sunnudagur, desember 25, 2005

Jóladagur

Ég fann það gegnum svefninn að einhver var að horfa á mig, reyndi eins og ég gat að opna augun en þau voru frekar þung augnlokin að þessu sinni. Það tókst þó að lokum og ég leit í augun á flottasta manni í heimi og sá klukkuna á náttborðinu hans 12:09. Mér hafði þá tekist það sem ég ákvað í gærkvöldi þegar ég lagðist á koddann en þá sagði ég við Erling að ég ætlaði að sofa til hádegis á jóladag. Mikið var þetta notalegt. Ekkert hljóð heyrðist í íbúðinni og það benti til þess að fleira heimilisfólk hafði farið að dæmi mínu.

Ég fór samt fljótlega framúr og á fætur. Gærdagurinn var góður og jóladagurinn lofaði líka góðum hlutum. Það varð þó ljóst í gærmorgun að ekki mundu allar áætlanir ganga upp. Litlu fjölskyldurnar okkar Erlings voru búnar að ráðgera að koma til okkar í heimsókn eftir matinn og pakkaupptöku en klukkan níu á aðfangadagsmorgun hringdi Arna og sagði okkur að Danía Rut væri komin með hlaupabólu og eftir hádegi hringdi Íris til að segja okkur að Katrín Tara væri komin með rúmlega 39 stiga hita og því myndu þau ekki koma um kvöldið. Það var auðvitað mjög leiðinlegt en svona er lífið samt þegar maður á börn, allt getur gerst.

Við Erling ásamt Eygló og Hrund áttum mjög góðan aðfangadag, reyndar var Hrund að vinna frá átta um morguninn til rúmlega hálfþrjú og kom lúin heim enda búin að vinna líka 12 tíma daginn áður. Hún er hörkudugleg og ég er mjög stolt af henni. Allur undirbúningur fyrir jólin hafði gengið vel og því var hægt að taka því bara rólega yfir matarundirbúning og um þrjúleytið, meðan Eygló sótti Hrund, þá settumst við hjónin inn í stofu með kaffi og konfekt og spjölluðum saman, það var notalegt.

Kvöldið var mjög skemmtilegt, fullt af pökkum sem í leyndist margt spennandi og margt sem hafði verið á óskalistum kom upp úr kössum fylltum af gömlum dagblöðum. Við í fjölskyldunni reynum að hafa pakkana frá okkur þannig að það sé engin leið að sjá hvað er í þeim. Það ríkti mikil værð yfir okkur þegar leið að miðnætti, við stelpurnar vorum komnar í náttfötin og kúrðum öll í sófanum með bækur, jólaöl og nammi, alveg eins og vera ber á jólunum. Ég er Guði óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna mína, ég saknaði reyndar ömmustelpanna minna en við því var ekkert að gera.

Í dag kom svo Arna aðeins í heimsókn með Söru Ísold og Þórey Erlu og við fórum síðan á Vífilstaði að heimsækja Hrefnu mömmu hans Erlings og eftir það var farið á hátíðarsamkomu í Fíladelfíu. Við vorum búin að bjóða litlu fjölskyldunum okkar í hangikjötsveislu í kvöld en vegna veikinda varð ekkert af því en í staðinn fórum við bara með matinn til Írisar og fjölskyldu og áttum notalegt kvöld með þeim. Petra Rut stóð fyrir skemmtiatriðum, stóð uppá stól og söng mörg lög fyrir okkur og hneigði sig fallega eftir hverju lagi. Hún er svo skemmtileg stelpan.

Á heimleiðinni fórum við í okkar árlega jólaljósarúnt og sáum nokkur mjög fallega skreytt hús með flottum jólaljósum. Áður en við fórum hafði ég stillt vídeóið til að taka upp tónleikana með Garðari Cortes en ég setti inn vitlausan dag þannig að………ég auglýsi hér með eftir því hvort einhver hafi tekið þetta upp og tími að lána mér spóluna, ég var ferlega spæld.

Jæja, kæru lesendur mínir, ég vona að þið njótið þessara jóladaga eins vel og ég geri. Mér er efst í huga þakklæti fyrir að eiga fjölskyldu og vini og heimili til að koma í. Það er ekki sjálfsagt og markmið mitt er að rækta enn betur þessi bönd sem binda mig við fólkið mitt, hvort sem það er mín stórfjölskylda eða tengdafjölskyldan, systkini Erlings og makar þeirra.

Erling, Hrund og Eygló eru núna frammi í stofu, ég ætla að fara og slást í hópinn með þeim, við ætlum að horfa saman á mynd sem ég fékk í jólagjöf frá Eygló, “Shall we dance”. Skyldu þau vera búin að blanda jólaölið? Best ég gái……..

þriðjudagur, desember 20, 2005

Sagt um konur

Konur bera með sér styrk sem karlar dást að. Þær ala börn, þola hvers kyns harðræði og byrðar en gefa frá sér hamingju, ást og gleði.

Þær brosa þó þær langi til að orga. Þær syngja þó þær langi til að gráta.

Þær gráta þegar þær eru hamingjusamar og hlæja þegar þær eru taugaveiklaðar.

Konur bíða við símann eftir tilkynningu um að vinirnir hafi komist heim heilir á höldnu eftir að hafa ekið í gegnum hríðarbyl.

Þær geta annast börn og um leið starfað sem framkvæmdastjórar, lögfræðingar eða læknar, verið mótorhjólagelllur eða bara konan í næsta húsi.

Þær geta klæðst jakkafötum, kjólum, gallabuxum og einkennisbúningum.

Konur berjast fyrir því sem þær trúa á. Þær standa upp gagnvart óréttlæti.

Þær eru reiðubúnar að leggja á sig meiri vinnu til að koma börnunum að í betri skólum eða fjölskyldu sinni að hjá betri lækni.

Þær fylgja hræddum vinum sínum til læknis.

Konur eru heiðarlegar, tryggar og umburðarlyndar. Þær eru gáfaðar og vita hvaða kraftur liggur í þekkingunni en þær vita einnig hvernig hægt er að nota mjúku hliðina til að ná fram þeim áhrifum sem þarf.

Hjarta kvenna brestur þegar vinur fellur frá. Þær syrgja ef fjölskyldumeðlimur deyr en eru þó sterkar þegar þær halda að enginn styrkur sé eftir.

Kona getur gert rómantískt kvöld að ógleymanlegri stund.

Hjarta konu er krafturinn sem knýr veröldina áfram.

Konur ala ekki aðeins börn heldur gefa sínum nánustu vonir og gleði.

Þær hughreysta þá sem á þurfa að halda. Þær gefa vinum sínum og fjölskyldu siðferðislegan stuðning.

Það eina sem þær vilja fá í staðinn er faðmlag, bros og nærvera sinna nánustu.

sunnudagur, desember 11, 2005

Ég man ekki einu sinni hvenær..........


.......þetta gerðist síðast það er svo langt síðan. Þó var þetta mjög algengt hér áður fyrr að við sætum saman öll sex og áttum skemmtilega kvöldstund með popp, kók og nammi.

Á föstudaginn þegar Íris kom að sækja yngri skvísuna sína til mín þá sagðist hún vera búin að troða sér í Idol partíið sem yrði heima hjá okkur Erling þá um kvöldið. Ég hváði við enda vissi ég ekkert um fyrirhugað partí, hafði reiknað með að við Erling yrðum bara tvö heima þar sem Hrund var búin að plana að fara á unglingasamkomu og Eygló ætlaði með henni. Arna var í heimsókn með sínar skvísur og svo kom Eygló við eftir vinnu og fyrr en varði var sem sagt búið að plana partí, Hrund og Eygló hættu við að fara á samkomuna þegar þær fréttu að Íris ætlaði að koma hingað aftur (ekkert smá aðdráttarafl sem hún hefur) og Arna fór heim með dömurnar í svefninn og kom svo aftur rétt rúmlega átta.

Þannig atvikaðist þetta merkilega sem ég var að tala um, við Erling vorum heima með allar dæturnar rétt eins og í gamla daga en mér fannst reyndar fyndið að hugsa til þess hvað tengdasynirnir og ömmugullin eru orðin stór partur af okkur og ótrúlegt að hugsa til þess að einu sinni þekkti ég strákana “mína” ekki neitt og dömurnar voru ekki einu sinni til. Það vantaði allavega heilmikið í hópinn þetta kvöld en engu að síður skemmtum við okkur stórvel saman yfir Idolinu og vorum með misjafnar skoðanir á frammistöðu keppenda.

Annars hefur helgin verið mjög skemmtileg, í gær var partí heima hjá mömmu þar sem við systkinin komum öll saman með öllu okkar fólki og það var aldeilis glatt á hjalla í litla ömmuhúsinu hennar mömmu. Pabbi lék við hvern sinn fingur og lék við langafabörnin sín, ótrúlegt að þau séu orðin langamma og langafi. Mamma var með heimagerðar pizzur og brownies sem enginn gerir eins vel og hún.

Í dag vorum við svo bara heima hjónin og Danía Rut og Sara Ísold voru í heimsókn hjá okkur meðan mamma þeirra og Eygló skruppu aðeins í Smáralind. Það var mjög gaman að hafa þær og ég man líka vel eftir því hvað það var gott að skreppa aðeins barnlaus í búðir og fá að hafa stelpurnar aðeins hjá mömmu á meðan.

Erling er á lokaspretti í prófum og mikið verð ég fegin þegar þessari törn lýkur. Ég ætla að halda uppá það, Erling segir að hann þekki engan sem er jafn duglegur og ég að finna tilefni til að halda uppá eitthvað. Bara gaman að því enda er lífið svo stórmerkilegt og skemmtilegt.

Njótið aðventunnar……….munið eftir heita súkkulaðinu og þeytta rjómanum, tók forskot á það í dag með fjölskyldunni, þau elskuðu mig mjög eftir það……..

miðvikudagur, desember 07, 2005

Endir og nýtt upphaf

Það er mjög notalegt að vera “bara” heima þessa dagana. Það er vika síðan ég hætti að vinna á Verkvangi. Ég fékk flotta kveðjugjöf, fann að það var lögð alúð í að finna gjöf handa mér og mér þótti vænt um það. Svo er mér boðið að koma með þeim á jólahlaðborð á föstudaginn og það verður gaman að hitta þau, sérstaklega Mettu, að hinum ólöstuðum, hún er alveg frábær, góður vinnufélagi og vinur. Það er reyndar skrýtin tilfinning að vera ekki með fasta vinnu en ég er að prófarkalesa fyrir Samhjálp og það má alveg koma fram hér að ég tek að mér að lesa yfir allt mögulegt ef ykkur vantar svoleiðis, les t.d. handrit og ritgerðir fyrir skólafólk.

Síðasta sunnudagskvöld vorum við mæðgurnar að gera svona gamaldags aðventukransa og í gærkvöldi gerðum við heimabúið konfekt og Arna og Eygló skelltu nokkrum plötum af spesíum í ofninn svona til að gleðja pabba sinn. Þetta var mjög gaman fyrir utan það að Íris og Hrund voru ekki með okkur vegna prófaundirbúnings.

Ég hef líka verið í ömmuleik með stelpurnar hennar Írisar því hún er á kafi í prófalestri eins og pabbi hennar og eiga þau bæði tæpa viku eftir og við Karlott hlökkum mikið til þegar þessari törn lýkur. Þegar ég sótti Petru Rut á leikskólann í gær, með svörtu krullurnar mínar úfnar eftir rokið, þá horfði einn lítill gutti á mig og spurði svo; ert þú að leika Grýlu? Ég sagði nei og sagðist bara vera amman hennar Petru Rutar og hún kom fagnandi til mín, þá sagði sá stutti bara; nú er það, gaman. Skemmtilegt hvað þessi litlu börn eru hreinskilin. Þegar ég var svo að hjálpa Petru Rut í skóna leit hún á mig með eftirvæntingu í augunum og spurði; “erum við núna að fara heim til afa?” Hún er alveg meiriháttar og það er gaman að vera með þessum litlu, stóru krúttum.

Síðustu daga hef ég verið að umbreyta heimilinu í jólaland, hef pakkað niður heilmiklu af dótinu okkar Erlings og sett fallega jóladótið okkar upp í staðinn. Ég fann jólakerti sem Róbert Örn gaf mér í fyrra og ég hafði ekki klárað, ég var fljót að kveikja á því og nú ilmar húsið af jólalykt og jólaljósin lýsa upp skammdegið. Á morgun ætlar Erling að gefa sér tíma og setja ljósin upp á svalirnar og það verður gaman. Ég er svo mikið jólabarn og ég ætla aldrei að hætta að vera það. Þetta er svo skemmtilegur tími en það þarf samt að vera á varðbergi að láta ekki stressið í þjóðfélaginu ná tökum á sér. Ég er farin að henda jafnóðum auglýsingabæklingum sem streyma inn, það er tóm vitleysa að við þurfum á öllu þessu dóti að halda og það er alveg víst að við verðum ekkert hamingjusamari þótt við keyptum það allt saman.

Hitum súkkulaði og nýmjólk saman, þeytum rjóma, setjum mandarínur og osta á borðið og fallegan jóladisk undir geislann......klikkar ekki........mér líður svo vel, vildi bara segja ykkur það.

sunnudagur, desember 04, 2005

Katrín Tara eins árs

















Það var fyrir um ári síðan, nánar tiltekið aðfararnótt 3. desember. Það var þrengra í rúminu okkar Erlings en vanalega, jú það var lítil prinsessa sem fékk að vera hjá afa og ömmu um nóttina því foreldrar hennar, Íris og Karlott, voru vant við látin annars staðar. Litla prinsessan okkar, Petra Rut, var að fara að eignast systkini og það var ástæða þess að hún var hjá okkur þessa nótt. Undir morgun hringdi síminn og það var stolt móðir sem tilkynnti okkur fæðingu dóttur sinnar og fékk daman nafnið Katrín Tara.

Það er alveg ótrúlegt að það sé ár síðan þetta gerðist, mér finnst svo stutt síðan. Katrín Tara hefur vaxið vel og dafnað og er mjög dugleg stelpa. Hún er farin að ganga og hún er svo sannarlega ákveðinn einstaklingur sem veit hvað hún vill. Hún er líka mjög forvitin og þarf að skoða allt sem hún sér og opna allar skúffur sem hún getur, veit það sennilega frá Hrund frænku sinni að þeir sem eru ekki forvitnir vita einfaldlega minna.

Katrín Tara er sannkölluð Guðs gjöf inn í fjölskylduna okkar og mikill gleðigjafi eins og systir hennar og frænkur. Petra Rut er mjög dugleg að gæta hennar og er alltaf að segja mér að hún sé LITLA systir hennar og að hún sjálf sé STÓRA yndigullið okkar.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með eins árs afmælið þitt. Ég bið Guð að blessa þig og vaka yfir hverju þínu skrefi.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Það er ekki hægt annað en segja.........

..........að síðasta vika hafi verið viðburðarrík hjá mér.

Miðvikudagskvöldið var einstaklega vel heppnað. Við vorum 13 alls, því miður þá veiktist Dúdda frænka og komst ekki með okkur og við söknuðum hennar. Sigrún og Ásta voru reyndar ekki heldur með okkur núna, voru erlendis að sinna öðru en vonandi verða þær með okkur næst. Við söknuðum þeirra líka. Bleika þemað okkar var augljóst þegar litið var yfir hópinn og ekkert nema gaman að því. Lækjarbrekka stóð svo sannarlega fyrir sínu, það er alltaf jafn notalegt þar og svo var einnig þetta kvöld. Þjónarnir lögðu sig alla fram um að dekra við okkur og sjá um að okkur skorti ekki neitt. Maturinn var frábær og nóg af honum og eftirréttirnir ummmmmm.
Svo opnuðum við pakkana okkar og innihald þeirra eins misjafnt og við erum en ég held að allar hafi verið ánægðar með sitt.

Eftir eitt ár stefnum við á að fara saman til Ameríku og ég vona svo sannarlega að það verði af því, við erum víst svo skemmtilegur hópur að það verður örugglega mjög gaman hjá okkur þar líka.

Á föstudaskvöldið fór svo áttmenningafélagið saman út að borða en það höfum við gert árlega í, að ég held, 17 eða 18 ár og það er mjög skemmtilegur siður. Í áttmenningafélaginu erum við Erling, Barbro og Siggi, Gylfi og Christina og svo María og Svanur. Að þessu sinni fórum við á Oliver og ég verð bara að segja að ég mæli alls ekki með staðnum fyrir þá sem vilja fara og eiga skemmtilega stund með vinum sínum yfir góðum mat. Maturinn var að vísu góður og mátti nú alveg vera það því við biðum hátt í tvo klukkutíma eftir honum í ærandi hávaða, það var vonlaust að reyna að halda uppi samræðum við vini sína. Það var jú hægt að tala við þann sem sat við hliðina á manni en þar með var það upptalið. Oliver er kannski flottur staður til að fara á djammið en hentaði allavega ekki mér og mínum ekta manni. Eftir matinn fórum við hins vegar heim til Maríu og Svans og þar var allt annað uppi á teningnum. Það áttum við skemmtilegt samfélag yfir góðum kaffibolla, frábærri köku sem María bjó til og tónlistin var alveg að mínu skapi, Eric Clapton, góður.

Ekki var nú öll skemmtun upptalin því á laugardagskvöldinu hélt Hansi mágur minn uppá 60 ára afmælið sitt með flottri veislu austur í Fljótshlíð og Erling tók að sér að stýra veislunni. Honum tókst mjög vel upp með það, gerði það faglega og vel en samt var allt á léttu nótunum, brandarar fuku og boðið var uppá ýmis skemmtiatriði m.a. sungu systkinin brag um Hansa við harmonikuundirleik Sigga hennar Gerðu. Hansi var ánægður og gestirnir líka og þá er tilganginum náð. Við höfðum tekið á leigu lítið sumarhús á sama stað og veislan var haldin og það var mjög notalegt að geta bara farið þangað og sofið í stað þess að keyra suður um miðja nótt.

Við tókum samt daginn snemma því það var mikill lestur sem beið Erlings en hann fór í tvö próf í gær með aðeins klukkutíma milli bili og hvort próf var í 4 klukkutíma. Það var því lúinn og þreyttur maður sem kom heim til mín á sjöunda tímanum í gærkvöldi óviss um hvernig honum hafði gengið en lét þau orð falla að það væri óskynsamlegt að taka tvö próf sama daginn í lagadeild en svona var þetta bara sett upp.

Við enduðum gærdaginn á að kíkja á vini okkar Sigrúnu og Heiðar sem voru að koma frá Spáni. Það er alltaf jafn gaman að eyða kvöldstund með þeim.

Njótið aðventunnar vinir……

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Þriðjudagskvöld......

......við eldhúsborðið heima hjá mér, Erling er að lita á mér hárið, það sem hann getur ekki gert er held ég ekki til, hann er ótrúlega fjölhæfur þessi flotti maður minn.

Ég er að fara á stredderí annað kvöld og mikið hlakka ég nú til. Við erum að fara mæðgurnar, mágkonurnar, tengdadæturnar, frænkurnar og fleiri skvísur út að borða. Við höfum farið saman einu sinni á ári og þetta er í tíunda skipti og núna ætlum við að vera flottar á því. Ekkert minna en jólahlaðborð á Lækjarbrekku. Við verðum með þema, allar að koma í einhverju bleiku eða vera með eitthvað bleikt sýnilegt á sér. Svo ætlum við líka að hafa svona Litlu jóla stemmingu og koma allar með pakka. Ég er búin að kaupa mjög flottan pakka..........Já mikið hlakka ég til, mér finnst bæði gaman að fá pakka og ekki minna gaman að borða góðan mat eins og á mér má sjá.........

Jæja nú eru gráu náttúrulegu strípurnar mínar sem betur fer horfnar og svarti senjorítuliturinn minn prýðir nú höfuð mitt enda er ég mjög líklega hálf spænsk. Ég er þakklát fyrir þann sem fann upp háralitinn, án hans liti ég öðruvísi út.

Hrund er búin að vera á skrifstofunni í allt kvöld, er á msn að tala við Theu uppáhaldið sitt. Ég spjallaði líka aðeins við hana, sá hana í webcam, ég sakna hennar og hlakka til þegar hún kemur heim næsta sumar.

Núna er klukkan farin að halla í ellefu, við Erling sitjum í sófanum, hann er að læra, ég sit á náttfötunum og blogga en fylgist með Judging Amy með öðru auganu. Hún er nú alltaf jafn skemmtileg. Það er eitthvað svo notalegt hér hjá okkur hjónakornunum og ég veit að skynsamlegst væri að fara að sofa núna en ég tími því ekki en samt.......koddinn freistar nú svolítið.

Segi ykkur næst hvernig verður hjá okkur dömunum annað kvöld.......

mánudagur, nóvember 14, 2005

Klukk

Jæja, þá er bæði búið að klukka mig og kitla og hér er klukkið en kitlið kemur aðeins seinna.

1. Hvað er klukkan? 17:59

2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu? Erla Kristín Birgisdóttir

3. Hvað ertu kölluð? Erla, sumir vinir mínir kalla mig Perla en Erling kallar mig krúttlu en það er hans einkaleyfi, ég svara engum öðrum því

4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? Ekkert kerti

5. Hár? Mjög fallegt, svart og senjorítulegt enda er ég örugglega smá spænsk

6. Göt? Þessi sem við fæðumst öll með og svo fjögur auka í eyrunum

7. Fæðingarstaður? Reykjavík

8. Hvar býrðu? Reykjavík

9. Uppáhaldsmatur? Get ekki gert upp á milli alls þess góða sem Erling eldar en þegar hann býður í tveggja manna partý heima með öllu tilheyrandi……..ummmmmm

10. Einhvern tímann elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Nei minnir ekki, það er engin ástæða til að gráta yfir honum Erling

11. Gulrót eða beikonbitar? Beikonbitar, nema hvað

12. Uppáhalds vikudagur? Föstudagur og líka laugardagur, föstudagskvöld eru svo uppáhalds kvöldin mín

13. Uppáhalds veitingastaður? Argentína og Caruso, fer eftir buddunni

14. Uppáhalds blóm? 3 rauðar rósir af óvæntu tilefni, klikkar ekki

15. Hvaða íþrótt finnst þér skemmtilegast að horfa á? Horfi ekki á íþróttir

16. Uppáhalds drykkur? Pepsi max

17. Disney eða Warner brothers? Blanda af báðum

18. Uppáhalds skyndibitastaðurinn? Nings

19. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? Ekkert teppi á gólfinu en rúmteppið er beislitt og mjög fallegt

20. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Kiddi bróðir

21. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kreditkortinu? Annað hvort í Húsgagnahöllinni eða Tekk vöruhús

22. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? Horfi á imbann en sem betur fer leiðist mér ekki oft

23. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? Hef ekki hugmynd, ekkert sérstakt

24. Hvenær ferðu að sofa? Yfirleitt um miðnætti, alltof seint :o(

25. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? ???????????

26. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki???????????????????

27. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Fyrir Kötu mágkonu mína segi ég íslenski bachelorinn en svona í alvöru þá er það Fólk með Sirrý og Judging Amy

28. Með hverjum fórstu síðast út að borða? Erling

29. Ford eða Chevy? Musso ekki spurning

30. Hvað varstu lengi að klára að svara þessu? 12 mínútur

Njótið þess svo bara að vita allt þetta um mig....

laugardagur, nóvember 12, 2005

Birgir Davíð Kornelíusson - Blessuð sé minning hans

Þegar mamma hringdi í mig í vinnuna sl fimmtudag þá heyrði ég strax á henni að hún var ekki að færa mér nein gleðitíðindi. Því miður reyndist það rétt vera því hann Biggi frændi minn var dáinn, hafði dáið þá um morguninn á afmælisdegi móður sinnar, 10. nóvember.

Við vorum systrabörn, hann var 13 árum eldri en ég þannig að hann hefur verið samferða mér í gegnum lífið. Það er nú einhvern veginn þannig að maður er aldrei undirbúinn fyrir svona fréttir og þótt ég hafi vitað um nokkurn tíma að hann var veikur með krabbamein þá datt mér ekki í hug að hann myndi kveðja svona fljótt.

Ég man fyrst eftir honum á jóladag, þegar við vorum börn en það var ein af jólahefðunum að stórfjölskyldan hittist heima hjá Siggu og Kornelíusi, foreldrum Bigga. Hann var unglingur og fannst við örugglega óttaleg smábörn, hoppandi upp og niður flotta stigann í húsinu þeirra.

Löngu seinna þegar ég var að vinna á skrifstofu Hvítasunnukirkjunnar þá hafði ég oft samskipti við hann því hann kom gjarnan við hjá okkur og það var alltaf gaman að hitta hann. Hann var líka fastur punktur í öllum ferðalögum á vegum kirkjunnar og kom á flest mót sem voru haldin og fór þá gjarnan með mömmu minni á milli staða. Við Biggi áttum ferðaáhugann sameiginlegan og það var gaman að hitta hann þegar hann var kominn úr einhverri ferðinni og kom til að segja okkur ferðasöguna.

Hann var glaðlyndur og sjaldan sá ég hann reiðan við nokkurn mann. Hann lét samt alveg vita að því ef honum mislíkaði eitthvað en það var fljótt úr honum. Biggi vann á Múlalundi og ef okkur vantaði eitthvað þaðan á skrifstofuna þá var bara að hringja í hann og innan skamms var hann kominn með það sem vanhagaði um og ef ég sagði við hann að ég hefði getað sótt þetta þá fannst honum það nú óþarfi, hann væri hvort sem er á ferðinni. Stundum kom ég við hjá honum í vinnunni og verð að viðurkenna það að mér fannst gaman að vera frænka hans, hann var vel liðinn og augljóst að starfsfólkinu þótti vænt um hann.

Það er á engan hallað þótt ég segi að bónbetri mann var ekki að finna til að keyra eldri borgarana okkar á samverur fyrir þá sem kirkjan stóð fyrir. Biggi frændi átti marga vini og þeir eru margir sem sakna hans en mestur er þó söknuður foreldra hans sem svo sannarlega voru eins og klettar í hafinu í veikindum hans svo og systkina hans.

Um leið og ég og fjölskylda mín vottum minningu Bigga frænda virðingu okkar sendum við Siggu, Kornelíusi og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur og styrki á allan hátt.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

4ra****hótel á Puerto Rico eða Maspalomas????

…..þegar ég kom heim úr vinnu sl föstudag þá var aldrei þessu vant enginn heima.
Erling hafði tekið að sé einhverja smíðavinnu og var ekki kominn heim. Tilfinningin um helgarfrí framundan var frábær og ég hellti uppá könnuna og settist síðan niður og fletti blöðunum. Klukkutíma seinna kom Erling heim. Ég sá á honum að honum lá eitthvað á hjarta og þar sem hann hikar nú aldrei við hlutina ef hann hefur ákveðið eitthvað sagði hann án fyrirvara; Ég ætla að fara með þig til Kanaríeyja í janúar, líst þér ekki vel á að við höldum uppá afmælið þitt þar?

Forsaga málsins er sú að við höfðum verið að spá í að fara með vinum okkar, Sigrúnu og Heiðari, til Danmerkur í desember og upplifa þá einsöku jólastemmingu sem þar er fyrir jólin. Við fórum þangað fyrir þremur árum og það var einstakt, jólastemmingin í Tívolíinu og lyktin af brenndum möndlum á Strikinu er ómótstæðilegt.

Nú stóð til að endurtaka þann leik en af ýmsum ástæðum var, núna rétt fyrir helgi, ákveðið að fara ekki þetta árið. Erling verður ekki búinn í prófum fyrr 12. desember og Sigrún og Heiðar upptekið fólk og við náðum ekki að púsla þessu saman. Ég var nú frekar svekkt enda eru ferðalög eitt það skemmtilegasta sem ég veit.

Þess vegna kom það mér mjög skemmtilega á óvart að sá möguleiki hafi komið upp að fara til Kanaríeyja. Við fórum að velta fyrir okkur á hvaða hóteli við ættum að vera og niðurstaðan var sú að í gærkvöldi sagði Erling við mig; Erla mín, mig langar að fara með þig á virkilega fínt hótel, það hæfir þér best og nú stendur valið á milli þess að vera á 4ra **** hóteli á Puerto Rico, glæsihótel hátt uppi í hlíðum með frábæru útsýni eða á 4ra**** hóteli á Maspalomas og er alveg við ströndina.

Ég er alveg í skýjunum með þetta og velti stundum fyrir mér hvernig ég fór að því að ná í þennan meiriháttar mann…..hann er flottastur og ég elska hann.

En hvaða stað og hótel ættum við að velja??????????????
Hver er ykkar skoðun????????????

sunnudagur, október 30, 2005

Föstudagar eru góðir dagar.....

........þá er helgarfrí framundan og gott að koma heim. Á föstudögum er Erling yfirleitt kominn heim á undan mér og ilmurinn af rjúkandi kaffi kemur á móti mér. Mér finnst það notalegt og það er fátt sem getur orðið til þess að ég drífi mig ekki heim strax klukkan þrjú þegar vinnu lýkur. Þessi helgi sem nú er komin að enda var engin undantekning hvað notalegheit varðar. Veðrið var reyndar frekar napurt þegar ég var á heimleið á föstudaginn en ég var á jeppanum og því óhult fyrir öllu veðri. Ég fór í saumaklúbb um kvöldið, barðist þangað eins og sannri hetju sæmir, á jeppanum og það var bara eins og í Húsasmiðjuauglýsingu, Ekkert mál. Stelpurnar voru hressar og skemmtilegar, mikið spjallað og gætt sér á þessum líka fínu veitingum hjá henni Sigrúnu.

Á laugardagsmorgni rak Erling upp stór augu þegar ég kom fram rétt rúmlega tíu og minnti mig á að það væri ekki komið hádegi, hvað ég væri eiginlega að gera á fótum svona “snemma.” Reyndar var einhver undarlegu tónn í röddinni hans þegar hann sagði “snemma.” Það var reyndar skýring á þessum óvenjulega fótaferðatíma húsmóðurinnar en Barbro vinkona mín var búin að segjast ætla að kíkja í morgunkaffi til mín og Siggi ætlaði að koma með henni. Þau eru mjög góðir vinir okkar og hvað gerir maður ekki fyrir vini sína, ja maður spyr sig. Jú, það var auðvitað ekkert mál að vakna “snemma” svona einu sinni þegar von var á góðum gestum enda stóð það heima að þegar sturtan var búin og ég búin að setja upp andlitið þá birtust þau. Við áttum gott spjall við þau eins og vanalega. Þau eru svo stór partur af lífi okkar enda höfum við Barbro verið vinkonur í 34 ár eða síðan við vorum 11 ára.

Seinni partinn fórum við síðan í afmæli til Guðjóns hennar Sirrýjar systur minnar en hann er nú kominn til okkar á fimmtugsaldurinn og við bjóðum hann velkominn í hópinn. Veislan var mjög fín og þeim til sóma.

Kvöldið áttum við Erling svo tvö saman þar sem dæturnar fóru á eitthvað flakk. Við kveiktum á kertum og reykelsi og eins og vanalega þegar við erum bara tvö þá var mikið talað saman og framtíðarplönin rædd af kostgæfni. Það eru svo spennandi tímar framundan hjá okkur, við erum að leggja línurnar fyrir seinni hálfleik og það er gaman.
Eygló kom síðan heim á undan Hrund og tók þátt í spjallinu með okkur.

Í dag komu svo Íris og Karlott með litlu dömurnar sínar og við borðuðum saman í hádeginu, þær algerlega hafa mann í vasanum þessar litlu hnátur og bræða mann með einu litlu sposku brosi. Ætli það sé eitthvað sem maður myndi ekki gera fyrir þær??

Seinni partinn fórum við síðan í vöfflukaffi til vina okkar í Grafarvogi, Sigrúnar og Heiðars og ræddum framtíðarplön okkar, jólin framundan, sumarfrí og margt fleira.
Góðir vinir eru mikil Guðs gjöf og ég er Honum þakklát fyrir vini mína.

Nú á ég bara eftir að vinna í Verkvangi í einn mánuð og ég er að uupplifa það hvernig Guð opnar fyrir manni dyr þegar aðrar lokast. Ég er þess fullviss um að þó svo ég hafi misst vinnuna vegna aukinnar samkeppni á þeim markaði sem Verkvangur starfar á og varð til þess að fyrirtækið þurfti að minnka við sig og fækka fólki, þá blasir framtíðin við mér og ég mun vinna við það sem mér finnst mjög skemmtilegt. Ég er með ýmislegt á prjónunum, hef verið á spennandi námskeiði sem varðar atvinnulega framtíð mína. Það er gaman að vera til og ég horfi björtum augum fram á veginn.

miðvikudagur, október 26, 2005

Hann á afmæli í dag, hann lengi lifi


Kalda vetrarnótt fyrir 46 árum fæddist hann á efri hæðinni í húsi foreldra sinna. Hann var númer 7 í röðinni, fyrir voru 2 systur og 4 bræður og 4 árum seinna fæddist svo yngsti bróðirinn. Þótt ekki sé lengra síðan þá tíðkaðist að konur fæddu börnin heima og sinntu jafnt úti- sem innistörfum í hvaða veðri sem var, allavega í sveitinni. Hún tengdamóðir mín var og er hetja og vílaði ekki fyrir sér að þvo þvotta í köldum læknum komin að barnsburði. Hann var bara 16 ára þegar við kynntumst, með mikið krullað, sítt og strítt hár. Hann átti líka skellinöðru, svaka töffari og ég minnist þess þegar við Barbro vinkona fórum í helgarheimsóknir austur í Kot og fengum að vera aftan á til skiptis. Ég var orðin skotin í honum og ég held að hann hafi þá líka verið skotinn í mér. Allavega urðum við svaka góðir vinir og fórum að skrifast á og það var margt brallað þegar hann kom til Reykjavíkur um helgar. Pabbi og mamma samþykktu hann og daginn sem ég varð 17 ára trúlofuðum við okkur og okkur fannst við fullorðin. Lífið var alveg stórskemmtilegt og öll tækifæri notuð til að gera það enn skemmtilegra. Við giftum okkur 18 ára og í dag, 27 árum seinna, orðin afi og amma, þá finnst okkur lífið enn skemmtilegra en þá. Við erum enn betri vinir og eyðum miklum tíma saman. Hann er besti vinur minn og í mínum huga er hann einfaldlega flottastur.

Já, hann Erling MINN á afmæli í dag, en hann sagði við mig í gær að ef ég myndi ekki minna hann á það þá myndi afmælisdagurinn hans líða hjá án þess að hann myndi muna eftir honum. Það er víst engin hætta á að ég myndi gleyma því að ég ætti afmæli.
Ég er álíka mikið afmælisbarn og hann er lítið afmælisbarn. Samt finnst okkur gaman að fá gesti og notum afmælisdaga óspart til að gera okkur dagamun og finnst gaman ef ættingjar og vinir kíkja við.
Erling minn, ég vil óska þér innilega til hamingju með daginn og vona að dagurinn verði skemmtilegur hjá þér. Allavega færðu köku í kvöld :o) Ég elska þig meira í dag en í gær og bið Guð að við fáum að njóta elliáranna saman, tvær krumpaðar sveskjur sem ganga saman hönd í hönd.

miðvikudagur, október 19, 2005

Níunda skvísan er fædd....ég er svo sannarlega rík


Hér erum við saman nöfnurnar...
Erla og Þórey Erla











Það var frekar svefnlaus nótt, aðfararnótt mánudagsins sem leið 17. október. Nokkrum sinnum um nóttina vaknaði lítil stúlka og umlaði, vantaði snuðið sitt. Hún sofnaði um leið og það var komið á sinn stað. Þess á milli vaknaði ég við sms frá Örnunni minni sem var á fæðingardeildinni að eiga sitt þriðja barn. Það var ástæða þess að ég svaf ekki heima hjá mér heldur var ég hjá tveimur af ömmustelpunum mínum og það var Sara Ísold sem vaknaði af og til en Danía Rut er orðin svo stór að hún steinsvaf alla nóttina. Það var svo um hálf sex leytið að langþráða símtalið kom, lítil prinsessa hafði litið dagsins ljós rúmlega fimm um morguninn. Hún var algert grjón 12 merkur og 48 cm með mikið og dökkt hár eins og systur hennar voru. Þessi litla prinsessa er níunda stúlkan okkar Erlings í röð, við eigum 4 dætur og 5 dótturdætur og geri aðrir betur. Ella systir reiknaði út að líkurnar á þessu væri 1 á móti 512, pælið í því. Þær mæðgur komu heim í gær og heilsast vel en það sama verður ekki sagt um okkur öll því ferleg pest hefur herjað á okkur og Davíð t.d. rétt náði að vera viðstaddur fæðinguna og þurfti svo að fara heim með mikla magaverki og flökurleika. Heima hjá mér lágu Hrund, Erling og Eygló en sem betur fer lagðist ég ekki í rúmið fyrr á kvöldi mánudags þegar litlu ömmustelpurnar voru komnar í svefn heima hjá sér og pabbi þeirra tekinn við. Ég vona bara að ég verði orðin nógu góð til að fara í vinnu á morgun en Erling og Eygló fóru út í dag en eru samt ekki alveg góð. Ég vona bara lesendur mínir að þið sleppið við þetta. Hef þetta ekki lengra í bili en ég var að fá að vita að yngsta prinsessan mín heitir Þórey Erla og það er mér mikill heiður að foreldrarnir skyldu velja henni nafnið mitt ásamt nafni frænku Davíðs sem honum þykir mjög vænt um.

föstudagur, september 30, 2005

TAKK FYRIR....

Ég sem hélt að ég slyppi en nei, nei, bara búið að klukka mig og ekki bara einu sinni eða tvisvar, nei þrisvar. Hér koma 20 gagnslausar og algerlega tilgangslausar staðreyndir um mig, geri 20 svona til vonar og vara ef einhverjum skyldi detta í hug að klukka mig einu sinni enn.

1. Ég er dekurrófa, það er allt látið eftir mér heima hjá mér og ég kann alveg svakalega vel við það.
2. Ég fer ekki í rússíbana. Fór einu sinni í einn alveg hræðilegan, það var í minni fyrstu utanlandsferð og ég kallaði ýmist á mömmu eða Guð allan tímann og hét því að ef ég slyppi lifandi úr þessu þá færi ég ekki aftur. Hef staðið við það núna í 23 ár.
3. Mér finnst pallaleikfimi hræðilega leiðinleg. Að hoppa upp á palla og niður aftur, eiga svo í ofanálag að gera flókin spor í leiðinni, nei það er ekki fyrir mig, ég ruglast svo mikið.
4. Ég HATA geitunga. Ég hef oft skemmt samferðafólki mínu með tilþrifum þegar þessi viðbjóðslegu kvikindi gerast svo djörf að bjóða sér inn þar sem ég er viðstödd. Ég vil þeim allt illt.
5. Það er kisa á heimilinu sem hún Hrund á og ég er mjög ánægð með það. Ég hefði reyndar ekki trúað því að mér ætti eftir að líka vel að hafa kött hér heima en svo er hún Skvísa bara alveg meiriháttar og ég myndi sakna hennar ef hún færi.
6. Mér finnst gaman að dansa og er að hugsa um að drífa mig í að læra dans og hef reyndar fengið samþykki frá Erling að við förum saman að læra dans þegar hann er búinn með skólann en fyrr er víst ekki tími hjá laganemanum nema til að lesa þessar leiðinda skruddur.
7. Ef ég ætti að velja á milli þess að fá aldrei framar ís eða sælgæti myndi ég hiklaust fórna namminu. Ís er svoooooo góður.
8. Ég get helst ekki verið með húfu því ég þoli ekki að eitthvað sé yfir eyrunum á mér.
9. Ég safna gömlum antikbollum, vil helst hafa þá litla og með sætri mynd á.
10. Ég er með alveg hrikalega mikla innilokunarkennd, gæti örugglega aldrei farið í svona rannsókn þar sem manni er rennt inn í hólk og svo á maður að vera grafkyrr MJÖG LENGI eða í svona hálftíma. Svo væri ég líka hrædd um að ég myndi festast þar inni :o)
11. Ég elska að sofa út um helgar, dætur mínar vita til dæmis að það þýðir ekki að hringja í mig fyrir hádegi þá daga. Þær skilja þetta reyndar ekki en hvað get ég gert að því?
12. Bleikur er uppáhaldsliturinn minn enda klæðir hann mig bara nokkuð vel.
13. Skemmtilegustu búðir sem ég fer í eru gjafavörubúðir og svo klikkar ekki að skoða (og kaupa) amerískt jóladót.
14. Ég veit hvað rómantík er. Þegar við Erling vorum á Mallorka árið 2000 þá var það eitt kvöldið eftir ánægjulegan kvöldverð á veitingahúsi að við röltum upp á hótel en komum við á ströndinni. Við löbbuðum niður í fjöru, ég fór úr skónum, lyfti pilsinu aðeins upp og óð í grunnri fjörunni. Það var tunglskin og þá spurði Erling mig að því hvað rómantík væri. Alveg ósjálfrátt þá rann svarið út úr munni mínum og Erling var bara ánægður með svarið.......
15. Ég er alveg rosalega ópólitísk og reyndar leiðist mér alveg svakalega að hlusta á pólitískar umræður.
16. Ég er dugleg að rækta garðinn minn og fjölskylduna mína.
17. Skemmtilegasta vinna sem ég veit er að vinna með tölur, skýrslur og að koma skipulagi á hluti sem eru í óreiðu.
18. Ég er mikið jólabarn og þegar aðventan byrjar þá skipti ég um hluti á heimilinu, pakka niður skrautmunum og tek upp allt fallega jóladótið mitt. Ég elska það að gera jólalegt. Ég eyði aðventunni ekki í brjáluð þrif heldur nýt ég þess að vera heima með skemmtilegu fjölskyldunni minni, kveikja á kertum og bera fram rjúkandi heitt súkkulaði með þeyttum rjóma. Svo setur maður flottan jóladisk undir geislann.
19. Eftir því sem ég hugsa meira um setningar eins og; Hamingjan er ekki hlutir, hún er heimagerð og: Hamingjan er ekki að fá það sem maður vill heldur að vilja það sem maður hefur, því betur líður mér því þá geri ég mér betur grein fyrir því hvað maður hefur mikið um það að segja sjálfur hvernig manni líður.
20. Þessi staðreynd er reyndar hvorki gagnslaus eða tilgangslaus en það er bara einfaldlega staðreynd að ég á besta mann í heimi, mér finnst hann Erling alveg frábær og flottastur og hann hefur lag á að láta mér líða eins og drottningu og hann getur alltaf komið mér í skilning um hvernig hlutirnir eru þegar ég sé þá í vitlausu ljósi. Framkoma hans er þannig að ég veit alltaf að ég er elskuð. Ég einfaldlega elska þennan mann minn alveg svakalega mikið.

Þá læt ég þessu lokið í bili og hér með klukka ég Heiðar mág minn og Birgir Stein frænda minn.

laugardagur, september 24, 2005

"Þú ert fullkomin að utan…….

……..en þú þarft að styrkja þig að innan".
Það verður aldrei um mig sagt að ég sé fullkomin að utan og ekki einu sinni að ég sé nokkuð þokkalega útlítandi að utan enda var þessi setning ekki sögð um mig heldur sagði lýtalæknirinn þessi orð við ofurfyrirsætuna sem leitaði til hans og vildi gjarnan leggjast undir hnífinn hjá honum til að reyna að auka sjálfstraustið. Merkilegt. Maður skyldi nú halda að ofurfyrirsætur sem hafa atvinnu af því að láta taka af sér myndir, því þær líta svo vel út, skuli bæði hugsa og framkvæma það að fara til lýtalæknis út af útlitinu. Þær eru þá eftir allt á sama stað og við þessar venjulegu konur sem eru sjaldan eða aldrei ánægðar með sig? Þegar konur hittast þá er nánast undantekningarlaust farið að tala um aukakíló, hrukkur, hárið ýmist of slétt eða of liðað og svo mætti lengi telja. Ég held að við konur séum oft ekki nógu duglegar að rækta okkar innri mann, huga að andlegri heilsu okkar eða sinna því sem okkur finnst skemmtilegt og við getum ekki alltaf kennt tímaleysi um. Ef ég tek sjálfa mig sem dæmi þá hef ég allan heimsins tíma til að gera það sem mig langar til. Heimilið er létt, við Erling erum bara tvö með yngstu dekurdolluna okkar. Eftir vinnu á daginn þá vil ég helst flýta mér heim til að fara að gera eitthvað þar, tel mér trú um að ég hafi ekki tíma til að fara í ræktina, hef ekki tíma til að kíkja til vinkvenna minna eða rölta aðeins í búðir. Þetta er auðvitað mesta bull því þegar ég kem heim þá er ég ekki ofvirk við að laga til og Erling eldar alltaf kvöldmatinn þannig að ekki þarf ég að hugsa um það heldur. Ég fór og hitti heimilislækninn minn í vikunni og talið barst meðal annars að breytingarskeiðinu margfræga. Hún sagði mér að flestar konur finna ekki neitt fyrir þessu tímabili líkamlega séð en hinsvegar verði margar konur daprar og hætta að finna tilgang með lífinu en það sé ekki síst vegna ytri aðstæðna sem breytast hjá konum. Börnin fara að fara að heiman, hjón hafa ekki sömu áhugamál þótt nú sé meiri tími til að sinna þeim en áður og konunni fer að finnast hún jafnvel óþörf á heimilinu. Við konur verðum að vera duglegar að rækta okkar innri mann og þar þarf hver og ein að finna þá leið sem henni hentar en ég held að í framhaldinu þá smátt og smátt styrkist sjálfsmynd okkar og það hefur áhrif á útlit okkar. Okkur fer að líða betur, við verðum glaðari, berum okkur betur, erum duglegri að hafa okkur til og pælum meira í hvernig fatnaði við erum og svo mætti lengi telja.
Lífið tekur oft skrýtnar beygjur sem við gerum ekki alltaf ráð fyrir og það á jafnt við um mig og aðra og án nokkurs fyrirvara var ég var sett í slíka beygju fyrir fimm vikum. Beygjan hefur valdið mér andvökunóttum, ég upplifði höfnun og hef staðið mig að undarlegri depurð af hennar völdum. Það er mjög ólíkt mér að vera döpur og ég ræddi það aðeins við lækninn minn og ráðið hennar var; drífðu þig aftur í líkamsræktina. Hún sagði mér að góðar þolæfingar úti eða inni á hlaupabretti gefi sömu eða jafnvel betri raun en þunglyndislyf, það gera efnin sem líkaminn leysir sjálfur út við áreynslu.
Já við erum þá fullkomin sköpun eftir allt saman.
Mig langar að reyna að vera duglegri að gefa mér tíma fyrir sjálfa mig, rækta vinkonur mínar sem ég veit að ég hef vanrækt, gott spjall við bestu vinkonuna er á við marga tíma hjá sálfræðingi þó svo að ég viti að stundum þurfum við á þeirra faghjálp að halda. Hvað beygjuna varðar þá er það nú þannig að þegar einar dyr lokast þá er pottþétt að Guð opnar aðrar dyr og þannig verður það líka hjá mér því ég er undir náð hans, hún er ný á hverjum degi og nægir mér.

föstudagur, september 23, 2005

Diddú er frábær

Það er vægt til orða tekið að segja að hún Diddú hafi heillað tónleikagesti uppúr skónum í kvöld. Fólkið margstóð upp til að hylla hana í lok tónleikanna og hún var einnig margklöppuð upp. Það er reyndar engin furða því hún er alveg einstök. Hún tók hverja aríuna eftir aðra og það var magnað að sjá hana leika upptrekkta dúkku um leið og hún söng og tvisvar þá lék hún það að það var að hægjast á "dúkkunni" þangað til það hætti að heyrast í henni og hún beygði sig niður. Þá stökk fyrst einn fiðluleikarinn til hennar og "trekkti" hana upp þangað til það réttist úr henni og hún hélt áfram að syngja "upptrekkt" og fín. Svo gerðist það aftur að hún var ekki lengur upptrekkt og þá var það hljómsveitarstjórinn sem "trekkti" hana upp. Þetta var frábært.
Í einu atriðinu með sinfóníuhljómsveitinni þá lokaði ég bara augunum og naut þess í botn að hlusta á þetta framúrskarandi tónlistarfólk leika listir sínar með hljóðfærin. Diddú á engan sinn líkan að mínu mati og það er öruggt að við mæðgurnar áttum mjög skemmtilega kvöldstund saman í Háskólabíói og ég verð að segja að það gladdi mig að vera þarna með 16 ára gamalli dóttur minni og fylgjast með henni njóta tónlistarveislunnar og sjá "idolið" sitt fagna 30 ára söngafmæli sínu. Hrundin mín, takk fyrir samveruna, þetta var mjög gaman.
Þegar við svo komum heim var Eygló hálf sofandi í sófanum enda á hún að mæta í vinnuna kl 8 í fyrramálið en við Hrund getum sofið til kl tíu. Við mæðgurnar þrjár kíktum á upptöku af leitinni að piparsveininum sem fram fer á Skjá einum. Sitt sýnist hverjum um þessa þætti en ég er allavega nógu forvitin að kíkja og sjá hvort ég þekki nú ekki einhvern. Ég er nú svo gömul að ég þekki bara afa einnar stelpunnar sem er að reyna að fá að taka þátt, pælið í því, þekki hana ekki, ekki foreldra hennar heldur afa hennar!!!!! Svo sá ég að einn að þeim sem vilja verða "Piparsveinninn" er í bekk með Erling í HR.........Nú er ég að fara að hitta koddann minn, minni ykkur lesendur mínir á að njóta lífsins, það er svo skemmtilegt............

föstudagur, september 16, 2005

Dýraskólinn

Eitt sinn fyrir langa löngu ákváðu nokkur dýr að taka sig saman
og drýgja einhverja hetjudáð til þess að mæta áskorun nútímans.
Þau voru sammála um að farsælasta leiðin væri að stofna skóla.
Dýrin tóku upp virka námskrá
sem samanstóð af hlaupum, flugi, sundi og klifri.
Námskráin tók yfir allar athafnir dýranna og
margskonar líkamlega færni þeirra.
Til þess að auðvelda umsjón með námskránni og gæta fylsta réttlætis,
þurftu öll dýrin að leggja stund á allar námsgreinarnar og tóku
ávallt samræmt próf í greinunum.

Öndin var frábær í sundi, meira að segja betri en sjálfur kennarinn,
en hún náði naumlega fullnægjandi einkunn í flugi
og var afar lélegur hlaupari.
Þar sem hún hljóp of hægt var hún látin sleppa sundi
og æfa hlaup í staðinn í sérstökum hlaupsérkennslutímum.
Þessu var haldið til streitu þar til sundfitjaðir fætur hennar
voru orðnir svo sárir að hún átti erfitt með að synda
og varð því aðeins meðalnemandi í sundi í lok annar.
En meðaltal var viðunandi í skólanum svo enginn kippti sér upp við það.
Nema öndin.

Kanínan var í byrjun skólagöngunnar best í hlaupum,
en fékk fljótlega taugaáfall sökum mikils álags við að bæta sig í sundi.
Kanínur og sund eiga illa saman.

Íkorninn var frábær í klifri þar til hann smám saman missti sjálfstraustið
vegna flugtímanna. Kennarinn vildi nefnilega að hann hæfi sig á loft
frá jörðu í stað þess að stökkva af trjákrónunum og niður til jarðar.
Hann fékk líka vöðvakrampa af of mikilli áreynslu.
Í einkunn fékk hann síðan C í klifri og D í hlaupum.

Örninn var vandræðafugl. Reynt var aga hann, en með engum árangri.
Í klifurtímum var hann fyrstur allra að komast efst upp í tréð,
en þrjóskaðist við að nota sína eigin aðferð til að komast þangað.
Hann neitaði algjörlega að nota þá aðferð sem ætlast var til af skólanum
og lenti útí kuldanum.


Í lok skólaársins var það svo kamelljón sem synti allvel
og gat líka hlaupið, klifrað og flogið dálítið
sem fékk hæstu meðaleinkunn og dúxaði þar með í skólanum.
(Höfundur óþekktur)
Hvað lærdóm drögum við af þessari sögu? Það væri gaman að fá umræður hér um það svo látið nú sjást frá ykkur skrif og skoðanir.......

þriðjudagur, september 13, 2005

"Ég hef lært"

Þegar ég var yngri, vóg ég nokkrum kílóum minna.
Ég þurfti aldrei að halda maganum inni þegar ég fór í þröngan kjól.
En nú, þegar ég er orðin eldri, hefur líkami minn brotist til frelsis.
Og um þann hluta hans sem einu sinni var mitti,
eru þægileg teygjanleg efni.
Ítölsku skórnir þurfa að vera tveim númerum stærri en áður,
ef ég kem þá fótunum yfirleitt í þá,
og skrefbótin á sokkabuxunum sígur allt of oft niður undir hné.

En ég hef einnig lært að það skiptir engu máli hvað gerist,
eða hversu dimmt virðist yfir öllu í dag.
Lífið heldur áfram og á morgun kemur betri dagur.

Ég hef lært, að það segir mikið til um manneskjuna
hvernig hún bregst við þessum þremur hlutum
1. Rigningardegi 2. Týndum farangri 3. Flæktu jólatrésskrauti

Ég hef lært, að óháð því hvernig samband okkar er við foreldra okkar,
komum við til með að sakna þeirra, þegar þau eru horfin á braut.

Ég hef lært, að það að verða sér úti um peninga og hluti,
er ekki það sama og að skapa sér líf.

Ég hef lært, að af og til býður lífið okkur upp á annað tækifæri.

Ég hef lært, að maður getur ekki farið í gegnum lífið
með hornabolta-hanska á báðum höndum.
Öðru hvoru verður maður líka að gefa boltann til baka.

Ég hef lært, að þegar ég ákveð eitthvað beint út frá hjartanu,
þá hef ég yfirleitt hitt á hina einu réttu ákvörðun.

Ég hef lært, að þó að ég sé sár, þurfi ég ekki að særa aðra.

Ég hef lært, að á hverjum degi eigi maður að rétta öðrum höndina.
Allir þurfa hlýjar hugsanir og vinalegt klapp á axlirnar.

Ég hef lært, að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Ég hef lært, að það sem þú segir og gerir vill gleymast,
en fólk gleymir ekki hvernig þú lætur því líða.


"Stolið" af netinu

sunnudagur, september 11, 2005

Enn er afmæli...

....Karlott tengdasonur minn, annar af tveimur, á afmæli í dag. Hann er kominn á fertugsaldurinn og mér finnst það reyndar alveg ótrúlegt að jafn ung kona og ég eigi svona rosalega gamlan tengdason :o) Karlott kom inn í líf okkar árið 2000 og þá kynntist ég í fyrsta skipti karlmanni sem getur talað meira en sumar konur :o) Ég kunni strax vel við hann og nánari kynni hafa leitt í ljós að hann er frábær og ljúfur strákur. Hann er eins og tengdapabbi sinn með ólæknandi veiðidellu og ég held reyndar að hvorugur þeirra vilji læknast af því. Við vorum í mikilli veislu heima hjá þeim í gærkvöldi og þar rifjuðu foreldrar hans og bróðir upp sögur af honum þegar hann var strákpatti vestur á Ísafirði og höfðum við öll gaman af þeim sögum. Þeir hafa greinilega verið prakkarar bræðurnir en verið svo heppnir að eiga góða foreldra sem bæði leyfðu þeim að njóta sín og kenndu þeim á lífið. Karlott minn, til hamingju með daginn og ég bið Guð að blessa þig ríkulega og gangi þér vel við veiðarnar og í vetur þegar þú sérð Írisi ekki vegna anna við námsbækurnar þá geturðu alltaf sest niður og hnýtt flugur.

föstudagur, september 09, 2005

"Spam"

Það hefur aðeins borið á spam - kommentum á síðum blogspot. Þeir hafa smíðað gildru sem heitir "word verification". Það virkar þannig að ef þú ætlar að kommenta hjá mér þarftu bara að herma eftir nokkrum stöfum sem birtast neðst á síðunni þegar þú gefur komment. Svo endilega haldið áfram að segja mér skoðanir ykkar á því sem ég skrifa hverju sinni. Það er svo gaman.
Eigið frábæran dag og bráðum koma ný skrif frá mér. Þangað til, lifið lífinu lifandi........

mánudagur, september 05, 2005

"Fólk eldra en 30 ára ætti að vera dáið"

Ég var að spjalla um daginn við vin minn um ,,þá gömlu góðu daga”
og við komumst eiginlega að því að fólk
sem er eldra en 30 ára ætti í rauninni að vera dáið.
Já, samkvæmt löggjöfum og skriffinnum nútímans ættu þau okkar
sem voru börn á 5. 6. 7. og fyrrihluta 8. áratugar
síðustu aldar ekki að hafa lifað af.
Barnarúmin okkar voru máluð með blýmálningu.
Það var engin barnalæsing á lyfjaglösum, hurðum eða skápum
og þegar við hjóluðum notaði ekkert okkar hjálm.
Sem börn sátum við í bílum án öryggisbelta eða –púða.
Að fá far á vörubílspalli var sérlega gaman.
Við borðuðum brauð með smjöri, drukkum gos með sykri,
en fæst okkar lentu í offituvandamálum, því við vorum alltaf úti að leika.
Við deildum gjarnan gosflösku með öðrum
og allir drukku úr sömu flösku án þess að nokkur létist.
Við vörðum löngum stundum í að byggja kassabíl úr dóti og drasli
og þutum á honum niður brekkuna,
bara til að uppgötva að við höfðum gleymt bremsunum.
Eftir nokkrar veltur lærðum við að leysa vandamálið.
Við fórum að heiman snemma á morgnana til að leika okkur
allan daginn og komum aftur heim í kvöldmat.
Enginn hafði möguleika á að ná í okkur allan daginn.
Engir farsímar. Ha, engir farsímar? Óhugsandi!
Við áttum ekki Playstation, Nintendo 64, X-Box,
enga tölvuleiki ekki fjölmargar rásir í sjónvarpinu, ekki vídeó,
ekki gervihnattasjónvarp, ekki heimbíó, farsíma,
heimilistölvu eða spjallrásir á Internetinu.
Við eignuðumst vini! Við fórum bara út og fundum þá!
Við duttum í skurði, skárum okkur, fótbrotnuðum,
brutum tennur, en enginn var kærður fyrir þessi óhöpp.
Þetta voru jú óhöpp. Það var ekki hægt að kenna neinum um –
nema okkur sjálfum. Manstu eftir óhappi?
Við slógumst, urðum blá og marin og lærðum að komast yfir það.
Við lékum okkur í nýbyggingum,
fundum upp leiki með naglaspýtum og drasli og átum maðka.
Þrátt fyrir aðvaranir voru það ekki mörg augu sem duttu út
og ekki lifðu maðkarnir inni í okkur til eilífðar.
Við hjóluðum eða gengum hvert til annars, bönkuðum á dyrnar,
gengum inn og létum eins og heima hjá okkur.
Við lékum okkur úti eftir kvöldmat, fórum í fallin spýta,
eina krónu, eltingaleik eða feluleik, svo ekki sé minnst á löggu og bófa.
Það þurfti engar félagsmiðstöðvar eða neina til að stjórna okkur.
Við stjórnuðum okkur sjálf.
Sumir nemendur voru ekki eins glúrnir og aðrir, þeir lentu í tossabekk.
Hræðilegt. En þeir lifðu af.
Það var farið í þrjúbíó á sunnudögum og Andrés Önd var á dönsku,
sem hefur hjálpað mörgum námsmanninum
að fóta sig í norðurlandamálunum seinna meir.
Það var jú ýmislegt annað sagt en Gisp! og Hva? í þeim.
Þessi kynslóð hefur alið af sér fólk sem er tilbúið að taka áhættu,
góð að leysa vandamál og bestu fjárfestar nokkru sinni.
Síðustu 50 ár hafa verið sprengja nýsköpunar og nýrra hugmynda.
Við áttum frelsi, sigra, ósigra og ábyrgð
og við lærðum að takast á við það allt saman.
Við sem ólumst upp áður en löggjafi og stjórnvöld
settu lög og reglur um líf okkar -
sem er okkur sjálfum fyrir bestu.
Við áttum gott líf!

Gunnar Kr. Sigurjónsson,
"stolið" úr Kópavogspóstinum

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Frumburðurinn á afmæli í dag, 27 ára......

Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati þá örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?
Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið. Við fórum áðan og kíktum á hana og Karlott á fallega heimilinu þeirra, Petra Rut og Katrín Tara sváfu vært og við áttum saman notalega kvöldstund. Afmælisbarnið er reyndar eitthvað lasin, er með einhverja undarlega verki í herðablöðum og við lærleggskúlurnar (vona að þið skiljið mig) og þetta leiðir niður í fætur og veldur henni andvökunóttum en hún á að hitta lækni á morgun svo vonandi finnst hvað er að hrjá hana.
Íris mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, ég bið Guð að blessa þig ríkulega, lækna þig af þessu sem er að hrjá þig og gefa þér alla þá visku sem þú þarft á að halda í lögfræðináminu.
Ég elska þig og er mjög stolt af þér

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Góð helgi að baki...

Eg vaknaði fyrst kl hálfníu en á laugardagsmorgni, í mínum huga, jafngildir það því að vakna um miðja nótt svo ég sneri mér á hina hliðina og augnabliki seinna var ég svifin inn í draumaveröldina á ný. Þegar ég opnaði augun næst var kominn kristilegur fótaferðatími (samkv. minni skilgreiningu) enda klukkan að verða hálftólf. Þar sem ég vissi að Erling biði frammi með nýlagað kaffi og rjúkandi heitt brauð, dreif ég mig fram, undir sturtuna og var komin fram í eldhús hálftíma seinna. Já, laugardagar eru bestu dagar vikunnar. Við tók lestur dagblaðanna og mig langar að vekja athygli ykkar á viðtali í Fréttablaðinu við hana Jónu Hrönn miðborgarprest. Hún er þar að tala um ástandið í miðborginni á menningarnótt og ég bað hana Hrund dóttur mína að lesa það svo hún skildi betur hvað ég átti við þegar ég neitaði henni um að fara í bæinn eftir vinnu þessa “menningarnótt.” Þið sem eigið unglinga, hvetjið þau til að lesa um það frá henni hvernig ástandið er þarna. En aftur að laugardeginum mínum. Við Erling vorum búin að ákveða að fara austur á landið okkar í Fljótshlíðinni og pakka tjaldvagninum sem var búinn að standa þar til þerris síðan við vorum á töðugjöldum fyrir hálfum mánuði.
Samkvæmt gamalli hefð var stoppað á Selfossi og keyptur ís og fyrst það var nú einu sinni nammidagur þá fékk Erling sér shake og ég fékk bragðaref ummmmmm......
Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta þegar við komum þangað og vagninn var skrjáfaþurr og fínn og við pökkuðum honum og gengum vel frá þar sem hann verður ekki notaður meira þetta árið.
Á leiðinni austur hringdi Hlynur til að segja Erling hvað það væri rosalega gott veður í sveitinni og þegar hann vissi að við værum á leiðinni þá var okkur boðið að koma í kaffi í bústaðinn þeirra. Við gerðum það síðan og hittum þar fyrir Hansa og Auju og við áttum notalegt samfélag þennan fallega eftirmiðdag. Þegar degi tók að halla og kvöldmatartími var skollinn á vildi ég nú hætta að tefja húsráðendur og fór að líta til Erlings með svip sem hann veit að þýðir að við ættum að fara að fara. Hlynur og Gerður komu þá með þá uppástungu að við grilluðum öll saman (við fjögur þar sem Hansi og Auja voru farin heim) og það varð úr að þeir bræður fóru til byggða að draga björg í bú enda sannir hellisbúar. Það var orðið vel rökkvað í bústaðnum þegar ég stóð og var að búa til sósu á gashellunni. Um mig fór einhver undarleg sælukennd, þetta var eitthvað svo friðsælt og notalegt og ég fann til verulegrar tilhlökkunar til þess að byrja á kofanum okkar Erlings. Ég labbaði út á pallinn til bræðranna samrýmdu og spurði hvort þeir gætu ekki bara hjálpast að við að koma upp kofa fyrir okkur fyrir haustið og þar sem Hlynur er hjálpsemin uppmáluð þá var það ekki mikið mál að hjálpa til. Eini vandinn er sá að Erling hefur alls engan tíma vegna skólans til að gera þetta núna þannig að það bíður vorsins en þá ætlum við að hefjast handa við bygginguna. Hún verður ekki stór en hún verður notaleg með arni og hreindýraskinni á gólfi, gamalli klukku á veggnum og Erling dreymir um gamlan ruggustól á pallinn. Í vetur ætla ég að innrétta kofann svona í huganum og mikið hlakka ég til að eiga þar rómantískar stundir þar sem við hjónin verðum bara tvö og svo líka þær fjörmiklu stundir þegar stórfjölskyldan safnast þar saman, stelpurnar, tengdasynirnir og litlu ömmugullin.
Nú er sunnudagskvöld, klukkan að verða tíu og þessi helgi hefur liðið alveg jafnhratt og allar hinar. Ég sit ein frammi í stofu, Hrund er að vinna og Erling er inni á skrifstofu að læra, lokaspretturinn er framundan, næsta vor útskrifast hann sem lögfræðingur og mikið hlakka ég til. Annars erum við með margt á prjónunum framundan sem ég deili með ykkur lesendur mínir á næstu vikum. Lífið er nefnilega svo skemmtilegt en um leið breytingum háð og því er um að gera að prófa að gera það sem mann langar til, allavega langar mig ekki að líta um öxl á efri árum og segja; ég vildi að ég.............

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Hún á afmæli í dag……

......fyrir þremur árum, daginn fyrir þennan dag, var mikil spenna í loftinu í Hamrabergi þar sem við Erling bjuggum þá ásamt Hrund og Eygló (fyrirgefðu Eygló mín hvað ég er kölkuð, sbr. comment a greinina). Danía Rut var að útskrifast af vökudeildinni mánaðargömul og Íris og Karlott komu í kvöldmat til okkar því við ætluðum að halda uppá heimkomu dömunnar sem var búin að vera svo veik. Stelpurnar eru mjög flinkar í að fá pabba sinn til að panta pizzu af alls konar tilefni jafnvel þótt hann sé ekki mikið fyrir þær sjálfur, borðar þær en finnst margt annað miklu betra. Það varð úr að við pöntuðum pizzu og áttum að venju gott samfélag. Íris var komin fram yfir á meðgöngu með fyrsta barnið og við vissum að hún var búin að vera með einhverja minni háttar verki frá því um morguninn. Hvort það var útaf pizzunni (held samt ekki ;o) eða eitthvað annað, veit ég ekki en hún fór ekki heim eftir kvöldmatinn heldur beint á fæðingardeildina og þetta kvöld var mjög spennandi og margar hringingar í gsm símana þeirra til skiptis. Það var svo, að mig minnir, um fjögurleytið um nóttina að símtalið langþráða kom. Dóttir var fædd og hún fékk þetta fallega nafn, Petra Rut. Það hefur svo komið í ljós að hún “fæddist fullorðin”, hún er svo spekingsleg og dugleg þetta yndigull og veit svo sannarlega hvað hún vill.
Afmælisveislan hennar var haldin með miklum myndarbrag síðasta laugardag og komu margir til hennar. Hún var löngu búin að segja mér og afa sínum hvað hana langaði að fá og auðvitað varð henni að ósk sinni, Fisher Price búðarkassi var keyptur handa dömunni.
Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með daginn, haltu áfram að vera svona dugleg stelpa og góð við litlu systur þína. Þú ert Guðs gjöf til okkar og ég elska þig stóra gull.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Þá hefurðu lifað....

Fékk þetta sent í pósti um daginn og komst að því að ég hef lifað.....

Vildir þú ekki stundum óska að þú gætir farið aftur í tímann þegar:
Ákvarðanir voru teknar með því að nota “Úllen dúllen doff”
eða “Ugla sat á kvisti”
Peningamál voru afgreidd af þeim sem var bankastjórinn í Matador.
Hægt var að gleyma sér tímunum saman við að blása á biðukollur
og eltast við fiðrildi.
Það þótti ekkert athugavert við það að eiga tvo til þrjá “bestu” vini.
Það að vera “gamall” átti við hvern þann sem kominn var yfir tvítugt.
Pabba tókst að láta þumalinn á sér hverfa og birtast til skiptis.
Brennó þótti merkilegra en nokkur íþróttagrein.
Þeir sem voru “vopnaðir” í skólanum voru þeir sem voru með teygjubyssur.
Engin(n) var fallegri en mamma.
Pabbi var sterkasti maður í heimi.
Sár greru með einum kossi.
Fyrsti vetrarsnjórinn olli óendanlegri gleði.
Fimmtudagskvöldin voru “öðruvísi” af því að það var ekkert sjónvarp
og fólk eyddi meiri tíma í að tala saman.
Þú fékkst dót hjá tannlækninum fyrir að vera dugleg(ur).
Það vandræðalegasta sem gat komið fyrir þig
var að vera valin(n) síðastur í brennóliðið.
Eldri systkini þín gátu kvalið þið endalaust,
en voru jafnframt fyrst til að vernda þig.
ABBA myndir voru verðmeiri en nokkur hlutabréf.
Það að snúa sér hring eftir hring eftir hring var nóg til þess
að fá klukkutíma hláturkast.
Loforð um ís var nóg til þess að þú kláraðir matinn þinn.

Ef þú kannast við meirihlutann af þessu , þá hefurðu LIFAÐ

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Ef fuglanöfn væru númer

Við vorum á Fitinni síðustu helgi og það verður að segjast eins og er að það er svo friðsælt þar og notalegt eitthvað. Við tjöldum vagninum í skjóli trjánna sem við Erling byrjuðum að gróðursetja fyrir u.þ.b. 15 árum. Það er fátt sem rýfur þögnina á morgnana þegar ég er að reyna að sofa út nema fuglarnir, eins og hún Gerður svilkona mín orðaði svo skemmtilega um árið; endemis fuglagarg er þetta. Erling og Hlynur skilja þetta ekki enda eru þeir bræður alveg hugfangnir af þessum dýrum sem fljúga um himininn. Í sjálfu sér finnst mér þeir alveg ágætir nema á morgnana. Ég er í tæp 30 ár búin að fá kennslu um nöfnin á þeim sem ég Á AÐ ÞEKKJA Á HLJÓÐINU, pælið í því. Ég get bara alls ekki lært þessi nöfn og þess vegna var það á sunnudaginn að ég átti að segja Erling hvað dýrið hét sem framkallaði þetta líka hrikalega garg á annars friðsælum sunnudagsmorgni. Eftir að hafa giskað á næstum allar fuglategundir þá sagði Erling: "Erla mín, ef fuglarnir væru ekki með nöfn heldur talnarunu, bílnúmer eða slíkt værirðu búin að læra þetta fyrir löngu síðan." Sennilega er það rétt hjá honum..........

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Prufa














Ég er bara að prufa að setja inn myndir
Þetta er Hrund með Petru Rut

Velkomin...

....á nýju síðuna mína. Ég var að flytja mig af annarri bloggsíðu en mér finnst svo mikill galli við hana að það sjást bara 10 nýjustu skrifin, hin eldri detta út. Þar sem ég er svo skemmtilegur penni, hógvær og lítillát þá finnst mér ómögulegt að lesendur mínir geti ekki flett tilbaka aftur og aftur og lesið skrifin mín.
Ég vil taka það fram að hér verða settar fram hugrenningar mínar um lífið og tilveruna. Ef ykkur leiðist að lesa skrifin mín þá er einfalt að hætta að koma hér við en ef ykkur líkar það sem hér verður ritað þá er alltaf gaman að fá skoðanir á því hvort sem þær fara saman við mínar skoðanir eða ekki, það skiptir ekki máli.
Íris ætlar að kenna mér að setja inn myndir en hún er búin að aðstoða mig við að gera síðuna eins og hún er í dag en við í sameiningu ætlum að gera hann enn betri.
Ég ætla að setja inn nokkrar af hugleiðingum mínum af eldra blogginu mínu en þangað til....njótið lífisins......