föstudagur, desember 26, 2008

Jólin...

Það er ekki skrýtið að mann hlakki mikið til jólanna því þau eru svo hrikalega skemmtileg. Hér í Húsinu við ána hefur verið líf og fjör þessa yndislegu jólahátíð. Við, Hrund amman og afinn, nutum þeirra forréttinda að hafa Örnu og litlu dömurnar hennar hjá okkur, þær glæða húsið svo skemmtilegum blæ. Þær litlu voru við það að fara yfir um af spenning á aðfangadag en samt var mesta furða hvað þær létu pakkaflóðið undir trénu eiga sig. Ef einhver gerðist of nærgöngull við pakkana þá létu þær í sér heyra að það mætti ekki kíkja „fyrr en í kvöld“. Það var margt fallegt sem kom upp úr þeim pökkum og stuttu seinna leit stofan út eins vera ber á aðfangadagskvöld, varla hægt að þverfóta um gólf fyrir leikföngum, pappír og fleira. Eins gott að ég mundi eftir að kaupa svarta stóra ruslapoka.

Í gær, á jóladag, komu svo hinar stelpurnar með sitt fólk og við áttum saman mjög notalegan dag, vorum dugleg með nammiskálarnar og litla fólkinu fannst ekki leiðinlegt að það var alltaf sagt já þegar þau spurðu hvort þau mættu fá mola. Þótt enn hafi fjölgað hjá okkur þá var samt enn pláss fyrir alla við borðstofuborðið enda er Erla Rakel aðeins rúmlega tveggja mánaða. Þetta er mér svo dýrmætt að ég kem þeim hugsunum ekki á blað, get ekki lýst því hvað það gleður mig að hafa allt fólkið mitt hjá mér og allir eru sáttir og glaðir. Við hjálpumst öll að og þess vegna tekur undirbúningur og frágangur eftir matinn stuttan tíma og svo geta allir sest inn aftur yfir kaffi og Nóa konfekti ásamt ýmsu góðgæti sem var verslað í Boston, svona öðruvísi nammi.




Ég er nú vön því á frídögum að vera ekki að rífa mig upp allt of snemma og núna um jólin er engin undantekning á því. Þegar ég vaknaði í morgun var Erling að lesa og ég fór aldrei þessu vant á fætur á undan honum. Eftir sturtuna kom ég inn til hans og voru þá ekki komnar þrjár skvísur í mitt rúm og þeim fannst það ekki lítið fyndið. Ég sagði þeim að þær væru svo mikil krútt. Þá gall í Söru Ísold, „við erum krútt en ekki amma og afi.“ Nú sagði ég hvað erum við þá. Þá setti hún upp þetta líka fallega bros og sagði mjög blíðlega „þið eruð yndigull“ Getið þið ímyndað ykkur að það sé hægt að fá fallegri gullhamra? Það get ég alla vega ekki.


Í dag er stefnan svo sett á Fitina, ætlum að fara með stelpurnar og sýna þeim breytinguna þar en Hrund og Arna hafa ekki komið þangað síðan um verslunarmannahelgi og það er bara ekki hægt.
Litlu dömurnar eru spenntar að fara þangað, vita líka að amman ætlar að hafa til nesti og kókomjólk, ekki leiðinlegt finnst þeim. Við komum aftur heim í kvöld því þá er okkur boðið að vera með í góðra vina hópi og við hlökkum til

Njótið lífsins vinir mínir, það er bæði gott og skemmtilegt....Þangað til næst...

sunnudagur, desember 21, 2008

Jólin eru alveg að koma, jibbí

Þá mega jólin koma, húsið er skreytt og fallegt jólatréð stendur í stofunni og marglit ljósin lýsa upp skrautið á því. Hver hlutur á trénu á sína sögu og það er svo gaman þegar þeir koma uppúr kössunum og rifja upp hvar þeir voru fengnir. Stelpurnar okkar vita alveg hvað á að vera hvar og taka hiklaust eftir ef eitthvað vantar í skreytingum á trénu. Nostalgía hvað......

Helgin hefur verið viðburðarík og skemmtileg með eindæmum. Stelpupartí á föstudagskvöld, jólatónleikar Sinfóníunnar í gær og eftir þá var brunað beint á Skagann til að fagna með vinum okkar Barbro og Sigga en Marianne dóttir þeirra var að útskrifast sem stúdent og hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði eftir að hafa lokið 148 einingum á 7 önnum í stað 8 eins og venjan er. Dugleg skvísan sú.

Við náðum samt að komast heim í gærkvöldi áður en veðrið versnaði og allt varð kolófært. Hér á Selfossi hefur snjóað mjög mikið og í morgun var gatan okkar bara alveg ófær. Erling fór tvisvar út í dag að aðstoða fólk sem var búið að festa bílana sína fyrir framan gluggana okkar.

Nú er frábær dagur að kvöldi kominn, eins og segir í upphafi þessa pistils þá er búið að skreyta allt húsið og við meira að segja brutum áralanga hefð og skreyttum jólatré áður en sjálf Þorláksmessa rann upp svo nú er bara spurning hvað á eiginlega að gera á Þorláksmessu fyrst ekki þarf að skreyta og pússa allt hér heima? Hrund er að reyna að draga okkur gömlu með á jólatónleika á Thorsplani í Hafnarfirði en hún hefur samt ekki enn fengið svar við því.

Á morgun er síðasti vinnudagur fyrir jól og reyndar kannski á þessu ári, veit það ekki alveg en í mesta lagi þarf að mæta aðeins milli jóla og reikna laun annað ekki. Ég er líka alveg viss að vinnudagurinn á morgun verður ekki langur, kannski til kl eitt. Eftir það ætlum við Hrund að skreppa aðeins saman að versla jóla, jóla, jóla........og fá okkur svo einhvers staðar kaffi á eftir, hún er að segja mér að smakka kaffi latte, hef aldrei smakkað það en „barnið“ drekkur það :o) Alllavega hlakka ég til að eyða deginum með henni og svo keyrum við þrjú saman heim að loknu dagsverki okkar allra.

Jólalögin óma úr stofunni, ég ætla að fara inn í límsófann og njóta samveru við feðginin mín, þau eru svo skemmtileg....Njótið daganna því þeir eru góðir...... Þangað til næst

mánudagur, desember 15, 2008

Hvað eiga kindakæfa og jólabréf sameiginlegt....

......Lokahönd lögð á hvort tveggja í sama eldhúsinu:o)

Við vorum snemma heima í dag hjónin. Eins og venjulega togaði límsófinn fast í okkur en að þessu sinni var ekki kaffi í bollunum heldur bjó Erling til heitt súkkulaði, aðventukaffi fyrir tvö sagði þessi frábæri maður minn.

Á heimleiðinni höfðum við komið við í SS og keypt 10 kíló af kindaslögum og eftir súkkulaðið þá var hafist handa við kæfugerð, þ.e Erling fór að búa til kæfu. Það var svo notalegt að vera hér í fallega eldhúsinu okkar, ég var að ljúka við jólabréfið okkar og Erling var að malla kæfu, þetta var bara svo hrikalega heimilislegt.

Núna er klukkan alveg að verða miðnætti, Hrund er nýkomin heim og Elva vinkona hennar er með henni og þær sitja hér hjá mér við eldhúsborðið og þær tala hvor í kapp við hina, ekki þögn eina mínútu. Gaman að þessum elskum. Erling er farinn að prenta út sýnishorn af bréfinu góða og við ætlum að setjast inn og lesa það yfir áður en það verður prentað endanlega.

Við erum tilbúin í jólin, húsið skreytt, kæfan tilbúin, reykti laxinn í kistunni, það gæti ekki verið betra. Njótið lífsins vinir, það er svo skemmtilegt.....

miðvikudagur, desember 03, 2008

4ra ára afmælisprinsessa

Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, uppátektarsöm með afbrigðum og lætur hafa fyrir sér, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína.

Hún Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín, algerlega ómótstæðileg lítil (stór) dama er fjögurra ára í dag og hún er sko búin að bíða lengi eftir að verða fjögurra ára og geta sýnt fjóra putta. Ég veit að hún fékk að fara í kjól í leikskólann í dag og það var sko ekkert smá spennandi enda er hún með afmælisveislu þar í dag. Ég og hún eigum okkar spes kveðju. Þegar hún var yngri þá vildi hún aldrei kyssa bless og þar sem ég er algerlega á móti því að þvinga börn til að kyssa fullorðna þá fundum við upp okkar eigin kveðju og höfum haldið því við. Þegar þau fjölskyldan eru að fara frá okkur eða við frá þeim þá labbar hún í burtu, snýr sér svo við og ég sendi henni fingurkoss sem hún svo grípur og skellir á kinnina á sér og svo fæ ég einn tilbaka. Þvílíka krúttið.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systkini þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og það eru mín forréttindi að fá að vera amma þín