þriðjudagur, janúar 08, 2008

Hrund á afmæli í dag.....

Það er alveg með ólíkindum að í dag séu liðin 19 ár frá því að “litla” barnið mitt fæddist en engu að síður er það staðreynd. Það var sunnudagurinn 8. janúar og klukkan alveg að verða fjögur að degi til þegar daman fæddist. Hún opnaði annað augað, sá föður sinn, leist vel á hann og lokaði augunum aftur, hefur sennilega séð að hún var komin í öruggar hendur.

Síðan hefur hún margoft sýnt og sannað hvað í henni býr. Hún er yndisleg stúlka og hefur verið okkur til mikils sóma hvar og hvenær sem er. Hún hefur alltaf verið ákveðin og vitað hvað hún vill, hún má ekkert aumt sjá og hefur oft komið skólasystkinum sínum til hjálpar þegar aðrir hafa snúist gegn þeim. Hrund er ein af þeim sem eru fæddir leiðtogar og því hefur það reynst henni auðvelt að fá félaga sína til að láta af leiðinlegri breytni sinni gagnvart þeim sem eru minni máttar. Hún er líka samkvæm sjálfri sér og lætur verkin sín frekar tala en orð en samt er henni aldrei orðavant, það má segja að frá því hún var altalandi, aðeins eins og hálfs árs gömul, þá hefur hún varla stoppað.

Þegar eitthvað kemur uppá hjá henni eins og gerist hjá öllum þá er hún dugleg að fara eftir ráðleggingum og vinna sig útúr málum í stað þess að festast í vandanum. Þegar henni dettur í hug að framkvæma eitthvað þá er hún ekkert að hangsa við hlutina heldur framkvæmir þá, eins og til dæmis þegar henni datt í hug á haustdögum að skreppa til Theu í Svíþjóð í haustfríinu sínu. Þá var bara pantaður flugmiði og daman farin í ferðalag. Eða þegar henni datt í hug í skólanum einn daginn að kaupa sér nýja þverflautu, þá var bara hringt í pabba sinn og hann beðinn að koma með henni eftir skóla og kaupa flautu. Þetta gæti hún samt ekki nema vegna þess að hún fer vel með peningana sína og er dugleg að vinna með skólanum og leggur fyrir mánaðarlega og á þess vegna alltaf fyrir því sem henni langar að gera.

Elsku Hrundin mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn og vona að hann verði alveg hrikalega skemmtilegur. Ég elska þig meira en hægt er að segja með orðum og er afar stolt af þér. Guð blessi þig og veiti þér það sem hjarta þitt þráir.

3 ummæli:

Karlott sagði...

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ÞINN Í DAG HRUND!

Þinn mágur Karlott

Karlott sagði...

Hm... ruglaðist oggupínupons... hélt þetta var síðan hennar Hrundar...

En, Erla óska þér samt til hamingju með yngstu prinsessuna!

Karlott

Nafnlaus sagði...

takk fyrir kveðjuna, dagurinn var sko betri en góður;)

kv. Hrund gamla:)