sunnudagur, október 30, 2005

Föstudagar eru góðir dagar.....

........þá er helgarfrí framundan og gott að koma heim. Á föstudögum er Erling yfirleitt kominn heim á undan mér og ilmurinn af rjúkandi kaffi kemur á móti mér. Mér finnst það notalegt og það er fátt sem getur orðið til þess að ég drífi mig ekki heim strax klukkan þrjú þegar vinnu lýkur. Þessi helgi sem nú er komin að enda var engin undantekning hvað notalegheit varðar. Veðrið var reyndar frekar napurt þegar ég var á heimleið á föstudaginn en ég var á jeppanum og því óhult fyrir öllu veðri. Ég fór í saumaklúbb um kvöldið, barðist þangað eins og sannri hetju sæmir, á jeppanum og það var bara eins og í Húsasmiðjuauglýsingu, Ekkert mál. Stelpurnar voru hressar og skemmtilegar, mikið spjallað og gætt sér á þessum líka fínu veitingum hjá henni Sigrúnu.

Á laugardagsmorgni rak Erling upp stór augu þegar ég kom fram rétt rúmlega tíu og minnti mig á að það væri ekki komið hádegi, hvað ég væri eiginlega að gera á fótum svona “snemma.” Reyndar var einhver undarlegu tónn í röddinni hans þegar hann sagði “snemma.” Það var reyndar skýring á þessum óvenjulega fótaferðatíma húsmóðurinnar en Barbro vinkona mín var búin að segjast ætla að kíkja í morgunkaffi til mín og Siggi ætlaði að koma með henni. Þau eru mjög góðir vinir okkar og hvað gerir maður ekki fyrir vini sína, ja maður spyr sig. Jú, það var auðvitað ekkert mál að vakna “snemma” svona einu sinni þegar von var á góðum gestum enda stóð það heima að þegar sturtan var búin og ég búin að setja upp andlitið þá birtust þau. Við áttum gott spjall við þau eins og vanalega. Þau eru svo stór partur af lífi okkar enda höfum við Barbro verið vinkonur í 34 ár eða síðan við vorum 11 ára.

Seinni partinn fórum við síðan í afmæli til Guðjóns hennar Sirrýjar systur minnar en hann er nú kominn til okkar á fimmtugsaldurinn og við bjóðum hann velkominn í hópinn. Veislan var mjög fín og þeim til sóma.

Kvöldið áttum við Erling svo tvö saman þar sem dæturnar fóru á eitthvað flakk. Við kveiktum á kertum og reykelsi og eins og vanalega þegar við erum bara tvö þá var mikið talað saman og framtíðarplönin rædd af kostgæfni. Það eru svo spennandi tímar framundan hjá okkur, við erum að leggja línurnar fyrir seinni hálfleik og það er gaman.
Eygló kom síðan heim á undan Hrund og tók þátt í spjallinu með okkur.

Í dag komu svo Íris og Karlott með litlu dömurnar sínar og við borðuðum saman í hádeginu, þær algerlega hafa mann í vasanum þessar litlu hnátur og bræða mann með einu litlu sposku brosi. Ætli það sé eitthvað sem maður myndi ekki gera fyrir þær??

Seinni partinn fórum við síðan í vöfflukaffi til vina okkar í Grafarvogi, Sigrúnar og Heiðars og ræddum framtíðarplön okkar, jólin framundan, sumarfrí og margt fleira.
Góðir vinir eru mikil Guðs gjöf og ég er Honum þakklát fyrir vini mína.

Nú á ég bara eftir að vinna í Verkvangi í einn mánuð og ég er að uupplifa það hvernig Guð opnar fyrir manni dyr þegar aðrar lokast. Ég er þess fullviss um að þó svo ég hafi misst vinnuna vegna aukinnar samkeppni á þeim markaði sem Verkvangur starfar á og varð til þess að fyrirtækið þurfti að minnka við sig og fækka fólki, þá blasir framtíðin við mér og ég mun vinna við það sem mér finnst mjög skemmtilegt. Ég er með ýmislegt á prjónunum, hef verið á spennandi námskeiði sem varðar atvinnulega framtíð mína. Það er gaman að vera til og ég horfi björtum augum fram á veginn.

miðvikudagur, október 26, 2005

Hann á afmæli í dag, hann lengi lifi


Kalda vetrarnótt fyrir 46 árum fæddist hann á efri hæðinni í húsi foreldra sinna. Hann var númer 7 í röðinni, fyrir voru 2 systur og 4 bræður og 4 árum seinna fæddist svo yngsti bróðirinn. Þótt ekki sé lengra síðan þá tíðkaðist að konur fæddu börnin heima og sinntu jafnt úti- sem innistörfum í hvaða veðri sem var, allavega í sveitinni. Hún tengdamóðir mín var og er hetja og vílaði ekki fyrir sér að þvo þvotta í köldum læknum komin að barnsburði. Hann var bara 16 ára þegar við kynntumst, með mikið krullað, sítt og strítt hár. Hann átti líka skellinöðru, svaka töffari og ég minnist þess þegar við Barbro vinkona fórum í helgarheimsóknir austur í Kot og fengum að vera aftan á til skiptis. Ég var orðin skotin í honum og ég held að hann hafi þá líka verið skotinn í mér. Allavega urðum við svaka góðir vinir og fórum að skrifast á og það var margt brallað þegar hann kom til Reykjavíkur um helgar. Pabbi og mamma samþykktu hann og daginn sem ég varð 17 ára trúlofuðum við okkur og okkur fannst við fullorðin. Lífið var alveg stórskemmtilegt og öll tækifæri notuð til að gera það enn skemmtilegra. Við giftum okkur 18 ára og í dag, 27 árum seinna, orðin afi og amma, þá finnst okkur lífið enn skemmtilegra en þá. Við erum enn betri vinir og eyðum miklum tíma saman. Hann er besti vinur minn og í mínum huga er hann einfaldlega flottastur.

Já, hann Erling MINN á afmæli í dag, en hann sagði við mig í gær að ef ég myndi ekki minna hann á það þá myndi afmælisdagurinn hans líða hjá án þess að hann myndi muna eftir honum. Það er víst engin hætta á að ég myndi gleyma því að ég ætti afmæli.
Ég er álíka mikið afmælisbarn og hann er lítið afmælisbarn. Samt finnst okkur gaman að fá gesti og notum afmælisdaga óspart til að gera okkur dagamun og finnst gaman ef ættingjar og vinir kíkja við.
Erling minn, ég vil óska þér innilega til hamingju með daginn og vona að dagurinn verði skemmtilegur hjá þér. Allavega færðu köku í kvöld :o) Ég elska þig meira í dag en í gær og bið Guð að við fáum að njóta elliáranna saman, tvær krumpaðar sveskjur sem ganga saman hönd í hönd.

miðvikudagur, október 19, 2005

Níunda skvísan er fædd....ég er svo sannarlega rík


Hér erum við saman nöfnurnar...
Erla og Þórey Erla











Það var frekar svefnlaus nótt, aðfararnótt mánudagsins sem leið 17. október. Nokkrum sinnum um nóttina vaknaði lítil stúlka og umlaði, vantaði snuðið sitt. Hún sofnaði um leið og það var komið á sinn stað. Þess á milli vaknaði ég við sms frá Örnunni minni sem var á fæðingardeildinni að eiga sitt þriðja barn. Það var ástæða þess að ég svaf ekki heima hjá mér heldur var ég hjá tveimur af ömmustelpunum mínum og það var Sara Ísold sem vaknaði af og til en Danía Rut er orðin svo stór að hún steinsvaf alla nóttina. Það var svo um hálf sex leytið að langþráða símtalið kom, lítil prinsessa hafði litið dagsins ljós rúmlega fimm um morguninn. Hún var algert grjón 12 merkur og 48 cm með mikið og dökkt hár eins og systur hennar voru. Þessi litla prinsessa er níunda stúlkan okkar Erlings í röð, við eigum 4 dætur og 5 dótturdætur og geri aðrir betur. Ella systir reiknaði út að líkurnar á þessu væri 1 á móti 512, pælið í því. Þær mæðgur komu heim í gær og heilsast vel en það sama verður ekki sagt um okkur öll því ferleg pest hefur herjað á okkur og Davíð t.d. rétt náði að vera viðstaddur fæðinguna og þurfti svo að fara heim með mikla magaverki og flökurleika. Heima hjá mér lágu Hrund, Erling og Eygló en sem betur fer lagðist ég ekki í rúmið fyrr á kvöldi mánudags þegar litlu ömmustelpurnar voru komnar í svefn heima hjá sér og pabbi þeirra tekinn við. Ég vona bara að ég verði orðin nógu góð til að fara í vinnu á morgun en Erling og Eygló fóru út í dag en eru samt ekki alveg góð. Ég vona bara lesendur mínir að þið sleppið við þetta. Hef þetta ekki lengra í bili en ég var að fá að vita að yngsta prinsessan mín heitir Þórey Erla og það er mér mikill heiður að foreldrarnir skyldu velja henni nafnið mitt ásamt nafni frænku Davíðs sem honum þykir mjög vænt um.