mánudagur, apríl 09, 2012

Pabbi minn afmælisbarn dagsins



Ég er svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og fyrir það er ég Guði þakklát. Því fylgja auðvitað margir afmælisdagar og sjálfsagt að fagna hverjum og einum þeirra því lífið sjálft er gjöf sem okkur er gefin. Í dag er það ættfaðirinn hann pabbi minn sem á afmæli, 73 ára gamall. Hann pabbi er bara frábær og er sérlega umhyggjusamur um okkur öll og finnst betra að vita hvar við erum sérstaklega ef veður eru válynd á heiðum. Þá hringir hann gjarnan til að vita að við séum komin örugg í hús og mér þykir mjög vænt um þessa umhyggju hans.

Hann fylgist líka vel með hvað við erum að bralla og spyr hvernig gangi t.d. með búðirnar okkar Erlings. Pabbi var lengst af bílstjóri á Hreyfli, var formaður félagsins í langan tíma og vann af miklum heilindum fyrir félagið. Hann spilar enn bridge með félögum sínum af stöðinni og það eru ófá verðlaunin sem hann hefur komið með heim eftir spilakvöld.

Afkomendur hans eru orðin vel á sjötta tuginn og því er þröng á þingi þegar við komum öll saman í litla ömmuhúsinu hans og mömmu en endalaust gaman samt. Litlu langafabörnin hans kalla hann Langa að hans eigin ósk og um daginn þá sagði ein ömmustelpan mín að hún elskaði Langa, langömmu og lang Írisi :)

Elsku pabbinn minn, innilega til hamingju með daginn þinn, efast ekki um að það verði dekrað smá við þig í dag og við sjáumst sem fyrst.



Elska þig endalaust



Erlan þín