mánudagur, október 26, 2009

Erling fimmtugur, hann lengi lifi


Þegar ég gifti mig fyrir rúmum 30 árum síðan var ég ákaflega hamingjusöm ung stúlka. Ég hafði kynnst frábærum strák sem að sögn foreldra minna bauð af sér góðan þokka og það var jafn mikilvægt þá og núna, skil það samt enn betur þegar ég sjálf hef verið í sporum foreldra minna og verið kynnt fyrir tilvonandi tengdasonum mínum.
Erling hefur svo sannarlega staðið undir væntingum mínum og langt umfram það, ég er í dag enn hamingjusamari en ég var á brúðkaupsdaginn okkar, við erum svo lánsöm að vera bestu vinir, getum setið endalaust í límsófunum okkar og spjallað um allt milli himins og jarðar. Við erum meira en bara vinir hann er nefnilega sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig og dekra á allan mögulega hátt.
Afkomendahópurinn stækkar sífellt og eins og áður sagði hafa tengdasynir bæst í hópinn. Dæturnar eru 4 og barnabörnin 7, elsta er 7 ára og sú yngsta aðeins eins árs. Við elskum að ferðast bæði innan lands og utan og notum hvert tækifæri til þess ásamt ótöldum dögum sem við eyðum saman í Kofanum okkar á Föðurlandi. Þess utan á Erling tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars.....ekki síst á þessum kreppudögum og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.
Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í stuttum pistli og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

laugardagur, október 17, 2009

Þórey Erla afmælisskvísa


Þar sem ég er orðin sjö barna amma er ekki skrýtið að það séu oft afmælisblogg á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er að segja.

Hún Þórey Erla, næst yngsta prinsessan mín á afmæli í dag, er orðin fjögurra ára daman. Það er alveg merkilegt hvað svona lítil mannvera á auðvelt að vefja svona stórri manneskju eins og mér um fingur sér og hafa ekkert fyrir því. Brosið hennar og stóru augun og þegar hún kemur til manns og smellir kossi á mann með stórum smelli er algerlega ómótstæðilegt. Þórey Erla er mjög geðgóð en veit alveg hvað hún vill og að eigin mati þá getur hún allt. Við erum góðar vinkonur og það er mjög gaman þegar hún hringir og spyr hvort hún og systurnar megi koma í heimsókn á Selfoss til afa og ömmu. Hún er reyndar meiri afa en ömmustelpa og þegar ég kem til þeirra ein þá spyr hún um afa sinn áður en hún heilsar þetta litla yndigull.

Elsku Þórey Erla, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar og ég bið Guð að gæta þín hvar sem þú ferð.

Vertu svo dugleg að láta þér batna svo hægt verði að hafa veisluna þína fljótt.

mánudagur, október 05, 2009

Erla Rakel 1 árs afmælisprinsessa


Það var fallegur sunnudagsmorgunn, við Erling vorum búin að fylgjast með Eygló og Bjössa alla nóttina því loksins var komið að því að fyrsta barnið þeirra myndi láta sjá sig. Fæðingin gekk frekar illa og snemma morguns var ákveðið að sækja barnið með töngum. Það gekk svo allt upp og loksins kom hringingin sem við höfðum beðið eftir, lítil dama var mætt á svæðið og var auðvitað fallegust og fullkomin að sögn yfir sig hamingjusamra foreldra.

Það er alveg hreint ótrúlegt að í dag sé komið eitt ár síðan þetta var og yngsta prinsessan okkar Erling er að fagna fyrsta afmælisdeginum sínum. Erla Rakel er yndislegur lítill gullmoli sem heillar alla sem koma nálægt henni, dökkhærð með brún augu sem bræða mann algerlega. Hún dafnar mjög vel og er bara algert yndis barn. Hún er mikil pabbastelpa þótt það komi nú ekki í veg fyrir að mamma hennar megi alveg sinna henni og svo finnst henni svo gaman þegar hún hittir stóru frændsystkinin sín enda nenna þau alveg ennþá að leika við litla barnið.

Elsku Erla Rakel mín, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og við elskum þig mjög mikið og hlökkum til að fylgjast með þér vaxa og dafna. Það var mjög gaman að koma í flottu afmælisveisluna þína og mikið var strumpakakan flott sem mamma þín gerði. Hlakka svo til næst þegar ég hitti þig.