þriðjudagur, ágúst 31, 2010

Íris afmælisstelpa


Þótt það séu komin 32 ár síðan þá man ég enn sælutilfinninguna þegar ég fékk hana Írisi í fangið eftir langa og erfiða nótt. Hún var það fallegasta sem ég hafði nokkurn tímann séð enda fyrsta barnið okkar Erlings og eins og mamma mín sagði þegar hún kom að sjá hana þá var eins gott að ég var með eyru til að stoppa brosið áður en höfuðið mitt klofnaði í tvennt.

Íris hefur alla tíð verið mikill gleðigjafi inní líf okkar foreldranna, dugleg, ákveðin og vissi strax hvað hún vildi og hvað hún vildi ekki. Löggu og bófaleikir heilluðu meira en barbí og hún lét engan ráðast á minni máttar án þess að skerast í leikinn og hikaði ekki við slagsmál ef því var að skipta til að hjálpa einhverjum. Það kom því ekki á óvart þegar hún ákvað að leggja stund á lögfræðinám og í sumar þegar hún brautskráðist frá Háskólanum í Reykjavík með meistarapróf í lögfræðinni þá sagði yngri dóttir hennar, 5 ára, við mig mjög stolt: "amma, hún mamma mín er orðinn löggufræðingur". Eldri daman, 7 ára, var samt fljót að leiðrétta systir sína enda skyldi rétt farið með starfsheiti mömmunnar. Íris starfar núna sem lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra og líkar það afar vel.

Íris er mikil ungamamma og ásamt Karlott, manninum sínum, halda þau fast utanum fjölskyldugildin og eru duglega að leggja inn skemmtilegar minningar í minningabanka barnanna.

Elsku Írisin okkar, við pabbi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, við vitum að fólkið þitt mun dekra þig á allan hátt enda ertu svo lánsöm að elska og vera elskuð og þar á meðal eum við foreldrar þínir sem elskum þig án skilyrða marga hringi, allan hringinn :o)
Þú ert einn af augasteinunum okkar....

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Petra Rut afmælisprinsessa


Það var fyrir átta árum að við vorum öll saman komin heima hjá okkur Erling í Hamraberginu og það var svo sem ekkert nýtt. Pizza var á boðstólum en eitthvað var Íris samt lystarlaus á matinn og það virtist frekar versna en hitt. Skýringin kom svo fljótlega og þau Karlott fóru sem sagt ekki heim til sín þetta kvöld heldur skruppu niður á Eiríksgötu og í dag fagnar eldri skvísan þeirra, hún Petra Rut átta ára amælinu sínu.

Hún er mjög dugleg stelpa og veit alveg hvað hún vill og eins og mamma hennar þá fæddist hún nánast fullorðin. Hún er líka búin að ákveða að verða bæði mamma og lögfræðingur eins og mamma sín. Segið svo að daman viti ekki hvað hún vill. Uppáhalds liturinn hennar er fjólublár og hún var því ekkert smá ánægð þegar hún fékk að velja sér nýja skólatösku og auðvitað var hún fjólublá. Hún er mikil vinkona okkar afa síns og ömmu og það er svo gaman þegar hún hringir og spyr hvort þau megi koma í heimsókn.

Elsku Petra Rut mín, við afi þinn óskum þér innilega til hamngju með daginn þinn. Vona að þér fari að líða betur í fætinum og að þú verðir dekruð í allan dag. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar og yndigull og við elskum þig marga hringi. Hlökkum svo til að koma í afmælið þitt en bara ein spurning, hvað langar þig að fá í afmælisgjöf?

mánudagur, ágúst 16, 2010

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur...

Þegar við Erling bókuðum flugið okkar hingað til Stövring snemma í vor, óraði okkur ekki fyrir hvað þetta yrði kærkomið frí. Við vorum ekki búin að opna ísbúðina þá en 11. ágúst var valinn brottfarardagur og allt í einu var hann runninn upp. Við vorum bæði frekar þreytt eftir margra vikna vinnulotu en hlökkuðum mikið til. Hrund tók við stjórnartaumum á Íslandus ísbar og við stigum upp í bílinn og ókum upp á flugvöll með viðkomu á Landspítalnum til að láta kíkja á eyrað á Erling en það var ekki alveg eins og það átti að vera og ekki gott að fara í flug þannig. Þat hittum við lækni sem gat hjálpað honum og við héldum áfram för.

Ég man eftir að hafa spennt beltin þegar við komum út í vél og um tveim tímum seinna vaknaði ég við að Erling spurði hvort ég vildi eitthvað að drekka :o) Ferðin gekk vel og í Kaupmannahöfn tóku Bitten og Arne á móti okkur á flugvellinum og við eyddum tæpum tveimur sólarhringum á heimili þeirra áður en við lögðum land undir flugvél og flugum norður á bóginn til Álaborgar til bræðra minna sem þar búa. Hér höfum við notið mikilla gestrisni Óla og Anette, á laugardag fórum við í tvítugsafmæli Birgis Steins frænda míns og í gær vorum við í kaffiboði og mat hjá Tedda og Kötu og hittum þar Elne vinkonu þeirra, sem sagt afar notalegt samkvæmi langt fram á kvöld og þá var Óli búinn að bætast við hópinn okkar. Það var glatt á hjalla og mikið skrafað og skemmt sér yfir góðum veitingum og svo kaffi og koníak að heldra manna sið.

Í dag var svo stefnan tekin á búðirnar því þrátt fyrir hátt gengi dönsku krónunnar þá er mjög margt ódýrara hér í Danaveldi heldur en heima enda var endað á því að fara í Fötex og kaupa eina ferðatösku. Reyndar var það ákveðið heima á Fróni að endurnýja töskubirgðir heimilisins.
Dagurinn var góður, hittum Tedda og Kötu í miðbænum og fórum á kaffihús með þeim og fengum okkur reglulega gott ískaffi og spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar.

Nú sit ég hér í stofunni, hlusta á Óla og Erling spjalla saman við hliðina á mér og frammi heyri ég í Anette og mömmu hennar spjalla saman en mamma hennar Anette er flutt hingað til þeirra, fárveik af krabbameini. Það hefur verið áhugavert að eiga samfélag við hana en á sama hátt skrýtið vitandi að hún er deyjandi en samt er hún svo æðrulaus og brosmild.

Fyrir mér eru fjölskylduböndin svo mikilvæg og nauðsynlegt að rækta þau og að fylgjast með hversu vel Óli og Anette annast gömlu konuna og sýna henni svo mikla umhyggju að það er til fyrirmyndar. Börnunum er einnig mjög umhugað um ömmu sína og leggja sig fram um að uppfylla þarfir hennar.

Ég finn mig á þeim stað að vera forréttindamanneskja því ég á fjölskyldu sem ég elska meira en lífð sjálft og ég veita að þau elska mig og vilja eiga samfélag við mig og ég veit að þegar við Erling komum heim bíða krakkarnir okkar eftir að koma og hitta okkur og ég veit að það er ekki sjálfgefið að eiga vináttu þeirra.

Ég er bara svo þakklát fyrir að fá að vera eins og ég er.....njótið daganna vinir mínir því þeir eru góðir...

fimmtudagur, ágúst 05, 2010

Lífið og tilveran

Það er alger kyrrð hér í Kofanum á Föðurlandi, aðeins tifið í gömlu klukkunni sem heyrist og það er sérlega notalegt hljóð. Ég sit hér ein í sófanum með tölvuna í fanginu og pikka inn þessar línur hér á blogginu. Erling skrapp að veiða enda er frí til þess að gera það sem er skemmtilegt.
Það er ekki laust við að þetta sumar hafi verið með allt öðru sniði en vanalega hjá okkur hjónakornum því þetta er í fyrsta sinn í margar vikur sem við erum hér í Kofanum lengur en dagpart. Eftir stranga vinnutörn sl vikur ákváðum við að taka okkur "helgarfrí" í miðri viku strax eftir verslunarmannahelgina og vinda þreytuna úr okkur. Eins og flest ykkar vita þá hentum við okkur út í djúpu laugina, fórum alveg útúr þægindarammanum og opnuðum Íslandus ísbar, sem er í senn flottasta ísbúð Suðurlands ásamt minjagripaverslun og internet kaffi. Við höfum fengið feikna góðar viðtökur og erum alsæl með hvernig þetta gengur allt saman. Starfsfólkið er frábært og við höfum verið þarna mjög mikið sjálf en nú var kominn tími til að sinna okkur sjálfum aðeins. Hrund tók við stjórnartaumum á búðinni og sinnir því vel svo við getum verið róleg hér og notið lífsins.
Þar sem ég vinn með svo skemmtilegu fólki á bókhaldsstofunni þá tímdi ég ekki að hætta alveg og mun vera þar einn dag í viku.
Það er orðið langt síðan ég hef sett inn pistil hér á bloggið en ég er komin á þá skoðun að bloggið megi ekki gleymast þrátt fyrir stutt innskot á fésbókina. Skemmtilegir pistlar og þankagangur er ómissandi í tilveruna og þá kemur bloggið sterkt inn.

Mér finnst gaman að fylgjast með því að kreppan er smátt og smátt að lina tök sín á þjóðarbúinu enda höfum við Íslendingar alla burði til að koma sterk útúr þessum hremmingum. Landið er gott og gjöfult og við megum vera þakklát fyrir þau forréttindi að fá að búa hér og vera Íslendingar. Ég heyrði fyrr í sumar orðatiltækið "að ef grasið er grænna hinum megin er þá ekki kominn tími til að vökva hjá sér".....þetta eru mikil sannindi og því miður virðast of margir uppteknir við að hugsa um kreppuna og sitja kannski "með vatnsslönguna í hönd" og armæðast yfir ástandinu en það eina sem þarf kannski er að skrúfa frá krananum og byrja að vökva. Með öðrum orðum, horfa á tækifærin sem eru svo oft allt í kringum okkur en við sjáum þau ekki því við horfum svo mikið á "óveðursskýin". Við megum samt aldrei gleyma því að það birtir upp um síðir.

Annars er bara allt gott af okkur að frétta, við Erling erum blessuð af barnaláni og við erum nýbúin að fá þær fréttir að áttunda barnabarnið okkar mun fæðast um miðjan febrúar og ég gleðst svo sannarlega yfir því. Börn eru Guðs gjöf og blessun. Erling er að fara að byrja lokaönnina sína í Háskólanum og hún mun vera notuð í að skrifa mastersritgerð því hann er búinn með öll fög og hefur fengið mjög góðar einkunnir enda flottur maður þar á ferð og ég er afar stolt af honum og þakklát fyrir að leiðir okkar skyldu liggja saman fyrir 34 árum síðan og við höfum orðið þeirra gæfu aðnjótandi að ganga saman hönd í hönd og ekki fengið leið hvort á öðru heldur þvert á móti finnst okkur við ferlega skemmtileg :o)

Svona tími eins og í Kofanum núna notum við til að rækta garðinn okkar og hlúa að honum svo fegurstu rósirnar nái að vaxa þar.

Ég er kát, þakklát og elska lífið.....njótið daganna vinir því þeir eru góðir....