fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Thea er komin heim

Mikið varð ég glöð og hissa sl þriðjudagskvöld heima hjá Tedda og Kötu. Við vorum þar systkinin ásamt flestu af fólkinu okkar því ætlunin var að borða saman snarl og bara eiga skemmtilegt kvöld saman. Við vorum öll sest inn í stofu og Teddi var búinn að bjóða okkur að gjöra svo vel nema hvað.......birtist ekki Thea mín bara öllum að óvörum í stofunni og með henni var paragvæski kærastinn hennar og við sem héldum að hún væri enn í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá okkur.

Þau höfðu komið til Íslands laust eftir miðnætti kvöldið áður og það var búið að vera mikið leynimakk á fjölskyldunni í Fellsmúlanum vegna komu þeirra. Þeim tókst að koma öllum að óvörum en voru svo hugulsöm að vera búin að koma því þannig fyrir að Hrund var heima hjá þeim “að passa” þegar þau komu heim frá Keflavík og ég hef það eftir Tedda að það hafi verið óborganlegt að verða vitni að óvæntum endurfundum þeirra frænkna.

Það er gott að Thea er komin heim aftur og við eigum eftir að kynnast kærastanum sem heitir Juan Carlos (held að þetta sé rétt skrifað). Hann virðist alveg ágætur en talar því miður bara spænsku.

Ég vil nota þetta tækifæri og bjóða hana velkomna heim og hann velkominn til Íslands og vona að honum eigi eftir að líða vel hér þótt hann sé fjarri fólkinu sínu.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hjá mér. Mér gengur bara vel í vinnunni og er að komast inn í þetta allt saman. Ég er fljót að læra númerin á bókhaldslyklunum og mér finnst gaman að vinna með alla þessa pappíra. Svo eru stelpurnar sem ég vinn með ósköp indælar og gott að spyrja þær um allt sem ég þarf að vita. Eigandinn fór til Kanaríeyja fljótlega eftir að ég byrjaði þannig að ég hef ekki kynnst honum mikið en þær bera honum afar góða sögu.

Danski kúrinn gengur vel hjá okkur Erling og það er frábært. Við erum búin að panta okkur ferð til Spánar í ágúst og okkur langar til að vera búin að minnka vel áður. Það eru reyndar allar líkur á að Erling verði búinn með sitt takmark þá því nú þegar er hann búinn að losa sig við 7 af þeim 15 kílóum sem hann ætlar að losna við. Eins og þið sjáið hér að ofan þá eru farin 5 af 20 aukakílóum hjá mér en ef þetta heldur svona áfram þá ætti ég að verða búin líka í ágúst. Allavega komin mjög langt áleiðis.

Nú er helgin framundan og ég hlakka til hennar. Veit að hún verður góð því ég ætla að hafa hana skemmtilega. Svo eigum við Erling bráðum brúðkaupsafmæli, 28 ár, og það verður spennandi að sjá hvað við gerum til hátíðabrigða. Þið munið hvað ég sagði ykkur um daginn, Erling segir að það sé enginn jafn duglegur og ég að finna tilefni til að halda uppá eitthvað en ef þetta er ekki alvöru tilefni þá veit ég ekki hvað.

Fylgist svo með bláu vigtinni minni, hvort hún færist ekki jafnt og þétt til hægri......verið dugleg að kommenta á mig og hvetja mig áfram

Þangað til næst...........

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Sara Ísold, 2ja ára afmælisprinsessa

Það var óborganlegur svipur sem kom á hana Örnu dóttur okkar þegar við Erling gengum inn á stofu 4 á FSA, fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, á þessum degi fyrir nákvæmlega tveimur árum. Hún gjörsamlega gapti af undrun enda átti hún alls ekki von á að sjá okkur þarna. Davíð var ekki eins hissa, það var allavega ekki að sjá á honum. Þetta var sunnudagur og við hjónin, nýbökuð afi og amma í þriðja sinn stóðumst ekki mátið að brenna norður og sjá dömuna sem hafði bæst í hópinn okkar.

Veðrið var eins og best verður á kosið um miðjan vetur og okkur því ekkert að vanbúnaði. Við sögðum engum frá því vegna þess að okkur langaði að koma á óvart og okkur tókst það svo sannarlega. Þeir sem best þekkja okkur hjónin vissu þegar þeir reyndu að ná í okkur að okkur hlyti að hafa dottið í hug að “skreppa aðeins” og sjá fólkið okkar norðan heiða.

Fyrr þennan sama dag, reyndar mjög snemma morguns, reyndar næstum um nóttina hafði Arna sem sagt hringt í okkur og tilkynnt okkur fæðingu annarrar dóttur sinnar. Við vorum búin að fylgjast með fæðingunni úr fjarlægðinni í Reykjavík og vorum auðvitað mjög spennt. Rúmlega hálf fjögur um nóttina leit hún dagsins ljós, Sara Ísold, litla daman sem á afmæli í dag.

Hún er mjög heillandi barn og mjög dugleg. Hún talar heilmikið og er algjör gullmoli.
Sara Ísold er mjög hrifin af afa sínum og hann á að hjálpa henni með alla hluti þegar hún er hjá okkur. Þá réttir hún út litlu hendurnar sínar og segir “Afi hjappa mer”. Ég skil nú vel að hann standist það ekki.

Elsku Sara Ísold mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn þinn og vona að þú verðir mjög fljótt frísk svo það verði hægt að halda uppá afmælisdaginn þinn bráðum. Þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra. Ég elska þig gullið mitt.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Hvunndagshetjur.....

Ég fór í sextugsafmæli í gær hjá einni af uppáhalds frænku minni, henni Sissu systir hans pabba. Mér hefur verið sagt að þegar ég var lítið og auðvitað MJÖG fallegt barn þá hafi hún og systir hennar mömmu rifist um hvor væri meira skyld mér, þetta finnst mér fyndið
sérstaklega þegar við erum nú allar fullorðnar konur. Þær eru allavega báðar tvær í miklu uppáhaldi hjá mér þó svo að ég sé ekkert dugleg að hafa samband þá eiga þær sérstakan stað í hjarta mínu.
OG ÞAÐ UPPLÝSIST HÉR MEÐ AÐ ÉG ER JAFNSKYLD ÞEIM BÁÐUM.

Ég hitti auðvitað þó nokkuð af frændfólki mínu og var svo heppin að sitja nálægt Ellu og Sirrý systrum mínum og gat spurt þær um skyldleika við fólk sem ég þekkti ekki.

Einni frænkunni (pabbar okkar eru bræður) heilsaði ég í eldhúsinu og HÚN ÞEKKTI MIG EKKI, bömmer. Ég get auðvitað valið ástæðuna fyrir því að hún þekkti mig ekki, er ég orðin svona ellileg að hún þekkti mig ekki eða er ég alltaf að yngjast og þess vegna þekkti hún ekki þessa svarthærðu frænku sína. Ég hef ákveðið að þetta seinna sé ástæðan því mér myndi líða miklu verr ef hitt væri ástæðan.
Segi svo einhver að maður hafi ekki eitthvað að gera með það sjálfur hvernig manni líður.

Ég átti athyglisvert samtal við eina skáfrænku mína, þ.e. konu sem er gift bróðir hans pabba. Í haust skrifaði ég færslu um hana á blogginu mínu því hún veikstist skyndilega sl vor, fékk blóðeitrun eða sýklasótt og í kjölfarið þurfti að taka af henni báða fæturnar rétt fyrir neðan hné. Hún var fullfrísk einn daginn en þann næsta var henni ekki hugað líf og henni var haldið sofandi í öndunarvél í þó nokkurn tíma.

Í dag eru fjórir mánuðir síðan hún fékk gervifætur og ég verð bara að segja að ég dáist að dugnaði hennar, góða skapinu og síðast en ekki síst, óbilandi kjarki. Útlimir hennar eru alsettir örvefum og einna líkast er þetta eins og þegar fólk brennur mjög illa. Hún sýndi mér handleggina sína en þakkaði um leið fyrir að andlitið skyldi sleppa að undanskyldu einu slæmu öri við efri vörina. Hún var svo þakklát fyrir lífið sjálft og sagðist bara biðja Faðir vorið og það virkaði.

Hún gekk um í veislunni, göngulagið kannski ekki alveg eins og það á að vera ennþá en ef fólk vissi ekki að hún var á gervifótum þá myndi engum hafa dottið það í hug. Í samtali okkar sagði hún með bros á vör að læknarnir vildu að hún færi að ganga beint en ekki skakklappast svona eins og hún orðaði það. Aðspurð sagðist hún auðvitað stundum verða döpur yfir því að geta ekki bara farið út í göngutúr eins og hún var vön að gera en um leið sagði hún að það myndi koma að því, hún ætlar að halda áfram að þjálfa sig.

Hún var svo glöð að vera útskrifuð og geta verið heima hjá sér og að þurfa ekki að vera í hjólastól. Þvílík hetja sem hún er þessi kona sem er aðeins eldri en ég, á frábæra fjölskyldu, eiginmann, þrjú börn, eitt barnabarn og annað á leiðinni. Og hún kunni að þakka, ég get margt lært af henni……

Ég tek ofan fyrir öllum hvunndagshetjum þessa lands……………

mánudagur, febrúar 06, 2006

Sá danski....

Þá er fyrsta vinnuvika liðin og ný byrjar í fyrramálið. Þetta hefur bara gengið vel, vinnuveitandinn er þolinmóður og gefur mér góðan tíma til að komast inn í verkefnin sem ég á að sinna. Ég hef aðeins kynnst annarri af tveimur samstarfskonum mínum á skrifstofunni en hin hefur verið í fríi en ég mun hitta hana á morgun. Mér líst bara vel á
þessa sem hefur verið með mér þessa vikuna, hún er mjög almennileg og segir mér líka að hin sé frábær.

Þær hafa báðar unnið þarna í mörg ár og ég er fyrsta manneskjan sem byrja ný í fyrirtækinu í mörg ár. Það segir mér bara að það sé mjög gott að vinna fyrir eigandann.
Það eru því bara spennandi að kynnast þessu betur og læra betur á þetta.

Að allt öðru. Þið hafið eflaust tekið eftir fína borðanum mínum hér efst á síðunni minni.
Enn einu sinn ætla ég að legga til aðlögu við aukakílóin og að þessu sinni ætla ég að prófa hinn margfræga “danska kúr”. Reyndar byrjuðum við Erling bæði að fara eftir honum þegar við komum heim frá Kanarí og Erling er búinn að ná meiri árangri en ég
Hann hefur misst 4,5 kíló en sagan segir að kallar nái meiri árangri en konur á sama tíma. Ekki veit ég nú afhverju en svona er þetta bara.

Verið nú dugleg að hvetja mig áfram, setja inn komment og góðar ráðleggingar eru alltaf vel þegnar. Ella systir er reyndar búin að vera mjög dugleg að fara eftir þessu og er alltaf að senda mér uppskriftir og bjóða mér yfir til sín að prófa eitthvað nýtt sem hún hefur gert og ég er mjög þakklát fyrir það. Maður má meira að segja fá sér ís (sérbúinn til) en hann er mjög góður og fyrst þegar ég smakkaði hann fannst mér að ég væri að svindla en svo var ekki.

Jæja lesendur mínir, klukkan er farin að ganga eitt eftir miðnætti og Erling var að kalla og athuga hvort ég ætlaði ekki að fara að mæta á minn stað í rúminu, þ.e. í fangið á honum.
Ég stenst nú ekki svona...........þangað til næst........farið vel með ykkur og njótið lífsins.