laugardagur, september 29, 2007

Að lifa í Núinu

“Fortíðin er liðin, framtíðin er ráðgáta en dagurinn í dag er gjöf.” Ég las þetta í einhverju blaðinu í dag og mikið er þetta rétt.

Eins og flestum lesendum mínum er kunnugt þá höfum við Erling ásamt fjölskyldunni hans allri verið minnt harkalega á það að ekkert er sjálfgefið. Eina stundina er allt í lagi og svo eins og hendi sé veifað er einn bróðirinn alvarlega veikur. Öðrum lesendum mínum til glöggvunar þá gerðist það á föstudagskvöld fyrir viku síðan að elsti bróðir hans Erlings, Hjalli, fékk alvarlega heilablæðingu og liggur núna á sjúkrahúsi, lamaður öðrum megin. Hjalli er bara 64 ára gamall, hefur að því er ég best veit aldrei legið á sjúkrahúsi áður og auðvitað er þetta mikið áfall fyrir alla og mest konuna hans og börnin þeirra. Á síðunni hans Erlings http://www.erlingm.blogspot.com/ er hægt að lesa meira um hvernig þetta allt er fyrir þá sem hafa áhuga.

Þessi atburður, ásamt því að hann Jói hennar Hildar fékk hjartaáfall fyrr í sumar og það er kraftaverk að hann lifði það af, fær mann til að staldra aðeins við og hugsa sig um. Þetta skerpir þá sýn á lífið og tilveruna sem við Erling fórum að sjá fyrir nokkuð löngu síðan. Það er alltof algengt að fólk njóti ekki “Núsins” Gefi sér ekki tíma til að staldra við í amstri dagsins, gefi sér ekki tíma til að sjá alla gimsteinana sem eru lagðir í götu okkar daglega. Og jafnvel þótt fólk sjái gimsteinana þá gefur það sér ekki tíma til að staldra við og tína þá upp vegna þess að það ætlar að finna alla gimsteinana sem eru við endann á regnboganum. Hversu oft heyrir maður ekki að einhver ætlar að gera þetta eða hitt þegar þessu eða hinu er lokið, eða einhverjum áfanga er náð, þá á að njóta lífins. Svo kemur í ljós að það er engin fjársjóðskista við endann á regnboganum

Það dapurlega er að margir ná aldrei að ljúka því sem þeir ætluðu að gera áður en hægt væri að njóta lífsins. Það getur svo margt komið uppá áður en þeim fyrirætlunum er náð. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Þegar hann Hjalli kvaddi Sigrúnu sína þennan föstudagseftirmiðdag, óskaði henni góðrar ferðar til Danmerkur, en þangað var hún að fara í vinnuferð, þá hefur hvorugu þeirra rennt í grun að næst þegar þau myndu hittast væri við þessar kringumstæður, hún nýlent eftir að hafa fengið þessar hræðilegu fréttir erlendis og hann svona mikið veikur á sjúkrahúsi og spurning um bata.

Kæru vinir mínir, njótum daganna, göngum hægt um götuna, horfum niður fyrir okkur, notum tækifærin og allar þær góðu gjafir sem Guð leggur í götu okkar. Njótum núsins það er það eina sem við höfum ráð á. Förum vel með okkur, hugum að heilsunni, hreyfum okkur meira, borðum hollari mat, það er bara til eitt eintak af okkur og lítið um varahluti. Þó svo að oft hafi verið lagt af stað með góðar fyrirætlanir og þær mistekist eins og t.d hjá mér varðandi það að létta mig þá má alltaf byrja upp á nýtt, það snýst um það að nenna að minnka áhættuna á hættulegum sjúkdómum.

Ég bið ykkur um fyrirbæn fyrir Hjalla og fjölskyldunni, bænin megnar ótrúlegustu hluti.

Þangað til næst........

föstudagur, september 21, 2007

Haustdagar.....

Það hefur verið frekar tilbreytingalaust lífið síðan við komum heim úr sumarfríinu hjónakornin, það er eiginlega þetta, vinna, borða og sofa. Á þessum árstíma er mjög mikið að gera í vinnunni enda er verið að senda inn ársreikninga lögaðila til Skattmann ásamt því að virðisaukaskil eru rétt handan við hornið.

En ekki alveg samt tilbreytingalaust......Síðustu helgi var hér líf og fjör, matarklúbburinn hittist hér í Húsinu við ána sl laugardagskvöld og það var sko mikið gaman, mikill og góður matur og félagsskapurinn alveg frábær.
Á sunnudeginum kom síðan allur mannskapurinn okkar Erlings í heimsókn og það var gaman að hafa barnaskarann hjá sér með tilheyrandi látum og pönnukökubakstri að ömmu og sveitakonusið. Hildur og Jói komu svo við á leið heim úr sveitinni og gaman að hitta þau.

Línudansinn er byrjaður aftur og ekkert nema gaman og svolítið erfitt líka því nú erum við ekki lengur byrjendur heldur hópur á öðru ári og eigum að geta orðið eitthvað. Mér finnst samt gott að sjá að ég er ekki eini klaufinn í hópnum.

Okkur Erling hefur í mörg ár langað að læra samkvæmisdansa en ekki látið verða af því fyrr en núna. Við skráðum okkur á byrjendanámskeið hjá Dansskóla Jóns Péturs og Köru og erum búin að fara tvisvar. Þetta er svoooooooo gaman og mikil hreyfing.
Þarna eru pör á öllum aldri misflink en öll að byrja. Jón Pétur kennir okkur sjálfur og hann er fínn, tekur sjálfan sig ekki hátíðlega og hvetur okkur áfram og er alltaf að segja okkur hvað við séum flink. Gott fyrir sálina að heyra það og smátt og smátt síast það inn hvað við erum dugleg og fyrir vikið verðum við enn duglegri. Ég pantaði DVD diska á Amazon með línu- og samkvæmisdönsum og það verður gaman að sjá þá og reyna að læra af þeim.

Núna er langt liðið á föstudagskvöld. Ég sit inni á skrifstofu og pikka á tölvuna, frammi í eldhúsi eru Hrund og Elva vinkona hennar með tónleika fyrir mig án þess að vita það samt. Þær eru svo skemmtilegar þessa skvísur. Erling er fyrir austan með Hlyn og ætla þeir að njóta helgarinnar saman og baða orma, borða góðan mat og njóta samfélagsins. Þeir hafa gert þetta bræðurnir í nokkur ár að eiga svona helgi saman að hausti til og reyna að telja okkur trú um að þeir séu bara að gegna skyldu sinni sem húsbændur og fara og draga björg í bú, Góðir... :o) Mér finnst þetta bara gott hjá þeim.

Áðan var ég að reyna að tengja nýja myndlykilinn og var svo dugleg. Ég var búin að setja fullt af snúrum á einhverja staði, fá valmyndina upp og finna einhverjar stöðvar en svo kom þessi leiðinda tilkynning á skjáinn: EKKERT MERKI. Vesen....... Ég sem var svo ánægð með mig, reyndi að ná í Tedda bróðir til að spyrja hann hvort maður þurfi að hafa örbylgjuloftnet hér á Selfossi en náði ekki í hann. Það var búið að loka í þjónustuverinu þannig að ég reyni kannski aftur á morgun.

Vinkonurnar frammi í eldhúsi eru að bjóða mér í partí, ég ætla aðeins að spjalla við þær og fara svo að skoða augnlokin að innan. Vinnan kallar í fyrramálið þrátt fyrir að það sé laugardagur....... Þangað til næst......

þriðjudagur, september 11, 2007

Hann á afmæli í dag, hann........


.......Karlott tengdasonur minn á afmæli í dag, er orðinn 32 ára gamall. Það er alltaf ánægjulegt þegar fólk fyllir eitt árið í viðbót og á því er engin undartekning núna.
Það var fyrir nokkrum árum síðan þegar við Erling komum heim úr einhverju ferðalaginu að við fréttum að ungur maður hefði boðið Írisi út á kaffihús og stuttu síðar fegnum við að hitta þennan unga mann. Hann hefur algerlega staðist þær væntingar sem við gerðum til hans og í dag eiga þau Íris þrjú yndisleg börn saman og þau eru einstaklega samhent í öllu er viðkemur heimilishaldi og uppeldi á börnunum.
Karlott nýtur einnig mikillar hylli á vinnustað sínum, Landsbankanum og eru bæði yfirmenn og samstarfsfélagar mjög ánægðir með hann og stendur hann sig með stakri prýði enda sannkallað ljúfmenni á ferð.

Karlott minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn, hlakka til að kíkja á ykkur í kaffi en það verð ég að segja að þú átt það sameiginlegt með konunni þinni að valda mér höfuðverkjum þegar velja á gjöf í tilefni dagsins. Kannski best að ég láti tengdapabba þinn um það :o) Guð blessi þig ríkulega og ég er stolt af þér.

laugardagur, september 08, 2007

Komin heim á ný




Það eina sem heyrist í húsinu núna eru hljóð frá vinnukonunum mínum frábæru og samviskusömu, uppþvottavélinni og þvottavélinni, þær vinna verkin fyrir mig og ég er mjög fegin því. Í dag var hins vegar líf og fjör hér í húsinu við ána því krakkarnir okkar komu í heimsókn og tilefnið var að hitta okkur Erling sem komum heim frá Mallorka í gærkvöldi. Það er skemmtilegt að ferðast, gaman að dvelja erlendis um stund en best af öllu er að koma heim aftur, hitta fólkið sitt og njóta samveru við þá sem eru manni kærastir.

Við vorum tvær vikur suður á Mallorka, eyjunni okkar fögru í Miðjarðarhafinu og með í för voru vinir okkar, Heiðar og Sigrún. Mér finnst Mallorka alveg einstök, ég finn mig næstum heima þar enda er ég alltaf að segja að ég hljóti að vera spænsk ættuð. Við vorum þarna á mjög fallegum stað, höfðum pantað okkur íbúð á netinu og þannig sparað stórfé í gistikostnað, flugfarið keyptum við svo bara af einni ferðaskrifstofunni. Við vorum svo búin að panta okkur bílaleigubíl sem beið okkar á flugvellinum. Þegar við lentum á flugvellinum í Palma var rigning og af pollunum að dæma var búið að rigna mikið. Ég ákvað þá að njóta þessara daga alveg sama hvernig veðrið væri, veðurfar myndi ekki stjórna minni líðan.

Þegar við komum á áfangastað sáum við að allt umhverfið var ævintýri líkast. Við sáum út á hafið af svölunum og rétt hjá var rómantískasti veitingastaður sem ég veit um enda voru það ófá kvöldin sem við vinirnir gengum þangað og nutum ljúffengra veitinga, nánast í fjöruborðinu


Horft niður að sundlaug og veitingastaðnum.

Við sundlaugina voru svo þjónar og nóg að panta eitthvað sem var svo komið með til okkar á bekkina þar sem við lágum í makindum og létum sólina baka okkur, lásum góðar bækur eða settum heyrnartólin af ipodinum í eyrun og hlustuðum á góða tónlist.


Sjónarhorn frá sólbekknum mínum, þetta eru mínar fögru tær :o)

Þarna voru ekki aðrir Íslendingar enda eru íslensku ferðaskrifstofurnar ekki með ferðir á þennan stað. Þarna voru heldur engir sölumenn sem eru sífellt að ónáða mann í sólbaðinu. Það er miklu betra að fara bara og leita uppi varninginn ef maður vill kaupa eitthvað.

Rómantískt sólarlag við bátahöfnina

Þar sem við vorum með bíl allan tímann þá skoðuðum við okkur líka um eyjuna fögru, fórum í heimsókn á gamalkunnar slóðir fyrri heimsókna okkar og bara nutum þess að eiga þennan tíma saman. Mér finnst svo gott við svona ferðalög að eiga Erling alveg útaf fyrir mig, hann skildi símann sinn eftir heima þannig að ekki var hann að trufla enda var fyrirtækið okkar í góðum höndum Badda vinar okkar á meðan við vorum í fríinu. Það verður síðan endurgoldið í sama þegar hann og Kiddý fara í frí. Já það er gott að eiga góða vini.

Við skruppum aðeins í búðir en þótt ég segi sjálf frá þá hef ég mikið lagast með þessar búðarferðir í ferðum okkar erlendis og Erling myndi örugglega vitna um það ef hann yrði spurður. En þar sem ég er nú einu sinni kona og örugglega spænsk að einhverju leyti þá hef ég gaman að fara í búðir og koma við allt í skranbúðunum á strandgötunum og Erling hefur ótrúlega mikla þolinmæði við mig við þær kringumstæður. Hann keyrir mig líka í verslunarmiðstöðvarnar (þeir Heiðar máttu bara keyra bílaleigubílinn) eins og ég bið hann um en ég passa mig líka á að hafa það í hófi.

Ég kem heim úr þessar dekurferð, endurnærð og ánægð. Það var enginn vandi að njóta lífsins, þetta var í alla staði góð ferð, veðrið var algert Mallorka veður, frábært að fara út á svalir á morgnana með kaffið og brauðið og finna hitann skella á andlitinu, heyra í sjónum leika sér við klettana og vita að góður dagur var framundan, eins góður og við sjálf vildum hafa hann.

Þegar vélin lenti í gærkvöldi og ég leit útum gluggann á landið mitt, fallega yndislega landið mitt fylltist ég þessari sömu tilfinningu og vanalega. Það gerist eitthvað óútskýranlegt inni í mér. Ég er svo stolt af landinu mínu, þakklát fyrir að eiga það því Ísland er jú best í heimi, alls staðar.

Framundan er svo daglega lífið með öllum sínum fallegu tónum og litbrigðum. Haustið er að skella á, tími kertaljósanna að koma enda keypti ég stór og falleg kerti í Zara home og hlakka til að njóta ljóssins og ilmsins frá þeim í vetur, bæði hér heima og á Föðurlandi.

Lífið er ljúft og gott, ég á mann og fjölskyldu sem elskar mig og dekrar og þau eru mér allt...... Þangað til næst vinir mínur