laugardagur, mars 29, 2008

Egyptaland here we come.....

Þá eru bara 11 klukkutímar þangað til við leggjum af stað á vit ævintýranna í Egyptalandi. Það var góð tilfinning að labba út af skrifstofunni í gærkvöldi og vera búin að vinna bókhaldið fyrir viðskiptavinina og geta farið í frí með góðri samvisku.

Erling er að vinna í bænum í dag enda í mörg horn að líta svo fyrirtækið gangi vel meðan við erum í burtu. Baddi vinur okkar ætlar að stjórna Lexor á meðan svo það er í góðum höndum og svo eru Pólverjarnir okkar líka mjög fínir og samviskusamir. Ég hef notað daginn til að undirbúa okkur en það er aðeins öðruvísi að taka okkur til fyrir þessa ferð en t.d. Spán því við erum að fara á stað sem er allt öðruvísi en við höfum kynnst áður. Ég er búin kaupa fullt af sótthreinsandi servéttum og sprittgeli sem verður notað mörgum sinnum á dag eins og okkur var ráðlagt. Ég fann hvergi vakúmpökkunarvél svo Egils kristall verður bara að duga í þetta sinn.
Húsið verður ekki tómt meðan við erum burtu því Thea mun búa hér og Arna verður hér líka heilmikið meðan stelpurnar eru hjá pabba sínum.

Það er líf og fjör hér í Húsinu við ána því Arna og Eygló komu í heimsókn með litlu gullin hennar Örnu og það er bara gaman af því. Eygló nýtur meðgöngunnar í botn og er nýbúin að fara í 12 vikna sónarinn þar sem mjög margt er skoðað og athugað og það er allt í stakasta lagi með krílið. Já Guð er góður.

Nú ætla ég að fara upp á efri hæðina og halda áfram að gera okkur tilbúin, þetta er bara spennandi. Hlakka svo til að setja inn myndir og frásögn af þessu ævintýri.
Þangað til næst, njótið daganna.......

miðvikudagur, mars 19, 2008

Gleðifréttir og fleira skemmtilegt

Það verður ekki leiðinlegt að sjá þetta með eigin augum :o)

Þið sem lesið bloggið hans Erling vitið að það er von á fjölgun í fjölskyldunni og hef ég átt erfitt með að þegja yfir þeim gleðifréttum en núna erum við sem sagt búin að fá fréttaleyfi á þessar yndislegu fréttir. Eygló og Bjössi eiga von á sínu fyrsta barni seinnipartinn í september og ég vil nota þetta tækifæri til að óska þeim og okkur öllum til hamingju og bið þeim Guðs blessunar enda eru börnin gjöf frá Guði. Eygló er bara hress og er að komast yfir ógleðina og auðvitað eru þau bæði að rifna af monti og spenningi. Þau eru búin að gera heimasíðu fyrir krílið og slóðin er www.barnaland.is/barn/69896 en síðan er læst en ef þið hafið áhuga á að fylgjast með ekki hika við að senda tölvupóst á bjorningij@internet.is til að fá lykilorðið því Eygló er mjög dugleg að uppfæra síðuna.

Núna er aðeins 11 dagar í Egyptaland. Við fórum á undirbúningsfund og það var mjög gagnlegt og svo sáum við auðvitað flesta ferðafélagana okkar. Þetta er fólk á virðulegum aldri og mér sýndist að við Erling gætum verið börn flestra, allavega litu flestir fyrir að vera á aldur við foreldra mína. Það er margt sem þarf að huga að þegar lagt er upp í svona ferðalag á framandi staði og í ólíka menningu. T.d þarf að hafa með sótthreinsandi blautþurrkur og vera duglegur að nota þær. Við þurfum að byrja núna að taka einhverjar töflur út af magaflórunni og taka þær líka meðan við erum úti. Það þarf að passa að drekka bara vatn sem er í innsigluðum flöskum og ekki borða melónur því það er svo algengt að þær séu sprautaðar með kranavatni til að þyngja þær og þá geta þeir selt þær dýrari. Málið er að við þolum ekki bakteríurnar sem eru í vatninu þeirra og við megum ekki einu sinni bursta tennurnar úr því. Ég held ég fari bara að dæmi Óla afa míns þegar hann fór til Kanaríeyja í fyrsta skipi en þá tók hann með sér vakúmpakkað vatn. Vitið þið hvar hægt er að fá vakúmpökkunarvél??

Svo verð ég sennilega að tala við Kidda bróðir minn um að fá pláss í Hlaðgerðarkoti þegar við komum heim því eitt af því sem okkur var sagt að gera var að byrja hvern dag á á fá okkur sterkt áfengi, koníak eða eitthvað sem heitir Ferned branka en það er til að drepa þau kvikindi sem tekst að komast í mallann okkar þrátt fyrir allar varnaðaraðgerðir. Reyndar sagði fararstjórinn að hún væri bara að tala um eina matskeið :o)

Páskahátíðin er að renna upp en það er ekki bara frí hjá okkur Erling, vegna ferðarinnar til Egyptalands þurfum við að vinna aðeins en að sjálfsögðu munum við ekki vinna á föstudaginn langa né páskadaginn sjálfan. Þá koma reyndar stelpurnar til okkar með sitt föruneyti og ég hlakka mikið til þau eru öll svo mikil yndi. Arna er reyndar komin en hún ætlar að vera hjá okkur alla dagana og svo fær hún litlu skvísurnar á sunnudaginn og þá bara brunar hún og sækir þær og svo koma þær aftur. Mér finnst svo notalegt að hafa þær hér.

Notalegir og skemmtilegir dagar framundan, forsmekkurinn af þeim er hafinn, það er heilmikið videópartí á efri hæðinni, Arna, Hrund og Thea eru uppi að horfa á Lord of the Rings og ég fer ekki varhluta af “hávaðanum” hér niðri í koníaksstofunni. Miðað við ópin sem ég heyri núna þá er Erling eitthvað að stríða þeim og hræða þær og það er mjög auðvelt, spennan í myndinni er svo mikil. Ætla að fara og kanna málið, þangað til næst kæru lesendur.....

Hundrað þúsund kall.......

........Hefurðu einhvern tímann pælt í því að hundrað þúsund kall er settur saman úr 100 þúsundköllum? Bara 100 stk þúsundkallar? Hefur þú oft hugsað, æ þetta kostar bara þúsundkall, ekkert mál, næstum gefins? Hefurðu pælt í því að hver og einn af þessum 100 þúsundköllum skiptir jafn miklu máli? Næst þegar þú ætlar að kaupa eitthvað sem þig vantar kannski ekki og kostar bara þúsund kall, staldraðu við og minntu þig á hver og einn þúsund kall skiptir máli þegar við skoðum heildina.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Hún mamma mín.......

“Hvaðan kemur hún mamma þín eiginlega”, var ég spurð að um daginn. “Hún kemur frá himnum enda alger engill” svaraði ég. Já, það hlýtur bara að vera því það fylgir henni svo sérstakur andi og mikill friður og ró sagði þá spyrjandinn við mig. “Henni er svo annt um alla og er ekki bara að hugsa um sitt fólk heldur virðist hún hafa tíma fyrir alla” Þetta samtal átti sér stað á leikskólanum Hraunborg þar sem 3 af ömmugullunum mínum eru og einnig yngsta frænkan mín og barnabarn mömmu og hún sækir hana stundum þangað. Ég var að sækja mín gull og hitti forstöðukonuna en ég hef þekkt starfsfólkið þarna í mörg ár því hún Hrund var þarna sem barn.

Hún mamma mín er svo sannarlega einstök kona og þótt hún sé nú langt frá því að vera fyrirferðamikil þá hefur hún breitt bak og það eru ófáir sem koma til hennar með ólíklegustu vandamál sín og hún hefur alltaf tíma fyrir alla. Í dag á hún afmæli, er 68 ára gömul þótt það sé erfitt að trúa því vegna þess að hún er svo ungleg og mikil skvísa. Við erum miklar vinkonur og hún er alltaf til staðar fyrir mig og mitt fólk ásamt okkur öllum stórfjölskyldunni. Þegar mamma var rúmlega fertug, sex barna móðir með sitt barnaskólapróf, þá ákvað hún að láta drauminn rætast og fara í nám. Hún byrjaði í Námsflokkunum og hélt svo ótrauð áfram og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 46 ára gömul. Það voru stoltir krakkar sem mættu við úskriftina hennar og hún er þeim hvatning sem langar að læra en halda að þeir séu of gamlir til þess.

Elsku mamma mín, um leið og ég óska þér innilega til hamingju með daginn þá vil ég segja þér að ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa valið þig til að vera mamma mín, ég er svo stolt af þér og elska þig milljón grilljón. Vona að afmælisdagurinn verði þér góður og frábær og ég hlakka til að kíkja á þig næst.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Merkisdagur


Eins og venjulega þegar ég á afmæli þá vaknaði ég spennt í gærmorgun. Við Erling áttum 30 ára brúðkaupsafmæli og það er mjög merkilegt í mínum huga. Arna hafði gist hjá okkur og hún varð fyrst til að óska okkur til hamingju með daginn og Hrund svo strax á eftir. Íris og Eygló voru svo næstar í röðinni.

Það var snjókoma þegar við fjögur ókum yfir heiðina á leið í vinnu og skóla. Ég fékk nokkra tölvupósta og símhringingar í tilefni dagsins og ein vinkona mín spurði hvort það væri búið að biðja okkur að sitja fyrir á mynd hjá Þjóðminjasafninu í tilefni þessa áfanga.

Klukkan var svo að verða sex þegar Erling sótti mig í vinnuna, við Örn vorum tvö ein eftir og ég kvaddi hann með þökk fyrir daginn og svo “sjáumst á morgun” líka eins og venjulega og hann tók undir og sagði já, líka alveg eins og venjulega.

Ég sá þennan líka risablómvönd aftur í bílnum en auðvitað þóttist ég ekki taka eftir honum, múahahaha. Þegar ég ætlaði að fara að hringja í Hrund til að vita hvert við ættum að sækja hana þá sagði Erling að hún ætlaði að vera hjá Örnu í nótt og mér fannst það ekkert undarlegt því það gerir hún iðulega enda eru þær systur mjög samrýmdar, mömmu sinni til mikillar ánægju.

Eins og venjulega var notalegt að koma heim í Húsið við ána og blómvöndurinn risastóri og flotti var settur í fangið á mér ásamt korti. Það sem í það var skrifað var svo fallegt en líka svo persónulegt að það verður ekki sett hér inn en ég mun leyfa dætrunum að lesa það ef þeim langar því þetta var frá pabba þeirra til mömmu þeirra, skrifað eftir 30 ára hjónaband og enn lengri samveru.

Stuttu eftir að við komum heim sagði Erling að við þyrftum að hafa fataskipti því við værum að fara út að borða. Maturinn í Rauða Húsinu á Eyrarbakka sveik okkur ekki frekar en fyrri daginn og þetta var svoooo notalegt og skemmtilegt enda leiðist okkur aldrei þegar við erum tvö saman. Ef þetta hefði verið upptaka í rómantískri bíómynd þá hefði Erling dregið upp lítinn kassa með flottum skartgrip en þar sem þetta var raunveruleikinn, rómantískur og frábær þá var enginn skartgripakassi en mér var tjáð að brúðkaupsafmælisgjöfin yrði keypt og afhent í stóra ferðalaginu okkar sem við förum í til Egyptalands eftir aðeins rúmar 3 vikur. Hann var samt búinn að gefa mér fallegt silfurhálsmen sem hún Ella vinkona mín smíðaði en ég neita því ekki að ég hlakka til að fá GJÖFINA.

Þegar leið aðeins á kvöldið sagði hann mér að ég ætti frí í vinnunni daginn eftir og gæti því sofið út. Hann hafði þá hringt í Örn og fengið frí handa mér og líklega hefur Örn glott út í annað þegar ég kvaddi hann fyrr um daginn og sagði “sjáumst á morgun”.

Við settumst svo niður í límsófana okkar í stofunni og Erling kom mér verulega á óvart með því að koma inn með þessa líka flottu kampavínsflösku sem hann hafði keypt í tilefni dagsins, það var flott þegar tappinn skaust upp í loft, það var eitthvað sérlega rómantískt og sérstakt, kannski vegna þess að við höfum ekki áður fagnað neinu með kampavíni áður. Tappinn góði verður allavega geymdur til minningar, svo mikið er víst.

Elsku Erling, flottastur eins og ég kalla þig nú oft, þúsund milljón þakkir fyrir frábært kvöld og fyrir öll árin okkar saman. Þú hefur verið mér stoð og stytta, einhvern veginn alltaf staðið fyrir framan mig og hlíft mér við svo ótal mörgu og tekið af mér áhyggjur. Ég er svo stolt og montin af þér, þú ert bestasti vinurinn minn og ég hef alltaf getað sagt þér allt. Allt annað sem ég vil segja þér verður ekki sagt á svona síðum en ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa leitt okkur saman og fyrir að fá að vera konan þín og móðir barnanna þinna, það eru mín forréttindi í lífinu. Ég elska þig meira en fátækleg orð geta komið til skila og vona að þú finnir það í öllu þessu hversdagslega.

sunnudagur, mars 02, 2008

Afmælisskvísur

Eygló, fæddist á undan
Arna kom svo fjórum mínútum seinna

“Þú ert bara eins og fræga fólkið” var sagt við mig í saumaklúbb á föstudaginn. Við vorum að tala um fæðingarár barnanna okkar og ég sagði þeim auðvitað að Eygló og Arna ættu afmæli á sunnudaginn. “Hvað meinarðu” svaraði ég? Jú, núna eru allar flottu leikkonurnar að eiga tvíbura. Ég er nú ekki fræg leikkona er bara flott eins og þær :o)
Það er alveg með ólíkindum hvað tíminn líður hratt. Að það skuli vera liðin 27 ár síðan börn nr 2 og 3 fæddust okkur Erling með aðeins fjögurra mínútna millibili. Strax ákváðum við að tala ekki um þær sem tvíburana og höfum staðið við það að mestu. Þær þola það ekki, vilja bara vera kallaðar nöfnum sínum.

Eygló og Arna eru miklar vinkonur mínar og ég er mjög þakklát fyrir að eiga vináttu þeirra. Þær eru mjög samheldnar og samrýmdar og ég held reyndar að það skilji enginn þessi sérstöku tengsl sem eru milli eineggja tvíbura. Þeim dreymir jafnvel sama drauminn sömu nóttina, senda hvor annari sms á sömu sekúndunni og fleira mætti telja upp.

Elsku skvísurnar mínar, ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn ykkar og vona að hann verði ykkur skemmtilegur og frábær. Hlakka til að sjá ykkur hér í Húsinu við ána á eftir þegar þið verðið á heimleið til Reykjavíkur.
Elska ykkur meira en orð fá lýst og er mjög stolt af ykkur og fjölskyldum ykkar. Guð blessi framtíð ykkar og veiti ykkur báðum það sem hjarta ykkar þráir.

laugardagur, mars 01, 2008

Dýrmæt gjöf

Smellið á myndina til að sjá hana betur.

“Eruð þið til í að kíkja við hjá okkur pabba þínum einhvern daginn eftir vinnu” spurði mamma mig fyrir stuttu. “Mig langar aðeins að ræða við ykkur” Ekkert mál, sagði ég en er það eitthvað leiðinlegt? “Alls ekki, bara gaman” og okkur kom saman um að við myndum kíkja á miðvikudaginn var. Það eru hentugir dagar til að kíkja við hjá þeim því mamma er aldrei að vinna á miðvikudögum. Ég var að vonum forvitin um erindið en beið þolinmóð eftir deginum umsamda. Þegar við Erling svo komum þangað þá beið okkar kaffi og alls kyns góðgæti með því og enn var forvitni minni ekki svalað. Eftir spjall og kaffidrykkju þá sagði hún að þeim langaði að færa okkur gjöf í tilefni af 30 ára brúðkaupsafmælinu okkar.

Þeir sem þekkja mömmu mína vita að hún er snillingur. Það er ekkert sem hún getur ekki gert í höndunum ef hún ætlar sér. Svo ég fari nú aðeins með ykkur lesendur mínir aftur í tímann þá var það fyrir þó nokkru síðan að hún sýndi mér útsaumsmynd sem hún hafði pantað á netinu og var byrjuð að sauma hana. Ég sá nú að myndin var mjög falleg en þegar leið á og meira og meira var búið af myndinni var ég algerlega heilluð af henni. Ég sagði henni að mér þætti myndin mjög falleg en passaði mig alveg á að segja henni ekki hvað mig myndi langa að eiga hana. Það er nefnilega þannig að ef ég nefni að mig langi í eitthvað sem hún á þá gefur hún mér það “því hún þarf sko ekkert á því að halda” allt í einu. Þannig að ég passaði mig vel á að segja henni ekki hvað mig langaði hrikalega mikið í þessa mynd.

Nema hvað, var ekki myndin góða allt í einu búin og komin í fangið á mér innrömmuð og innpökkuð með hamingjuóskum til okkar Erlings með 30 árin okkar.
Þetta er ein fallegasta og best gerða útsaumsmynd sem ég hef séð en á myndinni hér að ofan kemst það ekki alveg nógu vel til skila hvað hún er falleg þannig að þið verðið bara að koma í heimsókn og sjá hana. Elsku mamma og pabbi, þúsund þakkir fyrir þessa dýrmætu og fallegu gjöf og gott hvað hann pabbi var nú duglegur að hjálpa mömmu með öll smáatriðið í myndinni :o)