miðvikudagur, maí 31, 2006

Frekar tvö en eitt

Við hjónin fórum í dag og keyptum okkur lítið sumarhús til að setja niður á lóðinni okkar í Fljótshlíð sem er víst, að sögn þeirra sem til þekkja, fallegasta sveit landsins.
Húsið er mjög fallegt þótt það sé lítið og mun væntanlega í framtíðinni gegna hlutverki gestahúss, þ.e. ef við byggjum einhvern tímann sumarbústað þarna.
Húsið er ósamsett og Erling og Hlynur ætla að setja það saman núna fljótlega og mér finnst þetta ekkert smá spennandi. Við ætlum að taka inn rafmagn í húsið og setja annað hvort arin eða kamínu og ég hlakka til að eyða tíma þarna. Svo getur maður látið sig dreyma um heitan pott……ummmmm……

Annars erum við búin að vera að gera heilmiklar breytingar hjá okkur með svo margt.
Við erum að skipta um bíla, ætlum að selja græna Mussoinn, hvíta Lancerinn og tjaldvagninn (hann er reyndar þegar seldur) og við erum búin að kaupa nýrri og betri fólksbíl og svo keyptum við aftur hvíta Pajero jeppann sem við seldum Írisi og Karlott fyrir einu og hálfu ári síðan. Niðurstaðan er sú að fyrir sama verð og margir eru að kaupa nýjan flottan bíl, eða um 2 milljónir, fáum við litla sumarhúsið, mjög fallegan lítið ekinn fólksbíl og jeppa sem er í toppstandi. Allt bara með því að hrókera aðeins til eigum okkar. Fólksbíllinn flotti kemur okkur á milli borga, sparneytinn og fínn og jeppinn kemur okkur í allar þær fjallaferðir sem hugurinn stefnir á, Fljótshlíðarhringurinn.........ekkert smá falleg leið.....
Þetta er frábært….

Um daginn kom svo Eygló dóttir okkar heim með ungan, myndarlegan mann og kynnti hann fyrir okkur sem kærastann sinn. Hann heitir Björn Ingi og er 32 ára gamall vélstjóri. Okkur Erling líst vel á hann og óskum þeim til hamingju með hvort annað.

Á morgun rennur svo upp stóri dagurinn þegar við fáum afhenta lykla að Húsinu okkar við ána. Erling ætlar að mála allt húsið og við stefnum á að flytja þangað sunnudaginn 11. júní eða strax daginn eftir að Erling öðlast nýja titilinn sinn, lögfræðingur með BA gráðu. Ekki amalegt.

Já lífið er svo sannarlega skemmtilegt. Þangað til næst.....njótið lífsins

laugardagur, maí 20, 2006

Nýstúdent


Það er alltaf merkilegt þegar einhver nær langþráðu takmarki sínu og þá sérstaklega þegar mikið hefur verið fyrir því haft.

Í dag setti Davíð tengdasonur minn upp hvíta húfu ásamt skólasystkinum sínum í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hann er búinn að taka nokkur ár í það að ljúka stúdentsnámi sínu og hefur unnið fulla vinnu með því og tekið námið í fjarnámi bæði frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og líka frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hann og Arna eiga líka þrjár litlar stúlkur sem þarf að hugsa um og því hafði hann meira fyrir hvítu húfunni sinni en margir aðrir og ég er því afar stolt af honum.

Hann stefnir á að fara í Háskóla Íslands í haust og nema sagnfræði og ég efast ekki um að honum muni ganga vel því hann hefur gaman af því.

Davíð og litlu ömmustelpurnar mínar þrjár eru núna í sveitinni hjá foreldrum hans og ég efast ekki um að Doris dekrar þau á tá og fingri og litlu stelpurnar sem við eigum saman elska hana og njóta þess að vera hjá henni. Arna gat ekki verið með þeim í dag en fer norður eftir nokkra daga til þeirra.

Innilega til hamingju með þennan áfanga í lífinu Davíð minn og ég bið Guð að blessa þig og fjölskylduna þína ríkulega.

mánudagur, maí 15, 2006

Endurfundir


Mikið fékk ég skemmtilegan tölvupóst um daginn. Sendandi var bekkjarsystir mín úr Kvennaskólanum, Helga Benediktsdóttir. Það var komið að því að bekkurinn ætlaði að hittast því á þessu ári eru 30 ár síðan við lukum landsprófi úr Kvennó en í þá daga var Kvennó gagnfræðaskóli en ekki menntaskóli eins og í dag.

Sl laugardagskvöld vorum við svo mættar í Veitingahúsið Tjarnarbakkann í Iðnó, milli 25 og 30 hressar og flottar konur sem eyddu þessum skemmtilegu gagnfræðaskólaárum saman í leik og námi með dr. Guðrúnu P. Helgadóttur sem skólameistara.

Hópurinn spannar sennilega flestar starfsgreinar þjóðfélagsins og það er gaman að segja frá því að í þessum hópi er engin fráskilin og það útaf fyrir sig er stórmerkilegt í þjóðfélagi þar sem hjónaskilnaðir eru svona algengir.

Kvöldið heppnaðist mjög vel og ég skemmti mér frábærlega. Sumar stelpurnar hafði ég ekki séð í 30 ár en þekkti þær samt allar strax enda lítum við allar svo vel út eins og ég sagði hér að framan. Glæsilegar Kvennaskóladömur.

Það er líka gaman að segja frá því hér að ég tengist þessum stelpum líka í gegnum dætur mínar. Þórey bekkjarsystir mín kennir Hrund ensku í Kvennó og Sigga vinkona Þóreyjar, er með Írisi í bekk í laganáminu í Háskólanum í Reykjavík og þær eru meira að segja saman í vinnuhóp. Bara gaman að því.

Njótið lífsins kæru lesendur, það geri ég allavega........því sumarið er komið

sunnudagur, maí 07, 2006

Stórafmæli

Stór hluti af afkomendahópnum ásamt mökum



Erling, Hlynur, Benni, Danni, Gerða, Hildur og Hjalli ásamt Hrefnu, það vantar bara Hansa


Flott afmæliskaka sem bakarinn á Víflistöðum bakaði handa Hrefnu í tilefni dagsins

Þann 7. maí 1921 leit hún dagsins ljós á bæ einum í Ketildölum vestur á fjörðum og í dag, 85 árum seinna, var slegið upp veislu á Vífilstöðum þar sem hún býr núna.

Já hún Hrefna tengdamamma mín á afmæli í dag og við slógum upp veislu og vorum þar saman komin öll börnin hennar nema Hansi, tengdabörn og mörg barnabörnin hennar með sín börn. Ekki hef nú tölu á afkomendafjölda hennar en þeir eru margir svo mikið er víst.

Hrefna var hress og leit mjög vel út, nýbúin að fara í klippingu og lagningu. Hún var búin að hlakka mikið til og hafði sofið lítið nóttina áður vegna spennings.
Dagurinn var skemmtilegur og heppnaðist vel í alla staði. Hrefna sagði við okkur Erling um daginn að henni finndist lífið alltof stutt og að heyra það af hennar vörum jók enn á þá fullvissu mína að við eigum að njóta hverrar stundar sem okkur er gefin.

Mig langar að óska henni til hamingju með daginn þótt hún lesi þetta ekki því hún er nánast blind og situr i hjólastól en hún er bara svo mikil hversdagshetja að ég mátti til að segja ykkur frá deginum hennar. Hún kvartar aldrei, hefur það alltaf svo gott að eigin sögn. Það gætu margir margt af henni lært.