föstudagur, ágúst 31, 2007

Hún á afmæli í dag....


Ég man það eins og það hefði verið í gær hvað ég var farin að bíða lengi eftir henni. Á afmælisdegi höfuðborgarinnar 18. ágúst 1978 hélt ég að hún væri nú að koma en nei nei, hún lét okkur kornunga foreldrana bíða aldeilis eftir sér. Það leið næstu hálfur mánuður þangað til hún var látin koma í þennan heim. Það var snemma morguns 31. ágúst sem ég fékk hana í fangið svona agnarsmáa og litla en fallegasta barn sem fæðst hafði á jörðinni fram að þeim tíma. Síðan hafa nokkrir jafnfallegir einstaklingar fæðst, hvað á ég aftur marga afkomendur.....jú, 10 jafn falleg börn hafa fæðst síðan að henni meðtalinni.
Núna er hún sjálf þriggja barna móðir og stundar lögfræðinám af fullum krafti, var einmitt að byrja þriðja árið og yngsta barnið er aðeins tæplega þriggja mánaða. Íris er líka svo heppin að eiga frábæran eiginmann, Karlott og hún gæti þetta ekki nema með þeim stuðningi sem hún hefur frá honum. Þau eru mjög samstíga í þessu öllu saman og ná að púsla hlutunum saman á frábæran hátt.
Íris mín, ég er svo þakklát Guði fyrir að hafa gefið okkur þig, þú ert einstök og svo ertu svo mikið lík honum pabba þínum og þú veist nú alveg hversu mikið álit ég hef á honum.

Elsku Íris mín, úr sólinni á Mallorka sendum við pabbi þinn þér bestu afmæliskveðjur og vonum að þú hafir það frábært í dag og við erum viss um að fjölskyldan þín dekrar þig í hvívetna. Hlökkum til að sjá ykkur þegar við komum heim.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Petra Rut 5 ára


Ég er svo heppin að eiga margar litlar vinkonur og í dag á ein þeirra afmæli.
Petra Rut dótturdóttir mín er fimm ára gömul í dag og er alveg með það á hreinu að næst verður hún sex ára og byrjar í skóla. Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa og alveg eins og mamma sín þá fæddist hún fullorðin eða svo má segja. Hún hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og veit alveg hvað hún vill. Ég hitti hana í gær og þá sýndi hún mér Baby born dúkku sem hún fékk frá foreldrum sínum í afmælisgjöf og það er sko ekkert smá flott dúkka og hún heitir Fjóla. Ég fékk að halda á dúkkunni og svæfa hana og svo sagði Petra Rut við mig að ég mætti alveg vera amma dúkkunnar líka eins og hennar.
Petra Rut bræðir mig algerlega með sínu sérstaka brosi og það er svo gaman hvað hún sækir í að vera við hliðina á manni við matarborðið eða þegar hún hringir í okkur afa sinn og spyr hvort þau megi koma í heimsókn á Selfoss.
Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar allra og við elskum þig allan hringinn eins og þú segir svo gjarnan sjálf.
Láttu nú pabba og mömmu og systkini þín dekra við þig í allan dag og það verður gaman að heyra hvað þú velur að gera í leikskólanum í dag fyrir krakkana þar.
Við afi þinn hlökkum til að sjá þig þegar við komum heim aftur úr ferðalaginu.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Ævintýraland


Það var einhver ævintýraljómi yfir pallinum í gærkvöldi. Birtan frá hitaranum varpaði fallegu ljósi yfir okkur þar sem við hjónin sátum úti í kvöldkyrrðinni og nutum þess að vera til.




Myrkrið var að hellast yfir og trén tóku á sig fallegar myndir í ljósaskiptunum. Þungur árniðurinn var einhvern veginn eins og fegursta sinfónía í eyrum okkar og kyrrðin var alger. Kertaloginn lék sér innan við glerið og við bara sátum þarna úti og stundin var eins og áður sagði ævintýraleg.


Erling náði í nýju myndavélina sína og þið sjáið smá árangur af því hér á síðunni. Klukkan var að verða tólf þegar við tímdum að fara inn og það var bara vegna þess að það var virkur dagur daginn eftir og því tímabært að fara og skoða augnlokin að innan. Það er gaman að fara erlendis en þó er ekkert sem jafnast á við heimili manns og landið okkar fagra, Ísland sem er svo sannarlega landið mitt.

Ég á frí í vinnunni í dag en eins og ég hef áður sagt ykkur þá er stofan lokuð á föstudögum yfir sumartímann þótt auðvitað þurfum við stundum að vinna þá daga.
Í dag er ég því ein heima þar sem bæði Erling og Hrund eru í vinnunni. Hrund er mjög ánægð með vinnuna á Sambýlinu og forstöðukonan þar tímir alls ekki að missa hana í skólann og ég skil það vel. Samviskusamari starfskraft en hana er varla hægt að finna. Hún verður að vinna þarna í vetur með skólanum enda er hún að safna sér pening fyrir ákveðnum hlutum sem hana langar að gera næsta sumar. Með svona áframhaldi getur hún látið það eftir sér allavega miðað við innistæðuna hennar í bankanum. Mér fannst svo fyndið þegar hún sagði við mig að hún nennti varla að vera að fara til Reykjavíkur á hverjum degi í vetur, það væri miklu þægilegra eins og er núna að hún fær bílinn og fer þegar hún á frí og langar til að fara. Samt vill hún ekki skipta um skóla og fara í FSU og við erum sammála henni með það. Kvennó er mjög góður og virtur skóli og allt viðmót þar til mikillar fyrirmyndar.

Jæja, þar sem þrifnaðarkonan hefur ekki látið sjá sig í dag og ekki síðustu vikur (kannski vegna þess að við höfum enga :o) og húsmóðirin verið upptekin við vinnu og að vera á Föðurlandi í sumar þá ætla ég núna að þrífa fallega húsið mitt, set bara tónlist á og hef hátt í græjunum.... Var þó að hengja upp þvottinn úti og það var svo notalegt. Við Sigrún vinkona værum ágætar í að halda heimili saman, ég myndi sjá um þvottana og hún um gólfin því það leiðinlegasta við húsverkin að mínu mati er að þrífa gólfin en mér finnst bara gaman að vesenast með þvottinn. Hjá Sigrúnu er þessu alveg öfug farið, gaman hvað mannfólkið er ólíkt.


Ég hlakka mikið til þegar þau feðgin koma heim í kvöld en hef samt grun um að ungfrúin vefji föður sínum um fingur sér og hún fái bílinn til að skreppa á unglingasamkomu í Reykjavík með Örnu systur sinni.

Þangað til næst vinir mínir, eigið góða og slysalausa helgi...........

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Hrikalega skemmtilegt


“Geturðu ekki bara hringt í hann Þráinn ökukennara og spurt hvenær næsta bifhjólapróf verður”, sagði ég við Erling í morgun. Ástæðan fyrir þessari skyndilegu óþolinmæði minni var sú að ég var búin að fara í fyrsta ökutímann að læra að hjóla svona stóru hjóli. Erling var kennarinn og þetta var alveg hrikalega gaman. Fyrst reyndar þorði ég ekki af stað, þorði ekki að setja fæturnar uppá fótstigin því ég var svo hrædd um að detta. Erling var þolinmæðin uppmáluð, lét mig hafa fæturnar bara útfrá hjólinu og gekk með því loksins þegar ég þorði aðeins að fara af stað. Það kom svo að því að ég gat hjólað sjálf, löturhægt en með fæturnar á réttum stað.
Það verður erfitt að halda sig við áætlanir um að bíða með að taka prófið fram á næsta vor. Erling ætlar að kaupa handa mér fallegt dömuhjól sem er samt ekki eins þungt og hans, mig langar mest í perluhvítt eða dökk vínrautt skvísuhjól. Við sjáum hvað setur en eitt er víst að ég mun æfa mig meira á grasinu á Föðurlandi áður en vetur konungur kemur.

Helgin var fín og notaleg, við tókum aukafrídaga á fimmtudag og föstudag og nutum þess bara að vera saman, hjóluðum m.a til Reykjavíkur á laugardaginn og svo alla leið austur í Fljótshlíð seinni partinn með viðkomu hér heima í húsinu okkar góða við ána.
Kofinn okkar er orðinn svona eins og við viljum hafa hann, komið rafmagn og þá gátum við fengið okkur ísskáp og það er mikill munur. Það er einstaklega notalegt að eiga þetta athvarf þarna en það hef ég sennilega sagt ykkur áður.


Á morgun er það svo vinnan en það er mjög notaleg tilhugsun að eiga eftir tveggja vikna frí til Mallorka en þangað förum við 24. ágúst með vinum okkar Sigrúnu og Heiðari. Ég hlakka til að liggja á ströndinni í heitu löndunum og stinga tánum í sandinn eða labba berfætt eftir fjörunni og finna sjóinn leika um fæturnar á mér. Notalegt ekki satt..

Vona að vikan verði ykkur góð og skemmtileg lesendur mínir, þangað til næst.....

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Hversdagsleiki....

"Er ekki kominn tími til að þú bloggir eitthvað Erla mín", sagði Erling við mig. "Æ ég veit það ekki, það er ekkert sérstakt að gerast hjá mér þessa dagana, lífið heldur áfram sinn vanagang og það nenna fáir að lesa um það", svaraði ég honum.
Ég fór svo aðeins að velta þessu fyrir mér. Er lífið ekki gott og skemmtilegt í hversdagsleikanum, er bara hægt að skrifa um þegar eitthvað spennandi er að gerast?

Máltæki segir að lífið sé það sem gerist meðan maður er upptekinn við að gera allar áætlanir. Við getum gengið veginn, fullan af gimsteinum á báðar hliðar en við erum að flýta okkur að enda vegarins þar sem okkur hefur verið sagt að sé fjársjóðskista. Við erum svo gjörn á að flýta okkur svo mikið að gimsteinar daglegs lífs fara framhjá okkur, við sjáum þá ekki. Síðan kemur í ljós að það er engin fjársjóðskista við enda vegarins en við getum ekki gengið hann tilbaka.
Ég hef lært það að njóta hversdagsleikans, flýta mér hægt og virða fyrir mér litadýrð steinanna sem liggja við veginn. Stundum staldra ég við og tek þá upp og veit að ég má eiga þá ef ég vil. Guð leggur svo marga góða hluti í veg okkar en það er erfitt að taka upp hluti ef maður er alltaf á hlaupum.

Eftir mikla vinnutörn var gott þegar föstudagurinn síðasti rann upp. Við stelpurnar á skrifstofunni lukum við að bóka öll fyrirtækin okkar og héldum út í langt og langþráð helgarfrí. Verslunarmannahelgin var góð, veðrið var ágætt, allavega rigndi ekki þótt auðvitað mætti rokið vera aðeins minna. Við Erling ásamt krökkunum okkar vorum á Föðurlandi, Íris og hennar fjölskylda gisti í kofanum, Arna og litlu gullin hennar voru í tjaldvagni Írisar og Karlotts og Hrund fékk að gista í tjaldvagninum með Eygló og Bjössa. Við hjónakornin keyrðum hins vegar heim á Selfoss bæði kvöldin og sváfum í rúminu okkar, það var mjög notalegt.

Við vorum í matarboði áðan hjá Írisi og Karlott og það var mjög gaman. Ég nýt þess heiðurs að Petra Rut vill alltaf fá að sitja við hliðina á mér við matarborðið og vera með mér og Katrín Tara á það til að koma allt í einu, henda sér í fangið á mér algerlega fyrirvaralaust, vefja litlu handleggjunum um hálsinn á og knúsa mig. Þær eru algerir bræðarar þessi yndi.

Það eru rólegir dagar í Húsinu við ána og ég nýt þess. 3 af ömmustelpunum mínum gista nú hér á efri hæðinni og mér finnst svo gott að sjá og finna þessi litlu gull hvíla róleg og örugg í ömmu og afahúsi, í heimsókn með mömmu sinni. Þær hafa ekki áhyggjur af morgundeginum, vita að um þær verður hugsað, það sama getum við öll gert, því öll erum við jú elskuð af Guði sjálfum, alltaf, alla daga.

Njótið daganna vinir, hvunndagurinn er líka góður.........