fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Íris afmælisbarn, 28 ára í dag


Húsið var gamalt, veggirnir gulir og vinalegir og starfsfólkið alveg hreint framúrskarandi. Ég var búin að vera með verki sem gerðu ekkert annað en versna í 21 tíma og ég hélt að ég myndi örugglega deyja áður en ég fengi að sjá fyrsta og að mínu mati þá örugglega eina barnið mitt. Nóttin var erfið en svo kom að því….kl 8:35, 31. ágúst 1978, fæddist þessi yndislega stúlka sem alla tíð síðan hefur verið yndi okkar foreldra hennar og hvarvetna verið okkur til sóma. Já ég lifði þetta af og síðan fleiri slíka atburði sem betur fer. Ég man hvað við vorum stolt af henni, kornungir foreldrarnir, og ég gat varla beðið eftir að sýna fólki hana og þegar nýbökuð amman, mamma mín, kom að sjá hana fyrir hádegi sama dag sagði ég við hana; mamma hefurðu nokkurn tímann séð fallegra barn?
Það var eins gott að ég var með eyru því annars hefði höfuðið á mér klofnað í tvennt svo breitt var brosið.

Hún er hörku dugleg, gift og tveggja dætra móðir og stundar nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Íris mín, til hamingju með afmælið þitt, ég bið Guð að blessa þig og fjölskyldu þína ríkulega í leik og starfi. Ég elska þig og er mjög stolt af þér

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Við erum komin heim.....


Þá erum við hjónin komin heim frá heitu löndunum, brún og sæt. Við vorum mjög heppin með veður í fríinu okkar þarna suðurfrá, sólin skein glatt og stundum var heitara en við hefðu kosið. Það er gaman að vera í sumarfríi, ferðast og skoða sig um og frábært að vera á ströndinni, stinga tánum í heitan sandinn og láta sólina baka sig og smá saman fær húðin þennan fallega gullna lit. Samt er alltaf best að koma heim aftur. Að sjá landið fagra fyrir neðan vænginn á flugvélinni er stórkostlegt. Það jafnast ekkert á við Ísland. Við lentum í Keflavík rétt eftir hádegi og því var bjart og landið sást vel. Um mig fer alltaf einhver sérstök tilfinning þegar ég sé landið mitt birtast. Þjóðernisstolt kallast það sennilega.

Auðvitað mætti vera aðeins heitara loftslag hér og það mætti alveg rigna aðeins minna en samt vildi ég ekki skipta á þessu og þurru og heitu loftslaginu í suðurhöfum þar sem þarf að kaupa allt vatn sem maður vill drekka og moskító stingur mann og sýgur úr manni blóðið. Það jafnast fátt á við að keyra um íslenska fjallavegi, sjá læk, ná sér í ílát til að drekka vatnið úr eða einfaldlega leggjast á hnén og fylla lófann af vatni og drekka. Ummmmm. Hvergi annars staðar vildi ég búa en ég er alltaf til í að ferðast til annarra landa.

Við fórum á Föðurlandið okkar á Fitinni síðustu helgi og gistum í krúttlega og notalega kofanum okkar sem við höfum byggt okkur þar. Meiriháttar og ég er alsæl með þetta athvarf sem er orðið þarna. Gaman að geta skroppið þangað úr ys og þys hins daglega lífs og notið lífsins í kyrrðinni þar. Við höfum ákveðið að hafa ekki sjónvarp þar bara góðar græjur til að geta notið þess að hlusta á góða tónlist.

Ég er að lesa mjög athyglisverða bók þessa dagana, ”Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn”. Sannsöguleg bók sem fjallar um virtan lögfræðing sem fær hjartaáfall og í kjölfarið ákveður að breyta algerlega um lífsstíl og leitar til vitringanna í Sivena sem búa hátt í Himalaya fjöllunum í Indlandi. Þeir kenna honum hvernig á að njóta lífsins á heilbrigðan hátt og aðferðin þeirra er meira en fimm þúsund ára gömul. Þetta eru sjö venjur sem þarf að tileinka sér og þegar ég er búin með bókina skal ég segja ykkur nánar frá þeim. Ég ætla allavega að lesa þetta og tileinka mér það sem er gott.

Það eru frábærar fréttir af Daníu Rut, ég tek mér það bessaleyfi að grípa niður í skrifin frá síðunni hennar Örnu

”En ég er með góðar fréttir í sambandi við Daníu Rut elsta gullið mitt. Við Davíð fórum um daginn og hittum Stefán Hreiðarsson, forstöðumann greiningar og ráðgjafastöð ríkisins. Og hann hafði góðar fréttir að færa. Það sem er að hjá henni Daníu Rut er að stundum gerist það að genin raða sér þannig upp að einn þroskaþáttur er seinni en hitt. Og það hefur gerst hjá Daníu Rut. Málþroskinn kemur en hann kemur bara hægar og seinna en hjá öðrum krökkum. Yndislegar fréttir, Guð er góður. ”

Njótið lífsins vinir, þangað til næst........

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Hún á afmæli í dag...


Það leið ekki nema mánuður frá því ég fékk ömmutitilinn í fyrsta skipti þangað til ég fékk aðra ömmustelpu. Hún Petra Rut á nefnilega afmæli í dag, er orðin fjögurra ára. Ég spurði hana um daginn hvað hún væri gömul og hún sagðist vera þriggja ára og sýndi mér þrjá fingur en bætti strax við að hún væri alveg að verða fjögurra ára, sýndi mér fjóra fingur og sagðist svo bráðum verða fimm og þá komu auðvitað fimm fingur á loft og svo sagðist hún verða svona gömul og sýndi sex fingur og þá færi hún í skóla. Hún var sko alveg með þetta á hreinu litla daman.

Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa, skýr og veit alveg hvað hún vill. Hún er löngu búin að segja mér hvað henni langar að fá í afmælisgjöf frá okkur afa sínum en það er rauður íþróttagalli með hvítum stórum stöfum. Ef að líkum lætur þá fær hún þá ósk sína uppfyllta.

Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með fjórða afmælisdaginn þinn, ég elska þig stóra yndigullið mitt og ég bið Guð að vaka yfir hverju þínu skrefi og blessa framtíð þína.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Náttúran skartaði sínu fegursta....


........þegar við Erling héldum heim á leið í gærkvöldi. Himininn glitraði bókstaflega þegar síðustu sólargeislar dagsins dönsuðu um himinhvolfið á leið sinni niður fyrir sjóndeildarhringinn.

Við vorum að koma frá Fitinni eftir að hafa eytt deginum með því dýrmætasta sem við eigum, stelpunum okkar, stelpunum þeirra og mönnunum þeirra. Við vorum í kofanum okkar sem hann Erling er búinn að vera að keppast við að gera tilbúinn fyrir þessa verslunarmannahelgi. Arna gisti þar með litlu dömurnar sínar og þegar ég hringdi í hana fyrsta kvöldið og spurðu hvernig færi um þær þá hafði hún .þetta um kofann að segja; mamma, þetta er ólýsanlegt æði. Ég tek alveg undir með henni og við erum búin að eiga skemmtilegar stundir saman á Föðurlandinu okkar.

Þetta er búin að vera svolítið öðruvísi verslunarmannahelgi en áður, því við Erling höfum verið í tjaldútilegu um verslunarmannahelgi eins lengi og ég man.
Núna höfum keyrt heim á kvöldin í Húsið við ána enda er þetta svo stutt og fljótfarin leið. Það er svo notalegt að sofa þar og vakna svo undir hádegi við árniðinn og heyra í Erling á neðri hæðinni, vitandi að hann er búinn að hella uppá kaffi og bíður eftir mér. Fara svo aftur austur eftir hádegi í sveitasæluna þar.

Annars er ég komin í sumarfrí og finnst það auðvitað alveg frábært. Tilhugsunin að eiga næstu þrjár vikur í fríi og hafa Erling minn alveg útaf fyrir mig er meiri háttar. Við ætlum að skella okkur á suðrænar slóðir, labba berfætt á ströndinni í tunglskini, sitja úti á svölum á kvöldin með kertaljós og fylgjast með mannlífinu. Ferðast um og skoða land og þjóð. Með okkur í för verða vinir okkar Heiðar og Sigrún og við gistum í höllinni sem þau eiga þarna suðurfrá. Svo eru bræður Erlings, Hansi og Hlynur þarna með sínar fjölskyldur en það vissum við reyndar ekki þegar við pöntuðum okkar ferð, en bara gaman að því.

Ég hlakka svo til og er Guði svo þakklát fyrir einmitt lífið sjálft……..