föstudagur, janúar 08, 2010

Afmælisskvísa


Það er alveg með ólíkindum að í dag séu liðin 21 ár frá því að yngsta barnið mitt fæddist en engu að síður er það staðreynd. Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar daman fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur.
Síðan hefur hún margoft sýnt og sannað hvað í henni býr. Hún er yndisleg stelpa og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft komið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.
Hrund kláraði stúdentinn sl vor og hana hefur alltaf langað prufa að búa erlendis og í haust lét hún verða af því og fór til Þýskalands sem aupair og gætir þar tveggja barna. Hún unir hag sínum vel en var samt fljót að komast að því að útlöndin verða fljótt hversdagsleg. Hún ætlar að koma heim í vor og vinna á sambýlinu sem hún hefur unnið á undanfarin sumur og stefnir svo á háskólann í haust. Ég hlakka svo mikið til þegar hún kemur aftur heim.
Elsku Hrundin mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn og vona að hann verði alveg hrikalega skemmtilegur. Ég elska þig meira en hægt er að segja með orðum og er afar stolt af þér. Guð blessi þig og veiti þér það sem hjarta þitt þráir.