laugardagur, mars 12, 2011

Mamma mín afmælisskvísa

Elsku besta og yndislega mamman mín á afmæli í dag, 71 árs skvísan þótt það trúi því enginn enda er hún svo ungleg þessi elska. "Hvaðan kemur hún mamma þín eiginlega" var ég spurð að um daginn. "Hún kemur frá himnum enda alger engill" svaraði ég. "Já það hlýtur að vera því það fylgir henni svo sérstakur andi og mikill friður og ró" sagði þá spyrjandinn við mig. "Henni er svo annt um alla og er ekki bara að hugsa um sitt fólk heldur virðist hún hafa tíma fyrir alla".
Já hún mamma mín er svo sannarleg einstök kona og þótt hún sé nú langt frá því að vera fyrirferðamikil þá hefur hún breitt bak og það eru ófáir sem koma til hennar með ólíklegustu vandamál sín og hún hefur tíma fyrir alla.
Við erum miklar vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og mitt fólk ásamt okkur öllum í stórfjölskyldunni. Rúmlega fertug lét hún draum sinn rætast og hóf nám og það voru stoltir krakkar sem mættu við útskriftina hennar þegar hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 46 ára gömul og hún er þeim hvatning sem langar að læra en halda að þeir séu of gamlir til þess.

Elsku mamma mín, um leið og ég óska þér til hamingju með daginn þinn vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir þig hafa valið þig til að vera mamma mín, ég er svo stolt af þér og elska þig milljón. Vona að afmælisdagurinn verði þér góður og frábær og ég hlakka til að hitta þig á eftir.

miðvikudagur, mars 02, 2011

Þrítugar afmælisstelpur

Við eldhúsborðið í gærkvöldi vorum við Erling að rifja aðeins upp tímann fyrir 30 árum og 4 mánuðum síðan og það sem allt hefur breyst. Við áttum von á okkar öðru barni og í mæðraskoðun, þá komin 5 mánuði á leið, vildi ljósan endilega senda mig suður í sónar. Við bjuggum á Akranesi og þá tíðkaðist ekki að allar konur færu í sónar, bara ef eitthvað var öðruvísi en átti að vera. Ljósan sagði við mig að hana grunaði að ég væri gengin lengra með barnið en blæðingar sögðu til um. Eftir á að hyggja er ég viss um að hana grunaði ástæðu þess að legið var miklu hærra uppi en hún orðaði það samt ekki við mig. Ég fór því suður með Akraborginni og tók Írisi með en það tíðkaðist ekki heldur að feður færu með í sónar. Við áttum engan bíl svo við mæðgur gengum niður að höfn og svo tók mamma, þessi elska, á móti okkur í borginni og keyrði mig á spítalann í sónar og beið frammi á meðan með litlu dömuna okkar. Hún sagði mér svo seinna að ég hefði verið hvítari en hvítt lak þegar ég kom fram frá lækninum og sagði ekki margt annað en að hún hafði haft rétt fyrir sér, börnin væru tvö. Þar sem við áttum heldur ekki síma höfðum við ákveðið að Erling færi á símstöðina í hádegishléinu og myndi hringja í mig til að vita hvað hefði komið út úr sónarnum. Þótt mamma mín væri búin að segja við mig að henni kæmi ekki á óvart að börnin væru tvö þá trúði ég henni aldrei og fannst það mjög fjarstæðukennt. Hvað um það, Erling var einmitt að rifja það líka upp í gær þegar hann stóð í símaklefanum utan við símstöðina og fékk fréttirnar. Hann sagði ekkert, og þá meina ég ekkert, í svona eina mínútu. Þetta var nett sjokk fyrir okkur enda vorum við bara tvítug og Erling í námi en svo leið meðgangan og við vorum orðin mjög spennt þegar þær létu svo sjá sig stelpurnar okkar.

Mér finnst ótrúlega stutt síðan þetta var en engu að síður er það staðreynd að í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur okkar 30 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura. Þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar enda eru þær tveir sjálfstæðir einstaklingar þótt við stríðum þeim stundum með þeirri staðreynd að þær eru líffræðilega nákvæmlega eins. Auðvitað eru þær samt ekki eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs. Ég held reyndar að einungis eineggja tvíburar geti skilið þessi tengsl sem eru þarna á milli.
Þær hafa alla tíð verði yndi okkar og stolt ásamt hinum systrum sínum. Þær elska að eiga afmæli og löngu áður en dagurinn rennur upp er búið að skipuleggja hann og ég vona að þær haldi þessu áfram, leyfi afmælisbarninu í sér alltaf að njóta sín í botn. Þær vinna báðar á leikskóla, þó ekki þeim sama og þeim líkar vel að vinna með börnum enda eru þær báðar mömmur sjálfar.
Eygló og Bjössi eiga Erlu Rakel sem er tveggja ára síðan í október og svo fæddist Andri Ísak 20. feb sl og hann er því bara rétt viku gamall.
Arna á þrjár dætur, Daníu Rut 8 ára, Söru Ísold 7 ára og Þórey Erlu 5 ára og elur þær upp með Hafþóri sínum sem tekur þær algerlega sem sínum eigin.

Elsku stelpurnar okkar, við pabbi ykkur óskum ykkur innilega til hamingju með daginn ykkar. Vonum að hann verði ykkur frábær í alla staði. Við elskum ykkur meira en orð fá lýst og erum afar stolt af ykkur.