fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Egyptaland...

Þar sem ég sat og passaði mig að horfa bara á hvítan vegginn, heyrði ég konuna segja;” Þú verður að anda, ertu hrædd við sprautur?” Þá fattaði ég að ég hafði bara rétt út vinstri höndina, flýtt mér að líta undan og svo hélt ég í mér andanum alveg ósjálfrátt því hún hafði sagt að ég þyrfti ÞRJÁR, já ég endurtek ÞRJÁR sprautur. “Það er mjög mikilvægt að þú gleymir ekki að anda, dragðu djúpt andann og þetta verður allt í lagi”. Auðvitað var allt í lagi og ég varla fann fyrir því sem hún var að gera. Já ég skrapp á heilsugæsluna í fyrradag og hitti hjúkrunarfræðing til að fá bólusetningu áður en við Erling höldum í stóru ferðina í tilefni af 30 ára brúðkaupsafmælinu okkar. 30. mars munum við fara í tveggja vikna ferð til Egyptalands. Við verðum í Kairó, siglum á skemmtiferðaskipi á Níl í eina viku og svo verðum við líka í borg sem heitir Luxor. Þetta er ferð þar sem allt er skipulagt fyrirfram og fjöldi skoðunarferða verða farnar. Meðal annars munum við fara í loftbelgsferðalag mjög snemma morguns til að sjá sólina koma upp yfir Karióborg. Held að það hljóti að vera ógleymanlegt. Ef þið hafið áhuga þá getið þið lesið hér ferðalýsinguna en við förum með Bændaferðum. Hef heyrt mjög góðar sögur af fólki sem ferðast hefur með þeim.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hér í Húsinu við ána. Veðrið er auðvitað umhleypingasamt hér eins og annars staðar á landinu en það fyrirgefst vegna þess að á landinu okkar fagra er svo gott að búa. Skemmtileg helgi er framundan, þorramatur hjá systkinum mínum, mökum okkar og foreldrum verður heima hjá Ástu og Kidda á laugardagskvöldið og ég hlakka mikið til að hitta þau öll. Að öðru leyti mun helgin fara í afslöppun og notalegheit. Erling ætlar að taka Musso í gegn því nú er hann að fara á sölu blessaður.

Eigið frábæra og skemmtilega helgi lesendur mínir..........þangað til næst

föstudagur, febrúar 15, 2008

4ra ára afmælisprinsessa


“Amma, mamma er búin að kaupa ís til að fara með á leikskólann á morgun” sagði Sara Ísold við mig í gær. Af hverju spurði ég og Danía Rut var sneggri að svara, Sara Ísold á afmæli.....auðvitað. “Ég verð svona gömul, sagði Sara Ísold og sýndi mér fjóra putta um leið og hún sagði hátt og skýrt, “ég verð fjögurra ára á morgun”.
Já enn ein lítil vinkona mín á afmæli í dag og hún er mjög stolt af því enda búin að hlakka lengi til. Ég man að við Erling fylgdumst með alla nóttina þegar Arna var að eiga hana á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og svo loksins kom símtalið langþráða.

Sara Ísold er mjög skemmtilegt barn og bráðskýr. Hún talar mikið og spáir í hlutina og það koma mörg skemmtileg gullkorn frá henni. Mamma hennar drekkur dálítið mikið Pepsi Max en þær systur fá ekki að drekka gos og vita að það er bara fyrir fullorðna. Svo var það um daginn að Arna var að drekka undanrennu. Sara Ísold tók eftir því og spurði í einlægni, “mamma, er Pepsi Maxið búið?” Að hennar mati var það eina ástæðan fyrir því að Arna væri að drekka mjólk en ekki gos. Reyndar var það ekki þannig samt.
Í gær var svo Arna með ommilettu í matinn og allt í einu spyr Sara Ísold mömmu sína hvort amma þeirra eigi matinn sem þær eru að borða. Nei, svarar Arna, við eigum matinn. Já en af hverju heitir maturinn þá ömmuletta? Hún er algerlega ómótstæðileg.
Hún vill fá hesta í afmælisgjöf, það var það eina sem ég fékk uppúr henni þegar ég spurði hvað hana langaði að fá. Það skyldi nú aldrei vera að hún fengi óskina uppfyllta.

Elsku Sara Ísold mín, ég óska þér innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn. Þú er mikil Guðs gjöf inn í líf okkar og ég bið hann að vaka yfir hverju þínu skrefi, alla þína ævi. Ég elska þig marga grilljón hringi og hlakka til afmælisveislunnar þinnar.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Blessað veðrið....


Ég verð bara að viðurkenna það að ég er orðin frekar þreytt á þessum snjó. Í fimmta skipti á þessu nýbyrjaða ári erum við veðurteppt heima hjá okkur og er árið þó bara alveg glæný byrjað. Tvisvar höfum við ekkert komist því heiðin og þrengslin hafa verið lokuð allan daginn en tvisvar sinnum höfum við getað farið af stað undir hádegið. Það er ekki bjart útlit fyrir að við komumst eitthvað í dag en við sjáum til.
Þetta kemur verst niður á Hrund vegna skólans en við Erling höfum frjálsan tíma hvað varðar mætingu. Í dag á hún og hópurinn hennar að vera með kynningu á Vinstri grænum í stjórnmálafræðitíma og þau eru búin að leggja mikið á sig til að hafa þetta sem flottast og því er auðvitað leiðinlegt að sitja heima og geta ekki verið með.
Það er þó búið að hafa samband við kennarann sem er á leiðinni í skólann og hann ætlar að sjá hvort hægt sé að seinka þessu. Hins vegar eru allir hinir krakkarnir í hópnum mættir og búin að hafa sig til svo það er kannski ekki sanngjarnt þeirra vegna að fresta þessu. Ég er þó að vona að þau samþykki það Hrundar vegna.

Allt árið í fyrra var það bara einu sinni sem við komumst ekki af stað fyrr en um kl tíu en samkæmt því sem Selfossbúar til margra ára segja þá er það svona venjan að það geti verið ófært einu sinni til tvisvar yfir veturinn. Við vissum að þetta var ókostur við að búa hér og vinna í bænum en samt vildi ég ekki fyrir nokkurn mun skipta og flytja aftur í bæinn.

Mér finnst nú ekkert leiðinlegt að vera heima hjá mér og sem betur fer að törnin vegna vsk dagsins búin enda var gjalddagi vsk 5. febrúar. Ég ætla að fara upp og athuga hvort Hrund sé búin að ná í krakkana, svo ætla ég inn í stofu með kaffibollann minn, athuga hvort ég finn ekki súkkulaðimola svona í tilefni dagsins.

Hafið það gott vinir mínir........þangað til næst

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Lífsgæðakapphlaupið og hamingjan

“Rannsóknir gefa til kynna að hamingjusamasta fólkið er umvafið fjölskyldu og vinum og ver minni tíma en aðrir í einveru. Það tekur ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu en setur eigin mælikvarða á líf sitt en skeytir ekki um mælikvarða annarra. Það leggur rækt við sjálft sig, er náið öðrum, gleymir sér við daglega tómstundaiðju og er fljótt að fyrirgefa” Fengið að “láni” úr Mbl.

Langaði að vekja athygli á þessu og þá kannski sérstaklega á mikilvægi þess að setja sín eigin gildi og viðmið fyrir líf sitt en taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu því þá kemst maður aldrei í mark. Lífsgæðakapphlaupið hefur enga endastöð.

Það var eitt kvöldið sem ég sat í “límsófanum” mínum og var að spá í lífið og tilveruna. Það er svo mikið áreiti á heimilin í landinu, auglýsingapésar flæða inn um bréfalúguna, öll blöð eru full af auglýsingum um hluti sem “allir” þurfa helst að eignast til að vera samkeppnisfærir í lífinu. Sem dæmi þá þykja sjónvarpsherbergin ekki flott nema vera með stóran flatskjá þar inni, jafnvel þótt “gamla” sjónvarpið sé í fullkomnu lagi.

Við Erling höfum sett okkar eigin gildi fyrir líf okkar og framtíð, það skiptir okkur engu máli hvað öðrum finnst um það, okkur líður vel með þau. Við keyptum eldra hús í staðinn fyrir að byggja og hvað gerir það til þótt það taki nokkur ár að gera það eins og við viljum. Það skiptir engu því þegar upp er staðið þá er miklu betra að eiga áhyggjulaus mánaðarmót, fá ekki bakreikninga heldur gera þetta þegar við eigum fyrir því. Þótt það sé mjög auðvelt að fá bankalán í dag þá þarf að greiða þau tilbaka og dágóða vexti af þeim líka. Fjármálum heimilisins þarf að stýra eins og hverju öðru fyrirtæki og best er það ef hægt er að safna fyrir því sem vantar og því sem okkur langar í. Samfara því er miklu meiri ánægja og vellíðan. Heimili landsins þurfa að taka upp “eitt í einu” væðinguna í stað “allt í einu” væðinguna. Það á kannski ekki síst við um unga fólkið í landinu sem er að hefja búskap. Það er nefnilega til millivegur á milli þess sem var t.d. þegar kynslóðin okkar Erlings var að byrja að búa og sófasett og annað nauðsynlegt var fengið gamalt og gefins eða í dag þegar allt er keypt nýtt, gjarna á Visa rað og svo sligast fólk undan þessu og heimilin flosna upp. Auðvitað er ekki hægt að setja alla undir sama hatt en þetta er samt alltof algengt.
Látum ekki aðra stjórna lífi okkar og líðan, setjum okkar eigin gildi og viðmið fyrir okkur, þau gildi sem passa okkur, veskinu okkar og löngunum.