mánudagur, maí 28, 2007

Sannkallað ríkidæmi

Við Erling og stelpurnar með sitt fólk fórum saman á Föðurlandið okkar í gær og áttum skemmtilegan dag sem er kominn í minningabankann okkar.
Strákarnir settu saman borð og stóla sem við vorum búin að kaupa og nutu við það dyggrar aðstoðar lítilla fingra og Erling hafði með sér sérstaka aðstoðarsveit þegar hann gekk um og bar áburð á tré og gras. Einnig settum við niður nokkrar kartöflur svona rétt til að eiga til að taka upp í soðið seinna í sumar.

Að eiga svona athvarf í sveitinni utan skarkala höfuðborgarinnar er meiriháttar notalegt og gaman var að fylgjast með yngstu kynslóðinni leika sér og njóta víðáttunnar í umhverfinu.

Klukkan var langt gengin í tólf á miðnætti þegar við Erling tímdum að fara af stað heim á leið. Himinn skartaði sínu fegursta, bleikrauðum skýjum þegar síðustu geislar sólarinnar voru að hverfa. Við hefðum ekki farið heim nema vegna þess að Erling var búinn að lofa strákunum sem vinna hjá okkur að fara með þá í ferðalag í dag og sýna þeim fallega landið okkar en þeir eru allir Pólverjar. Þeir koma svo seinna í dag hingað í “Húsið við ána” og við ætlum að grilla með þeim.

Læt fylgja hér með nokkrar myndir frá gærdeginum og þær skýra sig sjálfar.









sunnudagur, maí 27, 2007

Komin heim

Ég er alltaf þakklát þegar hjól flugvélarinnar snerta flugvöllinn. Það átti að venju líka við þegar við lentum í Keflavík á fimmtudagskvöldið var. Það var búið að vera þó nokkur ókyrrð í aðfluginu og þótt flugstjórinn hafi skellt vélinni mjög harkalega á völlinn þá var gott að vera komin niður.
Ísland tók á móti okkur með 3ja stiga hita og frekar kalsalegt veður en ég verð samt að segja það að ég vildi ekki fyrir nokkurn mun skipta á landinu mínu fagra og öðru landi með betra veðurfari.

Dagarnir í Kaupmannahöfn voru góðir og skemmtilegir og veðurguðirnir léku svo sannarlega við okkur. Við eyddum heilu kvöldi í Tívolí, vorum komin þangað um sjöleytið og vorum til klukkan ellefu þegar þeir lokuðu. Stelpurnar fóru í tækin og sum (stóra rússibanann) allavega fjórum sinnum. Hrund náði takmarki sínu og fékk Örnu með sér í fallturninn en bara einu sinni samt. Arna sagði eftir á að hún tryði því varla að hún hefði farið þarna upp. Hrund fór svo einu sinn ein í hann og fékk svo pabba sinn með sér einu sinni. Þau feðgin enduðu svo skemmtilega Tívolíferð með að fara í 100 metra háa hringekju og saman sveifluðust þau í rólu hátt yfir höfðum okkar Örnu og þau nutu útsýnisins yfir borgina sem var böðuð ljósum næturinnar.

Arna bjó til bangsa handa stelpunum sínum
Mæðgurnar komnar í Fields
Komin í Tívolí
Rólan háa (kallað himnaskipið)
Arna og Hrund í fallturninum, sjáið svipinn á þeim

Systurnar fóru í tvö söfn og við Erling nutum þess á meðan að sitja á Ráðhústorginu og horfa á alla kynlegu kvistina sem skreyta lífsins trén. Við skoðuðum líka Marmarakirkjuna frægu og fallegu, lífverði drottingarinnar og margt margt fleira.



Þessar tvær að ofan eru teknar á Ráðhústorginu

Á Kastrupflugvelli á heimleið

Þetta var í alla staði eins vel heppnuð ferð og hægt var að hugsa sér og það voru fótalúnir en ánægðir ferðalangar sem hittu pabba minn í Leifstöð og ókum heim til okkar í frosti yfir heiðina :o)

Í dag, hvítasunnudag, ætlum við öll að hittast á Föðurlandi voru í Fljótshlíð og grilla saman. Klukkan flotta sem kom með okkur frá antikbúðinni á Jótlandi er komin upp á vegg hér í Húsinu við ána og klukka sem var þar fyrir fer á Föðurlandið. Það er fallegri hljómur í “nýrri” klukkunni og því ákváðum við að hafa hana hér heima þar sem við njótum hennar oftar.
Litli prinsinn lætur okkur enn bíða eftir sér en Íris mín er orðin nokkuð þreytt og því væri gott að hann færi að láta sjá sig. Fyrir stuttu var einhver að spyrja Petru Rut hvort hann færi ekki að koma en þá sagði hún, “það verða bara allir að bíða eins og við”.

Á þriðjudag tekur við mikil vinnutörn hjá mér þar sem vsk dagur er
5. júní og þá þarf ég að vera klár með allt fyrir mína viðskiptavini. Ég hins vegar kvíði því alls ekki, vinnufélagar mínir eru frábærir og ég hlakka til að hitta þau öll.

Njótið dagsins vinir mínir.....þangað til næst

sunnudagur, maí 20, 2007

Strandardagur

Það er rólegt núna hér í stofunni við Hulvejen 77. Krakkarnir eru farnir að sofa, Hrund og Arna eru inni að pakka saman og við hin fjögur fræknu sitjum bara í rólegheitunum, ég pikka á tölvuna, Anette er að lesa blöð og strákarnir eru að ræða viðskipti eins og fyrri daginn. Þetta hefur verið góður og afslappaður tími og það er eins og tíminn hafi aðeins hægt á sér.

Í dag var stefnan tekin á ströndina, ekki var þó ætlunin að baða sig heldur skoða hana og bara njóta lífsins í þessu líka yndislega veðri sem var í dag.
Það var notalegt að ganga eftir ströndinni og finna goluna leika um sig og það voru meira að segja tveir unglingar sem voru nógu kjarkaðir til að synda í sjónum.


Eins og fyrri daginn þá hafði Anette útbúið okkur með nesti og við settumst í sandhólana, með útsýni yfir hafið og fengum okkur kaffi, köku og prins póló.

Eftir langa stund löbbuðum við af stað og ætluðum að labba uppí strandbæinn sem er fyrir ofan ströndina. Þá gengum við fram á ung hjón sem héldu sennilega að þau væru á jeppa því þau voru komin útfyrir akstursslóðina á ströndinni og búin að pikkfesta sig.
Erling og Óli bróðir, íslensku víkingarnir, tóku til sinna ráða. Bíllinn var tjakkaður upp, steinar og teppi sett undir framdekkin og þegar Óli var búinn að sannfæra unga manninn um að það væri best að Erling settist undir stýri þá ýttum við hin bílnum upp.

Við röltum svo um bæinn, skoðuðum brjóstsykurverksmiðju og fengum okkur svo ís enda tilheyrir það í góða veðrinu.

Á heimleiðinni var komið við á Stenum og foreldrar Anette heimsóttir og dagurinn var svo fullkomnaður með því að kveikja bál á eldstæðinu hér í garðinum hjá Óla.

Á morgun verður svo ekið suður á bóginn á vit ævintýranna í Kaupmannahöfn. Þar sem við verðum ekki nettengd þar þá bíður seinni partur ferðasögunnar betri tíma.

Þegar við komum svo heim til Íslands mun sjötta barnabarn okkar Erlings koma í heiminn og mikið hlakka ég til að sjá það. Vona að þið vinir mínir hafið það eins gott og við.
Þangað til næst.......

laugardagur, maí 19, 2007

Þýtur í laufi, bálið brennur

Snarkandi bál

Sjaldan hef ég upplifað þetta á eins áhrifaríkan hátt og í dag. Við vorum í skóginum, þyturinn í laufinu var meiriháttar notalegur og bálið snarkaði þar sem við sátum hringinn í kringum það.
Við frestuðum för á ströndina þar sem það var svo hvasst þar en fórum í Tröllaskóginn og við rákumst þar á tvö tröll sem voru vakandi og við sáum líka mörg tröll sem voru að hvíla sig.
Þessi tvö "tröll" voru vakandi :o)
Þessi steinsváfu sem betur fer :o)
Flottar systur að njóta sín
Eftir að hafa gengið um skóginn þá ókum við að þessu líka frábæra eldstæði og Anette var búin að útbúa okkur með nesti, hafði bakað köku áður en við fórum af stað og svo var hún líka búin að gera brauðdeig sem við svo vöfðum utanum um spýtu og bökuðum yfir eldinum og borðuðum síðan. Krakkarnir og Anette grilluðu sér marsmallows en gamlingjarnir ég, Erling og Óli vorum ekki eins hrifin af því. Meira að segja fannst mér þetta ekki gott þótt ég elski sykurbragðið. En þetta var mjög skemmtilegt og við Erling erum búin að ákveða að koma okkur upp eldstæði bæði heima í Miðtúni og á Föðurlandi.

Frábær stemming þarna við bálið

Dagurinn er sem sagt búinn að vera mjög skemmtilegur og svona til að svala forvitni ykkar þá virkaði flotta klukkan og hún kemur með okkur heim til Íslands, held meira að segja að Erling ætli bara að halda á henni í handfarangri svo hún skemmist ekki.

Á morgun förum við í skoðunarferð á ströndina en í kvöld ætlum við að hafa það huggulegt
hér á fallega heimilinu þeirra Óla og Anette.
Kveðja heim á fallega landið mitt, þangað til næst.........

föstudagur, maí 18, 2007

Skemmtilegir dagar




Í Leifsstöð

Hæ öll sömul.
Mig langaði bara að kasta aðeins á ykkur kveðju héðan frá heimili Óla og fjölskyldu hér í Danaveldi. Ferðin hingað gekk mjög vel og ekki var það að sjá á ferðafélögum okkar Erlings að þeim leiddist neitt. Við lentum á Kastrup í gær í mikilli rigningu sem varð til þess að við breyttum aðeins áætlun, tókum sem sagt bílaleigubílinn á flugvellinum og fengum miklu flottari bíl en við vorum búin að panta og það fyrir sama verð.

Þegar við vorum komin yfir á Sjáland fór nú að stytta upp og á Jótlandi var hætt að rigna. Það skríkti í stelpunum yfir öllu sem á vegi okkar varð og það var reglulega gaman að hjá okkur í þessari flottu Volvobifreið sem við vorum á.

Við erum hér í góðu yfirlæti hjá Óla, Anette og krökkunum. Auðvitað var farið í verslunarleiðangur í mollið í dag og skemmtu þær systur sér alveg konunglega. Svo fórum við auðvitað í Antik búðina “okkar” hér rétt utan við Stövring en ég held að við kíkjum alltaf þangað þegar við erum hér. Enda sagði konan við mig, mér finnst ég kannast við þig :o) Við erum að leita að gamalli antikklukku líkt og þessari sem prýðir stofuna í “Húsinu við ána”. Það voru til tvær klukkur þarna, önnur þó fallegri en hin enda eftir frægan klukkusmið. Þar sem hún var nýkomin þá vissi konan ekki alveg hvort hún væri í lagi og það á sem sagt að athuga það í kvöld og klukkan tíu í fyrramálið verðum við þarna og könnum ástandið á klukkunni og ef okkur líst vel á þá komum við heim með aðra klukku sem fer þá í sumarbústaðinn okkar, Föðurland. Gaman að því.

Notalegheit í stofunni

Á morgun ætlum við líka að keyra yfir á ströndina og skoða danskar sveitir í fylgd gestgafa okkar og hver veit nema við förum líka í Tröllaskóginn og athugum hvort tröllin séu heima.

Í dag var 17 stiga hiti hér norður á Jótlandi og gaman að taka svona forskot á sumarið.
Ég held að veðurspáin sé góð, á mánudag þá keyrum við til Kaupmannahafnar og verðum þar fram á fimmtudag. Þar á að bralla margt skemmtilegt saman, skoða söfn, fara í Tívolíið og bara setjast niður á bekki og skoða mannlífið.

Lífið leikur við okkur og ég vona svo sannarlega að þið lesendur mínir eigið góða daga líka. Þangað til næst........

fimmtudagur, maí 03, 2007

Töffari


Þeir voru flottir vinirnir sem stöðvuðu vélfáka sína hér fyrir utan “Húsið við ána” sl sunnudag. Þar voru á ferð Kiddi bróðir minn, Kalli frændi minn og svo hann Ámundi vinur þeirra. Bílar sem óku framhjá hægðu mjög á sér eða hreinlega stöðvuðu bíla sína til að sjá þá betur.

Erling hefur lengi langað að fá sér mótorhjól og eftir þessa heimsókn var ekki aftur snúið. Honum versnað mótorhjólaveikin fram eftir degi og um kvöldið var hann orðinn mjög lasinn og hann vildi ekki einu sinni batna. Á mánudagsmorgni hófst svo leitin að bifhjólakennara hér á Selfossi og í stuttu máli sagt þá byrjar hann að læra á hjólið eftir rúmlega viku. Kennarinn er nefnilega erlendis og getur ekki byrjað fyrr.

Ég hlakka til að fara að krúsa með honum um landið, fara í sveitina og jafnvel til höfuðborgarinnar. Ég sé okkur alveg fyrir mér á fallegum sunnudegi, klæða okkur í gallana, setja hjálmana á höfuðin og þeysa af stað. Það verður samt að bera þá virðingu fyrir svona gripum að aka á löglegum hraða og vera ekki með neina stæla og ég veit alveg að Erling gerir það. Annars myndi ég ekki hvetja hann til að gera þetta.

Núna er degi farið að halla hér á herragarðinum. Ég sit ein inni á skrifstofu, Hrund er frammi í eldhúsi að undirbúa sig fyrir fyrsta prófið sem verður á morgun og Erling er enn í höfuðborginni, hann er að vinna fyrir Hildi systur sína og Jóa.

Útum gluggann á skrifstofunni blasir við vinkona mín og nágranni, Ölfusáin, og það er reglulega friðsælt að líta út og fylgjast með henni. Ég sé líka yfir á hólmann, sé álftaparið sem við fylgjumst með en kerla liggur sem fastast á hreiðrinu sínu og karlinn vakir yfir henni eins og sannur herramaður. Þau heita Nína og Geiri og við erum búin að setja byggingakíki útí glugga til að sjá þau betur. Alveg magnað. Þarna er líka gæsaparið Litla Gunna og Litli Jón og við fylgjumst líka með þeim

Fyrir löngu síðan, á erfiðum tíma í lífi mínu gaf Drottinn okkur Erling fyrirheiti, orð sem við myndum eiga eftir að upplifa, og ég sé í dag hvernig það hefur ræst fullkomlega í lífi okkar.

“Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, _ á enda.
Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru.” Ljóðaljóðin 2:11-12

Ég þarf ekki nema líta út um gluggann og sjá allan gróðurinn í kringum mig og á næturnar vakna ég stundum við fuglasönginn sem berst yfir ána úr hólmanum og inn um gluggann okkar. Er hægt að biðja um meira?

Njótið lífsins vinir mínir og verið dugleg að gera allt þetta skemmtilega sem ykkur langar til en finnst þið ekki hafa tíma. Forgangsraðið í rétta röð........Þangað til næst.