mánudagur, ágúst 31, 2009

Íris afmælisstelpa


Ég man það eins og það hefði gerst í gær, stoltið, þakklætið og gleðin sem fyllti huga minn þennan fallega morgun í ágúst tók öllu öðru fram sem ég hafði nokkurn tímann upplifað. Jú, við Erling vorum orðnir foreldrar í fyrsta sinn. Ég gat ekki beðið eftir að foreldrar mínir kæmu til að sjá þetta undurfallega barn sem ég hafði fætt og ekkert fegurra var til undir sólinni að okkar mati.
Í dag eru 31 ár liðið frá þessum yndis degi þegar hún Íris mín fæddist og það er ótrúlegt að ég, rétt rúmlega fertug, skuli eiga barn á fertugsaldri en svona er lífið frábært. Hún hefur alla tíð verið okkur mikill gleðigjafi og við erum afar stolt af henni. Hún er sjálfstæð og öguð og hún lýkur því sem hún tekur sér fyri r hendur. Hún og Karlott maðurinn hennar eiga 3 yndisleg börn og þau eru einstaklega samhent um allt heimilishald og barnauppeldi. Íris er lögfræðingur að mennt en fyrst og fremst er hún mikil mamma og eiginkona og auðvelt að sjá að fjölskyldan er í algeru fyrirrúmi hjá henni.

Elsku Íris mín, ég vil óska þér til hamingju með daginn þinn og vona að hann verði þér góður og að ég veit að fólkið þitt mun dekra þig á allan hátt.

mánudagur, ágúst 24, 2009

Afmælisskvísa


Í mínum huga eru afmælisdagar alltaf miklir merkisdagar og ég er svo lánsöm að eiga mörg yndisleg ömmubörn og því eru oft afmælisfærslur á blogginu mínu.
Í dag á ein prinsessan mín afmæli og það er hún Petra Rut sem er 7 ára í dag og er að fara í annan bekk og það er sko ekkert smá stórt skal ég segja ykkur. Hún lauk fyrsta bekk í vor með frábærum vitnisburði. Hún er alveg yndisleg stelpa með ákveðnar skoðanir og veit sko hvað hún vill. Um daginn spurði hún mig hvort ég væri bara mamma. Ég sagði henni að ég væri bæði mamma og svo væri ég líka amma en í vinnunni væri ég bókari. Eftir smá umhugsun sagði hún mér að hún ætlaði ekki að vera bókari þegar hún yrði stór heldur ætlaði hún að vera mamma og lögfræðingur eins og mamma sín. Algert yndisbarn og einlæg.
Aðspurð vildi hún helst fá gsm síma í afmælisgjöf en þar sem foreldrar hennar sáu ekki sömu ástæðu og hún fyrir gsm síma þá vildi hún bara fá Bratz dúkku. Við Petra Rut eru miklar vinkonur og það er svo notalegt þegar hún kemur og vefur handleggjunum um hálsinn og mér og gefur mér knús.

Elsku Petra Rut mín, ég vil óska þér til hamingju með daginn þinn, vona að þú verðir dekruð í allan dag. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og ég elska þig marga hringi..