sunnudagur, ágúst 31, 2008

Hún er þrítug í dag, hún lengi lifi.....

Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið.
Í morgun þegar ég vaknaði var ég að hugsa hvað það væri skrýtið að það væru komin 30 ár síðan við Erling urðum foreldrar í fyrsta sinn. Vissulega er mjög langt síðan en finnst ykkur lesendur mínir ekki jafn fyndið og mér að við foreldrarnir séum bara rétt rúmlega fertug og eigum barn á fertugsaldri :o)
Íris hefur alla tíð verið okkur mikill gleðigjafi og við erum ákaflega stolt af henni. Hún á yndislegan mann og 3 frábær börn og í vor útskrifaðist hún sem lögfræðingur og er núna byrjuð í mastersnámi í lögfræði og hefur hug á að sérmennta sig í skattalögfræði. Þau Karlott hafa búið sér fallegt heimili í Hafnarfirði og núna í ágúst var eldri dóttirin Petra Rut að byrja í skóla og var hún afar stolt af því. Í afmæli mömmu sinnar í gær gekk Petra Rut um allt og tók myndir af gestum með myndavél sem hún fékk frá foreldrum sínum í sex ára afmælisgjöf um daginn. Hún virðist hafa erft ljósmyndaáhugann frá móður sinni en Íris er mjög flink með myndavélina og frændfólk hennar er farið að biðja hana að taka ljósmyndir við ýmis tækifæri.
Elsku Íris mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn og bið þér ríkulegrar Guðs blessunar í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Mundu svo að þú hefur viku til að velja fyrirmynd af afmælisgjöfinni þinni frá okkur pabba þínum :o)
Elska þig endalaust og miklu meira en það.......Njóttu dagsins og láttu dekra þig í botn...

laugardagur, ágúst 30, 2008

Í minningu tengdamóður minnar

Þegar ég gekk inn á Vífilstaði þennan miðvikudag, í stofuna hennar Hrefnu tengdamóður minnar til 32ja ára, vissi ég að hennar lífsganga var senn á enda.

Þar sem ég sat við rúmið og hélt í hendina hennar leitaði hugur minn aftur í tímann og minningarnar streymdu fram. „Komdu inn með mér og hittu foreldra mína“, sagði Erling við mig. Ég var bara 16 ára og ekki of kjörkuð en lét þó tilleiðast. Ég hefði ekki þurft að vera svona kjarklaus, Hrefna og Maggi tóku mér vel þótt eflaust hafi þeim fundist við of ung til að vera orðin kærustupar. Hrefna var mikill mannþekkjari og það var mér mikill heiður að vera strax meðtekin eins og ein af krökkunum þeirra og hjá þeim átti ég sama skjól og hjá mínum eigin foreldrum. Hrefna átti sterka trú, bað fyrir okkur öllum, predikaði ekki í orðum en verkin hennar töluðu hátt og snjallt góðan boðskap.
Fyrstu jólin mín að heiman hélt ég á heimili hennar og hún skildi þessa unglingsstelpu sem saknaði foreldra og systkina og vildi allt fyrir mig gera. Einhvern veginn var allt svo lítið mál hjá henni. Mér fannst t.d. gæs vond en hún vissi að Erling elskaði að fá gæs og til að gleðja hann og dekra mig þá var ekker tiltökumál að hafa bara eitthvað annað líka. Hins vegar átti hún eftir að kenna mér síðar að meta gæsina.
Þegar ég var 21 árs eignuðust við Erling tvíburadætur og áttum eina eldri dóttur fyrir, þá kom hún og var hjá okkur fyrstu vikurnar enda tíðkaðist ekki þá að feður fengju feðraorlof. Þvílíkur munur að hafa þennan dugnaðarfork hjá sér og þegar ég var að segja að mér finndist ómögulegt að hún væri að standa í þessum þvotti þá fannst henni það nú ekki mikið mál, þú átt nú þvottavél , sagði hún bara. Hennar kynslóð þekkti ekki þennan munað sem þvottavélar eru og var þvotturinn bara þveginn úti í læk. Elsti sonur hennar er fæddur í október og var Hrefna úti í læk að þvo þegar hún tók léttasóttina með hann.
Hrefna var mikil hannyrðakona og kunnu stelpurnar mínar vel að meta ullarsokkana og vettlingana sem hún gaf þeim og verkin hennar prýða heimili barnanna hennar og þeir eru ófáir útlendingarnir sem eiga lopapeysu eftir hana. Hún hafði ekki góða sjón og ég held að henni hafi þótt það einna verst þegar hún varð blind að geta ekki sinnt handavinnunni eins og áður. Hún kvartaði þó aldrei og var alltaf glöð og ánægð með sitt.

Mér auðnaðist ekki að vera viðstödd þegar hún kvaddi en hafði átt stund með henni nóttina áður. Tveimur tímum eftir andlát hennar kom ég inn til hennar og það var tígurleg ró yfir hvílubeðinu. Hún var svo friðsæl og falleg. Ekki var til hrukka á andliti hennar og hárið rétt aðeins farið að grána í rótina en dökka litnum í hárinu hafði hún haldið betur en við hinar sem yngri erum. Hrefna hafði fullnað skeiðið, varðveitt trúna og hefur nú hitt tengdapabba aftur.
Guð gefi okkur öllum styrk til að takast á við söknuðinn og djörfung til að bera áfram kyndilinn sem hún lætur okkur eftir.
Ég drúpi höfði í virðingu og miklu þakklæti og blessa minningu tengdamömmu minnar.

Minningargrein birt í Mbl 29. ágúst

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Tek ég mig ekki vel út....


Eins og ég sagði ykkur þá er ég fræg :o) :o) því ég vinn með Sirrý, mömmu hans Didda (Ingimundur Ingimundarson)í landsliðinu. Hann kom í dag í heimsókn til okkar og þessi mynd var tekin við það tækifæri, reyndar sérstaklega fyrir hana Hrund mína. Mátti til með að deila henni með ykkur. Það kom mér mjög á óvart hvað verðlaunapeningurinn er þungur, örugglega silfur í gegn.

Njótið lífsins vinir mínir, þangað til næst.......

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur

Get ekki annað en tekið undir með fyrirliða handboltalandsliðsins sem sagði þessi orð í ræðu sem hann hélt áðan við móttökuathöfn fyrir Strákana okkar. Ég held að við gerum okkur ekki nægilega mikla grein fyrir þeim forréttindum að fá að fæðast á landi eins og Íslandi sem flýtur í mjólk og hunangi. Margir tala um kreppu en það er engin raunveruleg kreppa hér á landi. Við höfum öll gott af því að þurfa að hugsa aðeins um í hvað við látum peningana okkar en það geta kannski ekki gert allt sem við viljum akkúrat þegar við viljum, það er ekki kreppa.
Það að þurfa að losa sig við dýra bíla, fara í færri utanlandsferðir og hugsa hvort okkur raunverulega vanti það sem við erum að spá í að kaupa, er ekki kreppuástand. Hins vegar ef við ættum ekki mat eða fatnað handa okkur og börnunum okkar og enga vinnu að hafa þá gætum við farið að tala um kreppu.

Ég er stolt af að vera Íslendingur og er þakklát fyrir að vera ein af þessum aðeins rúmlega þrjúhundruð þúsund sem hafa fengið þessa gjöf. Ísland er jú ekki lítið land, Ísland er STÓRASTA land í heimi.

Og talandi um það, ég sá mann í gær í stuttermabol með þessari áletrun sem mér finnst alger snilld, veit einhver hvar hægt er að nálgast svona boli, mig langar nefnilega í einn.

Höldum svo áfram að vera glöð og best, svo ég ljúki nú þessum pistli á sama hátt og ég byrjaði hann, með tilvitnun í fyrirliðann. Enda er ég fræg, ekki gleyma því, ég vinn með henni Sirrý sem er mamma hans Didda, varnarjaxlsins sterka sem var rétt í þessu að taka við orðunni hjá honum Hr. Ólafi. Við sem vinnum með Sirrý erum búnar að segja henni að við eigum hann með henni. Þangað til næst vinir mínir.....

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Afmælisprinsessa


Ég er svo heppin að eiga margar litlar vinkonur og í dag á ein þeirra afmæli.Petra Rut dótturdóttir mín er sex ára gömul í dag og hún er að byrja í grunnskóla eins og hún sjálf segir okkur mjög stolt. Hún valdi sér bleika skólatösku sem hún fékk svo í fyrirfram afmælisgjöf því skólinn er sko byrjaður. Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa og alveg eins og mamma sín þá fæddist hún fullorðin eða svo má segja. Hún hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og veit alveg hvað hún vill.

Aðspurð sagði hún að henni langaði í alvöru myndavél í afmælisgjöf en við mættum samt alveg ráða hvað við gæfum henni. Svo vildi hún fá að vita hvort afi hennar myndi láta mig fá pening til að kaupa gjöfina eða hvernig þetta yrði eiginlega. Skondnar pælingar hjá 6 ára dömu.

Petra Rut bræðir mig algerlega með sínu sérstaka brosi og það er svo gaman hvað hún sækir í að vera við hliðina á manni við matarborðið eða þegar hún hringir í okkur afa sinn og spyr hvort þau megi koma í heimsókn á Selfoss.Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar allra og við elskum þig allan hringinn eins og þú segir svo gjarnan sjálf.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Kóngsins Köben

Fljótlega eftir að við hættum við að fara í sumarfrí til Rhodos ákváðum við Hrund að skella okkur saman í mæðgnaferð til Kaupmannahafnar. Í byrjun júlí var svo ferðin pöntuð og 15. ágúst var tilvalinn ferðadagur. Auðvitað gátum við ekki vitað þá að elskuleg tengdamamma mín og amma Hrundar myndi kveðja okkur þann sama dag.

Á fimmtudeginum á undan þegar ljóst var að hverju stefndi spurði ég Erling hvað hann vildi að við gerðum og við vorum alveg tilbúnar að hætta við ef hann óskaði þess. „Hún mamma myndi ekki vilja að þið hættuð við og hvort þið farið eða ekki breytir engu héðan af varðandi mömmu svo ég vil bara að þið drífið ykkur og njótið samverunnar við hvor aðra“. Undir þetta tóku systkini hans og ég var þeim þakklát fyrir skilninginn.


Mæðgurnar í Leifsstöð


Það var auðvitað skrýtið að fara af stað í ferðalag sama dag og hún kvaddi en eftir að hafa komið við og fengið að sjá hana þar sem hún var í hvílubeði sínu, tígurleg sem drotting, þá leið okkur betur og við héldum af stað. Við áttum góðan og skemmtilegan tíma saman enda er Hrund mjög skemmtilegur ferðafélagi. Við gerðum bara það sem okkur langaði til þegar okkur langaði til þess. Við fórum m.a. í strætó út á Amager að kaupa barnavagn fyrir Eygló og Bjössa og það var bara gaman og smá ævintýri. Íris var búin að segja okkur frá pínu lítinni búð þar og þetta var svona eins og að koma í búð hjá Kaupmanninum á Horninu hérna í „gamla daga“.


Fyrir utan barnavagnabúðina á Amagerbrogade 2


Á strætóstoppistöðinni með vagninn



Við Hrund á Ráðhústorginu, það var slysavarnasýning þar






Fórum á Peder Öxe, Hrund skvísa og mamman hennar



Við versluðum aðeins, fórum út á borða á kvöldin, fórum í siglingu og stundum settumst við bara niður og fylgdumst með mannlífinu sem er mjög fjölbreytt þarna í kóngsins Köben. Erling var búinn að biðja okkur um að vera ekki seint úti á kvöldin og við ákváðum að vera alltaf komnar upp á hótel ekki seinna en 11 á kvöldin og vorum síðan alltaf komnar inn vel fyrir þann tíma. Þar sem myndir segja meira en mörg orð þá læt ég nokkrar fylgja með og leyfa ykkur að sjá hvað við nutum lífsins.



Í siglingunni, Hrund tók myndina svo við ættum nú einhverja af okkur saman:o)



Á ekki alltaf að deila? Líka heyrnartólum? Natalie Cole á ipodinum:o)



Skvísan á brautarstöðinni, Hovedbanegarden

Ég er í fríi fram á mánudag og ætla bara að slappa af og njóta þess að vera til. Dagarnir hafa verið skrýtnir, því þótt Hrefna hafi verið búin að vera lasin og orðin 87 ára þá er missirinn stór og söknuðurinn til staðar. Njótið lífsins lesendur mínir, þangað til næst.......

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Minning


Móðurást

Ljóðrænum línum mig langar að henda
línum sem á nokkrar staðreyndir benda
Mér datt þetta í hug nú fyrir skömmu
Hvar værum við til dæmis án hennar mömmu
Baslið og stritið er á sig hún lagði
haukur í horni jafnvel þegar hún þagði
Hvernig hún annaðist börnin sín átta
svo lentum við ekki utangátta

Sauma okkur flíkur úr gömlum fötum
stoppa í sokka sem duttu út í götum
Eitt var það sem hún vildi ekki orða
að ekki var alltaf nóg til að borða
Merkilegt hvað þá hún gat
gert úr engu góðan mat.

Bera henni vitni verklúnar hendur
æðrast aldrei hvernig sem á stendur
Trúi ég gjörla að á þessum árum
skolandi þvottinn á lækjarsteinum sárum
hafi vangarnir mömmu oft verið skreyttir með tárum.

Að eilífðar ósi árin renna
nú man hún mamma tímana tvenna
gömlu árin burtu runnin
sum þeirra fallin í gleymsku brunninn

Nú hópinn sinn enn, hún vegur og metur
blind, en gerir samt eins og hún getur
slitnar seint þessi móðurstrengur
Það er okkar stærsti fengur
er tímaklukkan áfram gengur
að eftir stendur ævistarf
okkur fært sem góðan arf.
Orð þessi færð í lítinn ramma
segja - takk fyrir mamma.
EM

Hrefna tengdamóðir mín lést föstudaginn 15. ágúst og við söknum hennar. Erling orti þetta ljóð til hennar fyrir nokkrum árum og mig langaði að deila því með ykkur því það lýsir henni svo vel eins og hún var.