miðvikudagur, mars 19, 2008

Gleðifréttir og fleira skemmtilegt

Það verður ekki leiðinlegt að sjá þetta með eigin augum :o)

Þið sem lesið bloggið hans Erling vitið að það er von á fjölgun í fjölskyldunni og hef ég átt erfitt með að þegja yfir þeim gleðifréttum en núna erum við sem sagt búin að fá fréttaleyfi á þessar yndislegu fréttir. Eygló og Bjössi eiga von á sínu fyrsta barni seinnipartinn í september og ég vil nota þetta tækifæri til að óska þeim og okkur öllum til hamingju og bið þeim Guðs blessunar enda eru börnin gjöf frá Guði. Eygló er bara hress og er að komast yfir ógleðina og auðvitað eru þau bæði að rifna af monti og spenningi. Þau eru búin að gera heimasíðu fyrir krílið og slóðin er www.barnaland.is/barn/69896 en síðan er læst en ef þið hafið áhuga á að fylgjast með ekki hika við að senda tölvupóst á bjorningij@internet.is til að fá lykilorðið því Eygló er mjög dugleg að uppfæra síðuna.

Núna er aðeins 11 dagar í Egyptaland. Við fórum á undirbúningsfund og það var mjög gagnlegt og svo sáum við auðvitað flesta ferðafélagana okkar. Þetta er fólk á virðulegum aldri og mér sýndist að við Erling gætum verið börn flestra, allavega litu flestir fyrir að vera á aldur við foreldra mína. Það er margt sem þarf að huga að þegar lagt er upp í svona ferðalag á framandi staði og í ólíka menningu. T.d þarf að hafa með sótthreinsandi blautþurrkur og vera duglegur að nota þær. Við þurfum að byrja núna að taka einhverjar töflur út af magaflórunni og taka þær líka meðan við erum úti. Það þarf að passa að drekka bara vatn sem er í innsigluðum flöskum og ekki borða melónur því það er svo algengt að þær séu sprautaðar með kranavatni til að þyngja þær og þá geta þeir selt þær dýrari. Málið er að við þolum ekki bakteríurnar sem eru í vatninu þeirra og við megum ekki einu sinni bursta tennurnar úr því. Ég held ég fari bara að dæmi Óla afa míns þegar hann fór til Kanaríeyja í fyrsta skipi en þá tók hann með sér vakúmpakkað vatn. Vitið þið hvar hægt er að fá vakúmpökkunarvél??

Svo verð ég sennilega að tala við Kidda bróðir minn um að fá pláss í Hlaðgerðarkoti þegar við komum heim því eitt af því sem okkur var sagt að gera var að byrja hvern dag á á fá okkur sterkt áfengi, koníak eða eitthvað sem heitir Ferned branka en það er til að drepa þau kvikindi sem tekst að komast í mallann okkar þrátt fyrir allar varnaðaraðgerðir. Reyndar sagði fararstjórinn að hún væri bara að tala um eina matskeið :o)

Páskahátíðin er að renna upp en það er ekki bara frí hjá okkur Erling, vegna ferðarinnar til Egyptalands þurfum við að vinna aðeins en að sjálfsögðu munum við ekki vinna á föstudaginn langa né páskadaginn sjálfan. Þá koma reyndar stelpurnar til okkar með sitt föruneyti og ég hlakka mikið til þau eru öll svo mikil yndi. Arna er reyndar komin en hún ætlar að vera hjá okkur alla dagana og svo fær hún litlu skvísurnar á sunnudaginn og þá bara brunar hún og sækir þær og svo koma þær aftur. Mér finnst svo notalegt að hafa þær hér.

Notalegir og skemmtilegir dagar framundan, forsmekkurinn af þeim er hafinn, það er heilmikið videópartí á efri hæðinni, Arna, Hrund og Thea eru uppi að horfa á Lord of the Rings og ég fer ekki varhluta af “hávaðanum” hér niðri í koníaksstofunni. Miðað við ópin sem ég heyri núna þá er Erling eitthvað að stríða þeim og hræða þær og það er mjög auðvelt, spennan í myndinni er svo mikil. Ætla að fara og kanna málið, þangað til næst kæru lesendur.....

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló Erla mín
Alltaf gaman að lesa bloggið þitt. Það er svo mikið fjör í kringum þig og þína.
Til hamingju með litla barnið hjá Eygló og Bjössa.
Það verður æðislegt fyrir ykkur að fara þessa ferð.
Bara að segja þér það að Ferned branka er allgjör viðbjóður. Það er samblanda af apótekaralakrís og vondri hóstamixtúru en svín virkar á magan.
Þangað til næst hafið þið það sem allra best.
Kk
Nanna Þórisdóttir

Nafnlaus sagði...

Hæ sæta:)
Til hamingju með 7. barnabarnið sem er á leiðinni. Ég er svooo spennt yfir því, svo gaman að fylgjast með Eygló og Bjössa í öllum spenningnum. Og ég er líka svo ánægð fyrir ykkar pabba hönd að vera að fara út til Egyptalands. Bara geggjó smeggjó. Sjáumst á eftir og eigðu góðan dag. Þú ert frábær:) Love U, Arnan

Íris sagði...

Skemmtileg lesning! Og innilega til hamingju með 7. barnabarnið sem er á leiðinni.
Skemmtið ykkur svo súper vel í Egyptalandi, segi ekki að ég væri ekki til í að fara svona ferð en samgleðst ykkur bara í staðinn ;)
Hlakka til að koma til ykkar á sunnudaginn!
Þín elsta
Íris