sunnudagur, október 31, 2010

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.....

"Erla mín, þetta er Binna", sagði röddin í símanum við mig í gærmorgun. "Hæ" svaraði ég, "hvað segirðu" vitandi að ég myndi hitta hana og fleiri skólasystur mínar um kvöldið í fimmtugsafmæli einnar af okkur. "Kibba var að hringja í mig og ungi maðurinn sem dó í Noregi er náfrændi hennar og ég tók að mér að láta ykkur vita að það verður auðvitað ekkert afmæli í kvöld".
Við spjölluðum smástund og eftir að hafa kvatt hana og lagt á þá var ég þungt hugsi. Hugur minn var allur hjá Kibbu og fólkinu hennar og ég veit að þau eru samheldin og Kibba nýbúin að vera í Noregi í heimsókn hjá þeim. Það er svo stutt á milli gleði og sorgar og við erum ekki viðbúin því að eitthvað hendi okkur eða okkar fólk. Og hugsanir mínar héldu áfram. Hvernig kem ég fram við fólk, hvernig met ég það sem ég á, nýti ég tímann til að njóta þess að eiga vini og fjölskyldu og þannig get ég haldið áfram.

Í dag erum við Íslendingar að ganga í gegnum erfiða tíma, erfiðleika sem okkur datt ekki í hug fyrir örfáum árum að myndi yfir okkur ganga. Erfiðleika sem fæst okkar hafa til unnið heldur erum við að gjalda fyrir gerðir örfárra manna sem með græðgi og yfirgangi hafa sett íslenskt efnahagskerfi á hliðina. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum erfiðleikum því þeir eru vissulega miklir. Ég veit þó að núna sem aldrei fyrr er það nauðsynlegt fyrir okkur að horfa á allt það jákvæða sem við eigum í mannauð okkar Íslendinga því við erum hörkudugleg þjóð og eigum eftir að sigla uppúr þessum erfiðleikum og standa betur að vígi en áður. En við verðum að standa saman, efla fjölskyldugildin, efla vináttuna og samstöðuna og vera jákvæð.
Á þessum tímum er það okkur líka nauðsyn að fara í naflaskoðun og skoða hvað er dýrmætast og þess virði að halda áfram.

Í gær tók ég ákvörðun.
Ég vil keppa að því að njóta hversdagsins, njóta litlu óvæntu stundanna, njóta stóru skipulögðu stundanna og bara að njóta þeirra forréttinda sem mér voru gefin í fjórum frábærum dætrum, þremur yndislegum tengdasonum og ömmugullunum mínum sjö og þessi tvö sem enn eru bumbubúar. Að ég tali ekki um manninn minn sem er besti vinur minn og sálufélagi. Svo á ég yndislega foreldra sem vilja allt fyrir mig og mitt fólk gera, ég elska þau.

Ég ætla að vera duglegri að segja fólkinu mínu hvað ég elska þau, segja stelpunum mínum hvað ég er stolt af þeim og því sem þær eru að fást við hverju sinni. Ég ætla að vera meira til staðar, leiðbeina og hvetja áfram því ég er svo þakklát fyrir að eiga fjölskyldu. Ég er þakklát fyrir óhreint leirtau í vaskinum og óhrein föt í þvottakörfunni því það merkir að það er líf á heimilinu.
Ég nýt þess að eiga litla Kofann okkar í sveitinni og þar er allt sem þarf þótt fermetrarnir séu ekki margir enda fátt notalegra eða rómatískara en logarnir sem loga í kamínunni.

Ég ætla að nota flottu bollana mína hvenær sem ég vil, ég á ekki neitt spari ilmvatn því ég vil bara nota það besta alltaf. Ég ætla vera duglegri að heimsækja fólkið mitt og vini, droppa inn smástund án þess að gera boð á undan mér svo varið ykkur bara þið sem lesið. Heimsóknir hafa alltof mikið dottið niður því við erum jú "öll svo upptekin". Í stuttu máli sagt, ekki geyma eitthvað þangað til betra tækifæri gefst því ég get ekki verið viss um að það komi.
Ég hef einsett mér að njóta hverrar einustu mínútu í lífinu því lífið sjálft er stórkostleg gjöf sem okkur er gefin TIL AÐ NJÓTA.

þriðjudagur, október 26, 2010

Hann á afmæli hann Erling

Ég sá hann fyrst fyrir 34 árum, renglulegan strák með sítt og krullað hár. Ég spurðist fyrir um það hver hann væri og var sagt að þetta væri hann Erling úr Kotinu. Það var eitthvað sérstakt við hann og mig langaði að kynnast honum betur. Síðan þá höfum við gengið saman gegnum lífið, hann er besti vinur minn og sálufélagi og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á allt sem mér viðkemur. Það þýðir heldur ekkert að segja honum annað en satt þegar hann spyr um líðan mína og hann er óþreytandi að gleðja mig á allan mögulega hátt.
Afkomendahópurinn stækkar stöðugt, dæturnar eru fjórar, tengdasynirnir þrír, barnabörnin eru sjö og tvö á leiðinni. Það er því óhætt að segja að hann sé umvafinn aðdáendum því dætur okkar og barnabörn elska hann enda hefur hann reynst þeim sá sterki og stöðugi klettur sem börn þurfa að eiga að. Krakkarnir okkar eru og verða alltaf börnin okkar þótt þau séu orðin fullorðin og ekki leiðist honum að dekra barnabörnin sem spyrja alltaf fyrst um hann þegar þau mæta á svæðið:o)

Erling á tvö stór áhugamál sem hann sinnir mjög vel. Annars vegar er það veiðidellan enda skylda hvers manns að draga björg í bú, ekki satt......og svo er það mótorhjóladellan og ekki hægt að segja að frúnni leiðist mikið að vera hnakkaskraut aftan á hjá honum.

Í dag fagnar flotti maðurinn minn afmælinu sínu í 51. sinn. Síða krullaða hárið hefur að vísu löngu sagt skilið við hann og vangarnir eru orðnir eilítið silfraðir, barnabörnin okkar halda því reyndar fram að afi þeirra sé ekki með hár :o) en þessi sjarmör nær ennþá að heilla ömmu þeirra algerlega upp úr skónum. Ég er ákaflega stolt af honum, elska hann meira en hægt er að lýsa í fáum orðum og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.....

sunnudagur, október 17, 2010

Þórey Erla 5 ára afmælisskvísa


Þar sem ég er sjö barna amma þá er ekki skrýtið að það séu oft amælisskrif á síðunni minni. Það er mér samt alltaf mikil og sönn ánægja að segja ykkur frá afmælum þessara yndigulla sem skreyta lífið okkar Erlings meira en hægt er að segja í fáum orðum.
Í dag fagnar hún Þórey Erla fimm ára afmælinu sínu og hún er sko búin að bíða eftir því, vildi auðvitað helst drífa sig í að verða sex ára og byrja í skóla eins og eldri systur hennar. Svo vill hún líka flýta sér að verða nógu gömul til að geta farið í flugvél með systrum sínum að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Þórey Erla er mjög geðgóð en veit samt alveg hvað hún vill og svo hefur hún ekkert fyrir því að vefja okkur afa sínum um fingur sér. Brosið hennar og stóru augun þegar hún kemur og smellir á mann kossi er algerlega ómótstæðilegt. Við erum góðar vinkonur og það er gaman þegar hún hringir og spyr hvort þau megi koma í heimsókn hingað á Selfoss. Hún er reyndar meiri afastelpa en ömmustelpa og ef hún hittir mig eina þá spyr hún alltaf um afa sinn áður en hún heilsar þetta litla yndigull. Hún er alger Guðs gjöf inní líf okkar.

Elsku Þórey Erla okkar, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, veit að þú verður dekruð í dag og við hlökkum til að koma í veisluna þína. Við elskum þig marga marga hringi, allan hringinn....

þriðjudagur, október 05, 2010

Erla Rakel afmælisprinsessa

Það var einmitt um þetta leyti fyrir tveimur árum að við amman og afinn sátum spennt í límsófanum okkar og biðum frétta úr Reykjavík. Eygló og Bjössi voru búin að eyða nóttinni á Fæðingardeildinni því von var á fyrsta barninu þeirra. Mikið vorum við nú ánægð loksins þegar nýbakaðir foreldrarnir hringdu og tilkynntu okkur fæðingu fullkominnar dóttur. Það var svo afar stolt amma sem fékk að vita að litla yndigullið hafði fengið nafnið hennar að viðbættu öðru fallegu nafni og heitir Erla Rakel. Litla daman hefur vaxið og dafnað vel og er mikill sólargeisli og Guðs gjöf í lífi okkar allra. Hún er nýbyrjuð í leikskóla og orðaforðinn hefur aukist ekkert smá og það er svo gaman að þessu litla skotti. Ég kom til þeirra fyrir nokkrum dögum og vissi að það var búið að breyta herberginu hennar og þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði ekki að sýna mér nýja herbergið sitt þá hljóp hún af stað og skransaði svo í dyrunum þannig að hún rétt náði beygjunni til að fara inn og sýndi mér herbergið afar stolt enda flott herbergi.
Elsku Erla Rakel, við afi þinn óskum þér innilega til hamingju með tveggja ára afmælið þitt og hlökkum mikið til að koma í veisluna þína. Láttu nú dekra þig í allan dag. Við elskum þig marga hringi.