sunnudagur, september 11, 2011

Karlott afmælisbarn


Það er stutt á milli afmæla þeirra hjónakorna Karlotts tengdasonar okkar og Írisar en í dag fagnar hann afmælinu sínu í 36. sinn.

Karlott er einstaklega ljúfur og góður drengur og hvers manns hugljúfi. Glaðvær og á einstaklega auðvelt með að umgangast fólk og spjalla við það. Hann studdi Írisi með ráð og dáð meðan hún lagði stund á lögfræðinámið sitt og nú er komið að honum og fyrir nokkrum dögum hófst nýr kafli í lífi hans þegar hann settist á skólabekk í Háskóla Íslands og nemur félagsráðgjöf. Þar er hann sannarlega á réttri hillu og ég efast ekki um að honum á eftir að ganga vel í þessu námi og hafa gaman af því.

Íris og Karlott eiga 4 yndisleg börn saman og eru einstaklega samhent um allt er viðkemur heimilishaldi og barnauppeldi. Börn hænast að Karlott og ég hef ósjaldan séð fleiri en hans börn trítla við hlið hans í leit að spennandi ævintýrum úti í náttúrunni þegar við stórfjölskyldan erum samankomin, annað hvort í Kofanum eða í einhverju ferðalaginu.

Karlott er haldinn mikilli veiðibakteríu og ég hef grun um að hann hafi ekki áhuga á að læknast af þeirri bakteríu.

Elsku Karlott, við Erling sendum þér afmæliskveðju héðan frá Tíról og óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, við erum afar ánægð með þig og stolt af þér og við vitum að Íris og börnin munu dekra þig í dag. Sjáumst svo vonandi sem fyrst.