex um morguninn var kominn dagur hjá þeim og því hefur hún verið orðin dauðþreytt seinni partinn og lagði sig bara í sínu eigin afmæli.
Þegar langt var liðið á veisluna sagði hún við mömmu sína, "Þetta er fullkomið" hún var svo glöð.
Hennar helsta áhugamál eru hestar og hún var himinlifandi með stórt og flott baby born hesthús sem hún fékk frá mömmu sinni í afmælisgjöf og afi hennar setti það svo saman fyrir hana áður en hún fór heim.
Elsku Sara Ísold mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inní líf okkar og ég elska þig meira en orð fá lýst. Láttu nú mömmu þína og systur dekra við þig á allan hátt.

laugardagur, febrúar 14, 2009

Laugardagur til lukku

Ég sit hér í eldhúsinu mínu á þessum fallega laugardagsmorgni, úti er enn niðamyrkur enda er klukkan ekki einu sinni orðin átta. Það er nú ekki venja að húsmóðirin á bænum sé svona snemma á fótum á helgum degi en þegar 4 lítil börn gista í húsinu rifjast upp gamlar minningar. Sá yngsti vaknaði kl hálf fimm í morgun og ekki einu sinni til umræðu að láta hann sofa lengur. Kl sex í morgun fórum við fimm niður og syfjuð amman sinnti þeim og nú leika þau sér ljúf og góð. Þrátt fyrir að ég kunni vel að meta það að geta sofið út um helgar þá mun ég líkalega meta það enn betur í fyrramálið.

Framundan er svo líf og fjör í dag hér í Húsinu við ána því haldið verður uppá 5 ára afmæli Söru Ísoldar og henni finnst nú þegar erfitt að bíða eftir að mamma hennar komi austur með afmæliskjólinn hennar og svo líka eftir gestunum „því ég hlakka svooooo mikið til að opna pakkana“ sagði unga daman rétt áðan.

Njótið helgarinnar lesendur góðir, það ætlum við að gera hér í sveitasælunni.....þangað til næst

ps. muna svo að kjósa Edgar Smára í Eurovision í kvöld.....ég ætla meira að segja að kjósa þótt ég sé ekki vön að fylgjast með þessari keppni

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Erla rukkari.....

Stundum kemur flottur Border Collie hundur í vinnuna til okkar með eiganda sínum henni Ínu. Hann er mjög fjörugur og gerir sér dælt við okkur enda höfum við öll gaman að honum. Eitt af því sem ég geri í vinnunni er að rukka inn ógreidda reikninga frá okkur. Þegar ég er að rukka þá sný ég frá hurðinni að skrifstofunni minni, það hentar betur vegna staðsetningar á símanum. Um daginn var ég að hringja út og rukka og var búinn með þó nokkuð af listanum mínum. Í símanum var einn viðskiptavinur og ég er að tala við hann um hvort hann sjái sér ekki fært að greiða þessa skuld. Allt í einu finn ég að eitthvað blautt og mjúkt sleikir á mér hendina og ég með það sama rek upp þetta svaka garg eins og konum er einum lagið, BEINT Í SÍMTÓLIÐ. Þið ykkar sem þekkið mig vitið auðvitað hvað ég er hrikalega viðbrigðin. Um leið og ég byrja að afsaka mig við aumingja manninn á línunni, sný ég mér við og sé þá í skottið á honum Lappa vini mínum sem auðvitað brá meira en mér við þessi hrikalegu læti. Hann hafði þá komið inn greyið án þess að ég yrði hans vör og ætlað að vera svona vinalegur við mig enda vanur því að fá klapp og strokur þegar hann kemur í heimsókn inn til mín. Maðurinn í símanum var mjög kurteis og hefur örugglega borgað skuldina strax til að fá ekki svona símtal aftur en frammi var samstarfsfólk mitt næstum dáið af hlátri þegar þau föttuðu að ég var í símanum þegar ég öskraði.

Já lífið er svo sannarlega skemmtilegt og loksins er Lappi farinn að þora að koma inn til mín aftur.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Sunnudagur til sælu....

Ég sit hér í eldhúsinu mínu þennan sunnudagseftirmiðdag og horfi út um gluggann og pikka á tölvuna. Ljósaskiptin eru á næstu mínútum, rökkrið er að byrja að hellast yfir, vinkona mín Ölfusáin rennur framhjá glugganum mínum, klökuð og flott og í góðu skapi, lengra í burtu sé ég röð af bílaljósum sem eru á suðurleið, smáfuglarnir þiggja fuglafóðrið sem Erling gaf þeim áðan út á snævi þakinn garðinn okkar. Já það eru svo sannarlega forréttindi að búa á þessum stað og hafa þetta allt við hendina.

Helgin er búin að vera skemmtileg og viðburðarík. Á föstudaginn fórum við í afmæli til Heiðars vinar okkar og áttum skemmtilegt samfélag við þau og gesti þeirra. Í gær ókum við svo í yndislegu veðri til höfuðborgarinnar, Hellisheiðin var snævi þakin, sólin glamaði og landið leit út eins og risa stór hvít marengsterta. Tilefni ferðalagsins var sextugs afmælið hennar Dúddu frænku minnar sem var haldið heima hjá henni með miklum myndarbrag eins henni er lagið.

Í dag komu svo góðir gestir hingað, Teddi og Kata og svo Danni og Anki og eru þau nýlega farin. Okkur finnst alltaf gaman og notalegt þegar vinir okkar kíkja við.

Hrundin er á heimleið en hún fór til borgarinnar í hádeginu til að vera með barnastarfið í Mozaik en það gerir hún annan hvern sunnudag. Erling er sestur aftur inn á skrifstofu við lestur skólabóka. Það eru auðvitað viðbrigði að hann sé aftur sestur á skólabekk en ég veit sem er að önnin verður fljót að líða og hinar þrjár líka og fyrr en varir verður hann kominn með meistarapróf í lögfræði og þá er kominn enn betri grunnur fyrir okkur að byggja á þegar kreppan verður búin. Það verður spennandi að sjá hvað þessi nýja ríkisstjórn gerir fyrir okkur, heimilin og fyrirtækin, ég hef trú á að það verði eitthvað gott, allavega get ég ekki séð að þetta ástand geti versnað mikið fyrir þjóðfélagið sem slíkt. Ég er ánægð með að fá Jóhönnu sem forsætisráðherra, hún er einhvern veginn öðruvísi en aðrir þingmenn, það virðist allavega vera meira að marka hana en marga aðra.

Framundan er svo ný vinnuvika með sínum tækifærum og ég lít björtum augum fram á veginn. Ég ætla að setjast aðeins inní stofu og reyna að fá feðginin mín aðeins inn með mér því nú er Hrundin komin inn. Þangað til næst vinir mínir.....

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Erlan var döpur í dag....

Við vorum snemma heima í dag hjónin, Erling sótti mig í vinnuna klukkan þrjú og við drifum okkur heim yfir fjöllin tvö. Hrund var lengur í bænum og er í þessum skrifuðu orðum á heimleið með Theunni sinni. Við komum við í Bónus eins og svo oft á fimmtudögum, okkur finnst nefnilega Bónus í Hveragerði miklu betri heldur en Bónusbúðin hér á Selfossi.

Ég setti matinn í ofninn og ákvað svo á fara á hlaupabrettið fyrir matinn fyrst tími gafst til. Ég kveikti á sjónvarpinu til að stytta mér tímann og fréttir Stöðvar 2 voru að byrja. Ég hef nú ekki fylgst mikið með þessum mótmælum í bænum en auðvitað hef ég vitað af þeim. Það sem ég sá í fréttunum gerði mig bæði hrygga og dapra. Ég get heils hugar tekið undir með Geir Jóni lögreglu að það er ótrúlegt að þetta séu Íslendingar sem eru að láta svona. Hvert erum við eiginlega komin sem þjóð þegar við líðum svona skrílslæti? Að sjá fólk með hamar vera að brjóta rúður í Stjórnarráðinu, velta við bekkjum og kveikja í þeim, kasta þvagi og saur ásamt því að grýta lögregluna og ég sá mjög fullorðna konu ganga á milli lögreglumannanna og berja skildina þeirra með grjóti !! Lögreglan hefur ekkert gert okkur illt og mér varð hugsað til þess hvort þetta sama fólk hringi ekki í 112 og biðji þessa sömu menn að koma og hjálpa sér ef það lendir í vandræðum? Lögreglan er alltaf til staðar fyrir okkur og á ekki skilið svona framkomu. Þetta eru menn eins og ég og þú sem eru að vinna vinnuna sína. Það var eina úrræðið sem þeir gátu beitt að nota táragas því það var að skapast hættuástand í miðbænum. Þegar fólk er farið að kveikja í eldsneyti í anddyri Alþingishússins þá er voðinn vís. Hins vegar sá ég líka að það eru ekki allir sem haga sér svona og ég gladdist yfir þeim sem tóku sér stöðu fyrir framan lögreglumennina til að hlífa þeim við þessum árásum :o)

Það var viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu og hún sagði að það væri líkt með þetta og höfuðmeinið sem er að hrjá hana. „Hún sagði að það þýddi lítið fyrir sig að öskra og æpa og reyta hár sitt út af meininu heldur yrði hún að hlusta á sérfræðingana sem væru að annast hana og fara eftir ráðum þeirra og það sama yrðum við að gera varðandi þennan vanda. Öskur og skrílslæti leysa engan vanda heldur verðum við að gefa þeim sérfræðingum vinnufrið sem nú þegar eru á fullu að leita leiða fyrir okkur“.

Nei, svona getur aldrei verið til góðs fyrir okkur og ég vona svo sannarlega að það verði ekki framhald á svona mótmælum og að lögreglumennirnir og fjölskyldur þeirra geti verið róleg heima hjá sér og þurfi ekki að óttast að einhver óþjóðalýður geri aðsúg að heimilum þeirra. Nóg er samt.
Sem Íslendingar þá höfum við sem betur fer rétt á að mótmæla og við megum segja okkur skoðun en það sem hefur verið að gerast er ekkert annað en skrílslæti sem við getum ekki liðið. Leyfum sérfræðingum að vinna vinnuna sína, munum að það er svo auðvelt fyrir okkur að leysa þetta allt saman heima í stofu því við erum ekki í skotlínunni eða undir smásjá þeirra sem leita logandi ljósi að mistökum annarra.

Þangað til næst vinir mínir.....

sunnudagur, janúar 18, 2009

Lífsins lystisemdir í góðu meðalhófi....

Eins og ykkur lesendum mínum er kunnugt þá hef ég alltaf gaman af því að eiga afmæli, þetta er jú eini dagurinn á árinu sem er MINN og ég nýt þess og miðvikudagurinn sl var engin undantekning.

Vekjaraklukkan hringdi jafn ógurlega snemma og hún gerir á virkum dögum, ég teygði mig til að slökkva á henni og var að fara framúr þegar hendi var lögð yfir mig og hvíslað í eyrað mitt: „Til hamingju með daginn krúttlan mín, þú þarft ekki að fara framúr, mátt sofa lengur“. Ég á nú að mæta í vinnuna og Hrund í skólann sagði ég. „Ég er búin að fá frí í dag fyrir þig og Hrund keyrir bara sjálf í skólann“ sagði þessi flotti maður minn. Hrikalega var ég ánægð. Ég fór samt og vakti Hrund og spjallaði aðeins við hana og fór svo inn í myrkvað herbergið mitt aftur og lagðist á, að ég hélt koddann minn, en nei nei...það var eitthvað á koddanum sem ég var næstum búin að kremja með höfðinu. AFMÆLISGJÖFIN. Í fallegum kassa var uppáhalds ilmvatnið mitt og peningur. Gaman....

Ég sofnaði strax aftur og klukkan var orðin hálf ellefu þegar afmælisbarn dagsins kom niður. Algerlega mér að óvörum beið mín þetta líka flotta morgunverðarhlaðborð, bæði með hollustu og óhollustu, kertaljós og alles. Við hjónin áttum svo frábæran dag heima, Teddi bróðir kíkti á okkur í hádeginu en upp úr kl fjögur fórum við til borgarinnar því ég var búin að ákveða að hitta stelpurnar mínar og þeirra fólk heima hjá Írisi og við borðuðum öll saman og ég fékk flottar afmælisgjafir frá þeim og samfélagið var svo skemmtilegt. Ég elska þegar við erum öll saman.
Um kvöldið komu svo mamma og pabbi úr borginni til okkar og það gladdi mig ekkert smá að þau skyldu leggja þetta ferðalag á sig til að gleðja mig. Sirrý og Guðjón komu líka og það var mjög gaman. Afmælisdagurinn minn einkenndist af notalegheitum og ég naut hans í botn. Fór ekki að sofa fyrr en ég var búin að sjá klukkuna komna fram yfir miðnætti :o)

Í dag höfum við haft það rólegt hér í Húsinu við ána. Erling er að lesa enda byrjaður í skólanum á ný og það þýðir ekkert að slá slöku við lesturinn til að ná árangri. Við fórum samt í göngutúr áðan og það var meira að segja ég sem átti frumkvæðið að því og dró hann út frá tölvunni. „Gott fyrir sellurnar“ sagði ég, „þær virka betur eftir að hafa fengið heilnæmt Selfossloftið í sig“. Við klæddum okkur vel og gengum út í frostið, upp með ánni, hún hefur einhver seiðandi áhrif á okkur þessi flotta vinkona okkar, Ölfusáin. Þarna í þessari gönguferð tók ég ákvörðun um hvað ég ætla að gera við afmælispeninginn frá Erling. Ég var búin að hugsa mér að kaupa leðurstígvél en er sem sagt búin að breyta. Gönguskór skulu það vera. Við höfum bæði mikinn áhuga á að fara að ganga meira og eftir að hafa skoðað myndir á fésinu hjá henni Maríu frænku minni sem er mikil göngukona þá varð áhuginn enn meiri.

Á gamlárskvöld, rétt fyrir miðnætti, þegar fólkið mitt var úti að horfa á flugeldana fór ég inn og sat við eldhúsgluggann minn og horfði út. Margar hugsanir fóru um huga minn en ein hugsun var hinum miklu sterkari og á nýársdag sagði ég fólkinu mínu að ég ætlaði ekki að strengja nein áramótaheit en árið 2009 yrði tileinkað heilsu minni. Ekki svo að það sé eitthvað að, ég er við hestaheilsu en ég geri mér samt grein fyrir því að ég er að komast á „viðgerðaraldurinn“ og ég veit að ofþyngd orsakar mjög marga sjúkdóma og m.a er áunnin sykursýki algeng í minni ætt. Ég ætla því að gera það sem ég get til að lifa sem lengst og þar með eignast aukin lífsgæði og setja heilsuna í forgang þetta árið. Ekki neinar ákvarðanir um að missa svo og svo mörg kíló heldur vera meðvituð um heilbrigða lífshætti og þess vegna ætla ég að eyða afmælispeningunum mínum í gönguskó. Ef ég missi einhver kíló í kjölfarið þá er það bara bónus. Ég ætla að njóta lífsins lystisemda í góðu meðalhófi....

sunnudagur, janúar 11, 2009

Ég er bara svo fyndin með þessar stelpur mínar, hehehe

Eftir afmælisveisluna sína í gær þá ákvað Hrund að skreppa til borgarinnar með Dúnu vinkonu sinni og gista hjá henni í nótt. Dúna býr á Ísafirði en foreldrar hennar eiga íbúð í Reykjavík og þær stöllur voru þar ásamt Addó pabba Dúnu. Það var mjög gaman að Dúna skyldi einmitt vera í borginni þessa helgi sem afmælið var haldið.

Það var svo áðan, eða um klukkan níu, að ég sagði við Erling: „Viltu ekki hringja í Hrund og athuga hvar hún er og hvenær hún ætlar að koma heim“ Erling leit á mig, sposkur á svip og sagði við mig: „Við vorum nú að halda uppá tvítugs afmælið hennar, finnst þér ekki óþarfi að gá að henni núna strax, hún er jú 20 ÁRA.“ Ég var nú að jánka því að þetta væri rétt hjá honum, en hvenær ætli ég hætti að hugsa svona??? Sennilega ekki fyrr en hún er flutt að heiman...en vonandi þá en ég lofa engu.

Dagurinn í dag hefur verið alger afslöppunardagur og það er bara notalegt. Kaffi í límsófunum, aðeins kíkt á fésbókina, matur, meira kaffi, lestur blaða og svo jólabóka, prjóna, hlusta á gamla tónlist sem minnir á fellihýsaferðalögin, aftur matur, meira kaffi og smá súkkulaði meðþví....gott að eiga svona daga inná milli.

Á morgun fæ ég svo nýjan titil, ég verð lögfræðings- smiðs- og mastersnemafrú... :o)
Njótið lífsins vinir, þangað til næst.....

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Tvítug....


Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar daman fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur.
Allar götur síðan hefur hún verið sannkallaður gleðigjafi þessi dama, yngsta stelpan okkar Erlings sem í dag fagnar 20 ára afmælinu sínu. Þetta er auðvitað mjög merkilegur afmælisdagur, fyrsta stórafmælið, sjálfráða og þarf ekki að spyrja neinn um það sem hún vill. Ég er nú samt alveg viss að hún mun halda áfram að leita ráða enda skynsöm stúlkan sú.
Hrund hefur margoft sýnt og sannað hvað í henni býr. Hún er yndisleg og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft komið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.
Hún er á síðustu önninni í Kvennó og útskrifast sem stúdent í vor. Þar tekur hún þátt í verkefni sem heitir Mentor og felst í því að vera vinur grunnskólabarns. Einu sinni í viku hittir hún lítinn 7 ára nýbúadreng í 3 tíma í senn og eru þau mestu mátar. Ekki er alveg ákveðið hvað tekur við eftir útskrift en hugurinn stefnir á sjálfboðaliðastarf í eitt ár helst á vegum ABC og koma svo heim og fara í háskólann en það er heldur ekki alveg ákveðið hvaða leið hún ætlar að fara þar. Ég yrði ekki hissa þótt hún myndi í framtíðinni vinna með fólk og læra annað hvort sálfræði eða félagsráðgjöf.
Elsku Hrundin mín, innilega til hamingju með þennan merkisdag í lífi þínu. Láttu okkur nú dekra við þig á allan hátt. Hlakka til að eyða kvöldinu með þér. Elska þig meira en orð fá lýst.

sunnudagur, janúar 04, 2009

Gleðilegt ár

Fallegu augasteinarnir mínir

Þegar ég lít útum eldhúsgluggann minn þá er varla hægt að trúa því að það sé 4. janúar. Veðrið er alveg ótrúlega gott miðað við árstíma, frekar eins og það sé að vora en ekki að framundan séu leiðinlegustu mánuðir ársins. Skil reyndar ekkert í mér að tala um janúar sem einn leiðinlegasta mánuðinn og bæði ég og Hrund eigum okkar afmælisdaga í þessum líka fína mánuði.

Það er við hæfi á svona tímamótum að staldra aðeins við, gera upp árið sem nú er horfið og kemur aldrei tilbaka og horfa svo fram á nýtt ár sem okkur er fært, óskrifað og gera okkur grein fyrir því að þegar öllu er á botninn hvolft þá höfum við svo mikið um það að segja hvernig þetta ár verður. Það er undir okkur komið hvort dagarnir verða góðir eða leiðinlegir, það er undir okkur komið hvort við stöldrum við og njótum augnablikanna, hvort við tínum upp þá hversdagslegu gimsteina sem liggja víða við götukantinn og geta svo auðveldlega glatt okkur á einfaldan hátt. Við ráðum því sjálf hvort við þjótum áfram í daglega lífinu og erum svo upptekin við að gera áætlanir að lífið fer framhjá okkur á meðan.

Ég var svo lánsöm að hafa allt fólkið mitt, nema Örnu dætur, hjá mér þegar gamla árið kvaddi og við buðum nýtt ár velkomið. Þau gistu svo öll hér og eftir hádegi á nýársdag settumst við öll inn í stofu meðan litlu krílin sváfu úti í vagni. Ég náði í blað og penna og skrifaði niður samræður okkar því við vorum að segja frá væntinum okkar fyrir þetta nýja ár og svo verður gaman að ári að draga fram blaðið og sjá hvað hefur ræst. Auðvitað höfum við mjög misjafnar væntingar til þessa árs en allt var þetta þó spennandi og skemmtilegt. Ég held að það sé mjög gott að setja sér markmið og vinna svo að þeim.

"Eðlilegar????"

Tvö ár í röð höfum við haft jólaboð fyrir alla þá afkomendur Hrefnu og Magga sem hafa áhuga á að vera með og umgangast fólkið sitt. Þetta hefur mælst vel fyrir og mæting hefur verið góð. Auðvitað vitum við að það komast ekki allir þrátt fyrir áhuga og það er bara þannig, þeir koma þá bara næst. Mér finnst alveg ótækt að stelpurnar mínar séu hálf feimnar við frænsystkini sín bara af því að þau sjást svo sjaldan. Í gær voru hér því 65 manns og mikið fjör.


Heitt súkkulaði fyrir 60 manns

Ég horfi með björtum augum fram á árið 2009, trúi að það verði okkur gott og lærdómsríkt og er þess fullviss að þegar gruggið í vandamálum landsins sest til þá munum við búa í betra landi með meiri lífsgæðum, þar sem meira skiptir hvað einstaklingurinn stendur fyrir heldur en hvað bankainnistæðan hans er mikil. Það er margt spennandi á dagskrá hjá okkur sem verður sagt frá hér jafn óðum en fyrst er það að Erling byrjar í mastersnámi í lögfræði eftir viku og svo eru það auðvitað áður nefnd afmæli mæðgnanna hér á bæ, hvað skyldi flotti maðurinn minn gera í tilefni þeirra? Læt ykkur vita..... Þangað til næst....