sunnudagur, febrúar 01, 2009

Sunnudagur til sælu....

Ég sit hér í eldhúsinu mínu þennan sunnudagseftirmiðdag og horfi út um gluggann og pikka á tölvuna. Ljósaskiptin eru á næstu mínútum, rökkrið er að byrja að hellast yfir, vinkona mín Ölfusáin rennur framhjá glugganum mínum, klökuð og flott og í góðu skapi, lengra í burtu sé ég röð af bílaljósum sem eru á suðurleið, smáfuglarnir þiggja fuglafóðrið sem Erling gaf þeim áðan út á snævi þakinn garðinn okkar. Já það eru svo sannarlega forréttindi að búa á þessum stað og hafa þetta allt við hendina.

Helgin er búin að vera skemmtileg og viðburðarík. Á föstudaginn fórum við í afmæli til Heiðars vinar okkar og áttum skemmtilegt samfélag við þau og gesti þeirra. Í gær ókum við svo í yndislegu veðri til höfuðborgarinnar, Hellisheiðin var snævi þakin, sólin glamaði og landið leit út eins og risa stór hvít marengsterta. Tilefni ferðalagsins var sextugs afmælið hennar Dúddu frænku minnar sem var haldið heima hjá henni með miklum myndarbrag eins henni er lagið.

Í dag komu svo góðir gestir hingað, Teddi og Kata og svo Danni og Anki og eru þau nýlega farin. Okkur finnst alltaf gaman og notalegt þegar vinir okkar kíkja við.

Hrundin er á heimleið en hún fór til borgarinnar í hádeginu til að vera með barnastarfið í Mozaik en það gerir hún annan hvern sunnudag. Erling er sestur aftur inn á skrifstofu við lestur skólabóka. Það eru auðvitað viðbrigði að hann sé aftur sestur á skólabekk en ég veit sem er að önnin verður fljót að líða og hinar þrjár líka og fyrr en varir verður hann kominn með meistarapróf í lögfræði og þá er kominn enn betri grunnur fyrir okkur að byggja á þegar kreppan verður búin. Það verður spennandi að sjá hvað þessi nýja ríkisstjórn gerir fyrir okkur, heimilin og fyrirtækin, ég hef trú á að það verði eitthvað gott, allavega get ég ekki séð að þetta ástand geti versnað mikið fyrir þjóðfélagið sem slíkt. Ég er ánægð með að fá Jóhönnu sem forsætisráðherra, hún er einhvern veginn öðruvísi en aðrir þingmenn, það virðist allavega vera meira að marka hana en marga aðra.

Framundan er svo ný vinnuvika með sínum tækifærum og ég lít björtum augum fram á veginn. Ég ætla að setjast aðeins inní stofu og reyna að fá feðginin mín aðeins inn með mér því nú er Hrundin komin inn. Þangað til næst vinir mínir.....

Engin ummæli: