mánudagur, júní 22, 2009

Hann á afmæli í dag...hann lengi lifi....


Eins og lesendur mínir vita þá er ég svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og í minni eigin nánustu fjölskyldu þá er ég ættmóðir margra og því eru oft afmælisskrif á síðunni minni og það er einmitt í dag.

Annar tengdasonur minn, hann Bjössi hennar Eyglóar á afmæli í dag er orðinn 35 ára kappinn. Bjössi er mjög duglegur strákur og í síðustu viku útskrifaðist hann sem vélfræðingur en hafði áður lokið vélstjóraprófi. Hann er nýbúinn að skipta um vinnu og starfar nú á nýju verkstæði Strætó bs og líkar það bara vel. Hann hefur gaman af veiðiskap og okkur Erling til mikillar ánægju þá eru þeir tengdasynir okkar, hann og Karlott hennar Írisar, góðir félagar og fara oft saman á kvöldin og baða maðka. Eygló og Bjössi eru mjög samhent og auðséð að hann gerir Eygló hamingjusama og það er gaman að fylgjast með þeim og litlu prinsessunni þeirra henni Erlu Rakel.

Elsku Bjössi, við Erling sendum þér innilegar hamingjuóskir héðan frá Stövring og við biðjum Guð að blessa þig ríkulega í leik og starfi.

mánudagur, júní 15, 2009

Sumarfrí

Það var ekki leiðinlegt að slökkva á tölvunni í vinnunni núna fyrir helgi, búin að vinna allan vsk pakkann og ganga frá öllum launum og öðru smálegu sem gera þurfti. Ég kvaddi samstarfsfólkið með orðunum, sjáumst eftir tvær vikur, njótið lífsins og saknið mín mikið.
Létt í lund settist ég undir stýri og ók heim á leið yfir fjöllin tvö eins og hún Petra Rut mín segir stundum.
Það er eitthvað svo sérlega notalegt að vera í fríi og ég fann það sérstaklega í dag. Það er mánudagur en samt gat ég sofið út, kom niður og þar var Erling að lesa blöðin og var eitthvað svo sérstaklega notalegur að sjá. Við fengum okkur morgunmat saman, síðan litaði hann á mér hárið og við tók svo ýmislegt stúss sem tilheyrir því að fara í sumarfrí. Dagurinn hefur því verið góður og áðan kvöddum við Örnu og litlu stóru gullin hennar en þær kíktu á okkur því þegar við komum heim aftur verða dömurnar farnar burtu með pabba sínum í þrjár vikur.
Eftir hádegi á morgun munum við hjónin sitja á Ráðhústorginu og fylgjast með mannlífinu og svo rölta niður að Nýhöfn og bara njóta þess að vera til.
Á 17. júní fljúgum við svo norður á bóginn til Óla bróður og hans fjölskyldu og ætlum að eyða með þeim nokkrum dögum og ég hlakka mikið til. Köben hefur alveg sérstakan sjarma í okkar augum, eitthvað svo heimilisleg borg.
Njótið lífins vinir mínir, ég skelli inn myndum þegar við komum heim aftur...þangað til næst...

miðvikudagur, júní 03, 2009

Erling Elí afmælisprins...


Fyrir tveimur árum þegar Íris hringdi í mig og bað mig að sækja stelpurnar og gæta þeirra var líka svona fallegt veður úti. Ég brenndi í bæinn því allt benti til þess að prinsinn ætlaði að mæta á svæðið.
Það var svo rétt fyrir kvöldmat að símtalið kom sem við vorum búin að bíða eftir allan daginn, ljóshærður glókollur var kominn í heiminn og fékk nafn Erlings afa síns ásamt öðru fallegu nafni.
Í dag er Ering Elí orðinn tveggja ára gamall. Hann er flottur og duglegur strákur sem bræðir alla sem eru kringum hann og það er svo gaman að því að hann er mjög hændur Erling afa sínum, notar hvert tækifæri til að smeygja sér í fangið á honum eða stinga litlu hendinni sinni í lófann hans.
Erling Elí nýtur þess að hafa allar þessar stelpur í kringum sig því hann er enn sem komið er eini stákurinn í barnaskaranum okkar Erlings. Stóru systur hans er u þolinmóðar við hann og leyfa honum oftast að vera með sér. Hann er alger prakkari og grallaraspói.
Elsku Erling Elí minn, ég óska þér til hamingju með daginn þinn, þú ert alger Guðs blessun í líf okkar og ég er Guði þakklát fyrir þig. Hlakka til að koma í veisluna þína í dag og láttu nú alla dekra við þig sem aldrei fyrr. Ég elska þig milljón hringi og aðeins fleiri líka litla gullið mitt.