miðvikudagur, mars 05, 2008

Merkisdagur


Eins og venjulega þegar ég á afmæli þá vaknaði ég spennt í gærmorgun. Við Erling áttum 30 ára brúðkaupsafmæli og það er mjög merkilegt í mínum huga. Arna hafði gist hjá okkur og hún varð fyrst til að óska okkur til hamingju með daginn og Hrund svo strax á eftir. Íris og Eygló voru svo næstar í röðinni.

Það var snjókoma þegar við fjögur ókum yfir heiðina á leið í vinnu og skóla. Ég fékk nokkra tölvupósta og símhringingar í tilefni dagsins og ein vinkona mín spurði hvort það væri búið að biðja okkur að sitja fyrir á mynd hjá Þjóðminjasafninu í tilefni þessa áfanga.

Klukkan var svo að verða sex þegar Erling sótti mig í vinnuna, við Örn vorum tvö ein eftir og ég kvaddi hann með þökk fyrir daginn og svo “sjáumst á morgun” líka eins og venjulega og hann tók undir og sagði já, líka alveg eins og venjulega.

Ég sá þennan líka risablómvönd aftur í bílnum en auðvitað þóttist ég ekki taka eftir honum, múahahaha. Þegar ég ætlaði að fara að hringja í Hrund til að vita hvert við ættum að sækja hana þá sagði Erling að hún ætlaði að vera hjá Örnu í nótt og mér fannst það ekkert undarlegt því það gerir hún iðulega enda eru þær systur mjög samrýmdar, mömmu sinni til mikillar ánægju.

Eins og venjulega var notalegt að koma heim í Húsið við ána og blómvöndurinn risastóri og flotti var settur í fangið á mér ásamt korti. Það sem í það var skrifað var svo fallegt en líka svo persónulegt að það verður ekki sett hér inn en ég mun leyfa dætrunum að lesa það ef þeim langar því þetta var frá pabba þeirra til mömmu þeirra, skrifað eftir 30 ára hjónaband og enn lengri samveru.

Stuttu eftir að við komum heim sagði Erling að við þyrftum að hafa fataskipti því við værum að fara út að borða. Maturinn í Rauða Húsinu á Eyrarbakka sveik okkur ekki frekar en fyrri daginn og þetta var svoooo notalegt og skemmtilegt enda leiðist okkur aldrei þegar við erum tvö saman. Ef þetta hefði verið upptaka í rómantískri bíómynd þá hefði Erling dregið upp lítinn kassa með flottum skartgrip en þar sem þetta var raunveruleikinn, rómantískur og frábær þá var enginn skartgripakassi en mér var tjáð að brúðkaupsafmælisgjöfin yrði keypt og afhent í stóra ferðalaginu okkar sem við förum í til Egyptalands eftir aðeins rúmar 3 vikur. Hann var samt búinn að gefa mér fallegt silfurhálsmen sem hún Ella vinkona mín smíðaði en ég neita því ekki að ég hlakka til að fá GJÖFINA.

Þegar leið aðeins á kvöldið sagði hann mér að ég ætti frí í vinnunni daginn eftir og gæti því sofið út. Hann hafði þá hringt í Örn og fengið frí handa mér og líklega hefur Örn glott út í annað þegar ég kvaddi hann fyrr um daginn og sagði “sjáumst á morgun”.

Við settumst svo niður í límsófana okkar í stofunni og Erling kom mér verulega á óvart með því að koma inn með þessa líka flottu kampavínsflösku sem hann hafði keypt í tilefni dagsins, það var flott þegar tappinn skaust upp í loft, það var eitthvað sérlega rómantískt og sérstakt, kannski vegna þess að við höfum ekki áður fagnað neinu með kampavíni áður. Tappinn góði verður allavega geymdur til minningar, svo mikið er víst.

Elsku Erling, flottastur eins og ég kalla þig nú oft, þúsund milljón þakkir fyrir frábært kvöld og fyrir öll árin okkar saman. Þú hefur verið mér stoð og stytta, einhvern veginn alltaf staðið fyrir framan mig og hlíft mér við svo ótal mörgu og tekið af mér áhyggjur. Ég er svo stolt og montin af þér, þú ert bestasti vinurinn minn og ég hef alltaf getað sagt þér allt. Allt annað sem ég vil segja þér verður ekki sagt á svona síðum en ég er Guði svo þakklát fyrir að hafa leitt okkur saman og fyrir að fá að vera konan þín og móðir barnanna þinna, það eru mín forréttindi í lífinu. Ég elska þig meira en fátækleg orð geta komið til skila og vona að þú finnir það í öllu þessu hversdagslega.

5 ummæli:

Eygló sagði...

Vá hvað tárin láku þegar ég las síðasta partinn af þessari færslu :) Svoo fallegt! Hjartanlega til hamingju með þennan merka og glæsilega áfanga! Elska þig í bunkum sæta mamma mín :) Þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Halló Erla mín
Til hamingju með daginn.
Kveðja
Nanna Þ

Nafnlaus sagði...

Ekkert nema frábært. Innilega til hamingju BÆÐI TVÖ.

Þið eigið hvort annað skilið!!!!

Bestu kveðjur og vonandi hafið þið það meira en frábært í ferðinni stóru eftir GJÖFINNI góðu.

Kveðja Kiddi Klettur

Íris sagði...

Innilega og margfalt til hamingju með árin 30. Verst að þessi tímapunktur minnir mig á annan tímapunkt haha :)
En gott þið nutuð dagsins og þú fékkst að sofa út. Veit þú fékkst ekki að sofa út um helgina, amk á þinn mælikvarða ;)
Sjáumst vonandi fljótlega
þín Íris

Nafnlaus sagði...

Vá það er geinilegt að við Eygló erum twins því tárin runnu líka hjá mér þegar ég las síðasta partinn. Þið eruð svo ofsalega "meant to be" þið pabbi og það er gaman að sjá hvað þið eruð enn ástfangin eftir öll þessi ár. Hjartanelga til hamingju með árin 30 og megi Guð blessa næstu 30 árin ykkar saman:) Kær kveðja, Uppáhalds Arnan þín