þriðjudagur, október 31, 2006

Kaupmannahöfn........


Það er eitthvað við þá borg sem heillar okkur hjónin algerlega. Tilhugsunin um eina helgi þar framkallar mikla tilhlökkun og eins og vanalega þá stóð borgin alveg undir væntingum okkar um skemmtilega daga.

Við lentum þar rétt eftir hádegi á föstudegi eftir frekar klaufalegt aðflug hjá blessuðum flugstjóranum en það var samt mjög gaman að við flugum meðfram stóru brúnni yfir til Svíþjóðar og það er nú meira mannvirkið. Kaupmannahöfn tók á móti okkur með góðu veðri og eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu okkar þá fórum við aðeins út í göngutúr, röltum í matarbúðina og keyptum okkur að borða og fórum svo aftur heim og spjölluðum um heima og geima eins og okkur einum er lagið.

Við eyddum síðan helginni í góðu yfirlæti, fórum út að borða, á kaffihús, löbbuðum mikið, skoðuðum sívala turninn og fylgdumst með mannlífinu á Strikinu og við Nýhöfnina.

Ég verð samt að segja ykkur frá því að við fórum á ástralskan veitingastað á laugardagskvöldinu og Erling pantaði sér krókódílakjöt og ég pantaði mér kengúrukjöt. Þvílík upplifun, þvílíkt lostæti. Ég hef sjaldan fengið jafn góðan mat og þarna enda er þetta vinsæll staður og þarna þarf að panta borð. Ef þið lesendur mínir eigið leið til Köben og þorið að prófa nýja hluti þá hvet ég ykkur til að fara þangað, staðurinn heitir Reef and beef og er rétt hjá Ráðhústorginu
http://www.reefnbeef.dk/

Við flugum síðan heim til Íslands á sunnudagskvöldinu og vorum sammála um að þetta var ekki of stutt ferð bara mjög skemmtileg. Það var samt skrýtið að vita að við förum þangað aftur eftir bara 5 vikur með vinnunni minni. Eins og ég hef áður sagt þá skilja svona ferðir skemmtilegar minningar eftir í minningabankanum og lífið er svo stutt og um að gera að njóta þess meðan við eigum það.

Það eru samt ekki bara utanlandsferðir sem skapa skemmtilegar minningar, það er mjög gaman í góðu veðri að labba um miðbæ Reykjavíkur, labba sér inn á veitingastað, fá sér að borða, virða fyrir sér mannlífið þar og sjá að flóran er svo margbreytileg hvort sem við erum á Selfossi, Reykjavík eða í kóngsins Köben.

Jólin eru skammt undan......mikið hlakka ég til aðventunnar........ég ætla rétt bráðum að fara að setja jólalög undir geislann........þangað til næst

sunnudagur, október 22, 2006

Lífið og tilveran.....

Það var seinni part dags fyrir um það bil 10 dögum síðan að síminn minn hringdi á skrifstofunni. Erling var á línunni og var bara hress eins og vanalega. ”Erla”, sagði hann, ”er ekki eitthvað af ferðapunktunum okkar að renna út um áramótin?” Ég svaraði því játandi og svona rétt í leiðinni :o) nefndi ég við hann að það hefði verið auglýst puntkatilboð til nokkurra borga og þar á meðal var uppáhalds erlenda borgin okkar, Kaupmannahöfn. Jú hann vissi það og spurði mig hvernig mér litist á að halda uppá afmælið hans þar um næstu helgi. Það þurfti nú ekki að dekstra mig til þess enda er ég forfallinn áhugamaður um ferðalög. ”Heyrðu elskan” sagði þessi flotti maður minn við mig, ”nennirðu ekki að sjá um að panta þetta fyrir okkur?”
Auðvitað var ég til í það og við förum eldsnemma næsta föstudagsmorgun og komum aftur heim á sunnudagskvöld. Það eru m.a. svona hlutir sem skreyta lífið svo fagurlega og svona ferðir skapa svo skemmtilegar minningar. Ráðhústorgið, Strikið, Nýhöfn, mannlífið, mikið hlakka ég til það verð ég að segja.

Helgin er búin að vera góð og notaleg. Ég og Erling vorum svo dugleg að taka gestaherbergið í gegn og koma því í notalegt horf ásamt því að flytja skrifstofuna á sinn stað í húsinu. Við erum að láta teikna eldhúsinnréttinguna fyrir okkur og vorum að velja okkur tæki í nýja eldhúsið sem verður sett upp núna á næstu vikum hér í Húsinu við ána.
Erling lætur allt eftir mér sem ég bið hann um og ég fæ meira að segja amerískan ísskáp með klakavél og öllu tilheyrandi og svo pöntuðum við líka þessa fínu kaffivél sem malar baunirnar jafnóðum og ég veit að tengdasynir mínir eru mjög ánægðir með það.

Erling og Hlynur fóru í sína árlegu veiðiferð saman núna fyrir helgina og á fimmtudagskvöldið buðu dætur mínar mér í partí heima hjá Írisi og við áttum saman mjög skemmtilegt kvöld. Við Hrund vissum að við yrðum þar fram á nótt og fengum því að gista heima hjá Eygló og Bjössa sem eru enn í brúðkaupsferðinni sinni, enda enginn Erling heima hvort sem var. Ég er svo þakklát að eiga vináttu dætra minna, það er minn fjársjóður og forréttindi. Þær eru allar alveg meiriháttar, ólíkar hver á sinn hátt en einstaklega vel gerðar hver og ein.

Jæja vinir, læt ég nú staðar numið að sinni, ætla fram í stofu og fá mér kaffisopa með Erling áður en við förum að sofa. Vona að vikan framundan verði okkur öllum góð. Þangað til næst.........

þriðjudagur, október 17, 2006

Hún á afmæli í dag.....


Þótt ótrúlegt sé þá er ár eitt ár liðið síðan hún fæddist og hugur minn fer á flug aftur í tímann.

Það var frekar svefnlaus nótt, aðfararnótt 17. október. Nokkrum sinnum um nóttina vaknaði lítil stúlka og umlaði, vantaði snuðið sitt. Hún sofnaði um leið og það var komið á sinn stað. Þess á milli vaknaði ég við sms frá Örnunni minni sem var á fæðingardeildinni að eiga sitt þriðja barn. Það var ástæða þess að ég svaf ekki heima hjá mér heldur var ég hjá tveimur af ömmustelpunum mínum og það var Sara Ísold sem vaknaði af og til en Danía Rut er orðin svo stór að hún steinsvaf alla nóttina. Það var svo um hálf sex leytið að langþráða símtalið kom, lítil prinsessa hafði litið dagsins ljós rúmlega fimm um morguninn. Hún var algert grjón 12 merkur og 48 cm með mikið og dökkt hár eins og systur hennar voru. Þessi litla prinsessa er níunda stúlkan okkar Erlings í röð, við eigum 4 dætur og 5 dótturdætur og geri aðrir betur.

Já, hún Þórey Erla er orðin eins árs og í fyrradag héldum við upp á afmælið hennar hér í Húsinu við ána. Hér var margt um manninn og mikið fjör eins og vera ber í barnaafmæli og bara gaman að rifja upp gamlar endurminningar með því að hafa aftur barnaafmæli í húsinu.

Þórey Erla er hvers manns hugljúfi, einstaklega broshýr og geðgóð. Eldri systur hennar elska hana og eru mjög góðar við hana. Hún bræðir mann algerlega með brosinu sínu og svo skríkir hún og hlær þegar leikið er við hana. Hún er sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra.

Elsku litla yndigull, ég óska þér til hamingju með daginn og bið Guð að vaka yfir lífi þínu og blessa þig um ókomin ár.

Ps. ef ykkur langar að vita eitthvað meira um brúðkaup Eyglóar og Bjössa og leyndarmálið varðandi kjólinn, kíkið þá á síðuna hans Erlings, hann er með pistil um það http://www.erlingm.blogspot.com/

laugardagur, október 07, 2006

Stóri dagurinn

Þá er stóri dagurinn þeirra Eyglóar og Bjössa runninn upp bjartur og fagur. Veðrið er gott enda er mamma búin að biðja fyrir góðu veðri þennan dag í marga mánuði.

Undirbúningsvinnnan er búin og allt hefur gengið samkvæmt áætlun. Ég fór í gær og kíkti á veislusalinn þar sem verið var að leggja á borð en síðan mun hún Christina vinkona mín sjá um skreytingar og hún hefur harðbannað mér að stelast til að kíkja í dag og sjá afraksturinn, þetta á að koma okkur á óvart. Ég hins vegar treysti henni alveg enda er hún líka búin að setjast niður með brúðhjónunum tilvonandi og skrifa niður þeirra óskir og langanir.

Það er frábært að tilheyra samheldinni fjölskyldu þar sem allir eru boðnir og búnir að aðstoða okkur. Mamma mín er búin að standa í ströngu við að baka brúðartertuna og Hildur mágkona bakaði kransakökurnar, Sirrý systir gerði helling af fallegum leirskálum sem á að nota undir konfekt, Ella Gitta gerði.......leyndarmál.... fram yfir brúðkaupið en hún er alger snillingur í því sem hún gerði. Systur brúðarinnar hafa lagt sitt af mörkum og það er líka leyndarmál fram yfir brúðkaupið en það má samt segja frá því að Íris bjó til flott blað um þau og það verður í veislunni.

Í þessum skrifuðu orðum eru mamma, Dúdda og Sissa frænkur mínar að skreyta brúðartertuna og Christina er að skreyta salinn og kirkjuna. Ástarþakkir til ykkar allra fyrir alla hjálpina og ekki síst fyrir að vera vinkonur mínar. Ég met mikils að þið gefið af tíma ykkar fyrir mig.

Brúðurin tilvonandi gisti í föðurhúsum í nótt og í gærkvöldi eftir æfingu í kirkjunni kom fjölskyldan hans Bjössa hingað til okkar í kaffi og það var mjög notalegt og gaman að kynnast þeim. Seinna um kvöldið þá vorum við Erling hér með dæturnar fjórar og litlu brúðarmeyjarnar, Petru Rut og Daníu Rut. Það var hlegið og spjallað og rifjaðir upp gamlir tímar á þessum tímamótum Eyglóar.

Rétt bráðum mun fallega stofan okkar Erlings breytast í snyrti- og hárgreiðslustofu því Rakel, systurdóttir Erlings, og Ólafía, vinkona Írisar, eru væntanlegar til að dekra við brúðina og okkur hinar skvísurnar og gera okkur fínar. Erling er búinn að fara í bakaríið og kaupa brauð og sætindi handa okkur öllum og ég veit að þetta verður skemmtilegur og frábær dagur og ég ætla að njóta hans í botn enda nýt ég þeirra forréttinda að vera móðir brúðarinnar.

Og já kjóllinn.......hann er glæsilegur.......en hann er samt ennþá leyndarmál.

Þangað til næst kæru vinir, ég ætla að fara og kíkja á hana dóttur mína sem eftir nokkar klukkutíma fær titilinn ”Frú Eygló”