laugardagur, apríl 04, 2009

Vorið er komið að kveða burt snjóinn

Það er óvenju hljótt núna hér í húsinu við ána og sennilegasta skýringin er sú að ég er ein heima og er svo róleg og stillt. Erling er í málflutningi mastersnema í Héraðsdómi Reykjavíkur og svo skemmtilega vildi til að hann og Íris voru dregin saman að vinna þetta verkefni ásamt einni skólasystur í víðbót. Ég er búin að laga það til hér sem ég nenni að gera og hef verið að undirbúa kvöldið. Já við hjónin ætlum að fara í Kofann okkar og slaka þar á þangað til á morgun. Eftir svona törn eins og Erling er búinn að vera í finnst honum sérlega notalegt að fara austur austur eins og við segjum stundum og vinda þar ofan af spennunni. Þegar hann kemur heim á eftir verð ég sem sagt búin að útbúa okkur með nesti og nýja skó (nei annars ekki nýja), sem minnir mig á að það er alltof langt síðan ég hef keypt nýja skó :o) Einn viðskiptavinur minn kom færandi hendi á skrifstofuna um daginn og gaf mér bringur af bæði önd og gæs og þær fara á grillið við Kofann í kvöld og með því verður gott hrásalat, rjómasósa, kartöflur og gott rauðvín, ummmm

Annars gengur lífið sinn vanagang, við öll þrjú sem hér búum höfum verið svo heppin að losna alveg við allar þær pestir sem hafa verið að hrjá fólk og við erum farin að halda að það sé miklu hvítlauksáti að þakka, ja hver veit allavega. Hrund er alveg á síðustu skóladögunum sínum í Kvennó og er bæði spennt og kvíðin að útskrifast, gaman að ljúka þessum áfanga en söknuður að kveðja frábæran skóla, kennara og starfsfólk sem er orðið eins og vinir hennar. Hún er komin með vilyrði fyrir sumarvinnu á sambýli hér á Selfossi og það finnst henni mjög gaman. Svo í haust mun hún halda á vit nýrra ævintýra en hún ætlar að flytja með Írisi og Karlott til Danmerkur og vera þar einn vetur áður en háskólanám tekur við. Eins mikið og ég samgleðst henni að fara og láta draum sinn rætast þá veit ég að við Erling munum sakna hennar alveg ferlega mikið, það er svo skemmtilegur félagsskapur af henni og svo er hún bara öll svo yndisleg og foreldrum sínum mikil uppspretta ánægju og gleði eins og þær reyndar allar eru dætur okkar. Tilhugsunin um að Íris og Karlott flytji af landi brott er skrýtin og ég veit að það verður erfitt að hafa þau í öðru landi en ég samgleðst þeim líka innilega. Nú er bara að koma sér vel við flugfélögin og fá Danmerkurferðir á góðu verði, það bara hlýtur að vera hægt.

Enn á ný njótum við þeirra forréttinda að hafa Örnu og dætur hennar um páskahátíðina og ég hlakka mikið til. Eygló ætlar líka að vera hjá okkur með litlu Erlu Rakel þar sem Bjössi fékk afleysingavinnu á sjónum og verður ekki heima um páskana. Íris og Karlott og litlu stóru yndigullin þeirra koma svo á páskadag og verða með okkur þannig að þið sjáið að ég hef mikið að hlakka til. Ég elska það þegar við erum öll samankomin hér í Húsinu okkar fallega við ána.

Nú vöknum við á morgnana við alls konar fuglahljóð sem berast inn um glugganan og það er svo vorlegt og notalegt. Ég bíð spennt eftir að vita hvort nágrannar okkar Nína og Geiri hafi lifað veturinn af og komi og geri sér hreiður hér úti í hólma en það hafa þau gert undanfarið ár. Við Erling þurfum endilega að fara að fjárfesta í góðum kíki til að geta betur fylgst með þessum vinum okkar.

Jæja vinir, best að sinna aðeins þvottinum og kíkja svo aðeins á vinkonur mínar á Bláregnsslóð, þær eru algerlega óborganlega skemmtilegar. Njótið daganna, hlakkið til hátíðarinnar sem er framundan. Ég er byrjuð að bíða eftir Erling, hlakka til að heyra hvernig þeim gekk með málið og svo er bara svo gaman að eyða tímanum með honum. Ég er svo sannarlega lánsöm kona...þangað til næst....

1 ummæli:

Eygló sagði...

Ætla að stela orðun Hrundar síðan hún las pistilinn þinn gær og segja hvað þetta sé notalegur pistill :) Það er alltaf svo gaman að lesa bloggið þig og mjög svo oft svona notalegar fjölskyldufærslur! Það verður gaman að vera með ykkur um páskana og gaman að vera svona næstum öll saman!
Lu, þín Eygló og litla nafna þín biður að heilsa þér :)