þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Góð helgi að baki

Þessi helgi var alveg skipulögð eins mikið og hægt var en svo sannast það að allt getur breyst.

Ég ætlaði að byrja helgina á að fara í saumaklúbb á föstudagskvöldinu og Erling, Hrund og Arna voru búin að plana leikhúsferð sama kvöld. Vegna veikinda var saumaklúbbnum frestað og þá spurðu dætur mínar mig hvort ég ætlaði ekki bara með þeim í leikhúsið en ég kaus að fara heim og sagði þeim að ég ætlaði að vera dugleg um kvöldið enda síðbúið þorrablót framundan á herragarðinum á laugardagskvöldinu.
Ég sagði þeim bara ekki hvað það var sem ég ætlaði að vera dugleg við, hahahahaha
Ég sem sagt náði að horfa á 5 þætti af Desperate housewifes alein heima í rólegheitunum og þar með hafði ég staðið við það að vera mjög dugleg. Þetta eru mjög skemmtilegir þættir.

Þorrablótið tókst mjög vel, við vorum systkinin mín ásamt okkar frábæru mökum og foreldrum og þar sem við erum svo skemmtileg var auðvitað mjög gaman hjá okkur.
Svo þegar allir voru að farnir að huga að heimferð þá buðu Teddi og Kata okkur að koma og sjá nýja húsið þeirra sem þau fengu afhent hér á Selfossi sama dag. Það var gaman og þetta er mjög fínt hús.

Seinni partinn í gær fórum við svo og hjálpuðum þeim að bera inn úr flutningabílnum og það var eins og það væru maurar útum allt svo margir komu og hjálpuðu til og þetta gekk fljótt og vel. Teddi, Kata og börn, til hamingju með nýja húsið ykkar “Húsið á sléttunni” eins og ég veit að þið kallið það.

Nú er komið fram í miðja vinnuviku, njótið hennar vinir, þangað til næst.......

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Saltkjöt og baunir – “útall”

Jæja kæru þolinmóðu lesendur mínir sem enn kíkið við hjá mér,

vil byrja á að segja ykkur að fréttir af bloggandláti mínu eru stórlega ýktar. Ég er á lífi hérna í Húsinu við ána. Tíminn bara æðir áfram og allt í einu er kominn mánuður frá síðustu færslu fyrir utan afmælisfærslunnar hennar Söru Ísoldar. Það hefur verið í mörgu að snúast og svo er ég mjög upptekin af því að fylgjast með nágranna mínum, Ölfusánni, sem rennur ljúf og róleg fyrir utan eldhúsgluggann minn.

Við Erling sjáum mun á birtunni á hverjum morgni sem ekið er til Reykjavíkur og það er bara gaman að því. Ég er samt búin að upplifa það að sjá tvö stjörnuhröp síðan við fluttum en þótt ótrúlegt sé þá hafði ég aldrei á ævinni séð það fyrr.

Í gærkvöldi fórum við í skemmtilegt matarboð til Írisar og Karlotts og litlu yndigullanna þeirra. Á boðstólum var hinn hefðbundni sprengidagsmatur, saltkjöt, kartöflur og hvít sósa. Mjög gott. Engar baunir voru þó enda erum við ekki vön þeim. Titill færslunnar minnar í dag vísar til hennar Katrínar Töru en það er svo gaman að henni. Ef einhver segir snöggt, saltkjöt og baunir þá svarar hún enn sneggra, hátt og snjallt, “útall”.

Petra Rut vildi endilega sýna mér eitthvað nýtt í herberginu sínu en fyrst varð ég að loka augunum, lofa að kíkja ekki og hún leiddi mig ofur varlega úr stofunni inn til sín og þá mátti ég opna augun. Viti menn, það voru komnar tvær nýjar hillur hjá þeim systrum og nýjar gardínur fyrir gluggana sem Íris var búin að sauma. Það var stolt lítil, stór dama sem sýndi mér þetta. Kvöldið var notalegt og gaman að vera svona saman.

Klukkan var farin að halla í ellefu þegar við ókum úr Hafnarfirðinum heim á Selfoss. Þar var Hrund komin heim á undan okkur, hafði farið heim á Volvonum því lærdómurinn beið hennar. Hún er mjög samviskusöm og gengur mjög vel í skólanum þar sem hún er líka mjög vel liðin, bæði af kennurum og nemendum.

Nú er hins vegar kominn tími til að fara upp, stilla vekjaraklukkuna á 5:45, lesa aðeins um hana Önnu frá Suðurey, merkileg saga um hversdagshetju, og skoða svo augnlokin að innan.

Hafið það gott vinir mínir, þangað til næst..........

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Sara Ísold afmælisprinsessa


Hún fæddist fyrir þremur árum síðan prinsessan sem á afmæli í dag. Hún er þriðja barnabarnið okkar Erlings og heitir Sara Ísold. Já það er loksins komið að því að hún eigi afmæli en hún er búin að bíða lengi eftir því. Ég spurði hana um daginn hvað hana langaði að fá í afmælisgjöf og hún svaraði án umhugsunar; “Grænan sleikjó” Langar þig ekki í eitthvað fleira spurði amman. Hún hugsaði sig þá smástund um og sagði svo íbyggin á svip: “Kannski líka bleikan...” Það er ekki erfitt að gera henni til hæfis.
Sara Ísold er mjög dugleg þriggja ára stelpa, talar mikið og er með óvenju mikinn orðaforða miðað við aldur. Hún er mikil afastelpa og finnst gaman að koma á “Kelfossi” eins og hún segir.

Elsku Sara Ísold mín, innilega til hamingju með daginn. Ég bið Guð að blessa framtíð þína og vaka yfir hverju þínu spori. Ég elska þig litla yndigull og hlakka til veislunnar þinnar.