fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Annáll.....

Þið þolinmóðu örfáu vinir sem enn ratið hér inn fáið hjartans þakkir fyrir trúfesti ykkar.
Ég hef ekki verið sú duglegasta við bloggið síðan fésbókin kom til sögunnar en vegna "fjölda áskorana" ætla ég að slá nokkur slög á lyklaborðið.

Lífið gengur auðvitað sinn vanagang hér í Húsinu við ána og við Erling elskum að vera hér heima og njóta allra gæða sem þetta hús og umhverfi þess bíður uppá. Margumtöluð kreppa hefur auðvitað hitt okkur líkt og flest alla heimsbúa en við tökum lífinu með ró og í raun og veru finnst mér við og litlu fjölskyldurnar okkar Erlings vera líkt og 5 skip sem eru í öruggu vari í fallegri vík meðan stórsjóir og mikill öldugangur gengur yfir fyrir utan brimgarðinn. Það fer vel um okkur öll, "skipin" þ.e heimilin okkar eru notaleg skjól og þar inni er birta og friður og þótt ekki verði kannski siglt mikið meðan stormurinn gengur yfir þá er lífið "um borð" bara ljúft og enginn skortur á neinum gæðum. Við erum líka svo heppin að finnast við bara skemmtileg og kunnum mjög vel við félagsskapinn af okkur og svo eru auðvitað fleiri "skip" þarna og vinir sem er gaman að hafa samfélag við.

Sumarið var skemmtilegt og margt gert sér til skemmtunar. Við hjónin tókum upp á því að byrja að klífa fjöll og ég verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart hvað mér finnst þetta ferlega skemmtilegt. Við náðum að fara á 4 tinda og stefnum ótrauð á að halda þessu áfram næsta sumar og gera þá meira af því. Svo var farið í ferðalög upp á hálendið, bæði bara við tvö og svo með stórum hóp fólks og hvort tveggja var mjög gaman. Margar helgarnar vorum við á Föðurlandi og það er bara einstaklega ljúft. Tókum nokkra sumarfrísdaga þar í ágúst og veðurblíðan var slík að það líktist mjög þeirri eyju sem er í mestu uppáhaldi hjá mér á eftir sjálfu Íslandinu, það er Mallorka. Við heimsóttum Óla og Anette og þeirra fjölskyldu í sumar og eins og alltaf var vel tekið á móti okkur og við áttum skemmtilegan tíma með þeim í Danaveldi.

Erling er nú í mastersnámi í lögfræði við HR og líkar það afar vel en þau eru í tveimur fögum saman hann og Íris og oft eru þau að vinna verkefni saman.

Arnan okkar kynntist ljúfum og góðum manni í sumar og eru þau saman öllum stundum sem hægt er en hann reyndar býr ekki á höfðuborgarsvæðinu þannig að þau hittast um helgar. Okkur Erling líst vel á hann og það gleður okkur mjög hvað hann er góður og umhyggjusamur við þær mæðgur og tekur litlu dömunum af mikill skynsemi og uppsker það að þær eru yfir sig hrifnar af honum og hamingjan skín nú af Örnunni okkar, kominn tími til.....

Það gengur allt sinn vanagang hjá Írisi og Eygló og þeirra fólki enda eru þau í tveimur af ofangreindum "skipum" sem eru í vari frá stórsjó kreppunnar.

Hrundin venti sínu kvæði í kross og gerðist aupair hjá frábærri fjölskyldu í Þýskalandi og hún unir svo sannarlega hag sínum vel þar. Krakkarnir sem hún gætir eru alveg yndisleg og náðu að bræða hana eins og skot. Það þýðir sem sagt að við Erling erum bara tvö í kotinu í fyrsta sinn á ævinni en þannig er nú lífið bara og eins gott að við kunnum svona vel við okkur.

Framundan er svo að fagna því að Erling varð fimmtugur um daginn og ég verð fimmtug í janúar. Ég er svo þakklát fyrir lífið sjálft og allt það góða sem í veg okkar er lagt.

Kannski verð ég duglegri við bloggið í framhaldinu, við sjáum til. Mér finnst reyndar að fésbókin geti ekki alveg komið í staðinn fyrir það..... Þangað til næst vinir....njótið daganna, þeir eru góðir