laugardagur, desember 26, 2009

Og svo komu jólin....


„Jólin hér, jólin þar, jólin þau eru alls staðar“ stendur í einhverju jólalagi og svo sannarlega hafa jólin verið hér í jólahúsinu mínu við ána. Jólin, þessi yndislegi tími þar sem friður og hátíðleiki svífur yfir, jólin þegar allt skartar sínu fegursta og besta. Áin rennur tignarlega framhjá glugganum mínum og fuglarnir allt um kring, nýta sér þessa matarkistu sem áin svo sannarlega er.

Ég hef svo sannarlega notið aðventunnar eins og endranær enda löngu hætt að stressa mig yfir þessum tíma heldur lærði fyrir mörgum árum að slaka á og veit sem er að jólin koma alltaf hvort sem „allt sem gera þarf fyrir jólin“ er búið eða ekki og það er miklu skemmtilegra að vera afslappaður heldur en uppstressaður. Ég hef rölt um Kringluna með frábærri vinkonu, við Erling höfum heimsótt góða vini og átt skemmtileg samfélag við þau, ég hef farið í árlegt stelpuboð með litlujóla ívafi (pakkar) og bara virkilega notið þess að vera til.

Innst inni verð ég þó að viðurkenna að ég kveið svolítið fyrir einu og það var að Hrund yrði ekki með okkur, ég kveið fyrir að vita af henni í Þýskalandi yfir hátíðina sérstaklega þegar ég vissi að fólkið sem hún dvelur hjá er trúlaust fólk sem heldur ekki uppá jólin, það hefði verið allt annað ef ég hefði vitað að hún myndi prufa nýja hluti, kynnast þýskum jólum.

Svo gerðist undrið mikla, jólin voru alltí einu komin á skrifstofuna mína. Vinkona Hrundar sem er einnig aupair í Þýskalandi var búin að plana að koma heim um jólin og ætlaði að koma með pakka frá Hrund til mín og í samráði við mig ætlaði hún að koma í hádeginu sl þriðjudag, síðasta vinnudaginn minn fyrir jól. Ég var að ljúka við að færa nokkrar tölur á sinn stað í bókhaldi eins af fyrirtækjunum mínum þegar ég „heyrði“ í þögninni frammi. Þegar ég lít upp horfi ég beint í myndavél og bakvið hana stendur HRUND. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum, HRUND var komin en hún átti að vera í Þýskalandi, við vorum búin að senda pakkann hennar út með flugmanni sem vinkona hennar þekkir en þarna stóð hún, sagði ekki neitt en horfði bara á mig. Ég get ekki lýst því hvernig mér leið en vá samt, nú voru jólin algerlega að koma. Henni tókst það sem hún ætlaði sér að koma okkur algerlega á óvart og vinkonur hennar voru með í plottinu og við sóttum svo pakkann aftur til vinkonunnar sem sendi hann aldrei af stað...

Jóladagarnir hafa verið yndislega notalegir, við vorum bara þrjú að þessu sinni á aðfangadagskvöld en það var bara gaman enda er Hrund sérlega skemmtilegur félagsskapur. Í gær komu svo Íris og Eygló með sínar fjölskyldur en dagurinn í dag hefur liðið með tilheyrandi letigangi, lestri góðra bóka, og narti í osta, mandarínur og snakk....að ógleymdum afgangi af jólagrautnum með karamellusósunni.

Það eru mín forréttindi í lífinu að hafa Erling, stelpurnar mínar og allt þeirra fólk hjá mér og um leið og ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki sjálfgefið þá er ég svo óendanlega þakklát fyrir það. Það gleður mig meira en orð fá lýst að stelpurnar sækja að koma hingað, litlu ömmugullin mín hringja stundum og spyrja hvort þau megi koma. Algerlega yndis.....Framundan eru fleiri svona letidagar, á von á skemmtilegum gestum á morgun og ég hlakka mikið til.....elsku vinir, það er alltaf heitt á könnunni í jólahúsinu við ána, ekki hika við að kíkja við ef þið eruð á ferðinni......

fimmtudagur, desember 03, 2009

Katrín Tara 5 ára afmælisprinsessa


Hún er ljóshærð með blá augu, mjög fjörug og skemmtileg, ákveðin og veit svo sannarlega hvað hún vill en brosið hennar.......blikið í augunum......ískrið í henni þegar henni þóknast að koma og knúsa ömmu sína, bara yndisleg......

Hún Katrín Tara, ein af ömmustelpunum mínum og vinkona mín, algerlega ómótstæðileg lítil (stór) dama er fimm ára í dag og svo verður hún að eigin sögn bráðum sex ára og byrjar þá í skóla. Hún er svo dugleg stelpa og gengur mjög vel í leikskólanum sínum. Hún æfir fimleika og vill alltaf sýna okkur afa sínum hvað hún getur og það er sko ekki lítið. Katrín Tara er mjög góð í að teikna og lita og er alltaf að gleðja okkur með fallegum teikningum.

Ég og hún eigum okkar spes kveðju. Þegar hún var yngri þá vildi hún aldrei kyssa bless og þar sem ég er algerlega á móti því að þvinga börn til að kyssa fullorðna þá fundum við upp okkar eigin kveðju og höfum haldið því við. Þegar þau fjölskyldan eru að fara frá okkur eða við frá þeim þá labbar hún í burtu, snýr sér svo við og ég sendi henni fingurkoss sem hún svo grípur og skellir á kinnina á sér og svo fæ ég einn tilbaka. Þvílíka krúttið.

Elsku Katrín Tara mín, innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu spori. Þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar eins og systkini þín og litlu frænkurnar þínar. Ég elska þig meira en orð fá lýst og það eru mín forréttindi að fá að vera amma þín