sunnudagur, janúar 20, 2008

Líf og fjör og notalegheit....

Það var svo sannarlega glatt á hjalla í Húsinu við ána í gær. Allar stelpurnar komu með sitt fólk og það var líka orðið mál til komið. Ég hafði ekki séð ömmubörnin mín frá áramótum fyrir utan að Petra Rut og Erling Elí komu með mömmu sinni í afmælið hennar Hrundar um daginn og þá var Katrín Tara fjarri góðu gamni enda með skarlatsótt og voru þau þá heima feðginin hún og Karlott og Örnu stelpur voru í sveitinni með pabba sínum.

Þau eru svo yndisleg þessi börn og gaman að hafa þau hér. Erling Elí er nú ennþá svo lítill að það fer ekkert fyrir honum en stelpurnar hlaupa hér um allt hús, upp og niður stigann milli þess sem þær leika sér í leikhorninu undir stiganum. Okkur Erling finnst svo mikil forréttindi að vera vinir krakkanna okkar og að þau skulu vilja og nenna koma hingað með krílin sín, ég á bara ekki nógu sterk orð til að lýsa því hvað ég er ánægð með þau. Gærdagurinn leið svo við spjall og notalegheit. Strákarnir horfðu auðvitað á handboltaleikinn en tengdapabbi þeirra deilir ekki boltaáhuga með þeim en hefðu þeir sett veiðispólu í tækið hefði ekkert haldið honum frá sjónvarpsholinu.

Að ömmusið bakaði ég pönnukökur og þær hurfu ljúflega og jafnóðum ofaní maga fólksins og sérstaklega hafði ég gaman af áhuga litlu skvísanna á bakstrinum. “Amma, má ég smakka aðeins meira, þetta er gott”. Já, þetta gefur svo sannarlega lífinu gildi og ég finn að ég er mjög blessuð kona. Hrund var að vinna til kl 5 og þá sótti hún Theu sem kom og var með okkur. Við Erling vorum búin að segja þeim að við færum til Reykjavíkur um sexleytið því það var þorrablót hjá systkinum Erlings í gærkvöldi. Stelpurnar létu það ekkert á sig fá og ákváðu að borða öll saman hér í gærkvöldi þótt við færum. Ég held að þær hafi enga grein gert sér fyrir því hvað þetta gladdi mig. Það er mér svo dýrmætt hvað þær eru allar góðar vinkonur.

Þegar við Erling vorum að fara af stað, komin í betri fötin og Eygló búin að slétta á mér hárið þá kom Sara Ísold til mín og spurði mig af hverju ég væri með svona hár.
“Amma, af hverju ertu ekki með krullurnar þínar?” Ég sagði henni að ég væri bara að breyta aðeins til. Þá sagði hún mér að henni finndist ég flottari með krullur. Gaman að því hvað þessi börn eru skemmtilega hreinskilin. Reyndar er afi hennar alveg sammála henni. Það snjóaði aðeins þegar við vorum að fara og ég setti því nýju húfuna mína á höfuðið og þá sagði Petra Rut við mig. “Amma, gott hjá þér að passa að NÝJA hárið þitt blotni ekki”. Ekkert smá fyndið, “nýja” hárið.
Það var svolítið skondið að kveðja þau og fara héðan og sjá þau svo öll innum gluggana þegar við vorum að fara í burtu.

Þorrablótið heppnaðist mikið vel og var gestgjöfunum, Unu og Benna, til mikils sóma. Maturinn góður og félagsskapurinn skemmtilegur. Það eru meðal annars þessar stundir sem vökva garðinn okkar Erlings og ég finn alltaf betur og betur mikilvægi þess að rækta fólkið sitt og eyða tíma í samvistum við þá sem eru manni kærir. Það veit enginn hvað við eigum mikinn tíma hér á jörðinni og því vert að gefa því gaum hvernig maður notar hann. Eins og ég hef áður sagt ykkur lesendur mínir þá ætlum við systur Erlings og mágkonur að fara saman í haustferð næsta haust. Ég trúi því að það verði okkur til blessunar og gleði, þjöppum okkur betur saman og bara njóta þess að eiga tíma saman.

Klukkan var farin að halla langt í tvö í nótt þegar við keyrðum inn götuna okkar. Það var allt orðið hljótt í húsinu, Hrund svaf á efri hæðinni og þessar elskur höfðu lagað allt til og gert mjög fínt og því var mjög notalegt að koma heim. Við settumst aðeins inní “límsófann” í stofunni og spjölluðum áður en við fórum að sofa. Ég hef sagt ykkur áður hvað þær stundir eru mér dýrmætar.

Í dag er rólegt hér heima, við hjónin erum bara tvö því Hrund er að vinna á sambýlinu.
Okkur hefur aldrei leiðst þótt við séum bara tvö þótt við höfum líka mjög gaman af því þegar einhver rekur inn nefið og þiggur kaffisopa með okkur.
Heyrumst síðar, stofan og kaffiilmurinn dregur mig til sín að sinni enda er Erling þar....

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Ég átti afmælisdag......

Það er í raun alveg ótrúlegt hvað það er gaman að eiga afmæli, ætli þetta eldist aldrei af mér? Ég er svo heppin að fyrir tveimur dögum átti ég enn einn afmælisdaginn, þann 48. í röðinni að þessu sinni. Þetta var nú ósköp venjulegur mánudagur og því vinnudagur. Seinni partinn kom Hrund til mín í vinnuna og færði mér mjög fallegan afmælispakkka. Í honum var umslag með gjafakorti í andlitsbað ásamt litun og plokkun fyrir augabrúnirnar. Áður var ég líka búin að fá flottar gjafir og ætla ekki að móðga neinn þótt ég nefni bara það sem stelpurnar og Erling gáfu mér.
Frá Írisi, Karlott og börnunum fékk ég mjög fallega blaðagrind og frá Örnu og skvísunum fékk ég svo geisladiskastand í stíl. Frá Eygló og Bjössa fékk ég mjög fallegt ilmkerti og þetta allt var keypt í versluninni Pier.

Frá Erling fékk ég svo......jahá.....hlaupabretti..... en það var ég einmitt búin að biðja hann um og ég er hrikalega ánægð með það.

Aftur að afmælisdeginum, eftir kvöldmat þá spurði Hrund hvort ég ætlaði ekki að gera eitthvað í tilefni dagsins en þar sem ég þóttist vera að venja mig af því að finnast svona gaman að eiga afmæli þá sagði ég bara nei. Hún trúði mér nú ekki alveg, fannst þetta ekki líkt mér og sagðist langa svo að gera eitthvað fyrir mig. Ég átti erindi út í bæ og þau feðginin voru óvenju dugleg að hvetja mig til að drífa mig bara en vildu ómögulega koma með. Skýringin á því var augljós þegar ég kom tilbaka. Þau voru búin að undirbúa þriggja manna afmælispartý fyrir mig og það var svoooooo gaman.
Bæði að vera með þeim og ekki síst að finna þessa umhyggju fyrir mér.
Allar hinar stelpurnar mínar voru búnar að hringja í mig og einnig held ég allt fólkið mitt. Bræður mínir buðu mér í mat í hádeginu og tölvupóstar, smsin og símtölin voru allan daginn og einnig hamingjuóskir hér á síðunni minni. Ekkert smá notalegt.

Mig langar bara að þakka ykkur öllum sem munduð eftir deginum mínum, þið eruð frábær. Ég hef ákveðið að venja mig ekki af því að elska afmælisdaginn minn.

Njótið lífsins vinir mínir, snjókveðja frá Selfossi......er að fara á brettið........gaman, gaman......Erla afmælisbarn

sunnudagur, janúar 13, 2008

Já, lífið er svo sannarlega skemmtilegt

“Hvernig væri að taka okkur tveggja daga frí og skreppa í Kofann?” sagði Erling við mig síðasta sunnudag. Mér leist strax vel á hugmyndina og eftir að hafa ráðfært mig við samstarfsfólk mitt þá ákváðum við að fara austur á fimmtudag og vera fram á laugardag. Árlegt jólaboð saumaklúbbsins með mökum átti nefnilega að vera heima hjá Kötu og Tedda á laugardagskvöldinu og ekki tímdi ég að missa af því.
Það var notlegt að sofa út á fimmtudagsmorguninn og við vorum ekkert að flýta okkur austur. Fórum samt af stað eftir hádegi og komum i hlýjan kofann þar sem Hansi mágur hafði farið daginn áður og kveikt á ofnum fyrir okkur. Kofinn er svoooo kósí og notalegur. Þessir tveir dagar voru alveg frábærir, rólegheit og við gerðum bara það sem okkur langaði til. Lásum bækur og blöð, horfðum á skemmtilegar myndir á DVD og einnig fræðslumyndir á borð við Vatnalíf sem er um Veiðivötn og svo nokkra þætti á Planet Earth sem Erling fékk í jólagjöf. Auðvitað var svo maginn mettur eins og vera ber í svona ferð enda ekki hægt að eiga á hættu að hríðhorast, eða hvað...
Við komum svo heim seinni partinn í gær afslöppuð og ég hress en Erling var búinn að næla sér í pest og streptokokka og missti því af fjörinu í jólaklúbbnum en það var mjög gaman að hitta stelpurnar því flestar þeirra hef ég ekki hitt síðan í Boston þar sem ég missti af desemberklúbbnum okkar.

Dagurinn í dag er svo líka búinn að vera svona alger rólegheitadagur, Erling er aðeins að hressast og það er gott. Hlynur og Gerður komu í heimsókn og gaman að sitja með þeim og spjalla um daginn og veginn.

Það er svo skrýtið að það er eins og það sé lím í sófunum inni í stofu og það virkar alltaf jafnvel. Alltaf þegar við hjónin setjumst þar inn með kaffibollana okkar og spjöllum saman þá er svo erfitt að standa upp aftur og það hlýtur að vera vegna límsins. Ég elska þessar stundir okkar í stofunni enda getum við talað saman um allt milli himins og jarðar. Ef ég er eitthvað að stressa mig yfir einhverjum hlutum þá er eins og Erling geti alltaf á einhvern hátt náð að “afstressa” mig með ráðum og spjalli. Enda er hann bestur á því er enginn vafi.

Framundan eru strembnar vinnuvikur og því var bara gott að taka sig aðeins frá og eiga rólega daga saman. Þótt ekki þurfi að skila skattaskýrslum fyrirtækja strax þá er framundan vinna við afstemmingar vegna þess og svo auðvitað vaskdagurinn
5. febrúar. En við stelpurnar á skrifstofunni erum ekki að stressa okkur á þessu, vinnum bara vel og hratt og þá gengur þetta allt upp. Svo erum við líka svo skemmtilegar að okkur leiðist ekki í vinnunni. Njótið lífsins vinir, það er til þess.......

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Hrund á afmæli í dag.....

Það er alveg með ólíkindum að í dag séu liðin 19 ár frá því að “litla” barnið mitt fæddist en engu að síður er það staðreynd. Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar daman fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur.

Síðan hefur hún margoft sýnt og sannað hvað í henni býr. Hún er yndisleg stúlka og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft komið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.

Þegar eitthvað kemur uppá hjá henni eins og gerist hjá öllum þá er hún dugleg að fara eftir ráðleggingum og vinna sig útúr málum í stað þess að festast í vandanum. Þegar henni dettur í hug að framkvæma eitthvað þá er hún ekkert að hangsa við hlutina heldur framkvæmir þá, eins og til dæmis þegar henni datt í hug á haustdögum að skreppa til Theu í Svíþjóð í haustfríinu sínu. Þá var bara pantaður flugmiði og daman farin í ferðalag. Eða þegar henni datt í hug í skólanum einn daginn að kaupa sér nýja þverflautu, þá var bara hringt í pabba sinn og hann beðinn að koma með henni eftir skóla og kaupa flautu. Þetta gæti hún samt ekki nema vegna þess að hún fer vel með peningana sína og er dugleg að vinna með skólanum og leggur fyrir mánaðarlega og á þess vegna alltaf fyrir því sem henni langar að gera.

Elsku Hrundin mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn og vona að hann verði alveg hrikalega skemmtilegur. Ég elska þig meira en hægt er að segja með orðum og er afar stolt af þér. Guð blessi þig og veiti þér það sem hjarta þitt þráir.