fimmtudagur, apríl 23, 2009

Kvennó endurfundir ofl.

Það var mikið hlegið skrafað og skemmt sér í gömlu stofunni uppi á þriðju hæð í Iðnó seinni partinn í gær. Þar vorum við samankomnar stelpurnar í 3-Z sem útskrifuðumst úr Kvennó 1976 en þá var Kvennaskólinn virðulegur gagnfræðaskóli sem seinna breyttist í menntaskóla.

Í þessum hópi föngulegra kvenna eru fulltrúar mjög margra og fjölbreyttra starfsgreina og gaman að fá að heyra hvað hver og ein hefur fyrir stafni og svo er auðvitað bráðnauðsynlegt að vita ALLT um fjölskylduhagi okkar. Þær ráku upp stór augu yfir ríkidæmi mínu varðandi börn og barnabörn, sumar virtust jafnvel eiga erfitt með að trúa því að ég eigi 7 barnabörn enda er það örugglega ótrúlegt miðað við hvað ég er nú ungleg, múhahahaha. Þetta var allavega mjög gaman og við ákváðum að hittast aftur eftir 2 ár og byrja þá á því að fara skoðunarferð um gamla skólann okkar en svo vel vill til að ein okkar er kennari þar og því hæg heimatökin fyrir hana að sýna okkur skólann.

Í fyrradag komu svo vinir okkar og nágrannar til landsins og við fögnuðum komu þeirra mjög hér í eldhúsinu okkar enda vorum við Erling hrædd um að annað þeirra hefði ekki lifað af veturinn, heldur verið skotinn þar sem hann var fastur á ísilagðri Ölfusánni í vetur. Álftaparið Nína og Geiri eru sem sagt komin og við fylgjumst með þeim laga til hreiðrið sitt úti í hólmanum en þetta er þriðja árið sem við njótum þeirra forréttinda að horfa á þau koma sér fyrir og á endanum sjá þegar ungirnir komast á legg hjá þeim.

Í tilefni afmælisins hans pabba höfum við notið þess að hafa Óla bróðir hér á landinu. Um leið og ég vissi hvaða daga hann yrði hér "pantaði" ég hann og hina bræður mína í heimsókn. Ég tók mér frí í vinnunni og við Erling áttum frábært og skemmtilegt samfélag við þá góðan dagpart. Óli er mikill vinur okkar Erlings og það er alltaf gaman að hitta hann. Hann fer svo heim til Danmerkur í dag og ég veit að fólkið hans er spennt að fá hann heim og við munum hitta hann aftur á hans heimaslóðum í júní, ég er þegar orðin spennt að hitta þau.

Ég fagna komu sumarsins hér á landinu okkar fagra og hlakka til alls þess góða sem það hefur í för með sér. Að vísu er ekki sérlega sumarlegt að litast út um gluggann og það var snjór á heiðinni þegar Hrundin mín fór til borgarinnar í morgun. En það er samt komið sumar allavega samkvæmt dagatalinu, þar stendur skýrum rauðum stöfum, Sumardagurinn fyrsti. Dagurinn verður notaður til að gera bara það sem mig langar til og ekkert annað. Seinni partinn fer ég svo yfir til Tedda bróður og hans fjölskyldu að fagna 12 ára afmæli yngstu dótturinnar þar á bæ.

Ætla að spilla aðeins prófalestri hjá Erling og fá hann í kaffipásu með mér...þangað til næst vinir mínir. Gleðilegt sumar öll sömul.....

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott hvað þú nýtur lífsins mikið elsku mamma mín:) Ég elska þig, þín Arna

Eygló sagði...

Jæja mín kæra :) Á ekkert að fara að blogga???
Sakna þess að lesa nýtt frá þér!
Þín Eygló