sunnudagur, desember 25, 2005

Jóladagur

Ég fann það gegnum svefninn að einhver var að horfa á mig, reyndi eins og ég gat að opna augun en þau voru frekar þung augnlokin að þessu sinni. Það tókst þó að lokum og ég leit í augun á flottasta manni í heimi og sá klukkuna á náttborðinu hans 12:09. Mér hafði þá tekist það sem ég ákvað í gærkvöldi þegar ég lagðist á koddann en þá sagði ég við Erling að ég ætlaði að sofa til hádegis á jóladag. Mikið var þetta notalegt. Ekkert hljóð heyrðist í íbúðinni og það benti til þess að fleira heimilisfólk hafði farið að dæmi mínu.

Ég fór samt fljótlega framúr og á fætur. Gærdagurinn var góður og jóladagurinn lofaði líka góðum hlutum. Það varð þó ljóst í gærmorgun að ekki mundu allar áætlanir ganga upp. Litlu fjölskyldurnar okkar Erlings voru búnar að ráðgera að koma til okkar í heimsókn eftir matinn og pakkaupptöku en klukkan níu á aðfangadagsmorgun hringdi Arna og sagði okkur að Danía Rut væri komin með hlaupabólu og eftir hádegi hringdi Íris til að segja okkur að Katrín Tara væri komin með rúmlega 39 stiga hita og því myndu þau ekki koma um kvöldið. Það var auðvitað mjög leiðinlegt en svona er lífið samt þegar maður á börn, allt getur gerst.

Við Erling ásamt Eygló og Hrund áttum mjög góðan aðfangadag, reyndar var Hrund að vinna frá átta um morguninn til rúmlega hálfþrjú og kom lúin heim enda búin að vinna líka 12 tíma daginn áður. Hún er hörkudugleg og ég er mjög stolt af henni. Allur undirbúningur fyrir jólin hafði gengið vel og því var hægt að taka því bara rólega yfir matarundirbúning og um þrjúleytið, meðan Eygló sótti Hrund, þá settumst við hjónin inn í stofu með kaffi og konfekt og spjölluðum saman, það var notalegt.

Kvöldið var mjög skemmtilegt, fullt af pökkum sem í leyndist margt spennandi og margt sem hafði verið á óskalistum kom upp úr kössum fylltum af gömlum dagblöðum. Við í fjölskyldunni reynum að hafa pakkana frá okkur þannig að það sé engin leið að sjá hvað er í þeim. Það ríkti mikil værð yfir okkur þegar leið að miðnætti, við stelpurnar vorum komnar í náttfötin og kúrðum öll í sófanum með bækur, jólaöl og nammi, alveg eins og vera ber á jólunum. Ég er Guði óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna mína, ég saknaði reyndar ömmustelpanna minna en við því var ekkert að gera.

Í dag kom svo Arna aðeins í heimsókn með Söru Ísold og Þórey Erlu og við fórum síðan á Vífilstaði að heimsækja Hrefnu mömmu hans Erlings og eftir það var farið á hátíðarsamkomu í Fíladelfíu. Við vorum búin að bjóða litlu fjölskyldunum okkar í hangikjötsveislu í kvöld en vegna veikinda varð ekkert af því en í staðinn fórum við bara með matinn til Írisar og fjölskyldu og áttum notalegt kvöld með þeim. Petra Rut stóð fyrir skemmtiatriðum, stóð uppá stól og söng mörg lög fyrir okkur og hneigði sig fallega eftir hverju lagi. Hún er svo skemmtileg stelpan.

Á heimleiðinni fórum við í okkar árlega jólaljósarúnt og sáum nokkur mjög fallega skreytt hús með flottum jólaljósum. Áður en við fórum hafði ég stillt vídeóið til að taka upp tónleikana með Garðari Cortes en ég setti inn vitlausan dag þannig að………ég auglýsi hér með eftir því hvort einhver hafi tekið þetta upp og tími að lána mér spóluna, ég var ferlega spæld.

Jæja, kæru lesendur mínir, ég vona að þið njótið þessara jóladaga eins vel og ég geri. Mér er efst í huga þakklæti fyrir að eiga fjölskyldu og vini og heimili til að koma í. Það er ekki sjálfsagt og markmið mitt er að rækta enn betur þessi bönd sem binda mig við fólkið mitt, hvort sem það er mín stórfjölskylda eða tengdafjölskyldan, systkini Erlings og makar þeirra.

Erling, Hrund og Eygló eru núna frammi í stofu, ég ætla að fara og slást í hópinn með þeim, við ætlum að horfa saman á mynd sem ég fékk í jólagjöf frá Eygló, “Shall we dance”. Skyldu þau vera búin að blanda jólaölið? Best ég gái……..

þriðjudagur, desember 20, 2005

Sagt um konur

Konur bera með sér styrk sem karlar dást að. Þær ala börn, þola hvers kyns harðræði og byrðar en gefa frá sér hamingju, ást og gleði.

Þær brosa þó þær langi til að orga. Þær syngja þó þær langi til að gráta.

Þær gráta þegar þær eru hamingjusamar og hlæja þegar þær eru taugaveiklaðar.

Konur bíða við símann eftir tilkynningu um að vinirnir hafi komist heim heilir á höldnu eftir að hafa ekið í gegnum hríðarbyl.

Þær geta annast börn og um leið starfað sem framkvæmdastjórar, lögfræðingar eða læknar, verið mótorhjólagelllur eða bara konan í næsta húsi.

Þær geta klæðst jakkafötum, kjólum, gallabuxum og einkennisbúningum.

Konur berjast fyrir því sem þær trúa á. Þær standa upp gagnvart óréttlæti.

Þær eru reiðubúnar að leggja á sig meiri vinnu til að koma börnunum að í betri skólum eða fjölskyldu sinni að hjá betri lækni.

Þær fylgja hræddum vinum sínum til læknis.

Konur eru heiðarlegar, tryggar og umburðarlyndar. Þær eru gáfaðar og vita hvaða kraftur liggur í þekkingunni en þær vita einnig hvernig hægt er að nota mjúku hliðina til að ná fram þeim áhrifum sem þarf.

Hjarta kvenna brestur þegar vinur fellur frá. Þær syrgja ef fjölskyldumeðlimur deyr en eru þó sterkar þegar þær halda að enginn styrkur sé eftir.

Kona getur gert rómantískt kvöld að ógleymanlegri stund.

Hjarta konu er krafturinn sem knýr veröldina áfram.

Konur ala ekki aðeins börn heldur gefa sínum nánustu vonir og gleði.

Þær hughreysta þá sem á þurfa að halda. Þær gefa vinum sínum og fjölskyldu siðferðislegan stuðning.

Það eina sem þær vilja fá í staðinn er faðmlag, bros og nærvera sinna nánustu.

sunnudagur, desember 11, 2005

Ég man ekki einu sinni hvenær..........


.......þetta gerðist síðast það er svo langt síðan. Þó var þetta mjög algengt hér áður fyrr að við sætum saman öll sex og áttum skemmtilega kvöldstund með popp, kók og nammi.

Á föstudaginn þegar Íris kom að sækja yngri skvísuna sína til mín þá sagðist hún vera búin að troða sér í Idol partíið sem yrði heima hjá okkur Erling þá um kvöldið. Ég hváði við enda vissi ég ekkert um fyrirhugað partí, hafði reiknað með að við Erling yrðum bara tvö heima þar sem Hrund var búin að plana að fara á unglingasamkomu og Eygló ætlaði með henni. Arna var í heimsókn með sínar skvísur og svo kom Eygló við eftir vinnu og fyrr en varði var sem sagt búið að plana partí, Hrund og Eygló hættu við að fara á samkomuna þegar þær fréttu að Íris ætlaði að koma hingað aftur (ekkert smá aðdráttarafl sem hún hefur) og Arna fór heim með dömurnar í svefninn og kom svo aftur rétt rúmlega átta.

Þannig atvikaðist þetta merkilega sem ég var að tala um, við Erling vorum heima með allar dæturnar rétt eins og í gamla daga en mér fannst reyndar fyndið að hugsa til þess hvað tengdasynirnir og ömmugullin eru orðin stór partur af okkur og ótrúlegt að hugsa til þess að einu sinni þekkti ég strákana “mína” ekki neitt og dömurnar voru ekki einu sinni til. Það vantaði allavega heilmikið í hópinn þetta kvöld en engu að síður skemmtum við okkur stórvel saman yfir Idolinu og vorum með misjafnar skoðanir á frammistöðu keppenda.

Annars hefur helgin verið mjög skemmtileg, í gær var partí heima hjá mömmu þar sem við systkinin komum öll saman með öllu okkar fólki og það var aldeilis glatt á hjalla í litla ömmuhúsinu hennar mömmu. Pabbi lék við hvern sinn fingur og lék við langafabörnin sín, ótrúlegt að þau séu orðin langamma og langafi. Mamma var með heimagerðar pizzur og brownies sem enginn gerir eins vel og hún.

Í dag vorum við svo bara heima hjónin og Danía Rut og Sara Ísold voru í heimsókn hjá okkur meðan mamma þeirra og Eygló skruppu aðeins í Smáralind. Það var mjög gaman að hafa þær og ég man líka vel eftir því hvað það var gott að skreppa aðeins barnlaus í búðir og fá að hafa stelpurnar aðeins hjá mömmu á meðan.

Erling er á lokaspretti í prófum og mikið verð ég fegin þegar þessari törn lýkur. Ég ætla að halda uppá það, Erling segir að hann þekki engan sem er jafn duglegur og ég að finna tilefni til að halda uppá eitthvað. Bara gaman að því enda er lífið svo stórmerkilegt og skemmtilegt.

Njótið aðventunnar……….munið eftir heita súkkulaðinu og þeytta rjómanum, tók forskot á það í dag með fjölskyldunni, þau elskuðu mig mjög eftir það……..

miðvikudagur, desember 07, 2005

Endir og nýtt upphaf

Það er mjög notalegt að vera “bara” heima þessa dagana. Það er vika síðan ég hætti að vinna á Verkvangi. Ég fékk flotta kveðjugjöf, fann að það var lögð alúð í að finna gjöf handa mér og mér þótti vænt um það. Svo er mér boðið að koma með þeim á jólahlaðborð á föstudaginn og það verður gaman að hitta þau, sérstaklega Mettu, að hinum ólöstuðum, hún er alveg frábær, góður vinnufélagi og vinur. Það er reyndar skrýtin tilfinning að vera ekki með fasta vinnu en ég er að prófarkalesa fyrir Samhjálp og það má alveg koma fram hér að ég tek að mér að lesa yfir allt mögulegt ef ykkur vantar svoleiðis, les t.d. handrit og ritgerðir fyrir skólafólk.

Síðasta sunnudagskvöld vorum við mæðgurnar að gera svona gamaldags aðventukransa og í gærkvöldi gerðum við heimabúið konfekt og Arna og Eygló skelltu nokkrum plötum af spesíum í ofninn svona til að gleðja pabba sinn. Þetta var mjög gaman fyrir utan það að Íris og Hrund voru ekki með okkur vegna prófaundirbúnings.

Ég hef líka verið í ömmuleik með stelpurnar hennar Írisar því hún er á kafi í prófalestri eins og pabbi hennar og eiga þau bæði tæpa viku eftir og við Karlott hlökkum mikið til þegar þessari törn lýkur. Þegar ég sótti Petru Rut á leikskólann í gær, með svörtu krullurnar mínar úfnar eftir rokið, þá horfði einn lítill gutti á mig og spurði svo; ert þú að leika Grýlu? Ég sagði nei og sagðist bara vera amman hennar Petru Rutar og hún kom fagnandi til mín, þá sagði sá stutti bara; nú er það, gaman. Skemmtilegt hvað þessi litlu börn eru hreinskilin. Þegar ég var svo að hjálpa Petru Rut í skóna leit hún á mig með eftirvæntingu í augunum og spurði; “erum við núna að fara heim til afa?” Hún er alveg meiriháttar og það er gaman að vera með þessum litlu, stóru krúttum.

Síðustu daga hef ég verið að umbreyta heimilinu í jólaland, hef pakkað niður heilmiklu af dótinu okkar Erlings og sett fallega jóladótið okkar upp í staðinn. Ég fann jólakerti sem Róbert Örn gaf mér í fyrra og ég hafði ekki klárað, ég var fljót að kveikja á því og nú ilmar húsið af jólalykt og jólaljósin lýsa upp skammdegið. Á morgun ætlar Erling að gefa sér tíma og setja ljósin upp á svalirnar og það verður gaman. Ég er svo mikið jólabarn og ég ætla aldrei að hætta að vera það. Þetta er svo skemmtilegur tími en það þarf samt að vera á varðbergi að láta ekki stressið í þjóðfélaginu ná tökum á sér. Ég er farin að henda jafnóðum auglýsingabæklingum sem streyma inn, það er tóm vitleysa að við þurfum á öllu þessu dóti að halda og það er alveg víst að við verðum ekkert hamingjusamari þótt við keyptum það allt saman.

Hitum súkkulaði og nýmjólk saman, þeytum rjóma, setjum mandarínur og osta á borðið og fallegan jóladisk undir geislann......klikkar ekki........mér líður svo vel, vildi bara segja ykkur það.

sunnudagur, desember 04, 2005

Katrín Tara eins árs

















Það var fyrir um ári síðan, nánar tiltekið aðfararnótt 3. desember. Það var þrengra í rúminu okkar Erlings en vanalega, jú það var lítil prinsessa sem fékk að vera hjá afa og ömmu um nóttina því foreldrar hennar, Íris og Karlott, voru vant við látin annars staðar. Litla prinsessan okkar, Petra Rut, var að fara að eignast systkini og það var ástæða þess að hún var hjá okkur þessa nótt. Undir morgun hringdi síminn og það var stolt móðir sem tilkynnti okkur fæðingu dóttur sinnar og fékk daman nafnið Katrín Tara.

Það er alveg ótrúlegt að það sé ár síðan þetta gerðist, mér finnst svo stutt síðan. Katrín Tara hefur vaxið vel og dafnað og er mjög dugleg stelpa. Hún er farin að ganga og hún er svo sannarlega ákveðinn einstaklingur sem veit hvað hún vill. Hún er líka mjög forvitin og þarf að skoða allt sem hún sér og opna allar skúffur sem hún getur, veit það sennilega frá Hrund frænku sinni að þeir sem eru ekki forvitnir vita einfaldlega minna.

Katrín Tara er sannkölluð Guðs gjöf inn í fjölskylduna okkar og mikill gleðigjafi eins og systir hennar og frænkur. Petra Rut er mjög dugleg að gæta hennar og er alltaf að segja mér að hún sé LITLA systir hennar og að hún sjálf sé STÓRA yndigullið okkar.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með eins árs afmælið þitt. Ég bið Guð að blessa þig og vaka yfir hverju þínu skrefi.