sunnudagur, febrúar 22, 2009

Tíminn líður hratt...

Það er engum ofsögum sagt að tíminn líði hratt. Vikan hefur verið skemmtileg og viðburðarík og ég nýt þess að vera til. Ennþá er nóg að gera í vinnunni enda er þetta tími ársuppgjöra. Það er þó hætt við að vinnan minnki svo því mörg fyrirtæki sjá bara fram á gjaldþrot í kjölfar kreppunnar og er það auðvitað miður.

Á föstudagskvöldið hittumst við systkinin ásamt pabba og mömmu og kvöddum þorrann með tilheyrandi matarhlaðborði. Að vísu var fátt um súran mat á boðstólum enda var hann hvort tveggja uppseldur í búðunum og svo borðum við hann hvort sem er ekki mikið. Félagsskapurinn var góður og við öll svo skemmtileg þannig að úr varð hið besta kvöld. Þetta er siður sem við höfum viðhaft í mörg ár og við skiptumst á að hýsa boðið.

Í gær var svo rólegheitadagur hér í Húsinu við ána. Tveir skólafélagar Erlings komu hingað og voru þeir að vinna verkefni saman og ég var uppi á meðan að prjóna. Það er svo notalegt að sitja uppi með tónlist og prjóna. Ég var að spá í að kíkja á Sirrý systir en þá komu Hrund og Arna heim og svo fóru skólafélagarnir stuttu seinna og heimsóknum var frestað. Ég er að prjóna lopakjóla á litlu dömurnar mínar og það er mjög gaman. Í gærkvöldi fórum við svo öll fjögur til borgarinnar og var tilefnið sálmasamkoma í Samhjálp sem vinkona okkar Guðrún Einars stóð fyrir. Þetta var svo skemmtilegt og „alveg eins og í gamla daga“. Sammi Ingimars, Hafliði og Jói leiddu sönginn, Geiri og Helena Leifs voru með gítara, Guðni Einars spilaði á bassa, Kristján var á trommum og Þórir lék á píanóið. Tær snilld og hrikalega gaman, held við höfum sungið rúmlega 20 sálma og ég tek það fram að dætur okkar Erlings og litla Erla Rakel lögðu heldur betur sitt af mörkum til að lækka meðalaldur þeirra sem voru þarna.

Erling er alveg á bólakafi í verkefnavinnu og hefur það staðið yfir mjög lengi finnst mér en þótt ótrúlegt sé þá er önnin samt hálfnuð. Áðan hringdi síminn og lítil stúlka (Katrín Tara) talaði við afa sinn og var að bjóða okkur í bollukaffi. Þótt við höfum því miður þurft að afþakka það þá var svo gaman að fá svona hringingu. Reyndar var það ekki alveg afþakkað heldur var tekin ákvörðun að fresta því þangað til annað kvöld eftir skóla og ég hlakka til að fara og hitta þau.

Jæja vinir, njótið dagsins því hann er góður, ég ætla að fara og halda áfram með kjólana og hlusta á góða tónlist, var að kaupa safnið 100 íslenskar ballöður og það sem ég er búin að hlusta á lofar góðu með framhaldið. Þangað til næst....

sunnudagur, febrúar 15, 2009

Sara Ísold á afmæli í dag, húrra fyrir henni....


Í dag eru fimm ár síðan þriðja barnabarn okkar Erling leit dagsins ljós norður á Akureyri. Við höfðum fylgst með framgangi fæðingarinnar alla nóttina í gegnum símtöl frá Örnu og svo var það snemma á sunnudagsmorgni sem við fengum símtalið um að dóttir væri fædd og allt í lagi með þær mæðgur.
Já hún Sara Ísold, lítil vinkona mín er fimm ára í dag og er búin að bíða lengi eftir þessum degi því svo er stutt þangað til hún verður sex ára og byrjar í skóla, eða það finnst henni allavega. Sara Ísold er mjög dugleg stelpa og ákveðin, aðeins byrjuð að stauta sig fram úr stöfum og um daginn spurði hún pabba sinn hvað þýddi R Ó L A en hún sá þessa stafi einhvers staðar en náði ekki alveg samhenginu. Hún er kát og skemmtileg en ef henni mislíkar eitthvað þá hikar hún ekki við að láta okkur vita af því. Brosið hennar heillar mann algerlega og blikið í augunum er oft ómótstæðilegt.

Afmælisveislan hennar var haldin hér í Húsinu við ána í gær og skemmti hún sér konunglega og virkilega naut athyglinnar. Það var samt skondið þegar við fundum hana steinsofandi í leikkróknum undir stiganum, hafði komið sér fyrir á öðrum grjónapúðanum og svaf. Skýringin gæti verið sú að hún ásamt Írisar börnum gistu hér nóttina áður og kl hálf sex um morguninn var kominn dagur hjá þeim og því hefur hún verið orðin dauðþreytt seinni partinn og lagði sig bara í sínu eigin afmæli.
Þegar langt var liðið á veisluna sagði hún við mömmu sína, "Þetta er fullkomið" hún var svo glöð.
Hennar helsta áhugamál eru hestar og hún var himinlifandi með stórt og flott baby born hesthús sem hún fékk frá mömmu sinni í afmælisgjöf og afi hennar setti það svo saman fyrir hana áður en hún fór heim.
Elsku Sara Ísold mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, þú ert alger Guðs gjöf inní líf okkar og ég elska þig meira en orð fá lýst. Láttu nú mömmu þína og systur dekra við þig á allan hátt.

laugardagur, febrúar 14, 2009

Laugardagur til lukku

Ég sit hér í eldhúsinu mínu á þessum fallega laugardagsmorgni, úti er enn niðamyrkur enda er klukkan ekki einu sinni orðin átta. Það er nú ekki venja að húsmóðirin á bænum sé svona snemma á fótum á helgum degi en þegar 4 lítil börn gista í húsinu rifjast upp gamlar minningar. Sá yngsti vaknaði kl hálf fimm í morgun og ekki einu sinni til umræðu að láta hann sofa lengur. Kl sex í morgun fórum við fimm niður og syfjuð amman sinnti þeim og nú leika þau sér ljúf og góð. Þrátt fyrir að ég kunni vel að meta það að geta sofið út um helgar þá mun ég líkalega meta það enn betur í fyrramálið.

Framundan er svo líf og fjör í dag hér í Húsinu við ána því haldið verður uppá 5 ára afmæli Söru Ísoldar og henni finnst nú þegar erfitt að bíða eftir að mamma hennar komi austur með afmæliskjólinn hennar og svo líka eftir gestunum „því ég hlakka svooooo mikið til að opna pakkana“ sagði unga daman rétt áðan.

Njótið helgarinnar lesendur góðir, það ætlum við að gera hér í sveitasælunni.....þangað til næst

ps. muna svo að kjósa Edgar Smára í Eurovision í kvöld.....ég ætla meira að segja að kjósa þótt ég sé ekki vön að fylgjast með þessari keppni

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Erla rukkari.....

Stundum kemur flottur Border Collie hundur í vinnuna til okkar með eiganda sínum henni Ínu. Hann er mjög fjörugur og gerir sér dælt við okkur enda höfum við öll gaman að honum. Eitt af því sem ég geri í vinnunni er að rukka inn ógreidda reikninga frá okkur. Þegar ég er að rukka þá sný ég frá hurðinni að skrifstofunni minni, það hentar betur vegna staðsetningar á símanum. Um daginn var ég að hringja út og rukka og var búinn með þó nokkuð af listanum mínum. Í símanum var einn viðskiptavinur og ég er að tala við hann um hvort hann sjái sér ekki fært að greiða þessa skuld. Allt í einu finn ég að eitthvað blautt og mjúkt sleikir á mér hendina og ég með það sama rek upp þetta svaka garg eins og konum er einum lagið, BEINT Í SÍMTÓLIÐ. Þið ykkar sem þekkið mig vitið auðvitað hvað ég er hrikalega viðbrigðin. Um leið og ég byrja að afsaka mig við aumingja manninn á línunni, sný ég mér við og sé þá í skottið á honum Lappa vini mínum sem auðvitað brá meira en mér við þessi hrikalegu læti. Hann hafði þá komið inn greyið án þess að ég yrði hans vör og ætlað að vera svona vinalegur við mig enda vanur því að fá klapp og strokur þegar hann kemur í heimsókn inn til mín. Maðurinn í símanum var mjög kurteis og hefur örugglega borgað skuldina strax til að fá ekki svona símtal aftur en frammi var samstarfsfólk mitt næstum dáið af hlátri þegar þau föttuðu að ég var í símanum þegar ég öskraði.

Já lífið er svo sannarlega skemmtilegt og loksins er Lappi farinn að þora að koma inn til mín aftur.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Sunnudagur til sælu....

Ég sit hér í eldhúsinu mínu þennan sunnudagseftirmiðdag og horfi út um gluggann og pikka á tölvuna. Ljósaskiptin eru á næstu mínútum, rökkrið er að byrja að hellast yfir, vinkona mín Ölfusáin rennur framhjá glugganum mínum, klökuð og flott og í góðu skapi, lengra í burtu sé ég röð af bílaljósum sem eru á suðurleið, smáfuglarnir þiggja fuglafóðrið sem Erling gaf þeim áðan út á snævi þakinn garðinn okkar. Já það eru svo sannarlega forréttindi að búa á þessum stað og hafa þetta allt við hendina.

Helgin er búin að vera skemmtileg og viðburðarík. Á föstudaginn fórum við í afmæli til Heiðars vinar okkar og áttum skemmtilegt samfélag við þau og gesti þeirra. Í gær ókum við svo í yndislegu veðri til höfuðborgarinnar, Hellisheiðin var snævi þakin, sólin glamaði og landið leit út eins og risa stór hvít marengsterta. Tilefni ferðalagsins var sextugs afmælið hennar Dúddu frænku minnar sem var haldið heima hjá henni með miklum myndarbrag eins henni er lagið.

Í dag komu svo góðir gestir hingað, Teddi og Kata og svo Danni og Anki og eru þau nýlega farin. Okkur finnst alltaf gaman og notalegt þegar vinir okkar kíkja við.

Hrundin er á heimleið en hún fór til borgarinnar í hádeginu til að vera með barnastarfið í Mozaik en það gerir hún annan hvern sunnudag. Erling er sestur aftur inn á skrifstofu við lestur skólabóka. Það eru auðvitað viðbrigði að hann sé aftur sestur á skólabekk en ég veit sem er að önnin verður fljót að líða og hinar þrjár líka og fyrr en varir verður hann kominn með meistarapróf í lögfræði og þá er kominn enn betri grunnur fyrir okkur að byggja á þegar kreppan verður búin. Það verður spennandi að sjá hvað þessi nýja ríkisstjórn gerir fyrir okkur, heimilin og fyrirtækin, ég hef trú á að það verði eitthvað gott, allavega get ég ekki séð að þetta ástand geti versnað mikið fyrir þjóðfélagið sem slíkt. Ég er ánægð með að fá Jóhönnu sem forsætisráðherra, hún er einhvern veginn öðruvísi en aðrir þingmenn, það virðist allavega vera meira að marka hana en marga aðra.

Framundan er svo ný vinnuvika með sínum tækifærum og ég lít björtum augum fram á veginn. Ég ætla að setjast aðeins inní stofu og reyna að fá feðginin mín aðeins inn með mér því nú er Hrundin komin inn. Þangað til næst vinir mínir.....