fimmtudagur, apríl 09, 2009

Heill þér sjötugum, ég elska þig pabbinn minn


Ég er svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og fyrir það er ég Guði þakklát. Því fylgir auðvitað að afmælisdagar eru margir og mér finnst alltaf mikil ástæða til að fagna hverjum og einum þeirra því lífið sjálft er gjöf sem okkur er gefin.Í dag er merkisdagur í lífi Sunnuhlíðarfjölskyldunnar því ættfaðirinn hann pabbi minn fagnar 70 ára afmælisdegi sínum.
Hann pabbi er alveg frábær, greiðvikinn og sérlega umhyggjusamur um okkur öll, vill alltaf vita þegar við erum á ferðinni og ósjaldan hefur hann hringt og athugað með mig og mitt fólk, hvort við séum örugglega komin heim í hús þegar veður eru válynd á heiðum eða þegar slys hafa gerst á þeirri leið sem við ökum til og frá vinnu þá hringir hann og athugar hvar við erum stödd. Mér þykir afskaplega vænt um þetta og svona hefur hann alltaf verið.
Pabbi var lengst af bílstjóri á Hreyfli, var formaður félagsins í langan tíma og eins og segir í korti sem honum barst ásamt höfðinglegri gjöf frá félaginu þá vann hann af miklum heilindum fyrir félagið og var t.d sá sem lagði mikla áherslu á að tölvuvæða bílana og kom þeirri hugmynd í framkvæmd. Hann spilar alltaf brige með félögum sínum og það eru ófá verðlaunin sem hann hefur komið með heim eftir spilakvöld, hins vegar veit ég varla muninn á spaða og ás.
Afkomendur hans og tengdabörn eru eitthvað í kringum 50 og því er bæði þröngt á þingi en endalaust gaman þegar við komum öll saman í litla ömmuhúsinu hans og mömmu. Litlu langafabörnin hans kalla hann Langa að eigin ósk og að mér læðist sá grunur að hann sé bara nokkuð stoltur af okkur öllum.
Elsku pabbinn minn, innilega til hamingju með daginn þinn, vona að hann verði þér frábær og ég hlakka mikið til veislunnar þinnar sem verður haldin eftir rúma viku, þegar Óli bróðir er kominn heim í tilefni dagsins. Allt það hrós sem þú fékkst í afmæliskortum vina þinna í gær áttu algerlega inni fyrir.
Elska þig endalaust
Erlan þín

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með pabba þinn. Skilaðu kveðju til hans frá mér.
Gleðilega páska!
Kv. Guðrún Finnbj

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með æðislega afa minn:) Arnan